Pistill

Forsendubresturinn

Forsendubrestur er við æðstu stjórn ríkisins. Aðeins 14 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar styðja ríkisstjórnina sem Óttarr Proppé myndaði. Umræðan sem var haldið frá okkur og allt sem við vissum ekki, en þeir máttu vita, hefði breytt niðurstöðum kosninganna.

Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson Benedikt fékk lyklana að fjármálaráðuneytinu úr hendi frænda síns gegn því að lofa að vinna gegn málinu sem var ástæðan fyrir stofnun nýja flokksins hans. Mynd: Pressphotos

Aðeins fjórðungur landsmanna er ánægður með nýju hægristjórnina, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups

Aðrar kosningarnar í röð komst Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar í ríkisstjórn og aðrar kosningarnar í röð er forsendubrestur fyrir kjöri hans vegna nokkurs sem er erfitt að kalla annað en óheiðarleika með þann sérstaka tilgang að komast yfir vald.

Í fyrri kosningunum lofaði hann ítrekað beinu lýðræði í Evrópusambandsmálinu og forðaðist þannig alla umræðu um veikasta hlekkinn í stefnu flokksins, gjaldmiðilsmálin. Í seinni kosningunum kaus hann að stinga skýrslu um skattaskjólsmál ofan í skúffu, sem sannarlega var akkilesarhæll flokksins. Enda kom í ljós að skýrslan, sem var löngu tilbúin, innihélt áfellisdóm yfir stefnu Sjálfstæðisflokksins og áminningu um umdeilda viðskiptahætti Bjarna sjálfs.

En það eru fleiri brestir í forsendunum ákvarðana okkar 29. október í fyrra.

Allt sem við vissum ekki en þeir máttu vita

Við vissum ekki að kjararáð, sem er skipað að meirihluta af Alþingi og Bjarna Benediktssyni, væri að hækka laun þingmanna um tæplega helming sama dag og við kusum, langt umfram almenna launaþróun síðasta áratugar.

Við vissum ekki að Viðreisn og Björt framtíð væri sami flokkurinn. Björt framtíð hafði þvert á móti stillt sér upp við hlið félagshyggju- og umbótaflokkanna fyrir kosningarnar. Viðreisn hafði hafnað því. Eftir kosningarnar mynduðu þessir tveir flokkar óvænt og ófyrirsjáanlegt bandalag og fóru samstíga í allar viðræður.

Óttarr og BenediktÁkváðu eftir kosningar að sameinast í viðræðum um ríkisstjórnarmyndun.

Við héldum, og okkur hafði verið sagt, að Viðreisn legði höfuðáherslu á að koma á markaðstengdu afgjaldi fyrir afnot sameiginlegra auðlinda okkar, en það er ekki að sjá.

Við vissum ekki að atkvæði með Viðreisn þýddi að flokkurinn myndi hreinlega koma í veg fyrir að þingið samþykkti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvernig færi með aðildarviðræður við Evrópusambandið. Viðreisn var stofnuð vegna loforðasvika Sjálfstæðisflokksins í fyrri kosningunum um sama mál, en fer svo í virka andstöðu við beint lýðræði í málinu þar til kjörtímabilinu lýkur.

Aðeins 40 prósent kjósenda Viðreisnar eru ánægðir, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. Þeir einu sem eru ánægðir að meirihluta eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins.

Björt framtíð brást kjósendum sínum

Það er orðið ljóst að Óttarr Proppé hefur brugðist kjósendum sínum herfilega. 14 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar eru ánægð með ríkisstjórnina sem hann var lykillinn að því að skapa. Hann sagðist ætla að setja heiðarleika, fagmennsku, umburðarlyndi og jafnrétti í forgang. Óánægjan er því skiljanleg: Hann gerði svo mann að forsætisráðherra sem hafði dagana áður verið staðinn að ósannindum og ófagmennsku fyrir og eftir kosningarnar, með því að fela skýrslu til að forðast umræðu sem gæti kostað hann stuðning í kosningunum. Meðráðherra hans afneitar kynbundnum launamun. Stjórnarþingmaður talar um að beita hælisleitendur „hörðum stálhnefa“ og enginn samflokksmanna hans gagnrýnir það. Forsætisráðherrann talar um aðfarir Donalds Trump að bandarísku lýðræði og lýðréttindum sem ímyndarvandamál og finnst „ekkert að því í sjálfu sér að það komi fram á sjónarsviðið af og til einstaklingar sem eru ekki alveg steyptir úr sama mótinu og allir fyrirrennarar“ - maður sem lýgur stöðugt og kallar fjölmiðla sem benda á það óvini þjóðarinnar

Hagsmunir að kjósa ekki aftur

Siðferðisleg, fagleg og lýðræðisleg staða ríkisstjórnarinnar féll á fyrstu dögum og þess vegna hefur engin ríkisstjórn mælst með jafnlítinn stuðning í upphafi ferils síns. 

Okkur var innrættur misskilningur um áherslur og aðalatriðin í stefnu smærri ríkisstjórnarflokkanna tveggja og okkur virðist hafa verið meðvitað haldið frá mikilvægri umræðu og upplýsingum. 

Vegna forsendubrestanna væri sanngjarnast að kjósa aftur. Þeir þingmenn sem hafa staðið sig illa og þeir flokkar sem seldu eitthvað sem þeir afhenda ekki eru hins vegar ólíklegir til að hætta á að missa nýfengnar stöður og kjarabætur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Víðir bóndi í stríði gegn laxeldinu: „Hrafninn eyðilagði hér 80 rúllur“

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“