Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

„Finnst þér þetta ekki gott?“

Ofan á launamisréttið bætist við kynferðislega áreitnin. Lára Guðrún Jóhönnudóttir lýsir sinni reynslu sem kona á vinnumarkaði.

Kynferðisleg áreitni Áreitni getur átt sér margar birtingarmyndir. Mynd: Shutterstock

Allt frá því ég steig fæti inn á atvinnumarkaðinn hef ég litið á karlkyns samstarfsfélaga mína og hugsað með mér, ekki hvort, heldur hversu mikið hærri laun þeir fengju greidd fyrir að sinna sama starfi og ég. Það þarf engan snilling til að sjá hversu stjarnfræðilega fáránleg sú hugsun er. Ég er með sterka réttlætiskennd, í mér býr mikil baráttukona og ég hef alltaf verið fljót að láta í mér heyra þegar mér þykir einhver vera beittur misrétti á vinnustað. En þegar ég ákvað að skrifa léttan pistil um kynbundinn launamun þá runnu fljótt á mig tvær grímur þegar ég opnaði grútskítuga pandóruboxið sem atvinnusaga mín er. Þetta er ekki bara mín saga. Þetta er saga margra, ef ekki flestra, kvenna sem hafa stigið fæti inn á atvinnumarkaðinn og vaknað til vitundar um hversu víða pottur er brotinn í þessum efnum. 

Sjáðu til, það eru ekki eingöngu launin sem eru ósanngjörn, heldur sú sjálfsbjargarviðleitni sem konur þurfa að læra fljótt til þess að lifa af í þessum frumskógi fallusar. Ég bind miklar vonir við það að samfélagið hafi breyst á þessum tæplega 20 árum síðan ég hóf störf. Að þessi umræða um kynbundinn launamun og kynferðislega áreitni á vinnustað geri konum kleift að setja mörk strax og að þær viti það fyrir víst að það er fullkomlega óeðlilegt að starfa í slíku umhverfi.

Ég byrjaði að vinna við hin ýmsu þjónustustörf þegar ég var rétt tæplega 15 ára og þá þótti kynferðisleg áreitni á vinnustað ekkert tiltökumál, heldur sjálfsagður hluti af starfinu, að einhverju leyti allavega. Á þessu tímabili lærði ég ýmislegt, eins og að vera með kjaft og sýna vald mitt með hnyttnum tilsvörum. En þó auðvitað ekki án þess að vera kurteis í leiðinni og rugga ekki bátnum of mikið. Þannig varð svartur húmor að einhvers konar varnarviðbrögðum ungu konunnar sem skaut dónakallabröndurunum aftur til eigenda þeirra á ljóshraða. 

Á þessum árum var ekki mikil umræða um kynferðislega áreitni, hvernig ætti að bregðast við henni eða hvar mörk hins óeðlilega og óviðeigandi væru. Það var ekki töff að fara að kvarta í yfirmanni sínum eða væla yfir einhverjum leiðinlegum kúnnum sem höguðu sér eins og tilvonandi forseti Bandaríkjanna með því að grípa í píkuna á þér. Ég bara lærði jafnóðum hvernig best væri að bregðast við gömlu, sveittu og ógeðslegu köllunum. Útlit þeirra hef ég eflaust afbakað í huga mínum við þessar endurminningar, þetta voru auðvitað bara venjulegir karlmenn, Nonni frændi og Kjartan vinur hans, eða eitthvað svoleiðis. 

„Hvenær eigum við svo að fara inn í bílinn minn og ríða?“

Þetta var til dæmis útbrenndi kallinn sem var nýkominn úr meðferð. Hann hafði fengið vinnu við að baka pitsur og ég, ekki nema rúmlega 15 ára gömul, var vaktstjórinn hans. Við vorum bara tvö á vakt þegar hann sagði: „Hvenær eigum við svo að fara inn í bílinn minn og ríða?“ Ég kláraði vaktina mína hálfskjálfandi en í þetta skiptið hafði ég vit á því að segja yfirmönnum mínum frá þessu og var hann fjarlægður af minni vakt. Ég hafði jú sjálfsvirðingu og vissi að svona talaði maður ekki við samstarfsfélaga, hvað þá yfirmanninn sinn.

