Flækjusagan

Indíánahöfðinginn sem ber (kannski) ábyrgð á Bandaríkjunum

Illugi Jökulsson skrifar um frumbyggjahöfðingjann sem kallaður var Don Luís de Velasco. Hann fæddist á þeim slóðum þar sem nú er Washington DC og hafði reyndar afdrifarík áhrif á að það voru Englendingar en ekki Spánverjar sem stofnuðu Bandaríki Norður-Ameríku.

Stríðsmaður Algonkvía Powhatan-ættbálkurinn sem Don Luís tilheyrði var af þeirri kvísl frumbyggja í Ameríku. Myndina gerði John White, sem var einn af þeim Englendingum sem þátt tóku í stofnun hinnar svonefndu „týndu nýlendu“ þar sem nú heitir Roanoke í Karólínu. Eftir að hafa gert fjölda mynda af Algonkvíum komst hann á braut áður en halla fór undan fæti í nýlendunni. Mynd:

Það var á vondu von, það vissu þeir. Fyrir 80 árum höfðu framandlegir útlendingar stefnt upp að ströndum í löndunum fyrir sunnan, og með sér fluttu þeir dauða og djöful. Powhatan-frumbyggjarnir, sem bjuggu þar sem nú heitir Chesapeake-flói í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þeir fréttu af gljáfægðum hárbeittum járnsverðum sem ristu sundur hold og bein frænda þeirra fyrir sunnan, og af hólkum sem eldur og byssukúlur fæddust í og drápu allt sem fyrir varð.

Og þeir höfðu frétt að öll samfélög fyrir sunnan væru hrunin undan grimmd og ásókn hinna nýkomnu, Spánverjar hétu þeir, og það fylgdu þeim líka hryllilegar sóttir sem hvorki börn né fullorðnir höfðu neinar varnir gegn, og yfir öllu saman gein guð þeirra sem japlaði sínkt og heilagt á tuggunni miskunnsemi en heimtaði þó líf og blóð allra, sem ekki viðurkenndu veldi hans á himnum sem jörð.

Svo þegar skip Spánverja tóku að birtast undan ströndum Powhatan-manna í Chesapeake-flóa, hver gat þá láð þeim að þeim litist ekki á blikuna? 

Frumbyggjasonur fellur í hendur Spánverja

Filippus II Spánarkonungur
Filippus II Spánarkonungur var nokkuð upptekinn af vaxandi samkeppni við Englendinga á höfunum. Hann var um tíma konungur Englands að nafninu til sem eiginmaður Blóð-Maríu Englandsdrottningar, en atti síðar kappi við Elísabetu, systur hennar. Hann ákvað þó um síðir að láta Englendingum eftir austurströnd Bandaríkjanna (sem síðar kölluðust svo).

Spánverjar höfðu í byrjun 16. aldar gert nokkrar tilraunir til að stofna nýlendur á Flórída en þær fóru allar út um þúfur. Það var loks árið 1565 að örlítil byggð kennd við Sánkti Ágústínus náði að skrimta, og er þar síðan elsta samfellda byggð á vegum Evrópumanna á því landi sem nú tilheyrir Bandaríkjunum.

Nokkru fyrr, eða árið 1561, hafði spænskt skip verið að rannsaka aðstæður í Chesapeake-flóa og þá tóku Spánverjar með sér suður til aðalstöðva sinna á Kúbu ungan frumbyggjadreng, hann var kannski rúmlega tíu ára þá, og að líkindum höfðingjasonur. Það er ekki alveg á hreinu hvort Powhatan-menn færðu hann Spánverjum fríviljugan eða hvort honum var hreinlega rænt. Svo mikið er þó víst að hann var settur til mennta, reyndist bráðgáfaður og meðfærilegur og tók kristindóm að því er virtist með mestu gleði. Og það var heilmikið látið með hann. Hann var fluttur yfir Atlantshafið til Madrid þar sem hann gekk á fund Filippusar kóngs II, og hefur sjálfsagt þótt ýmislegt til um það, enda var Filippus voldugasti kóngur Evrópu um þær mundir og hirð hans orðlögð fyrir glæsileika og gull og gimsteina. Því ríkidæmi hafði að vísu mes töllu verið stolið vestanhafs af spænskum „sigurvegurum“ eða konkvistadorum í löndum Mæja, Azteka og Inka.

Prestur vildi ekki morð og nauðganir hermanna

Enginn veit upprunalegt nafn Powhatan-piltsins en þegar hér var komið sögu hafði hann tekið upp nafnið Don Luís de Velasco eftir landstjóra Spánar í Vesturheimi.

Því miður vitum við líka helst til lítið um hvað Don Luís hugsaði þessi ár sem hann virtist sem fiskur í vatni meðal Spánverja.

En nú gerðist það að Jesúítaprestur að nafni faðir Segura einsetti sér að opna trúboðsstöð við Chesapeake-flóa og kynna frumbyggja þar fyrir Kristi. Þeir hlytu að þurfa mikið á sáluhjálp hans að halda þar sem þeir sáust skjótast um á ströndinni, ansi léttklæddir, að ég segi ekki ósiðsamlega allsberir. Úr þessu varð að bæta!

Þáttur hinna ströngu Jesúíta í landnámi Spánverja vestanhafs er svolítið mótsagnakenndur. Þeir höfðu raunverulegan áhuga á sálarheill frumbyggja og voru stundum óþægur ljár í þúfu konkvistadora og nýlenduherra sem vildu bara fá að arðræna, kúga og þrælka alla þessa kjánalegu Indíána vestanhafs, og létu sér velferð þeirra í engu rúmi liggja.

Jesúítar hugsuðu vissulega um velferð frumbyggja og faðir Segura vildi til dæmis ekki að neinir hermenn kæmu með þegar hann stofnaði trúboðsstöðina sína. Hann hafði of víða þar vestanhafs séð spænska hermenn veitast kófdrukknir að frumbyggjum, drepa fólk og nauðga konum.

Taldi sig sjá ættingja sína

Það vildi faðir Segura ekki á sinni stöð og að lokum fékk hann samþykki spænskra yfirvalda til að reyna stofnun nýlendu án þátttöku hermanna.

Í ágúst 1570 var lagt upp til Ajacán en svo kölluðu Spánverjar það svæði við Chesapeake-flóa sem nú kallast Bandaríkið Virginía. Í förinni voru tveir prestar, faðir Segura og faðir Quiros, sex óbreyttir munkar, allir Jesúítar, og síðan ungur piltur sem hét Alonso, kallaður Aloncito. Tíundi maðurinn var Don Luís sem átti að vera túlkur leiðangursins og annast samskipti við innfædda. Faðir Segura lagði mikið upp úr því að þau yrðu friðsamleg, enda var leiðangurinn vopnlaus með öllu nema með verkfæri eins og axir úr járni.

Snemma í september var siglt með tímenningana inn í Chesapeake-flóa. Frumbyggjar fylgdust með úr landi og þar kom að Don Luís taldi sig bera kennsl á einhverja ættingja sína. Þeir létu sig þó hverfa inn í skógana á ströndinni þegar leiðangursmenn létu setja sig í land þar í grennd. Faðir Segúra mun hafa hugsað sem svo að ákjósanlegt væri að koma upp bækistöðvum nálægt fólki sem Don Luís þekkti eða ætti auðvelt með að ná tengslum við. Trúboð þeirra yrði mun auðveldara þannig.

Messur sungnar í kofa

Þegar upp á strönd var komið sigldi brott það spænska skip sem hafði flutt leiðangurinn en Jesúítar byggðu sér í snatri kofa einn þokkalegan, og var íverustaður leiðangursmanna í öðrum hluta hans en í hinum voru sungnar messur nokkrum sinnum á sólarhring.

Þessa fábreyttu trúboðsstöð sína kenndu leiðangursmenn við Sánkti Maríu. Ekki er vitað nákvæmlega hvar hún var niðurkomin. Sumir telja að hún hafi verið í námunda við borgina Newport News sem nú heitir en aðrir að hún hafi verið mun nær þeim stað þar sem Bandaríkjamenn hófu að reisa nýja höfuðborg sína, Washington DC, réttum 220 árum síðar.

Hvað sem því líður, allt leit þokkalega út í byrjun. Sumri var tekið að halla og farið var að draga úr hitasvækjunni sem þykir einkenna þessar slóðir yfir hásumarið. Á svæðinu skiptust á skógar og víðlendar mýrar þar sem bitvargur gerði mönnum lífið leitt meðan heitast var. Það hefur hins vegar áreiðanlega valdið föður Segura vonbrigðum að hinir innfæddu voru greinilega tortryggnir í garð Spánverja og héldu sig ævinlega í hæfilegri fjarlægð frá Sánkti Maríu. Trúboðarnir vonuðu þó að úr myndi rætast og þeir gætu brátt farið að skíra innfædda til hinnar einu sönnu trúar.

Don Luís hverfur

En ekki bólaði neitt á forvitnum gestum þótt færi að hausta. Hins vegar fór Don Luís fljótt að ókyrrast. Hann sagði Spánverjum að hann ætlaði að skjótast í skreppitúr og leita að fólkinu sínu enda væri þorp þess eigi allfjarri. Kannski gæti hann fengið ættingja sína til að koma í heimsókn í trúboðsstöðina og kynnast Kristi. Svo hélt hann á braut og Spánverjar biðu spenntir eftir endurkomu hans. En þá liðu dagar og vikur og mánuðir og ekki kom Don Luís. Þótt sumrin við Chesapeake-flóa séu heit geta veturnir verið ansi naprir og svo fór að Jesúítar höfðu illa vist í kofa sínum þennan vetur og vistir þeirra voru brátt á þrotum. Þeir höfðu treyst á að geta útvegað sér matföng hjá ættingjum Don Luís en nú var hann sem sé horfinn eins og jörðin hefði gleypt hann. Eitthvað gátu þeir fengið ætilegt hjá fáeinum frumbyggjum sem þeir rákust á í nágrenninu en þegar kom fram í febrúar var það allt uppurið og Spánverjar orðnir verulega óttaslegnir.

Að lokum hélt faðir Quiros af stað að leita að þorpinu sem Don Luís hafði sagt vera þar nærri og fóru tveir óbreyttir munkar með honum, Mendez og De Solis.

Svo fór að heimaþorp Don Luís reyndist vera ekki nema dagleið í burtu. Powhatan-menn bjuggu í langhúsum og þorp þeirra voru allfjölmenn. Í þorpinu var Don Luís greinilega orðinn mektarmaður og gott ef ekki æðsti höfðingi þorpsins. Og þegar Don Luís sá föður Quiros nálgast mun hann hafa lagt formálalaust ör á bogastreng og skotið prestinn í hjartastað.

Félagar hans drápu svo munkana tvo jafn snaggaralega.

Hvað hafði hann séð við hirðina?

Og svo hélt Don Luís í broddi fylkingar Powhatan-stríðsmanna að trúboðsstöðinni Sánkti Maríu og þar var líka gengið hreint til verks. Don Luís hjó föður Segura samstundis til bana með spænskri járnöxi sem presturinn hafði ætlað til vöruskipta við frumbyggja. Og svo voru drepnir þeir fjórir munkar sem eftir voru.

Hverju sætti þetta? Var Don Luís – eða hvað hann hét í raun og veru – einfaldlega vondur maður? Var þetta hefnd fyrir þau hryllilegu hervirki sem landar Spánverjanna höfðu unnið fyrir sunnan og Powhatan-menn höfðu vitaskuld heyrt af? Og það þótt faðir Segura og menn hans hefðu ekkert til saka unnið?

Eða var þetta einhvers konar vanmáttug tilraun til að sporna gegn frekari kynnum frumbyggja og Evrópumanna? Hafði Don Luís séð eitthvað það við hirð Filippusar kóngs í Madrid sem honum fannst slík ástæða til að sporna gegn að til þess  væri vinnandi að drepa átta saklausa guðsmenn sem sannanlega höfðu ekkert illt í hyggju?

Eða voru það kannski einmitt þeir sem höfðu verst í hyggju, prestarnir?

Því þeir vildu vissulega svipta frumbyggja ekki aðeins trú sinni, heldur sögum sínum, þjóðsögum, þjóðarvitund og öllu samfélagi?

Kannski vissi Don Luís að þeir væru hættulegastir.

En eins og ég segi – kannski var hann bara illmenni, þótt hann hafi fram að þessu ekki sýnt nein merki þess.

Aðeins einum var þyrmt

 En einum Spánverja úr trúboðsstöð Sánkti Maríu var reyndar þyrmt.

Piltinum Aloncito.

Rétt eins og Don Luís sjálfur hafði verið hrifinn úr umhverfi sínu og neyddur til að alast upp í framandi heimi með fólki sem var svo framandi að það hefði eins getað verið geimverur, þá ákvað hann nú að Aloncito skyldi lifa og alast eftirleiðis upp hjá vel metnum höfðingja í öðru þorpi Powhatan-manna.

