Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Gjörspilltur, ósvífinn, grimmur, orðljótur ...

... eða mildur og gefinn fyrir heimspekilegar spurningar? Illugi Jökulsson rekur það sem sagnfræðin segir okkur um Pontíus Pílatus, landstjóra Rómar í Palestínu, sem fyrirskipaði krossfestingu Jesúa frá Nasaret á páskum.

Pontíus og Jesús Sé kenning Illuga rétt, að Pílatus hafi verið skjólstæðingur Sejanusar, þá kemur verulega á óvart að hann fékk að halda bæði lífinu og landstjórninni í Júdeu.

Hann var maður ósveigjanlegur, miskunnarlaus og þrjóskur. Embætti sitt notaði hann til að raka að sér fé og eignum annars fólks, hann var gjörspilltur, ósvífinn, grimmur, orðljótur og einfaldlega vondur maður. Hann var ofsafenginn í skapi og lét taka fólk af lífi án dóms og laga þvers og kruss.

Svo lýsti heimspekingurinn Fíló frá Alexandríu Pontíusi Pílatusi, landstjóra Rómaveldis í Palestínu áratuginn 26–36 að okkar tímatali. Það var svo sem auðvitað að þetta sannkallaða fúlmenni skyldi láta krossfesta sjálfan son guðs, frelsarann sem kominn var til að leysa mannkynið undan syndabyrðinni.

Það gat varla öðruvísi farið, eða hvað?

Ja, það er nú það. Þótt Fíló dragi upp svo dökka mynd af Pílatusi þá er mynd Pílatusar allt önnur í guðspjöllunum fjórum sem þó eru skrifuð af lærisveinum og fylgismönnum Jesúa frá Nasaret sem þeir töldu leiðtoga lífs síns.

Samkvæmt guðspjöllunum var Pílatus allt öðruvísi maður, íhugull og allur hinn mildasti og vildi helst komast hjá því að krossfesta Jesúa. Það voru Gyðingar sjálfir sem beinlínis kröfðust þess.

Hvor mynd Pílatusar er rétt?

Hvor myndin af Pílatusi skyldi vera hin rétta? Hinn hamslausi grimmdarseggur Fílós eða hinn sem spyr svo heimspekilega: „Hvað er sannleikur?“

Því miður er harla fátt vitað um Pílatus nema það sem stendur í guðspjöllunum og svo fáeinir stuttir kaflar um landstjóratíð hans í Palestínu sem annars vegar Fíló og hins vegar sagnaritarinn Jósefus skrifuðu.

Það má þó ganga út frá því sem vísu að hann hafi tilheyrt stétt svonefndra „riddara“ í Rómaveldi en þeir voru eins konar millistig milli aðalsmanna, sem kölluðust patrisíar, og alþýðumanna, sem hétu pleibeiar. Riddarar höfðu upprunalega þann tilgang að gera út rómverska riddaraliðið en þegar hér var komið sögu kringum upphaf tímatals okkar, þá fengust riddarar ekki síst við kaupsýslu alls konar.

Yfirleitt er talið að Pílatus hafi verið Samníti að ætt, en Samnítar bjuggu sunnan við Róm og voru lengi að sætta sig við rómversk yfirráð. Flestir þeirra fáu Pontíusa sem þekktir eru í Rómverjasögu voru Samnítar. Sú kenning er þó líka til að Pílatus hafi verið ættaður frá Etrúríu en Etrúrar bjuggu fyrir norðan Róm þar sem nú heitir Toskana. Þeir voru orðnir mikil menningarþjóð meðan Rómverjar bjuggu enn í hreysum í mýrarflákum á Tíberbökkum.

Sennilegt er að Pílatus hafi fæðst á árunum 17–5 fyrir upphaf tímatals sem við kennum við Krist. Ekkert er vitað um æsku hans og uppruna, né feril hans áður en hann hélt til Palestínu, en ég hef stundum leikið mér að þeirri hugmynd að hann hafi um árið 10 verið í þeim flokki ungra metnaðargjarnra pilta sem þá héldu sig löngum á Rómartorgi – Forum Romanum – og reyndu að vekja á sér athygli og afla sér „tengslanets“ eins og það heitir nútildags.

Í slagtogi með Kládíusi, síðar keisara?

