Flækjusagan

Fjörutíu sinnum fleiri fórnarlömb hryðjuverka utan Vesturlanda

Illugi Jökulsson lagðist yfir tölur um fórnarlömb hryðjuverkamanna að undanförnu.

Kona syrgir hina föllnu í Beslan Myndin er af vefsíðu Sputnik International.

Þótt margt sé enn á huldu um hina mannskæðu árás í London í gær virðist ódæðismaðurinn þar að minnsta kosti hafa talið sig hryðjuverkamann. Hvort hann var í tengslum við hryðjuverkasamtök er enn ekki ljóst, eða hefur að minnsta kosti ekki verið gefið upp.

Hann var sjálfur drepinn í árásinni eftir að hafa orðið þremur að bana og sært fjölmarga.

Mjög er rætt um hryðjuverkaógn á Vesturlöndum þessi misserin og skyldi engan undra. Hryðjuverk eins og framin voru í París fylla menn vitaskuld óöryggi. Þar féllu hvorki fleiri né færri en 130, auk sjö hryðjuverkamanna.

Mannskæðasta hryðjuverkið í Vestur-Evrópu á undanförnum tveim áratugum var sprengjuárásin í Madrid 2004 þar sem 192 dóu og meira en 2.000 særðust. Þar voru að verki menn sem töldu sig að minnsta kosti samverkamenn Al Kaída.

Þrátt fyrir þessi voðaverk er þó sannleikurinn sá að hryðjuverk eru fátíð á Vesturlöndum miðað við þau ósköp sem íbúar annars staðar þurfa að þola.

Hér má sjá samantekt bandaríska blaðsins Washington Post um hryðjuverk frá 1. janúar 2015 og fram á mitt ár 2016.

Þá féllu 658 í hryðjuverkaárásum í Ameríkum og Evrópu.

En í Asíu og Afríku féll 28.031.

Munurinn er rúmlega fertugfaldur.

Hérna má svo sjá lista Global Terrorism Database yfir mannskæðstu hryðjuverkin frá 1970. Það er dálitlum erfiðleikum bundið að setja saman slíkan lista, því stundum er óljóst hvað á að telja eintök hryðjuverk, en þetta er altént vísbending.

Mannskæðasta einstaka hryðjuverkið var raunar framið á Vesturlöndum - þann 11. september 2001 í New York og Washington í Bandaríkjunum og þarf ekki að orðlengja um það. Þá létust alls 2.996 manns og eru þá 19 flugræningjar taldir með.

Næstmannskæðasta hryðjuverkið var framið 12. júní 2014 og er – eins og fleiri hryðjuverk í Miðausturlöndum og öðrum heimshlutum – nær óþekkt á Vesturlöndum.

Þennan dag skipuðu yfirmenn í íraska flughernum nokkur þúsundum flugnemum í flugstöð í Tikrit að fara í frí til Bagdad. Þeir þurftu að ganga ákveðna vegalengd og á leiðinni komu aðvífandi ISIS-liðar á stórum trukkum og neyddu flugnemana með vopnavaldi upp á trukkana.

Þeir voru síðan fluttir á afvikinn stað og sjía-múslimar og yfirleitt allir þeir sem tilheyrðu öðrum trúflokkum en súnní-múslimum voru myrtir. Þetta var allt kvikmyndað, ISIS til dýrðar.

Óljóst er hve margir voru myrtir en ekki ósennilegt er að þeir hafi verið 1.700.

Í Írak hafa 36 ISIS-liðar verið hengdir fyrir ódæðið. Í Finnlandi eru tvíburar fyrir rétti, sakaðir um að hafa tekið þátt í morðunum. Þeir sóttu um hæli sem flóttamenn í Finnlandi í september 2015.

Þriðja mannskæðasta hryðjuverkið er gjarnan talið fjöldamorð sem framin voru í Musha-kirkjunni í Kigali, höfuðborg Rúanda, í apríl 1994. Mörg hræðileg fjöldamorð voru framin í Rúanda á örfáum mánuðum í einhverju skelfilegasta blóðbaði sögunnar, en þetta var mannskæðasta einstaka hryðjuverkið, sem vitað er um. Fjöldi fólks af Tútsí-þjóðinni hafði leitað hælis í kirkju þegar morðvargar Hútúa réðust að kirkjunni, brenndu suma inni en skutu aðra.

Talið er að rúmlega 1.100 manns hafi látið lífið.