Aloncito var kannski rúmlega tíu ára þá.

Var þetta miskunnsemi – eða partur af hefndinni?

Nú lagðist kyrrð yfir trúboðsstöðina Sánkti Maríu. Messur voru ekki framar sungnar. Don Luís lét jarða munkana með þokkalegri virðingu og passa upp á muni þeirra og klæðnað.

Bækur Jesúítanna, bæði Biblíur og aðrar, voru hins vegar rifnar í sundur og fleygt út í veður og vind.

Segir það einhverja sögu?

Sumarið 1571 kom birgðaskip frá Kúbu og átti að færa Sánkti Maríu vistir. Spánverjar undruðust að frá ströndinni lögðu kanóar frumbyggja en um borð sýndust vera spænskir prestar sem veifuðu skipinu ákaft og virtust reyna að lokka það upp í fjöru. Spænsku sjómönnunum leist ekki á þá bliku og hurfu frá. Frumbyggjar sem handsamaðir voru við mynni flóans sögðu þeim í stórum dráttum frá örlögum Jesúítanna í Sánkti Maríu og sömuleiðis að pilturinn Aloncito væri enn á lífi og byggi í þorpi höfðingjans fyrrnefnda.

Skírðir, svo hengdir

Ári seinna kom einn frægasti herforingi Spánverja, flotaforinginn Menéndez de Avilés, með skip og 30 þungvopnaða hermenn inn í Chesapeake-flóa til að hefna fyrir Jesúítana og frelsa Aloncito. Þegar Don Luís frétti af komu þeirra reyndi hann að láta drepa drenginn, svo enginn væri til frásagnar um hvað gerst hefði í Sánkti Maríu, en höfðinginn sem tekið hafði Aloncito að sér þvertók fyrir það.

Drengurinn var svo látinn laus í skiptum fyrir nokkra gísla sem Menéndez hafði tekið og sagði alla söguna. Flotaforinginn reiddist heiftarlega, sendi hermenn í land og handsamaði átta frumbyggja og lýsti því svo yfir að þeir yrðu látnir lausir ef Don Luís de Velasco gæfi sig fram við hann.

Það vildi Don Luís ekki gera og Menéndez lét þá hengja frumbyggjana átta á reiðanum í skipi sínu.

Hann gætti þess að láta fyrst skíra þá til kristinnar trúar svo þeir dæju sem kristnir menn.

Grimmdarverk Don Luís höfðu reyndar miklar afleiðingar, því þessi afdrif trúboðsstöðvar Sánkti Maríu urðu til þess að Spánverjar lögðu á hilluna allar hugmyndir um nýlendur á hinni löngu austurströnd Norður-Ameríku frá Flórída. Powhatan-menn hrósuðu happi. Fengju þeir nú að vera í friði með sitt líf, sitt samfélag, sína háttu? Já – en bara stutta stund. Því fljótlega komu aðrir til skjalanna á þessu svæði.

Hver var Hvítasál?

Árið 1585 settu Englendingar upp nýlendu nokkru sunnar en hún varð ekki langlíf og síðustu landnemarnir hurfu án þess vitað sé um örlög þeirra. En í blábyrjun 17. aldar sneru Englendingar aftur og settu upp nýja nýlendu sem þeir kölluðu Jamestown, ekki allfjarri kofarústum Sánkti Maríu.

Sú nýlenda lifði af bæði óblítt veður fyrstu árin og fjandskap frumbyggja, en meðal þeirra sem allra harðastir voru í andstöðu við nýlendumenn var höfðingi einn roskinn, sem þá hét Hvítasál, því hann þótti skilja svo vel hvítu aðkomumennina.

Hann vissi hvað þeir voru hættulegir, hvað sem leið fagurgala þeirra.

Það er talið næsta víst að þessi roskna Hvítasál hafi verið sami maðurinn og áður gekk undir nafninu Don Luís de Valesco.

Maðurinn sem varð þessi valdandi að Spánverjar hættu við að leggja undir sig Ameríku norðan Mexíkó og Bandaríkin urðu ensk, ekki spænsk.

En frá grimmilegri viðureign Don Luís við Englendinga segir síðar.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Mest lesið í vikunni

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um heilbrigðismál

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Rannsókn

Engeyingarnir fengu tveggja milljarða kúlulán til að eignast N1

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Einum vísað af lista Sjálfstæðisflokksins