Pistill

Drifkraftar kapítalismans eru heillandi birtingarmyndir mannlegrar reisnar

Guðmundur Gunnarsson ber stöðuna í dag saman við stöðuna 2007–2008, eins og hún var rétt áður en hrunið skall á, og þáverandi fjármálaráðherra spurði: „Drengir, sjáið þið ekki veisluna? Þetta fólk sér ekki hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum. Það sér það bara ekki, sennilega af því að það vill það ekki.“

Pólitík og viðskipti Björgólfur Guðmundsson var stórtækur í viðskiptalífinu fyrir hrun og hló dátt með Geir Haarde og Davíð Oddssyni í afmælisveislu Davíðs. Mynd: Árvakur/Kristinn Ingvarsson

Það er vart hægt annað en að vera á varðbergi þessa dagana gagnvart ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um stjórnun efnahagsmála. Það er nefnilega æði margt í efnahagslegri stöðu samfélagsins, stöðu launamanna á neðri helmingi launastigans og svo ekki síst ummælum stjórnarþingmanna í dag sem samsamar árunum fyrir hrun.

Áratuginn frá þjóðarsáttinni árið 1990 að aldamótum voru stigin risaskref frá óðaverðbólgu til stöðugleika og aukins kaupmáttar launamanna. Launamenn tóku á sig miklar byrðar með því að sætta sig við „neikvæðar launahækkanir“ árin 1990–1994 og lögðu þar grunninn að lækkun verðbólgu niður í eins stafs tölu. Hannes Hólmsteinn gerði grín að þjóðarsátt launamanna og hefur kallað hana örstutta verðstöðvun sem ASÍ stóð fyrir.

Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hófu í lok síðustu aldar markvissar breytingar á íslensku samfélagi í anda nýfrjálshyggju. Stefna ríkisstjórna þeirra kom glöggt fram í stefnuyfirlýsingum flokkanna og var þar kynnt sem framfarasókn þjóðarinnar, „frelsisvæðing“. Þar átti að virkja framtak einstaklinga í aukinni verðmætasköpun, einkavæðingu ríkisfyrirtækja og breytingum á skattkerfinu. Skattaívilnanir áttu að hvetja almenning til þess að leggja fé í áhættufyrirtæki.

Þeir ákváðu að afnema fastgengisstefnu þjóðarsáttarinnar og gengisskráningin gefin frjáls. Seðlabankinn gerður sjálfstæður og bankarnir einkavæddir. Afleiðingarnar létu ekki standa á sér og komu meðal annars fram í gífurlegri aukningu peningamagns með hömlulausri prentun krónuseðla. Einkavæðing bankanna, frjálsir fjármagnsflutningar á milli landa, lækkun bindiskyldu bankanna ásamt gríðarlegum framkvæmdum af hálfu ríkisins, allt þetta gerði það að verkum að vextir voru miklu hærri hér á landi en erlendis. Íslenska krónan varð þannig afar spennandi fjárfestingarkostur fyrir erlenda aðila og vogunarsjóði. Fjármagn flæddi til landsins sem leiddi til enn hærra gengis íslensku krónunnar.

Fjármálastofnanir urðu að koma þessu gríðarlega mikla fjármagni í vinnu og útdeildu lánatilboðum á báða bóga. Það olli mikilli eftirspurn eftir eignum, sem varð til þess að eignir hækkuðu í verði á meðan erlendar skuldir minnkuðu vegna hás gengis krónunnar. Það liggur fyrir að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefði með aðhaldssömum fjárlögum getað komið í veg fyrir ofþenslu, en ríkisstjórnarflokkarnir fórnuðu hins vegar jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum á altari pólitískra vinsælda í aðdraganda alþingiskosninga árið 2003 og síðan allt kjörtímabilið til 2007.

Lækkun skatta í beinu framhaldi af stóriðjuframkvæmdunum fyrir austan samhliða ákvörðun um miklar samgönguframkvæmdir ásamt umtalsverðum breytingum á lánum Íbúðalánasjóðs, leiddu til margfalt meiri þenslu en þeim sem hlotist höfðu af stóriðjuframkvæmdunum á Austurlandi. Hækkun lána heimilanna vegna þessara mistaka í efnahagsstjórninni átti eftir að kosta heimilin um 20% meira en sjálf Kárahnjúkavirkjun, kom fram í ábendingum frá hagfræðingum verkalýðshreyfingarinnar. Ítrekaðar yfirlýsingar um víðtæka skattalækkun og stórfelldar áætlanir um framkvæmdir á árunum eftir 2007 voru sannarlega ekki til þess fallnar að draga úr þenslu í þjóðarbúskapnum. Samtök launamanna bentu ítrekað á að mun nær hefði verið að leggja fyrir í varasjóð ríkisins en lækka skatta, það átti sannarlega eftir að koma í ljós.

„Frelsisbyltingin“ átti hug margra og til dæmis mátti meðal annars lesa í Morgunblaðinu 16. apríl 2004: „Samstaða hefur myndast um að brýnasta framfaramál Íslendinga er að knýja fram hagræðingu og samlegðaráhrif þjóðinni til heilla. Máttur kapítalismans verður að sönnu seint skilinn til hlítar. Hann getur umbreytt heilu samfélögunum á undraskömmum tíma. Kapítalisminn er fær um að leysa úr læðingi óheftanlegan sköpunarkraft. Íslenska „frelsisbyltingin“ hefur á skömmum tíma kallað fram ný viðmið og aðrar leikreglur. Nýjar samsteypur fyrirtækja rísa enda „umbreytingarskeið“ hafið í íslensku viðskiptalífi, hagræðingarkrafan hljómar hvar sem komið er. Drifkraftar kapítalismans eru heillandi birtingarmyndir mannlegrar reisnar.“

Það má leiða að því rök að ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar, síðar Halldórs Ásgrímssonar og síðast Geirs H. Haarde hafi haft það takmarkaða yfirsýn að ráðherrarnir hafi ekki séð fyrir hvert stefndi. Frá þjóðarsáttarárinu 1990 hafði verið nánast samfelldur og ótrúlegur hagvöxtur fram til ársins 2008. Á þessum tíma jókst þjóðarframleiðslan um 77%. Þessi hraða og um leið stutta þróun íslensks samfélags upp á við hafði í för með sér að íslenska þjóðin átti auðvelt með að trúa því að henni hefði tekist að uppgötva nýjar og betri viðskiptaaðferðir sem myndi gera það að verkum að velgengnin tæki ekki enda.

„Í dag blasa við afleiðingar efnahagsstefnu frjálshyggjunnar, það er búið að eyða 1.300 milljörðum og reikningurinn er sendur unga fólkinu.“ 

Ummæli sem Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, viðhafði á Alþingi þann 17. mars 2007 eru gjarnan notuð um hið mikla andvaraleysi sem einkenndi viðhorf stjórnvalda gagnvart efnahagsmálum Íslands. „Hér er fólk að tala sem sér bara ekki til sólar, það bara sér ekki til sólar fyrir einu eða neinu ... það er augljóst að verkalýðshreyfingin sér ekki til sólar ... Ég verð að segja eins og vinur minn, Björn á Hofsstöðum, sagði: Drengir, sjáið þið ekki veisluna? Þetta fólk sér ekki hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum. Það sér það bara ekki, sennilega af því að það vill það ekki.“