Þann 14. ágúst 2007 réðust sjálfsmorðssprengjumenn í bílum fullum af sprengiefni gegn fólki af Yazidi-trú í bæjunum Katanía og Jazeera í Norður-Írak. Þar dóu rúmlega 800 manns, og hátt í 2.000 særðust, sumir mjög alvarlega. Sprengjumenn voru sennilega á vegum Al Kaída, þótt það sé ekki öruggt.

10. júní 2014 – tveimur dögum áður en flugnemarnir í Tikrit voru drepnir – réðust ISIS-liðar inn í fangelsi í borginni Badush þar skammt frá. Síðan voru 670 sjíta-múslimar meðal fanganna drepnir miskunnarlaust.

Margir fleiri atburðir í Írak og Sýrlandi hið hræðilega sumar 2014 geta hiklaust flokkast sem hryðjuverk og ekkert annað. Nefna má fjölda aftökur ISIS bæði við Tabqa flugstöðina í Sýrlandi og Sinjar í Írak en í báðum tilfellum voru meira en 500 manns drepnir.

Á listanum eru næst fjöldamorð sem maóískur kommúnistaflokkur í Nepal framdi 21. mars 2004. Þar féllu 518, aðallega óbreyttir borgarar.

19. ágúst 1978 réðust óþekktir menn að Cinema Rex bíóinu í Abadan í Íran, lokuðu öllum dyrum og kveiktu svo í. Þar fórust rúmlega 420 manns. Íslamskir öfgamenn reyndust að lokum hafa framið þetta illvirki.  

Kristnir öfgamenn létu ekki sitt eftir liggja um jólin 2008 þegar svokallaður Mótspyrnuher Drottins drap að minnsta kosti 400 (og kannski mun fleiri) í nokkrum þorpum í norðurhluta Alþýðulýðveldisins Kongós.

Lýsingarnar á aðförum þessara yfirlýstu hermanna Krists konungs eru svo viðbjóðslegar að þær eiga ekki heima hér, en eru jafnvel enn ógeðslegri en flest það sem ofsatrúarmenn íslamista hafa tekið sér fyrir hendur - ef svo má segja.

Næst á listanum koma rúmlega 400 manns sem andspyrnuhreyfing Mósambik drap í borginni Homoine 24. júlí 1987, nær örugglega í náinni samvinnu við yfirvöld í Suður-Afríku. Þar fóru hvítir menn þá enn með öll völd og gerðu hvaðeina til að grafa undan stjórvöldum í nágrannaríkjunum. Þar á meðal studdu þau þá andspyrnuhreyfingu sem framdi þessi fjöldamorð.

Næst koma tæplega 375 sem voru drepin af Tútsum í Búrundi 23. maí 1996 þar sem heitir Kivyuka. Þótt hin ægilegu fjöldamorð, sem framin voru í nágrennaríkinu Rúanda tveim árum fyrr, séu mun þekktari féllu 300.000 óbreyttir borgarar í innanlandsófriði í Búrúndí á skömmum tíma.

Mannskæðasta hryðjuverkið í Evrópu á listanum er voðaatburðurinn í Beslan í Rússlandi 1. september 2001. Téténskir aðskilnaðarsinnar hertóku þá barnaskóla og eftir þriggja daga umsátur féllu að minnsta kosti 385 manns, að stórum meirihluta börn.

Þá kemur mannskæðasta hryðjuverkið á vestur-evrópsku yfirráðasvæði en þann 23. júní 1985 sprengdu öfgamenn indverskra Síkha Boeing 747-þotu frá Air India þar sem hún var skammt frá Írlandsströndum á leið sinni frá Toronto í Kanada til Bombay á Indlandi, en átti að hafa viðkomu í London.

Þarna fórust 329 manns, aðallega Kanadamenn af indverskum uppruna.

Þetta eru 14 mannskæðustu hryðjuverkin, samkvæmt lista GTD.

Lockerbie-hryðjuverkið í Skotlandi þegar 270 manns voru drepnir er  flugvél var sprengd yfir skosku þorpi er í 28. sæti. Það gerðist 21. desember 1988.

Með þessari upprifjun er að sjálfsögðu ekki gert lítið úr hryðjuverkum þeim sem við hér á Vesturlöndum þurfum að þola. Við erum hins vegar ekki ein um að þurfa að þola grimmd samviskulausra öfgamanna og morðvarga.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Mest lesið í vikunni

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um heilbrigðismál

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Rannsókn

Engeyingarnir fengu tveggja milljarða kúlulán til að eignast N1

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Einum vísað af lista Sjálfstæðisflokksins