Flækjusagan

Churchill: Eindregið fylgjandi eiturgasárásum gegn „ósiðmenntuðum ættbálkum“

Winston Churchill forsætisráðherra Breta var herskár maður og sá ekkert athugavert við eiturgas- og efnavopnaárásir. Hann lét gera slíkar árásir í Rússlandi og heimilaði þær í Írak, þótt líklega hafi ekki orðið af þeim þá. Illugi Jökulsson segir þessa ófögru sögu.

Þessi mynd er raunar frá uppreisn Araba gegn Tyrkjum 1918. Sú uppreisn var gerð með stuðningi Breta af því það hentaði þeim í heimsstyrjöldinni. En tveim árum síðar stóðu þeir sjálfir andspænis sömu uppreisnarmönnum. Mynd: Library of Congress

Skelfileg efnavopnaárás í Sýrlandi hefur nú vakið verðskuldaðan hrylling umheimsins. Efnavopn hafa þó áður verið notuð í þeim heimshluta og skemmst er að minnast efnaárása Saddams Husseins gegn Kúrdum.

En eiturgas-árásir höfðu ennþá fyrr komist á dagskrá í Miðausturlöndum.

Árið 1920 heimilaði hinn dáði Winston Churchill eiturgas-árás gegn Írökum, nágrönnum Sýrlendinga.

Írak eða Mesópótamía hafði öldum saman verið hluti hins tyrkneska Ottómanaveldis. Það hrundi í lok fyrri heimsstyrjaldar og þá mættu Bretar til Íraks og gerðu að „verndarsvæði“ sínu sem kallað var.

Margir Írakar voru fegnir að vera lausir við stjórn Tyrkja en öðrum fannst lítt skárra að vera nú lentir undir stjórn Breta. Snemma árs 1920 brutust út mótmæli gegn hinni nýju stjórn og kröfðust Írakar aukinnar sjálfstjórnar og réttinda.

Bretar lýstu því strax yfir að á það yrði ekki fallist.

Í maí hófst þá vopnuð uppreisn gegn Bretum. Uppreisnarmenn náðu í byrjun miklum árangri og virtust á góðri leið með að tryggja sér yfirráð yfir frjósamasta hluta írösku sléttunnar milli fljótanna Efrat og Tígris.

Þegar kom fram á haust fór hins vegar að halla undan fæti. Bresku hersveitirnar í Írak fengu liðsauka frá Íran þar sem Bretar höfðu líka komið sér fyrir. Ekki skipti minnstu máli að með liðsaukanum komu flugsveitir sem íraskir uppreisnarmenn kunnu ekki að bregðast við.

Þeir gáfust því upp um haustið. Alls höfðu þá fallið allt að 10.000 af Írökum en Bretar misstu fáein þúsund.

Bretar fóru því með sigur af hólmi en sannfærðust um að réttast væri að yfirráð þeirra yfir Írak væru þaðan í frá óbein en ekki bein. Þeir komu því á fót konungdæmi í Írak og gerðu Fajsal nokkurn að kóngi. Hann var sonur emírsins í Mekka og hafði gerst bandamaður Breta í baráttunni gegn Tyrkjum í fyrri heimsstyrjöld. Honum var í raun ætlað að verða leppur breska heimsveldisins í Írak en það er önnur saga.

Meðan uppreisnin í Írak stóð yfir var David Lloyd George forsætisráðherra í stjórn Frjálslynda flokksins. Stríðsmálaráðherra var hálffimmtugur litríkur stjórnmálamaður sem hafði marga fjöruna sopið, Winston Churchill.

Nú brá svo við að þegar verst lét fyrir Bretum í sumarið 1920 og uppreisnarmenn gerðu sig líklega til að hrekja þá jafnvel alveg úr Írak, þá fengu breskir herforingjar þá hugmynd að nota eiturgas gegn uppreisnarmönnum.

Eiturgas hafði verið notað af öllum stríðsaðilum í fyrri heimsstyrjöldinni með skelfilegum árangri fyrir þá sem fyrir urðu. Eiturgas hafði til dæmis verið notað í orrustum Breta við Tyrki árið 1917. Í stríðslok voru flestir komnir á þá skoðun að þetta nýja stríðstól yrði að gera útlægt úr hernaði.

Um það var verið að semja reglur á friðarráðstefnu eftir stríðið.

Churchillí kátum hópi breskra verksmiðjukvenna 1918.

En sumir – og þar á meðal margir málsmetandi Bretar – voru á þeirri skoðun að reglur um stríðsrekstur gætu aðeins átt við um hernað milli „siðmenntaðra“ þjóða.

Ef þeir ættu í höggi við „ósiðmenntuð“ ríki eða ættbálka, þá væri í raun allt leyfilegt.

Meðal þeirra sem voru á þessari skoðun var Churchill.

Árið 1919 sagði hann um hugsanlega notkun eiturgass og efnavopna á Indlandi:

„Ég skil ekki þennan pempíuskap í sambandi við að nota gas. Á friðarráðstefnunni höfum við [Bretar] tekið þá eindregnu afstöðu að vera hlynntir því að halda gasi sem hernaðartóli til frambúðar. Það er eintóm hræsni að tæta menn í sundur með sprengikúlum en hika svo við að láta aðra vatna músum með táragasi. Ég er eindregið fylgjandi því að nota eiturgas gegn ósiðmenntuðum ættbálkum [uncivilised tribes]. Áhrifin [the moral effect] ættu að verða svo góð að mannfall gæti orðið í lágmarki. Það er ekki nauðsynlegt að nota bara banvænustu gastegundirnar: Það mætti nota gas sem veldur miklum óþægindum og veldur líflegri hræðslu [a lively terror] en myndi samt ekki valda neinum varanlegum skaða hjá flestum þeirra sem yrðu fyrir gasinu.“

Þessi mjög svo herskáa yfirlýsing Churchills hefur oft verið talin til marks um að Bretar hafi notað eiturgas gegn uppreisnarmönnum í Írak. Ljóst virðist að hernaðaryfirvöld Breta í Írak báðu Churchill um leyfi til að nota gas og hann mun hafa heimilað það, enda í samræmi við ofangreind orð hans.

Bretar töldu að Írakar – íbúar í elsta menningarríki heimsins – væru ósiðmenntaður ættbálkur (líkt og Indverjar!) og því væri kjörið að varpa á þá gasi.

Vilji Churchills var sem sagt alveg skýr. Hins vegar virðist gas ekki hafa verið notað þegar til kom í þetta sinn. Það var í fyrsta lagi ekki til í Írak, eftir því sem best verður séð, og þegar kom fram á haust voru bresku hersveitirnir búnar að hrekja uppreisnarmenn á flótta og greinilega þurfti ekki eiturgas til.

Churchill hafði sem fyrr segir verið eindreginn talsmaður þess að nota eiturgas gegn uppreisnarmönnum á Indlandi árinu áður en breskum yfirvöldum þar til hróss má segja að þau tóku því fjarri að dæla eiturgasi yfir Indverja.

Hins vegar höfðu Bretar að fyrirmælum Churchills notað eiturgas í Rússlandi árið 1919. Bretar settu þá hersveitir á land nyrst í Rússlandi, í grennd við Múrmansk og Arkhangelsk, og áttu þær að taka þátt í að bæla niður stjórn kommúnista í Moskvu.

Borgarastríðið í Rússlandi stóð þá sem hæst.

Bretar höfðu þá þróað nýja tegund eiturgass sem skotið var í dósum úr fallbyssum yfir til óvinanna. Þetta kölluðu Bretar „M tólið“ og höfðu flutt 50.000 slík skothylki til Rússlands.

Gasið olli óstjórnlegum uppköstum, margir sem urðu fyrir því hóstuðu upp blóði og misstu nær allan mátt. Hvort og hve margir dóu er hins vegar óvíst.

Þann 27. ágúst 1919 gerðu Bretar fyrstu árásina með „M tólinu“. Fjölmörgum hylkjum var skotið á þorpið Emtsa sem er 200 kílómetra fyrir sunnan Arkhangelsk.

Þar höfðu hersveitir kommúnista aðsetur.

Grænt gasið olli mikilli skelfingu meðal hermanna kommúnista og þeir sem lentu í gasinu urðu illa leiknir og misstu margir meðvitund. Næstu daga gerðu Bretar sams konar árásir á sex bæi til viðbótar.

Þá var hins vegar komið í ljós að „M tólið“ myndi ekki skila miklum árangri. Rakt haustloftið átti sinn þátt í því, því gasið dreifðist illa og hermenn óvinanna voru fljótir að læra að varast hið græna ský.

Bretar hættu því notkun þessa vopns og köstuðu birgðum sínum af gasinu í Hvítahafið í nágrenni við Arkhangelsk.

Og þar eru hylkin undan eitrinu að rotna og leysast upp í rólegheitum.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Mest lesið í vikunni

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um heilbrigðismál

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Rannsókn

Engeyingarnir fengu tveggja milljarða kúlulán til að eignast N1

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Einum vísað af lista Sjálfstæðisflokksins