Flækjusagan

Eftirlætis leikkona Hitlers var njósnari Stalíns

Leyndarmál 20. aldar eru enn að koma fram í dagsljósið eins og Illugi Jökulsson rekur hér

Jósef Stalín, Marika Rökk, Adolf Hitler - hún lék í myndum fyrir Hitler en njósnari fyrir Stalín.

Adolf Hitler einræðisherra Þýskalands var kvikmyndaunnandi. Fátt fannst foringjanum notalegra en slappa af eftir viðburðaríkan daga yfir skemmtilegri bíómynd. Hann hafði ekki mjög „þungan“ smekk. Léttar gamanmyndir og ævintýramyndir ýmiss konar voru uppáhaldið hans.

Og meðal þeirra leikara sem Hitler hafði í mestum metum var leikkona ein sem hét Marika Rökk. Hún var raunar ungverskrar ættar, eins og nafnið bendir til, en hafði náð miklum frama í Þýskalandi á fjórða áratugnum.

Lengst af þótti Marika ekki vera mjög djúp eða dramatísk leikkona, en hún hafði þónokkra og glaðlega áru. Hún þótti viðkunnanleg og jafnvel býsna hrífandi bæði á sviði og á hvíta tjaldinu. Best lét henni að leika í dans- og söngvamyndum eða jafnvel óperettum, enda hafði hún fína söngrödd.

Og lipran dansfót.

Og Hitler kunni sem sé mjög vel að meta hana og sóttist eftir að horfa á allar nýjar myndir sem hún lék í.

Á safni í Berlín er til kort sem Marika skrifaði foringjanum í nóvember 1940 þar sem hún þakkaði honum ástsamlega fyrir blómvönd sem hann hafði þá sent henni.

Auk Hitlers hafði Joseph Goebbels áróðursmálaráðherra foringjans einnig sérstakt dálæti á Mariku og hún er talin hafa verið ástkona hans um skeið.

Joseph Goebbels elskaði þrennt: hávaxnar, ljóshærðar konur; kvikmyndir, og Adolf Hitler.

Goebbels var ævinlega mjög fjölþreifinn til kvenna eftir að hann komst í valdastöðu og gat farið að nota sér hana til að fanga konur í net sín.

Nema hvað - leyndarmál 20. aldar eru enn að tínast fram í dagsljósið. Í dag var upplýst að Marika Rökk, þessi eftirlætisleikkona Adolfs Hitlers í síðari heimsstyrjöld, hafi í rauninni verið sovéskur njósnari.

Marika var sem fyrr segir ungversk en hún fæddist raunar í Kaíró í Egiftalandi árið 1913. Faðir hennar var arkitekt og byggingameistari sem þar var þá við störf.

Fjölskyldan flutti fljótlega til Búdapest en árið 1924 flutti hin 11 ára Marika með foreldrum sínum til Parísar. Þar byrjaði hún að syngja og dansa og var viðloðandi Moulin Rouge-skemmtistaðinn fræga, Rauðu mylluna.

Hún fór til Ameríku þar sem hún hélt áfram að nema dans og söng og leiklist en sneri til Evrópu 1929 og lék skömmu síðar í sinni fyrstu kvikmynd, bresk var sú mynd.

Upp úr 1930 var þýska kvikmyndafyrirtækið UFA með mikil plön á prjónunum um að vera álíka miðstöð evrópskrar kvikmyndagerðar og Hollywood var í Bandaríkjunum. Þær fyrirætlanir efldust bara þegar nasistar náðu völdum í Þýskalandi, enda vildu nasistar ekki vera eftirbátar Bandaríkjamanna - auk þess sem Hitler, Goebbels og fleiri forkólfar nasistar voru einfaldlega miklir aðdáendur þeirrar gerðar kvikmynda sem Hollywood var þá að sérhæfa sig í.

Árið 1934 komst Marika Rökk á fastan samning hjá UFA og lét síðan í fjölda kvikmynda. Hún var mjög vinsæl, eins og sjá má af yndi því sem Hitler og Goebbels höfðu af henni, en myndirnar sem hún lék í eru nú gleymdar bæði og grafnar - enda voru þær svo sem aldrei líklegar til að lifa lengi.

Árið 1940 lék hún þó í mynd, sem gaf til kynna að ef til vill hefði hún breiðari og dýpri hæfileika en henni hafði fram að því auðnast að sýna. Georg Jacoby leikstýrði myndinni, sem hét Kora Terry, og þar lék Marika tvíbura og er annar „góður“ en hinn „vondur“ eins og vænta mátti.

Áfram lék hún þó fyrst og fremst í dans- og söngvamyndum, sem Þjóðverjar héldu áfram að gera, nánast fram á síðasta dag í stríðinu, og sumum þeirra leikstýrði Jacoby sem varð brátt eiginmaður hennar.

Marika Rökk í myndinni Hab mich lieb frá 1942.

Eftir stríðið var hún yfirheyrð af Bandamönnum vegna tengsla sinna við kvikmyndaiðnað nasista og var bannað að vinna í tvö ár í refsingarskyni fyrir að hafa leikið í að minnsta kosti einni mynd, sem ekki varð kölluð annað en hreinræktuð áróðursmynd fyrir nasista.

En síðan tók hún aftur til starfa og varð vel metin og vinsæl á ný, aðallega í Vestur-Þýskalandi og Austurríki. Hún lék í þó nokkrum kvikmyndum en tilkynnti þó óvænt árið 1951 að hún væri hætt kvikmyndaleik og ætlaði að helga sig verslunarrekstri. Minna varð úr því en til stóð og hún lék lengi í bíómyndum og söng og lék í óperettum næstu áratugi.

 Síðast kom hún fram á ópettusviði árið 1986. Hún lést 2004.

En nú er sem sagt komið í ljós að hún var ekki öll þar sem hún var séð.

Hún var njósnari fyrir sovésku leyniþjónustuna á stríðsárunum og er talið víst að hún hafi verið ráðin til þeirra starfa af Heinz Hoffmeister sem var umboðsmaður hennar og - að því er löngu síðar kom í ljós - njósnari fyrir Sovétmenn.

Talið er að Jacoby, eiginmaður hennar, hafi einnig gerst njósnari fyrir Sovétríkin.

Ekki er alveg á hreinu hvers konar upplýsingar Marika gat fært Stalín, en hún þekkti náttúrlega fjölda manns í efri stéttum þýsks þjóðfélags á stríðsárunum og hefur vafalítið heyrt og séð ýmislegt.

Meðal aðdáenda hennar voru herforingjar og embættismenn sem eflaust hafa látið hitt og þetta flakka í spjalli við hana, til þess að reyna að ganga í augun á henni og gera henni ljóst hvað þeir væru mikilvægir menn.

Skriðdrekaorrustan við Kúrsk var ein sú harðasta í seinni heimsstyrjöld. Hryllingurinn þar var órafjarri þeim óperettuheimi sem Marika Rökk hrærðist í. En vera má að hún hafi haft sitt að segja - þótt í smáu væri - um úrslitin.

Hún var hluti af njósnahring sem kallaðist Krona og því stýrði ævintýramaðurinn Yan Chernyak, sem færði Stalín mikilvægar upplýsingar til dæmis um undirbúning innrásar Þýskalands í Sovétríkin 1941.

Því miður trúði Stalín þeim upplýsingum þó ekki. Það traust sem Stalín hafði á orðum Hitlers olli dauða milljóna manna, þegar innrásin hófst - rétt eins og fjöldi njósnara hafði varað við, en Stalín vísaði á bug.

Upplýsingar sem Krona-hringurinn færði Sovétmönnum 1943 um viðbúnað Þjóðverja fyrir mikla sókn við borgina Kursk komu að meiri notum, og kunna að hafa skipt verulegu máli, en Sovétmenn hrintu árás Þjóðverja við borgina og eftir það má segja að sigur Þjóðverja hafi verið úr sögunni í styrjöldinni.

Árið 1951 komst vestur-þýska leyniþjónustan að því að Marika Rökk hefði að líkindum verið í tengslum við sovésku leyniþjónustuna á stríðsárunum, og væri það kannski enn.

Hún þvertók þó fyrir að vera á snærum Stalíns og boðaði þá að hún væri hætt að leika, en vék síðar frá þeirri ákvörðun eins og áður sagði.

Vestur-þýska leyniþjónustan taldi að hún hefði ætlað að þyrla upp fjaðrafoki til að breiða yfir að hún ætlaði áfram að starfa fyrir Sovétríkin, en þá er reyndar vandséð að hún hafi getað útvegað Stalín mjög mikilvægar upplýsingar.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Víðir bóndi í stríði gegn laxeldinu: „Hrafninn eyðilagði hér 80 rúllur“

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“