Flækjusagan

FBI í sviðsljósinu: Stofnað af náfrænda Napóleons Frakkakeisara

Illugi Jökulsson rekur fáein atriði úr sögu FBI sem komist hefur í sviðsljósið eftir að Donald Trump rak forstjórann James Comey

Bandaríska alríkislögreglan hefur aldeilis komist í sviðsljósið upp á síðkastið.

Fyrst var James Comey forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI sakaður um að hafa óeðlileg afskipti af forsetakosningunum í fyrrahaust með því að gefa - viljandi eða óviljandi - undir fótinn þeim fullyrðingum að Hillary Clinton hefði aðhafst eitthvað ólöglegt í sambandi við margfræga tölvupósta sína.

En nú hefur Donald Trump forseti, sá sem naut góðs af afskiptum Comeys, rekið hann þegar hann er farinn að hnusa of mikið af Rússlandstengslum hins nýja forseta og aðstoðarmanna hans.

Saga FBI er orðið býsna löng, því stofnunin var sett á fót 1908.

En feril upphafsmannsins má þó rekja lengra aftur í tímann.

Í byrjun nítjándu aldar var Napóleon Bonaparte orðinn keisari Frakklands. Og þykir Donald Trump vera slæmur í klíkuskap og frændhygli, þá komst hann ekki í hálfkvisti við Napóleon. Þegar hann hafði náð yfirráðum í mestallri Evrópu gerði hann bræður sína flesta að kóngum eða furstum hingað og þangað um Evrópu. 

Elizabeth Patterson þótti margra manna makiog var því máluð svo.

Yngsti bróðir Napóleons hét Jerome og var 15 árum yngri en stóri bróðir. Hann hafði lítinn áhuga á brölti bróður síns og hélt til Bandaríkjanna þar sem hann varð ástfanginn af kynósa bandarískri konu sem Elizabeth hét Patterson. Þau giftu sig 1803.

Napóleon brjálaðist þegar hann frétti þetta. Hann var enginn mannþekkjari, sérstaklega ekki hvað systkini sín varðaði, og hafði ímyndað sér að Jerome yrði honum vel brúklegur í valdataflinu í Evrópu og hafði því ætlað honum að kvænast einhverri vel ættaðri prinsessu.

Jerome féllst um síðir á að koma til Frakklands og kynna brúðina fyrir stóra bróður. Hann hélt að persónutöfrar Elizabeth myndu bræða hjarta Napóleons.

Jerome Napoleonungur og fagur.

Ekki reyndi á það, því Elizabeth var bannað að stíga á land þegar skip þeirra hjóna kom til Frakklands haustið 1804. Jerome hélt á fund Napóleons en honum varð ekki þokað. Elizabeth fór til Englands og fæddi þar soninn Jerome-Napoleon í júlí 1805.

Jerome lét stóra bróður hins vegar líðast að ógilda hjónaband þeirra Elizabeth með hjálp páfadulu í Róm og hann hlýddi Napóleon í einu og öllu upp frá því. Árið 1807 gekk hann að eiga prinsessuna Katrínu af Württemberg og þau urðu síðan konungshjón í nýju ríki sem Napóleon lét koma á laggirnar, konungdæminu Vestfalíu.

Það átti að verða miðpunkturinn í því neti leppríkja sem Napóleon ætlaði að koma á fót í Þýskalandi og áttu að styrkja yfirráð Frakka yfir svæðinu.

Gallinn var sá - eins og segir á einum stað! - að „Jerome var hégómlegur bjáni, grunnfærinn og hæfileikalaus. Og hann reyndist alveg óhæfur stjórnandi í ríki sínu. Hann var svo eyðslusamur og bruðlaði svo miklu fé í fínerí og prjál hvers konar við hirð sína í Vestfalíu að Napóleon blöskraði fljótlega og neitaði að borga reikninga bróður síns.

Þegar Jerome fór með Napóleon í herferðina misheppnuðu til Rússlands 1812 hafði Jerome meiri áhuga á að föruneyti hans yrði sem glæsilegast og ævinlega voru til reiðu dýrindis vín og munaðarréttir heldur en að standa sig á vígvellinum - enda hvarf hann þaðan fljótlega með skömm“.