Á rápi um miðborgina gæti Pílatus hafa kynnst ýmsum ungum mönnum sem seinna urðu nafnkunnir: Vítellíusi, síðar legáta í Sýrlandi, Spánverjanum Seneca, síðar heimspekingi, og fleirum. Og þeir gætu sem hægast hafa verið í slagtogi með Kládíusi, bróðursyni Tíberíusar keisara, en Kládíus var eins konar ljóti andarunginn í keisarafjölskyldunni og mun lítt hafa verið innilokaður í keisarahöllinni á æskudögum.

En hver var leið Pílatusar um lífið? Hann var sem sé skipaður landstjóri eða prefekt í hluta Palestínu árið 26 og einmitt það ár dró Tíberíus keisari sig að mestu í hlé út á eyjuna Kaprí og lifði þar síðan í sukki og sora til æviloka. Lífvarðaforingi hans var tengiliður hans við umheiminn og réði í reynd því sem hann vildi ráða í ríkinu næstu árin. Sá hét Sejanus og var af etrúskum riddaraættum, rétt eins og Pílatus var kannski.

„Hann hafði „vald yfir lífi og dauða“ sem þýddi að hann mátti kveða upp dauðadóma eins og honum sýndist.“

Var Pílatus sérlegur skjólstæðingur hins metnaðarfulla og umdeilda Sejanusar? Það kann að vera, en það er að minnsta kosti ómögulegt annað en Sejanus hafi lagt blessun sína yfir skipan hans til Palestínu, sérstaklega í ljósi þess að það gerðist sama ár og lífvarðaforinginn var í raun orðinn allsráðandi í Róm.

Rómverjar réðu allri Palestínu en leyfðu tveim svokölluðum konungum að stýra tveimur hlutum þeirra. Það voru bræðurnir Filippus sem réði héraði á mótum Palestínu og Sýrlands og svo Antípas sem réði Galíleu og Pereu. Pílatus var hins vegar settur yfir Júdeu, Samaríu og Idúmeu.

Strangt tekið töldust íbúar allra héraðanna Gyðingar en íbúar í Júdeu töldu sig þó hina einu sönnu Gyðinga, enda var musterið fræga í höfuðborg þeirra Jerúsalem. Jafnvel Galíleumenn, þar sem Jesúa kom síðar fram, voru taldir svona heldur veikir í hinni sönnu trú á Jave almáttugan.

„Með vald yfir lífi og dauða“

Skyldur Pílatusar sem landstjóra fólust einkum í að halda friðinn og sjá um að skattheimta gengi snurðulaust fyrir sig. Hann hafði „vald yfir lífi og dauða“ sem þýddi að hann mátti kveða upp dauðadóma eins og honum sýndist, og hann hafði vald til að setja af æðstaprestinn í Jerúsalem sem var helstur valdamaður Gyðinga, jafnvel veraldlegur sem andlegur.

Pontíus
Pontíus Samkvæmt hugmynd listamanns.

Pílatus notaði það vald þó ekki en leyfði hinum makráða Kajafasi æðstapresti að sitja áfram, en fyrirrennari Pílatusar hafði skipað hann.

Aðsetur Pílatusar mestan hluta ársins var í hafnarborginni Caesareu, sem var grísk/rómversk borg með öllu sem því tilheyrði en fátt sem minnti á gyðingdóm. Pílatus hafði sennilega til umráða um 3.000 hermenn sem yfirleitt héldu til í Caesareu, líkt og hann sjálfur. Ef til hættulegra uppþota kom – sem stundum gerðist – þá gat prefekt Palestínu leitað til landstjórans eða legátans í Sýrlandi sem hafði nokkrar fjölmennar herdeildir til umráða.

Í Jerúsalem og á fáeinum stöðum hafa líklega verið fámennir varðflokkar en því fer fjarri að rómverskir hermenn hafi hvarvetna verið sýnilegir íbúum Palestínu sem hernámslið. Ofurvald Rómar var fyrst og fremst táknrænt.

Meðal þess sem Pílatus annaðist á hverju ári var að halda til Jerúsalem með herflokk sinn um páskana. Þá flykktust pílagrímar til borgarinnar að minnast páskanna og í fáeinar vikur margfaldaðist íbúafjöldinn. Þar var sannarlega ekki vanþörf á að halda uppi lögum og reglu en á sama tíma streymdi fé í hirslur musterisins, kaupmenn græddu á tá og fingri og farandprédikarar fengu möguleika á að ná til miklu fleiri en venjulega.

Þegar Pílatus hugðist halda til Jerúsalem í fyrsta sinn sendi hann herflokk sinn á undan og lét koma fyrir merkjum hans innan borgarmúranna. Þetta gramdist heittrúðum Gyðingum því á merkjunum voru táknmyndir herflokksins og slíkar myndir voru bannaðar – rétt eins og með strangtrúuðum múslimum nútildags.

Gróðrastía fyrir sníkjudýr

Raunar er getið um tvö atvik af þessu tagi í heimildum og þeim ber ekki saman í ýmsum atriðum. Fíló frá Alexandríu segir að ekki hafi verið um að ræða myndir á skjöldunum, heldur einungis áletranir en andstaða „fjöldans“ hafi þó verið eindregin. Menn hafi líka gert sér grein fyrir að Pílatusi hafi ekki gert þetta Tíberíusi til dýrðar, heldur aðeins til að ögra Gyðingum og niðurlægja þá. Fíló segir líka að Gyðingar hafi þá skrifað Tíberíusi keisara og kvartað undan þessu framferði Pílatusar. Keisarinn hafi snöggreiðst og umsvifalaust skrifað Pílatusi strangt ávítunarbréf og skipað honum að taka niður skildina og flytja þá til Caesareu.

Þrátt fyrir þetta misræmi finnst mér líklegt að um sé að ræða eitt atvik en ekki tvo og að Tíberíus hafi skrifað Pílatusi fyrrnefnt bréf finnst mér ekki sennilegt. Ef Pílatus hefði valdið slíkri reiði skaphundsins Tíberíusar er líklegt að hann hefði einfaldlega verið sviptur embætti sínu strax.

Fíló skrifaði sína frásögn hins vegar þegar hann var að leita aðstoðar Caligula Rómarkeisara gegn öðrum rómverskum landstjóra og það var því auðvitað honum í hag að halda því fram að fyrirrennari Caligula hefði alltaf sýnt Gyðingum einstakan skilning.

Öðru sinni lenti Pílatus upp á kant við þegna sína þegar hann hugðist láta reisa vatnsleiðslu inn til Jerúsalem. Það hefur áreiðanlega ekki verið vanþörf á því. Borgin var fjölmenn, ekki síst um páskaleytið og á öðrum hátíðum, en fátt um vatnsból. Ekki er heldur ólíklegt að þau hafi verið gróðrarstíur fyrir sóttkveikjur og ýmiss konar sníkjudýr. Gyðingar hefðu því átt að fagna frumkvæði Pílatusar. En hann gerði þau mistök að ætlast til að greitt yrði fyrir framkvæmdina úr sjóðum musterisins. Þeir sjóðir voru sneisafullir af gulli sem æðstu prestarnir höfðu til ráðstöfunar að eigin vild og nú æstu þeir upp í fólki mikla andstöðu við vatnsleiðslu Pílatusar, því það væri ekkert minna en guðlast að ætla að taka fé úr musterishirslunum.

Mannfall á mótmælafundi

Mikill mótmælafundur var skipulagður og til átaka kom í mannþrönginni. Jósefus segir að Pílatus hafi komið dulbúnum dátum sínum fyrir í mannfjöldanum og þeir hafi falið kylfur undir kuflum sínum og síðan skyndilega ráðist að fólki og barið nokkra til bana, en aðrir hafi troðist undir.

Þetta virðist næsta ótrúlegt, því hvers vegna hefði Pílatus átt að stofna mönnum sínum í slíka hættu, að koma þeim fyrir í manngrúa vopnaðir eingöngu kylfum? Vart verður þó efast um frásögn Jósefusar héðan af. Og þessi frásögn er altént ein þeirra sem urðu til þess að Pílatus fékk það vonda orðspor sem Fíló lýsti svo fjálglega áratug síðar eða rúmlega það.

Ýmislegt fleira hefur borið til tíðinda á valdatíð Pílatusar í Júdeu. Í Markúsarguðspjalli segir í hálfgerðu framhjáhlaupi að á páskahátíðinni, þegar Jesú var í Jerúsalem, hafi „maður að nafni Barabbas [verið] í böndum  ásamt upphlaupsmönnum. Höfðu þeir framið manndráp í upphlaupinu“.

Um þetta upphlaup vitum við ekkert meira. Var það af pólitískum eða trúarlegum rótum runnið eða voru upphlaupsmenn einfaldlega stigamenn? Alla vega virðist frásögn Markúsar gefa til kynna að slík upphlaup hafi verið svo algeng að þau hafi vart verið í frásögur færandi, enda er hvergi getið um það í öðrum heimildum.

Hvað fleira fékkst Pílatus við? Hlýtur hann ekki að hafa skroppið einhvern tíma til Egiftalands að líta á píramídana? Og gæti hann hafa hitt þar gamlan kunningja, sem þar var sér til heilsubótar um þær mundir: heimspekingurinn Seneca. Og kynnu þeir þá að hafa rætt til dæmis hvað sé sannleikur?

Hvernig lífláta skal óspjallaða meyju

Síðla árs 31 virtist Sejanus lífvarðaforingi kominn í svo sterka stöðu í Róm að hann virtist þess albúinn að hrifsa til sín keisaratignina, þótt aðeins væri hann af riddaraættum en ekki patrisía. En Tíberíus var ekki dauður úr öllum æðum og steypti Sejanusi í einni svipan og var hann líflátinn og lýstur ævarandi óvinur ríkisins. Allir þeir sem nátengdir voru Sejanusi voru handteknir og flestir drepnir. Til dæmis var ung dóttir Sejanusar myrt en af því bannað var samkvæmt rómverskum lögum að taka af lífi óspjallaða mey var henni nauðgað fyrst.

Sé sú kenning mín rétt að Pílatus hafi verið skjólstæðingur Sejanusar, þá kemur verulega á óvart að hann fékk að halda bæði lífinu og landstjórninni í Júdeu. En ef það er líka rétt hjá mér að Pílatus hafi fyrrum verið í slagtogi með Kládíusi, þá kann sú vinátta að hafa haldið yfir honum hlífiskildi, því Tíberíus amaðist aldrei við Kládíusi. Altént var Pílatus áfram í embætti og til ársins 36 en þá fór í verra.

„Til dæmis var ung dóttir Sejanusar myrt en af því bannað var samkvæmt rómverskum lögum að taka af lífi óspjallaða mey var henni nauðgað fyrst.“

Spámaður nokkur kom fram í Samaríu snemma á því ári og flykktust Samverjar til Gerizzim-fjalls sem þeir töldu heilagt. Þar kvaðst hann mundu grafa upp muni sem Móses hefði falið á sínum tíma. Mikill trúareldmóður virðist hafa gripið um sig og hluti Samverja var vopnaður. Pílatus taldi að vonum hugsanlegt að hér væri í aðsigi vopnuð uppreisn og sendi herlið sitt til að kveða lið hins ónefnda spámanns í kútinn. Allmargir voru drepnir, aðrir handteknir og Pílatus lét svo taka af lífi ýmsa þá sem hann taldi hafa staðið fyrir þessum æsingi öllum. Um örlög spámannsins sjálfs er ekki getið.

Samverjum gramdist harka Pílatusar og þeir sendu kvörtunarbréf til Vítellíusar sem þá var nýskipaður legáti í Sýrlandi. Sögðu þeir að margir þeirra sem Pílatus lét drepa hefðu alls ekki átt neinn þátt í trúaruppþotinu, heldur hefðu verið á flótta undan herliði og hörku Pílatusar.

Pílatusi vísað úr embætti

Tveir bræðra Vítellíusar legáta höfðu látið lífið sem stuðningsmenn Sejanusar í hreinsunum Tíberíusar en hann virðist hafa lagt kapp á að vera sauðtryggur keisaranum. Og hver veit nema þeir Pílatus hafi verið kunningjar frá Rómartorgi?

Altént tók Vítellíus þann pól í hæðina að reyna að friða íbúa í Palestínu og hann uppálagði Pílatusi að fara til Ítalíu og standa fyrir máli sínu andspænis Tíberíusi. Vítellíus hélt svo til Jerúsalem um páskaleytið með herdeildir sínar. Hann aflaði sér þar mikilla vinsælda með því að gefa íbúum upp skatta og sýna trúarhefðum þeirra virðingu í hvívetna, en rak hins vegar Kajafas úr embætti æðstaprests.

Af Pílatusi er það að segja að honum virðist alls ekki hafa verið varpað formálalaust á dyr í Caesareu því Jósefus sagnaritari hermir að það hafi ekki verið fyrr í mars árið 37 sem hann var kominn til Ítalíu til að ganga fyrir keisara.

En þá vildi svo til að Tíberíus var einmitt dauður og Caligula tekinn við.

Og þar með gufar Pílatus upp úr sögunni í eitt skipti fyrir öll. Allar þjóðsögur um örlög hans síðan eru einmitt eintómar þjóðsögur.

En hvað var Pílatus að vilja með því að krossfesta Jesú frá Nasaret? Frá því segir í páskablaði Stundarinnar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins