Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

„Ég hef því ákveðið að segja mig úr Bjartri framtíð“

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður, útskýrir hvers vegna hann hefur sagt sig úr Bjartri framtíð.

Páll Valur Björnsson Varð talsmaður barna á Alþingi. Mynd: Pressphotos

Ég tók þátt í Bjartri framtíð vegna þess að flokkurinn ætlaði að leggja höfuðáherslu á jöfn tækifæri fólks, standa vörð um almannahagsmuni og berjast gegn forréttindum, sérhagsmunagæslu og spillingu. Flokkurinn boðaði ný stjórnmál, minna fúsk, meira samráð þvert á flokka, kerfisbreytingar, róttæka mannréttindabaráttu og dökkgrænar áherslur í náttúruvernd og umhverfismálum. Síðast en ekki síst vildi flokkurinn landa góðum samningi við ESB sem þjóðin gæti kosið um og samþykkt eftir upplýsta umræðu og taldi það sigurstranglegustu leiðina í átt að efnahagslegum stöðugleika. 

Vegna alls þessa var ég algerlega andsnúinn því að Björt framtíð myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokknum sem að mínu mati er gegnsýrður af sérhagsmunagæslu og spillingu. Ég er líka sannfærður um að undir stjórn Sjálfstæðisflokksins verða aldrei verulegar breytingar til hins betra í þessum málum sem Björt framtíð ætlaði að leggja sérstaka áherslu á. Ég var (eins og allir vita) ekki sáttur við þá ákvörðun að líma Bjarta framtíð við Viðreisn í stjórnarmyndunarviðræðunum; flokk sem er leiddur af fólki sem hefur verið árum saman í hagsmunagæslu fyrir stór-atvinnurekendur. Það var gert án nokkurs samráðs við bakland eða a.m.k. án alls samráðs við þá oddvita flokksins sem ekki náðu kjöri í kosningunum. Það sem hefur gerst eftir þessa stjórnarmyndun hefur ekki dregið úr þessum efasemdum mínum og áhyggjum, nema síður sé. 

Rannsóknir sýna að fleiri þúsund börn hér á landi búa við fátækt og fara á mis við margvísleg tækifæri þess vegna. Þegar Björt framtíð ætlar ekki að styðja fumvarp sem lagt er fram af talsmönnum barna á Alþingi um ritfangakostnað sem er augljóslega afar mikilvægur þáttur í að jafna tækifæri barna til náms og þar með tækifæri þeirra í lífinu öllu, tekur steininn úr. Það er erfitt að hugsa sér mál sem snýst skýrar um jöfn tækifæri en þetta mál. Þetta er sama frumvarp og ég lagði fram í ágúst á síðasta ári og allir þáverandi þingmenn Bjartrar framtíðar voru meðflutningsmenn.  

Ég sagði á stjórnarfundi Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði í haust að ég vonaðist eftir að geta átt samleið með flokknum, þrátt fyrir þá atburðarrás sem þá var farin í gang varðandi þátttöku í núverandi ríkisstjórn. En því miður hefur sú ósk mín ekki ræst og ég sé ekki að ég eigi lengur samleið með flokknum á þeirri leið sem hann er (ég á raunar eins og margir aðrir mjög erfitt með að átta mig á hvert flokkurinn stefnir og fyrir hvað hann stendur).

Ég hef því ákveðið að segja mig úr Bjartri framtíð.

Ég nefni þessi mál að framan sérstaklega en þau eru þó ekki einu málin sem hafa leitt til þess að mér finnst ég ekki lengur eiga samleið með flokknum og átta mig illa á hvert hann er að fara. Ég vil þar nefna sérstaklega t.d. eftirgjöfina hvað varðar breytingar á kvótakerfinu til að tryggja sanngjarnan hlut þjóðarinnar í arðinum af þessari dýrmætu eign hennar. Eins undansláttinn í Evrópusambandsmálinu en það mál snýst að mínu mati alls ekki bara um efnahag, tolla o.þ.h. og tækifæri til að losna við ónýta krónu sem sligar sérstaklega þann hluta þjóðarinnar sem hefur lágar tekjur og burðast með húsnæðisskuldir alla ævina. Að mínu mati hefur nefnilega aldrei verið mikilvægara að vera í Evrópusambandinu en nú því að eins og allir vita þá grundvallast sambandið á friði og samvinnu þjóða og vernd grundvallar-mannréttinda. Ekki síst segi ég þetta í ljósi ástandsins í heimsmálum og núverandi stjórnarfars í Bandaríkjunum, Kína, Rússandi, Tyrklandi og ófriðar í mörgum arabalöndum og víðar. 

Ég gæti hæglega nefnt fleira sem hefur gert það að verkum að ég sé mig knúinn til að segja skilið við Bjarta framtíð en læt það eiga sig.  

„Ég get því ekki stutt það sem flokkurinn hefur gert að undanförnu og ætlar að gera í samstarfi við tvo flokka sem mér finnst vera allt of tengdir sérhagsmunaöflum“

Ég er mjög leiður yfir því að þurfa að yfirgefa Bjarta framtíð en ég verð að gera það vegna sannfæringar minnar og skoðana í mjög mikilvægum samfélagsmálum. Ég lít svo á að stjórmál eigi að snúast um almannahagsmuni, jöfn tækifæri og réttlæti. Ég get því ekki stutt það sem flokkurinn hefur gert að undanförnu og ætlar að gera í samstarfi við tvo flokka sem mér finnst vera allt of tengdir sérhagsmunaöflum sem eru að mínu mati allt of valdamikil í íslensku samfélagi.

Í Bjartri framtíð hef ég kynnst og fengið að starfa með mjög mörgu góðu fólki. Fólki sem hefur kennt mér mikið og mun alltaf eiga stað í hjarta mínu og ég vona að ég muni eiga sem vini alla tíð. Ég þakka ykkur öllum af einlægni fyrir samstarfið og óska Bjartri framtíð gæfu og góðs gengis. 

Lifið heil 

Páll Valur Björnsson

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“