Jerome Napoleonekki svo ungur og ekki svo fagur.

Jerome hrökklaðist frá völdum í Vestfalíu um leið og veldi Napóleons í Evrópu hrundi. Hann bjó þá lengi á Ítalíu, lengst af undir verndarvæng og á kostnað tengdaföður síns, furstans í Württemberg.

Hann endaði svo sem umsjónarmaður Les Invaldies, þeirrar húsaþyrpingar í París sem geymir meðal annars gröf Napóleons bróður hans. Í raun má næstum segja að hann hafi verið húsvörður. Það voru hlægileg örlög fyrir hinn dýrkeypta Vestfalíukóng.

Elizabeth hafði, eins og lesendur muna, eignast son á Englandi 1805. Hún fór svo til Bandaríkjanna þar sem hún gerði út á þokka sinn og efnislitla kjóla, að því er sagt var, lifði hátt og skemmti sér vel. Ekki þurfti hún að vinna fyrir sér því faðir hennar var forríkur.

Alltaf gerði Elizabeth sem mest úr tengslum sínum við keisaraætt Frakklands, þótt Napóleon mætti ekki heyra á hana minnst.

Hún fór oft í Evrópureisur og einu sinni mun það hafa gerst á listasafni í París, löngu eftir að Napóleon hafði verið hrakinn frá völdum, að hún rakst á fyrrum eiginmann sinn Jerome og hans frú Katrínu.

Þeim mun báðum hafa hnykkt við en skiptust ekki á orðum. Á leiðinni út sagði Jerome við Katrínu: „Þetta var ameríska konan mín.“

Jerome-Napoleone BonaparteHann var nú víst reyndar alltaf kallaður bara „Bo“.

Jerome-Napoleon sonur Jeromes og Elizabeth varð stórbóndi og mektarmaður í Bandaríkjunum, yfirstéttarjaxl sem studdi Suðurríkin ákaft í borgarastríðinu. 

Hann átti tvo sonu. Sá eldri gekk í herinn en fluttist svo til Frakklands og gekk í franska herinn en hrökklaðist heim eftir að Frakkar töpuðu gegn Þjóðverjum í stríðinu 1870-71.

Sá yngri hét Charles Joseph Bonaparte og fæddist 1851. Hann lærði lög og kom víða við sögu í embættismannakerfi og stofnunum áratugum saman. Ólíkt föður sínum þótti hann framfarasinnaður og frjálslyndur á þeirra tíma vísu. Hann átti til dæmis þátt í að stofna athvarf fyrir svarta fyrrverandi þræla sem víða voru vegalausir.

Slíkt var ekki algengt af Suðurríkjamönnum af hans sauðahúsi.

Bonaparte var flotamálaráðherra í ríkisstjórn Theodore Roosevelts Bandaríkjaforseta 1905 en ári seinna færði Roosevelt hann yfir í dómsmálaráðuneytið.

Sem dómsmálaráðherra Roosevelts átti Bonaparte mikinn þátt í margvíslegum aðgerðum forsetans gegn hringamyndun og einokun stórfyrirtækja. Einkum beitti hann sér gegn tóbakseinokun og fékk viðurnefndið „Charlie bófabani“.

Og meðal þess sem Bonaparte gerði var að stofna sérstaka alríkislögreglu árið 1908. Mismunandi lög og reglur í hinum ýmsu ríkjum Bandaríkjanna höfðu löngum gert laganna vörðum erfitt fyrir en þessari alríkislögreglu var ætlað að starfa þvert á sýslumörk.

Stofnunin var nefnd Bureau of Investigation eða Rannsóknarskrifstofan, en 1935 fékk hún heitið Federal Bureau of Investigation, eða Alríkisrannsóknarskrifstofan - til að hnykkja á hlutverki hennar.

Eftir að Charles J. Bonaparte lét af störfum sem dómsmálaráðherra, þegar ríkisstjórn Roosevelts fór frá í byrjun árs 1909, settist hann í helgan stein og lést 1921. Hann átti enga afkomendur, en bróðir hans herforinginn átti hins börn og buru og þannig hefur Bonaparte-ættin viðhaldist í Bandaríkjunum. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins