Pistill

Geðveiki Bjarna Benediktssonar

Illugi Jökulsson vonast til þess að orð Bjarna Benediktssonar um „geðveiki“ verði pólitísk graftskrift hans.

Þann 17. mars 2007 eða fyrir rétt tæplega tíu árum, þá voru sem oftar umræður á Alþingi. Þetta er 94. fundur 133. löggjafarþings og rætt var frumvarp um vátryggingasamninga. Árni Mathiesen fjármálaráðherra hafði verið í ræðustól að svara fyrirspurn um barnabætur, og þá reis upp á afturfæturna Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingar og sagði upplýsingar Árna staðfesta að í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins væri búið að kroppa samtals 10 milljarða af barnabótum, „og við vitum öll hvert þær hafa verið færðar“, sagði Össur. „Þær hafa verið færðar í skattalækkanir 10 prósentanna sem hafa hæstar tekjur á Íslandi.“

Árni Mathiesen fjármálaráðherra steig aftur í ræðustól og hæddist að Össuri fyrir að „sjá ekki til sólar“. Hann ansaði engu um barnabæturnar en sagði að kaupmáttur allra hefði batnað „vegna þeirra ákvarðana sem stjórnarmeirihluti hér á Alþingi hefur tekið. Og hvað hafa hæstvirtir þingmenn stjórnarandstöðunnar gert í því samhengi? Hafa þeir fagnað? Hefur hæstvirtur þingmaður fagnað? Ég minnist þess ekki.“

Áfram hæddist Árni að Össuri og nú fyrir að taka of mikið mark á greiningardeilum matsfyrirtækja úti í heimi, sem þá voru seint og um síðir teknar að vara við því að „íslenska efnahagsundrið“ væri kannski ekki á nógu traustum grunni reist.

„[Þ]að er alveg augljóst, og [þingmaðurinn] sér ekki til sólar. Ég verð að segja eins og vinur minn, Björn á Hofsstöðum, sagði: Drengir, sjáið þið ekki veisluna?

Þetta fólk sér ekki hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum. Það sér það bara ekki, sennilega af því að það vill það ekki.“

(Hér má heyra þennan fræga ræðustúf Árna Mathiesen.)

Einu og hálfu ári síðar var lokið veislunni sem fjármálaráðherra hældist um af. Árni sat sjálfur skjálfandi á beinunum í aftursætinu hjá óhæfasta Seðlabankastjóra heimsins sem blússaði eitthvað út í loftið. Íslensk alþýða mátti svo þrífa upp skítinn eftir hina óhæfu stjórnmálamenn og hina óhæfu kaupsýslumenn og bankamenn, sem höfðu haldið „veisluna“. Af einhverjum dularfullum ástæðum sáu íslensk stjórnvöld ástæðu til að verðlauna Árna Mathiesen, óhæfasta fjármálaráðherra heimsins, með vel launaðri stöðu í útlöndum, en það er alveg sama hvað hann gerir sig breiðan þar um slóðir – hér á Íslandi verður Árna M. Mathiesen alltaf minnst fyrst og fremst fyrir þennan belging sinn á Alþingi:

„Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“

Nú er runninn upp ögurstund í lífi Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Að líkindum er hann að verða forsætisráðherra í hægri sinnuðustu en um leið veikustu ríkisstjórn Íslandssögunnar. Og hvernig bregst hann við því?

Jú, þegar talinu víkur að því að ekki séu allir sáttir í sæluríki hagvaxtarins, þá sagði Bjarni orðrétt í Kryddsíldarþætti Stöðvar að það þyrfti „náttúrlega einhverja geðveiki til að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á“. Og hann bætti við: „Ég vorkenni fólki sem líður svona.“

Um þetta má sitthvað segja.

Í fyrsta lagi opinberast þarna enn og aftur sá auðmannahroki sem býr svo undur skammt undir yfirborðinu í Bjarna Benediktssyni. Hann ku vera viðkunnanlegur og viðræðugóður í viðkynningu en það þarf svo lítið til að yfirstéttaryfirlætið virtist í sinni ógeðfelldu mynd – eins og í þetta sinn.

Og í öðru lagi sýnir það hið eilífa skilnings- og tillitsleysi Bjarna í garð þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu að hann skuli líkja pólitískum andstæðingum sínum við geðsjúklinga.

Athugið að hann er ekki í þessu tilviki að nota orðið „geðveikt“ eins og þegar Steindi Jr. segir að Ásgeir Orri sé „geðveikt fínn gaur“.

Nei, Bjarni er einfaldlega að tala um að fólk sem „sér ekki veisluna“ hljóti að eiga við „geðveiki“ að stríða. Og hann skýtur fram hökunni og hreykir sér svo hátt að „vorkenna“ því fólki.

(Það er löng hefð fyrir því að valdsherrar kalli þá sem skilja ekki dásemd þeirra „geðveika“. Ég hélt einhvern veginn að það væri ekki talinn sómi að því hér að fara þangað. Þeir valdsherrar eru yfirleitt ekki taldir góð fyrirmynd, ég nefni engin nöfn. En enginn stjórnmálamanna né fréttamanna í Kryddsíldinni hreyfði andmælum við þessu orðavali Bjarna. Það var leitt, það var mjög leitt að sjá.)

En í þriðja lagi: Þegar Bjarni Benediktsson talar um „geðveiki“ er hann að meina öryrkja, aldraða, starfsmenn heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, hann er að tala um innflytjendur og aðstandendur þeirra, hann er að tala um fátækt fólk í landinu, hann er að tala um okkar minnstu systur og bræður sem „sjá ekki veisluna“ og hann – verðandi forsætisráðherra, aflandseyjakóngur, silfurskeiðungur, auðmannasonur – hann vogar sér að „vorkenna“ því fólki.

Verði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er ástæða til að óska honum til hamingju með það persónulega. Hann hefur óskaddaður sloppið úr öllum sínum vafningum og hann slapp lifandi frá aflandseyjum, Panama jafnt sem Seychelles-eyjum.

Þyki honum sómi að þessu öllu saman, þá hann um það.

En ég gæti nú reyndar best trúað því – og vona að minnsta kosti – að hrokinn sem birtist í orðum Bjarna Benediktssonar í Kryddsíldinni eigi eftir að elta hann uppi.

Og eigi eftir að verða hans grafskrift í pólitík, rétt eins og „Drengir, sjáiði ekki veisluna?“ mun til eilífðarnóns standa á pólitísku leiði Árna M. Mathiesen.

En af hverju skárri sortin af íslenskum stjórnmálamönnum keppist nú við að leiða þennan hrokagikk til æðstu valda á Íslandi, það mun verða mér ævinlega óskiljanlegt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN