Pistill

Eru erlendir dýraníðingar í lagi?

Hvað ef við hefðum vitað allan tímann að það væri verið að fara illa með hænunar en eggin væru bara betri eða ódýrari? Hefði þetta þá verið í lagi?

Nú eru allir PC (politically correct) og ástunda sína pólitísku rétthugsun, og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum. Við kepptumst við að rakka niður Brúnegg í desember enda er algjörlega ömurlegt að fyrirtæki skuli fara illa með hænurnar sínar en selja okkur eggin með þeim formerkjum að það sé verið að fara betur með þær en hænur í öðrum hænsnabúum. En hvað ef við hefðum vitað allan tímann að það væri verið að fara illa með hænunar en eggin væru bara betri eða ódýrari? Hefði þetta þá verið í lagi?

Ég sat um daginn með manneskju að ræða daginn og veginn og meðal annars jós hún óánægju sinni með Brúnegg yfir mig. Enda hafði hún farið með þau fimm egg sem hún átti heima í verslunina og skilað þeim til að fá önnur egg í staðinn. Póstað því á samfélagsmiðlum ásamt mynd af sér í versluninni. Þetta var svo sem allt skiljanlegt enda hafði hún keypt eggin á röngum forsendum.

Næsta umræðuefni okkar var að hún var að koma frá París og hafði að sjálfsögðu keypt sér smá foie gras. Enda er ekkert betra en gott foie gras. Einnig barst umræðan yfir í að verð á kjúklingi væri of hátt á Íslandi miðað við í Bandaríkjunum og þar á eftir sagði hún mér frá dúnúlpunni sem hún keypti á Ali Express.

Eða má reyta endur og gæsir í Kína lifandi á nokkurra mánaða fresti til að búa til dúnúlpur svo við getum spókað okkur í bænum í fínum fötum á lægra verði?

Var málið að eggin frá Brúneggjum voru kannski ekkert betri en önnur egg, þannig að það var ekkert mál að skipta þeim út? Við þurftum sjálf ekki að fórna neinu. En ef við ætlum að hætta að borða foie gras, þá getum við ekki skipt yfir í aðra vöru þar sem betur er farið með gæsirnar. Bændurnir í Frakklandi troða matnum ofan í gæsirnar með priki til að fita þær nógu mikið svo kæfan verði góð á bragðið. Er kannski bara í lagi að fara illa með franskar gæsir en ekki íslenskar hænur? Er það málið? Má fara illa með dýr ef það eykur gæðin á matnum eða lækkar á honum verðið? Er í lagi að kjúklingabúin í Bandaríkjunum sópi þúsundum kjúklinga með vélsópum ofan í trektir til slátrunar í verksmiðjum til að lækka verðið á kjúklingum? Eða má reyta endur og gæsir í Kína lifandi á nokkurra mánaða fresti til að búa til dúnúlpur svo við getum spókað okkur í bænum í fínum fötum á lægra verði? Má fara illa með dýr í öðrum löndum þó það megi ekki á Íslandi? Má menga allan heiminn með verksmiðjum í Kína til að auka kaupmátt okkar hérna megin á hnettinum? Eða vantar bara meiri umfjöllun og þyrfti kannski að senda Kastljós til Kína og Frakklands?

Ég var pínu ringlaður eftir samtalið sem barst svo yfir í umhverfismál og flokkun á rusli. Hjóla í vinnuna og plastið sem er að drepa allt líf í sjónum. Allt þarft umræðuefni. En á meðan við töluðum saman var drukkinn kaldur latte kaffidrykkur sem fluttur er til landsins tilbúinn í plastflösku frá frægasta kaffimerki í heimi. Ég gerðist þá svo djarfur og spurði: Af hverju drekkurðu þennan drykk sem býr til svo mikla mengun við að flytja hann til landsins og er þar að auki úr plastflösku? Veistu hvernig er farið með kýrnar á búinu þaðan sem mjólkin er sem er í þessum drykk? Og svo spurði ég hvort hún vissi hvernig farið er með fólkið sem tínir kaffibaunirnar sem notaðar eru til að búa til kaffið? Og hversu mikil mengun verður til við að flytja baunirnar til Bandaríkjanna?

Hún leit þá á mig einfaldlega og sagði: Þessi er bara bestur á bragðið.

Svona erum við flest. Við erum til í að tala endalaust um hverju þarf að breyta í heiminum. En við erum ekki til í að breyta neinu ef við þurfum að fórna þægindum, aðgangi að betri vöru eða lægra verði. Við erum bara til í að bæta umhverfi okkar ef við þurfum ekki að leggja neitt af mörkum sjálf. Nú er ég ekki að dæma neina hegðun heldur bara velta fyrir mér innihaldslausu pólitískt réttu tali á samfélagsmiðlum. Skoðun hentiseminnar og því hvað er vinsælt að tala um hverju sinni. Ég er ekkert betri enda nota ég fjarstýrða mús og sit í flugvél að skrifa þessi orð.

Ég er í sjálfu sér ekki að dæma hvað sé rétt og hvað rangt. Er í lagi að búa til foie gras eins og franskir bændur hafa gert í mörg hundruð ár eða ekki? Má rota kópa á Grænlandi eða drepa grindhvali í Færeyjum? Eða erum við bara alltaf að hugsa um eigið skinn og hvernig við lítum út út á við?

Það var ekkert mál að hætta að kaupa Brúnegg. Það var vegna þess að næsta tegund var í rauninni alveg eins á bragðið. Kostaði svipað eða minna og fæst á sömu stöðunum. Ég er PC og hætti í Brúneggjunum. En er ég til í að fórna mér og kaupa dúnúlpu úr æðardún í stað ódýru úlpunnar frá Kína? Er ég til í að hætta að borða foie gras? Er ég til í að hefja bíllausan lífsstíl? Það verður erfiðara.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Mest lesið í vikunni

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um heilbrigðismál

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Rannsókn

Engeyingarnir fengu tveggja milljarða kúlulán til að eignast N1

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Einum vísað af lista Sjálfstæðisflokksins