Aðilar vinnumarkaðarins lögðu á árunum 2003–2007 upp í hendurnar á ríkisstjórninni mikilvægan grundvöll að ábyrgri hagstjórn, ekki bara einu sinni, heldur þrisvar sinnum á þessu tímabili. Fyrst með gerð ábyrgra kjarasamninga til fjögurra ára vorið 2004 svo tryggja mætti grundvöll jafnvægis og stöðugleika. Þetta var endurtekið í nóvember 2005 við endurskoðun kjarasamninganna, þar sem forsendur þeirra höfðu brostið vegna aðhaldsleysis ríkisstjórnarinnar. Í júní 2006 gerðu samningsaðilar vinnumarkaðar enn eina tilraunina til þess að koma böndum á verðbólguna með því að flýta endurskoðun kjarasamninga um fimm mánuði og leggja enn einu sinni grunn að efnahagsaðgerðum. Öllum þessum tækifærum glutraði ríkisstjórnin niður en hélt jafnframt áfram að kynda undir ofþenslu og verðbólgu með ekki bara aðhalds- og sinnuleysi heldur beinlínis þensluhvetjandi ákvörðunum.

Í greinargerð hagdeildar ASÍ um þróun launa og kaupmáttar á almenna vinnumarkaðnum árin 2004–2007, sem var birt í ársbyrjun 2008, kemur fram að kaupmáttur launa jókst á þessu tímabili að meðaltali um 12,7%. En jafnframt blasti við að 19% launafólks á almenna vinnumarkaðnum hafði orðið að sætta sig við umtalsverða kaupmáttarskerðingu á þessu tímabili. Ástæðan var að verðbólga tók mikinn kipp þegar fallið var frá fastgengisstefnunni og gerði meira en að þurrka út launahækkanir þess hluta launafólks sem var á lægstu töxtunum. En stjórnmálamenn studdu sig að venju við meðaltalsútreikninga.

Viðskiptahallinn árið 2006 var heimsmet og gengi íslensku krónunnar sveiflaðist um tugi prósenta. Þrátt fyrir þetta sýndi ríkisstjórnin ótrúlegt aðgerðaleysi við stjórn efnahagsmála. Hún lét ekki aðeins Seðlabankann einan um að sporna gegn ofþenslunni, heldur unnu ráðherrar ríkisstjórnarinnar einfaldlega kerfisbundið gegn stefnu Seðlabankans með þensluhvetjandi aðgerðum og breytingum á lánaskilmálum Íbúðalánasjóðs. Eina aðgerðin við að draga úr verðbólguþrýstingi var að stuðla að stórauknum innflutningi erlends vinnuafls og stuðla jafnvel að því að þeir væru teknir út fyrir sviga ákvæða kjarasamninga. Það var ljóst að að vinnumarkaðurinn var ekki undir það búinn að taka við auknum fjölda erlendra starfsmanna.

Í fálmkenndri tilraun til þess að minnka verðbólguna skömmu fyrir kosningar 2007 var gripið til þess ráðs að lækka virðisauka af matvælum. Seðlabankinn varaði við ákvörðunum ríkisstjórnarinnar ásamt OECD, Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem bentu á mótsagnakennda hagstjórn. Ríkisstjórn Íslands kynti þannig undir ofþenslu á sama tíma og Seðlabanki reyndi að sporna við henni. Staðan í efnahagsmálum varð því fullkomið klúður af hálfu ríkisstjórnarinnar. „Klúður sem allar líkur eru á að muni leiða okkur í miklar þrengingar á næstu misserum,“ sögðu hagfræðingar ASÍ í mars 2008 og áttu eftir að reynast sannspáir.

Öll vitum við hvar þetta endaði. Hér á landi varð fullkomið kerfishrun, ekki bara afleiðing erlendrar efnahagssveiflu eins og stjórnarþingmenn héldu ákaft fram í vörnum sínum. Íslenskur almenningur tapaði um 750 milljörðum og sat eftir í botnlausum skuldum eftir hrun krónunnar í október 2008. Allt að 20 þúsund íslensk heimili urðu gjaldþrota, en hinn ríki 20% hluti þjóðarinnar kom eignum úr landi með því að flytja 2.200 milljarða inn á aflandsreikninga á árunum 2004–2007(verðlag maí 2016).

Þar til viðbótar er uppdráttarsýkin sem „frelsisvæðingin“ hafði haft á innviði samfélagsins. Uppsafnaður skortur á viðhaldi og uppbyggingu í samfélagslegum eignum eins og hjúkrunarrýmum, skólakerfinu og vegakerfinu er frá aldamótum um 700 milljarðar króna. Auk þess skuldar ríkissjóður lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna um 600 milljarða.

Hafandi þessar staðreyndir uppi á borðum eru upphrópanir talsmanna síðustu ríkisstjórna um að þær hafi skilað glæsilegum árangri harla innantómar, svo ekki sé nú meira sagt. Í dag blasa við afleiðingar efnahagsstefnu frjálshyggjunnar, það er búið að eyða 1.300 milljörðum og reikningurinn er sendur unga fólkinu. Hrikalegar afleiðingar „frelsisbyltingarinnar“ raungerist í því að unga kynslóðin hefur ekki efni á því að byggja yfir sig. Skyldusparnaður lífeyrisþega er gerður upptækur. Hjúkrunarrými vantar og þannig hefur milljarða kostnaður verið fluttur yfir á ellilífeyrisþega.

„Hrunið svipti hulunni af hátterni nýfrjálshyggjunnar og við blasti sviðin jörð hvar sem hún hafði farið um.“ 

Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri Morgunblaðsins í yfir 40 ár, sagði um þetta: „Gírugir kaupmenn héldu áfram að leggja markaðinn undir sig og ljóst að engum mundi takast að hefta þá þróun. Þeir fóru um alla sjóði landsins eins og engisprettur og fluttu milljarða úr landinu eins og síðar kom í ljós. Höfðu landið raun í herkví. Stjórnmálamönnum var ógnað eða þeir settir til hliðar eins og hver önnur peð, sumir urðu lakæjar, aðrir leigupennar. Sá sem hefði reynt að sporna við þessari plágu hefði verið púaður niður eins og ástandið var.“

Hrunið svipti hulunni af hátterni nýfrjálshyggjunnar og við blasti sviðin jörð hvar sem hún hafði farið um. Nýfrjálshyggjan hafði losað sig við hina félagslegu umgjörð og hafði markvisst og bítandi haft slævandi og deyfandi áhrif á viðbrögð gagnvart vaxandi ójöfnuði. Fyrirtækjum var gert að hagræða og laga sig að markmiðum nýfrjálshyggjunnar um hagræðingu í mannahaldi og launamálum. Allar ákvarðanir tóku mið af skammtíma og hagstæðri niðurstöðu næsta ársreiknings á meðan viðhaldi og endurnýjun var vikið til hliðar, það skilaði mestri hækkun gengis á hlutabréfum.

Fjölmiðlum mistókst að veita nauðsynlegt aðhald í aðdraganda hrunsins, enda voru þeir flestir í eigu hagsmunaaðila og tóku þátt í að móta jákvæða ímynd gagnvart fjármálastofnunum sem síðan hrundu. Í vinnu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram að stór hluti umfjöllunarinnar var runnin undan rifjum fyrirtækjanna sjálfra og hversu jákvæð hún var bendir ekki til þess að efasemdir hafi ríkt þar á bæ um grundvallaratriði í stefnu eða rekstri fjármálafyrirtækja. Því veikari sem fjölmiðlar eru, því skertari er sýn almennings, sem á endanum ber ábyrgð á stjórnvöldum í lýðræðisríki. Stefna stjórnvalda fyrir hrun var sett í umboði kjósenda, sem kusu sömu flokka aftur til valda. Enda voru niðurstöður Rannsóknarskýrslu Alþingis á þá leið að efla þyrfti sjálfstæði ritstjórna, setja eignarhaldi mörk og upplýsa um eigendur fjölmiðla.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Áfengi er frábært!

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Sýslumaður kvartar undan „ótæpilegri“ umræðu um starfsmenn embættisins

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“