Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Fordómar og reitt samfélag

Thelma Ásdísardóttir skrifar um fordóma og viðbrögð samfélagsins við samtali Sindra Sindrasonar og Töru Margrétar Vilhjálmsdóttur. „Mér persónulega finnst þessi heift og reiði í fólki, mun furðulegri en þessi eilítið klaufalegu samskipti,“ segir hún meðal annars.

Ég sat einu sinni námskeið um fordóma fyrir mörgum árum. Einn fyrirlesarinn spurði hópinn hvaða fordóma við teldum okkur hafa. Ég hafði unnið heilmikið með sýn mína á lífið og tilveruna þegar þarna var komið og kotroskin svaraði ég að ég væri ekki með neina fordóma. Fyrir mér væru allir jafnir og ég leyfði öllum að birtast eins og þeir væru, á þeirra forsendum. Ég fékk frekar skrýtin svip frá fyrirlesaranum, blöndu af undrun, hæðni og kannski smávegis þreytu.

Þetta er samt falleg hugsun og svo sannarlega þess virði að reyna þetta eins oft og hægt er. Það er hins vegar ekki raunhæft að þetta takist alltaf, það veit ég núna.   Ég trúi því að við fæðumst raunverulega fordómalaus, en allt okkar líf erum við flest að læra og móta skoðanir okkar og hugsanir og reyna skilja og átta okkur.   Þannig hleðst alls konar í huga okkar. Sumt verður falleg viska, sumt sársauki eða ljúfar minningar og sumt verður að fordómum. Ég tel það næstum ómögulegt að vera algerlega fordómalaus. Ég áttaði mig til dæmis á því að ég var með fordóma gagnvart þeim sem ég taldi vera með fordóma. Í huga mínum fannst mér að það hlyti að vera illa upplýst fólk. Ég dæmdi fyrirfram heilan hóp og velti því ekki einu sinni fyrir mér, fyrr en síðar.

Nýlega sýndi ung kona í viðtali fordóma þegar hún gerði ráð fyrir því að maðurinn sem tók við hana viðtal, hefði ekki þurft að upplifa fordóma af því hann var hvítur karlmaður. Þetta er eðlilegt miðað við það sem hún hefur lært í heimi okkar. Ekki endilega rétt, en eðlilegt og engin stórkostleg mistök að mínu viti. Ég er nokkuð örugg á því að við langflest eigum okkar mistök í samskiptum og ég er líka nokkuð örugg á því að við langflest höfum sýnt fordóma af einhverju tagi.

Fréttamaðurinn svaraði fyrir sig og sumum fannst hann hvassyrtur. Þetta er líka eðlilegt. Engin vill vera settur í einhvern flokk vegna fordóma. Það má alveg deila um hvort hann var faglegur fram í fingurgóma, en þetta eru eðlileg og mannleg viðbrögð.

„Mér persónulega finnst þessi heift og reiði í fólki, mun furðulegri en þessi eilítið klaufalegu samskipti.“

Það sem ég sá þegar ég horfði á þetta viðtal voru mannleg samskipti, þar sem fólk er ekki fullkomið alltaf og segir kannski eitthvað sem hefði mátt segja öðruvísi. Það hefur mikil umræða sprottið upp vegna þessarra orðaskipta fréttamannsins og konunnar og er fólk ýmist sammála öðru hvoru. Margir eru málefnalegir og segja sína skoðun án þess að fara út í árásir af nokkru tagi, en langt í frá allir. Fylkingar myndast þar sem sumir eru afar reiðir og/eða sárir og grimmum orðum og ummælum er kastað eins og handsprengjum til þess að ítreka hversu rétt viðkomandi hefur fyrir sér í hatrammri umræðu.

Mér persónulega finnst þessi heift og reiði í fólki, mun furðulegri en þessi eilítið klaufalegu samskipti. Vitum við í alvörunni ekki öll að það má stundum segja eitthvað klaufalegt? Það má vera mannlegur og sýna mannleg viðbrögð og, haldið ykkur fast…gera mistök opinberlega. Ég gat ekki séð að konan eða fréttamaðurinn hafi ætlað sér að meiða hitt. Hvað þá að þetta hafi verið skipulögð aðför eða eitthvað álíka.  

Við getum alveg haft skoðanir og tjáð okkur og fundist alls konar án þess að fara í stríð við þá sem finnst eitthvað annað. Við breytum ekki skoðunum annarra með því að öskra ókvæðisorð og steyta hnefa, svoleiðis hafa styrjaldir myndast í gegnum tíðina. Orð geta meitt jafnmikið og hnefahögg, jafnvel meira.  Mér finnst dapurlegt að sjá fallega tungumálið okkar notað til þess að grýta fólk og ég hvet alla til þess að gera sitt besta og stoppa og hugsa áður en orðum er skotið af streng, því það er erfitt að taka þau tilbaka.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“