Svo var það gamli endurskoðandinn sem borðaði oft á fína veitingastaðnum þar sem ég starfaði sem þjónn í nokkur ár.  Hann pantaði sér villibráð. Át hana af kappi, skolaði niður með rauðvíni og drakk svo Contreau í eftirrétt. Gekk svo til mín og vildi gera upp reikninginn. En fyrst tók hann í höndina á mér, nuddaði þumli sínum fram og til baka í lófa mínum og sagði „finnst þér þetta ekki gott?“ Mér fannst þetta ekki gott. Mér varð flökurt en ég þurfti að standa mína plikt, tók hendi mína varfærnislega til baka og hló hálfmóðursýkislega og spurði hvort hann hefði ekki notið kvöldsins, en inni í mér langaði mig að slá mig í ennið fyrir að hafa opnað fyrir mögulegt dónakallasvar. „Jú, svo er ég  kvensjúkdómalæknir, þú ættir að kíkja í heimsókn til mín, þú þarft væntanlega að fara að skella þér í fyrstu skoðunina.“ Sem var rétt. Enda ekki nema rétt rúmlega 16 ára gömul. Að tala við löggiltan endurskoðanda.

Seint mun ég svo gleyma sáluga holduga manninum sem rak eitt sinn umdeildan nektardansstað í Kópavogi. Þarna var ég orðin ansi vön þessum köllum. Ég var farin að svara fyrir mig með háði og hryssingslegum hlátri sem yfirgnæfði fyrirlitningu mína á kvenfyrirlitningu þeirra. Þeir elskuðu villibráðina, vínið og rommið sem varð auðvitað að vera kúbverskt. Ég gekk með þrjá brennandi heita, níðþunga diska fulla af villibráð, sósu og skrauti og lagði diskana fyrir framan þá. „Hvað ertu með í laun hérna, ljúfan?“, spurði holdugi maðurinn. „Nóg,“ sagði ég og hélt áfram að færa þeim blóðrauða kjötið. „Þú ættir að koma og vinna hjá mér, yrðir flott á súlunni og myndir þéna fleiri hundruð þúsunda á mánuði.“ Mér þótti það nú ekki mikill peningur fyrir sjálfsvirðingu mína. „Nei takk,“ sagði ég, „ég dansa samkvæmisdansa svo þú verður að finna einhvern annan sem er viljugri.“

Þessi maður kom mér hins vegar á óvart. Hann er sá eini af þessum ótalmörgu karlmönnum sem komu með óviðeigandi athugasemdir eða þreifingar á meðan ég var að sinna vinnu minni sem þjónn sem baðst einlæglega afsökunar. Hann kom til mín eftir matinn, valtur á fæti sökum áfengisdrykku, klappaði sér á belginn og sagðist gera sér grein fyrir því að hann hefði farið yfir strikið og honum þætti þetta leiðinlegt og bæðist afsökunar. Ég varð hissa. Mjög hissa. En spurði sjálfa mig engu að síður, ætli hann hefði boðið karlmanni betri laun fyrir sömu vinnu? Það má margt segja um kynbundinn launamun. En ef ég hefði fengið greitt álag ofan á tímakaup mitt vegna kynferðislegrar áreitni væri ég milljónamæringur í dag. Mig langar að trúa því að hlutirnir séu ekki svona í dag. Að ungar konur á vinnumarkaðinum séu valdefldar og viti að þær þurfi ekki að nota svartan húmor sem vopn gegn áreiti, eða bara til þess að komast í gegnum vaktina. Þetta var raunveruleikinn minn. Engin jafnlaunavottun hefði getað lagað þessa tilfinningalega kynbundnu skekkju, en ég veit að í dag mun ég ekki spyrja hversu mikið hærri laun karlkyns samstarfsfélagi er með, heldur hvort að fyrirtækið geti sýnt það í verki að bæði kynin fái sömu laun fyrir sömu vinnu. Þetta er ekki vandamál kvenna. Þetta er vandamál samfélagsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu og málsmeðferð í samræmi við lög

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni