Pistill

Er nýr formaður VR popúlisti?

Illugi Jökulsson varar við því að allir, sem leitast við að bæta kjör almennings utan raða hefðbundinna stjórnmálaflokka, séu kallaðir popúlistar.

Ragnar Þór Ingólfsson Nýr formaður VR. Mynd: Dögun

Greindur og gegn maður, margfróður um stjórnmál og samfélag, sagði á Facebook í fyrradag að í kosningu til formanns VR hefði Ólafía Rafnsdóttir tapað fyrir „popúlista“ og átti þar við Ragnar Þór Ingólfsson. Þetta orðfæri vakti nokkra athygli og gagnrýni, og sá sem orðið lét falla – Gísli Gunnarsson sagnfræðingur – bar að lokum í bætifláka fyrir orðaval sitt með því að halda því fram að orðið popúlisti væri í sjálfu sér alls ekki hnjóðsyrði. Sígild merking þess væri að popúlisti væri sá „sem hefur þann sið helstan að gagnrýna sem flest [það] sem óvinsælt er talið og stofnanir, ríki eða voldug samtök eru sögð bera ábyrgð á“.

Þessi skilgreining vakti mér nokkurt hugarangur, verð ég að segja, bæði almennt en einnig persónulega. Nú hef ég í áratugi skrifað og flutt með ýmsum hætti pistla um hitt og þetta í samfélaginu og viðurkenni fúslega að ég legg mig fram um að gagnrýna það sem mér þykir betur mega fara, til dæmis margt sem ég sé ekki betur en stofnanir, ríki eða voldug samtök beri ábyrgð á. Ef ég færi nú í framboð til að fylgja eftir minni samfélagsgagnrýni, myndi þá Gísli Gunnarsson sjálfkrafa flokka mig sem popúlista?

Það þætti mér satt að segja heldur súrt í brotið, því hvað sem Gísli kýs nú að segja, þá hefur orðið popúlisti svo sannarlega yfirleitt verið notað mönnum til hnjóðs en ekki hróss.

Enda sést það reyndar berlega af orðalagi Gísla sjálfs þar sem hann segir heldur yfirlætislega að popúlistar „hafi þann sið helstan“ að gagnrýna það sem „óvinsælt er talið“ og yfirvöld hvers konar „eru sögð“ bera ábyrgð á.

Auðvitað er orðið popúlisti skelfilega neikvætt, því er ekki að neita, samanber að algengasta íslenska þýðing orðsins er „lýðskrumari“. Vitaskuld má deila um hvort sú þýðing er „rétt“ eða ekki, en hún er þó (hvað sem hver segir) sú sem best nær merkingu orðsins popúlisti.

En hvers vegna kallar Gísli – sem er grandvar maður og hógvær í orðum – hvers vegna kallar hann Ragnar Þór popúlista?

Nú tek ég skýrt fram að ég veit ekkert um innri málefni VR og fylgdist ekkert með kosningabaráttu þar. Ég þekki hvorki Ólafíu né Ragnar Þór og veit ekkert um frammistöðu þeirra í lífinu fram að þessu. Ég hef ekki einu sinni hitt þau, svo ég muni til. Og það er kannski rétt að taka fram líka að á einu helsta áhugamáli Ragnars – sem mun vera afnám verðtryggingar – hefur mér alltaf gengið bölvanlega að hafa skoðun. Yfirleitt er ég bara sammála síðasta ræðumanni í því efni. Það er því ekki þess vegna sem ég hneigist til að skjóta fyrir hann skildi.

En hann hefur í mörg ár – já, alveg ansi mörg ár – haldið uppi miklum blaða- og pistlaskrifum sem í hefur falist andóf gegn fjármálaelítu, spilltri verkalýðshreyfingu, ógegnsæi í lífeyriskerfi og svo framvegis.

En þegar hann sér tækifæri til að GERA EITTHVAÐ þá fær hann sem sagt „nafnbótina“ popúlisti. Og þá fara menn líka allt í einu að hafa þungar áhyggjur af slæmri kjörsókn (sem var þó aðeins nokkrum prósentum minni en þegar Ólafía var kjörin) og hvort hann hafi þá í rauninni „sterkt umboð“ eins og greinilega var dregið í efa í fúllyndislegri klausu í Fréttablaðinu í gær.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af framgangi popúlista í heimi hér. Óánægja almennings með þá elítu, sem gerir í rauninni ekki annað – leynt eða ljóst, vitandi eða óvitandi – en að hlaða undir EINA PRÓSENTIÐ, sú óánægja getur orðið svo megn að fólk verður helst til auðveld bráð fyrir sannkallaða og jafnvel hættulega lýðskrumara.

En þegar menn, sem skrifa kurteislegar greinar í blöð og mættu öðru hvoru í Silfur Egils hér í eina tíð og vinna svo lágstemmda og prúðmannlega kosningabaráttu í verkalýðsfélagi, þegar slíkir menn fá framan í sig slettuna „popúlistar“ þá eru þeir sem slíku sletta bara að spila upp í hendurnar á raunverulegum popúlistum.

Það gera þeir með því að sýna yfirlæti og hroka og tilhneigingu til að slá saman í einn ófagran popúlistasöfnuð öllum þeim sem hafa áhuga á að bæta kjör almennings með því að beita kannski svolítið öðrum ráðum en BARA innan staðnaðra stjórnmálaflokka.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN