Flækjusagan

Ef eldri systkini Adolfs hefðu ekki dáið

Illugi Jökulsson daðrar við gamalt uppáhald, hjásöguna eða „hvað ef“ mannkynssöguna

Adolf Hitler - Jafnvel þessi skelfilegi maður var eitt sinn lítið snoturt barn sem vakti einskæra ást í brjósti móður sinnar. Klara unni hinum langþráða Adolf ofurheitt enda hafði hun misst þrjú börn áður en hann fæddist. Milli Adolfs og Alois var hins vegar alla tíð erfitt samband og karlinn barði son sinn eins og harðfisk fyrir minnstu yfirsjónir.

Adolf Hitler er mikið „uppáhald“ hjá þeim sem eru veikir fyrir hjásögu, eða „hvað ef“ sögu. Það eru hugleiðingar um það hefði hefði getað gerst en ekki það sem gerðist í raun og veru.

Það er að segja: Hverju hefði það breytt í sögunni ef einhverjir atburðir - gjarnan þeir sem ekki virkuðu stórvægilegir á sínum tíma - hefðu þróast öðruvísi en raunin varð.

„Við minnumst Ingólfs Arnarsonar í veislum / en óskum þess að skipið hans / það hefði sokkið,“ söng Megas og lék sér að þeirri hugmynd að bara ef skip Ingólfs hefði farist á leiðinni til Íslands, þá hefði Ísland alls ekki byggst.

Það er auðvitað fráleitt, þótt hugmyndin sé skemmtileg, en mörg raunveruleg dæmi má búa til um smávægilega atburði, sem hefðu vissulega getað breytt miklu.

Um daginn var ég til dæmis í flækjusögugrein í Stundinni að velta fyrir mér hverju það hefði breytt ef munkurinn Raspútín hefði ekki náð algjöru trausti rússnesku keisarafjölskyldunnar - og stappað í hana stálinu að láta hvergi undan kröfum um umbætur og aukið lýðræði.

Ef Nikulás hefði gefið eftir tímanlega er nefnilega mjög ólíklegt að kommúnistar hefðu náð völdum eftir byltingu. Þar með hefðu Rússar og nýlenduþjóðir þeirra ekki þurft að þola Stalín og allan þann hrylling sem honum fylgdi.

En hjásögufræðingar eru þó semsé fyrst í essinu sínu þegar talið berst að Hitler. Ástæðan er auðvitað sú að það er sama hve menn eru sannfærðir um að efnahagslegir og félagslegir straumar ráði gangi sögunnar fremur en „sterkir einstaklingar“ - þá verður ekki hjá því komist að viðurkenna að einstaklingurinn Adolf Hitler réði með tilveru sinni og framferði ótrúlega miklu um framgang sögunnar um og upp úr miðbiki tuttugustu aldar.

Áhrif hans voru auðvitað hræðileg, en þau voru óumdeilanleg.

Því er merkilegt að velta fyrir sér hvað hefði gerst ef Hitler hefði fallið í fyrri heimsstyrjöldinni, ef kreppan mikla hefði ekki skollið á og svipt þýska kjósendur trú á lýðræðinu ... og svo framvegis.

En það má líka leita lengra aftur í tímann - til upphafs þessa voðalega manns.

Hitler fæddist í Brunau í Austurríki 20. apríl 1889. Foreldrar hans voru 51s árs tollvörður og býflugnabóndi, Alois Hitler, og húsfreyja hans og eiginkona, Klara, fædd Pölzl, 29 ára.

Adolf var svo sjálfsöruggur í framgöngu að flestir telja sjálfsagt að hann hafi verið elsta barn hjónanna.

Það var hann líka - í einum skilningi.

En í raun var Adolf samt fjórða barn þeirra.

Árið 1885 höfðu þau eignast soninn Gustav Hitler.

Ári seinna fæddist svo Ida Hitler.

Þau Gustav og Ida dóu bæði í frumbernsku veturinn 1886-1887. Banamein þeirra var svæsin hálsbólga, barnaveiki.

En 1887 fæddist Alois og Klöru þriðja barnið, Otto Hitler. Hann lifði aðeins skamma hríð eftir fæðingu.

En tveimur árum eftir fæðingu hans fæddist sem sagt Adolf og reyndist heilsuhraustari en eldri systkini hans þrjú.

Því miður, kynni einhver að segja.

Klara gerði nú fimm ára hlé á barneignum, en 1894 fæddist sonurinn Edmund Hitler. Hann dó úr mislingum fimm ára gamall. 

Yngsta barn hjónanna var Paula Hitler, sem fæddist 1896. Hún og Adolf voru einu börnin sem lifðu til fullorðinsára. Paula lifði til 1960. Hún hafði aldrei mikið samband við eldri bróður sinn einræðisherrann, en studdi hann úr fjarlægð.

En spurningin er sem sagt: Hefði Adolf orðið sá bógur sem hann óneitanlega varð ef hann hefði ekki verið elstur í systkinahópi sínum (af þeim sem lifðu), heldur hefði þurft að lúta agavaldi ekki aðeins föður síns heldur líka eldri bræðranna Gustavs og Ottos, og jafnvel Idu?

Sú staðreynd að Hitler var elstur ól kannski upp með honum þá foringjahvöt og foringjaþrá, sem réðu úrslitum um að hann varð foringi þýsku þjóðarinnar, með hræðilegum afleiðingum.

En hvað hefði orðið um hann ef Gustav og Otto hefðu lifað, vaxið úr grasi og ráðskast með hann sem litla bróður sinn?

Maður þarf ekki einu sinni að grípa til kenninga um sálræn áhrif þess hvar maður er í systkinaröðinni. Bara það að Adolf hefði verið fjórða barn í stórri fjölskyldu hefði efalaust breytt nægilega miklu í lífi fjölskyldunnar til að mannkynssagan hefði orðið önnur.

Til dæmis er ekki líklegt að Adolf hefði farið í listnám til Vínarborgar ef tveir eldri bræður og ein eldri systir hefðu verið honum þrepi framar í goggunarröð fjölskyldunnar.

Gustav hefði líklega fengið að fara til Vínarborgar eftir andlát Alois sem dó 1903.

Kannski Ottó. En Klara hefði fengið litla kútinn hann Adolf til að verða eftir heima, móður sinni til halds og trausts.

Og hvað hefði þá gerst?

Kannski hefði Adolf Hitler aldrei orðið neitt meira en beiskur og bitur tollvörður í sveitaþorpi í Austurríki?

Kvartandi og kveinandi á kránni - og setjandi sig á háan hest.

En utan þorpsins öllum óþekktur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Víðir bóndi í stríði gegn laxeldinu: „Hrafninn eyðilagði hér 80 rúllur“

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“