Flækjusagan

Bowe Bergdahl og Eddie Slovik: Á að lífláta liðhlaupa?

Illugi Jökulsson fjallar um einn meintan og annan sannanlegan liðhlaupa úr ameríska hernum

Bowe Bergdahl Hvarf í Afganistan og var í haldi talíbana. Mynd:

Mörgu lofaði Donald Trump meðan hann stóð í kosningabaráttu til forseta Bandaríkjanna. Eitt af því var að drepa Bowe Bergdahl.

Mál Bergdahls hefur ekki vakið mikinn áhuga utan Bandaríkjanna en þar hefur það verið afar umtalað í mörg ár. Í örstuttu máli er saga Bergdahls þessi:

Hann fæddist árið 1986 í Idaho og er af sænskum og norskum ættum eins og nafn hans bendir til. Hann virðist hafa verið nokkuð leitandi í andlegum efnum á unga aldri en gekk svo í bandaríska herinn og var sendur til Afganistan í maí 2009. Þar fékk Bergdahl mikinn áhuga á menningu og máli heimamanna og fór að blanda geði við Afgani við hvert tækifæri. Þá skrifaði hann föður sínum bréf þar sem hann gagnrýndi bandaríska herinn harðlega og kvaðst skammast sín fyrir að tilheyra svo hrokafullri og sjálfsánægðri þjóð sem hinni bandarísku.

Fyrir Afgönum virtist hann hins vegar bera heilmikla virðingu.

Í lok júní hvarf Bergdahl en dúkkaði upp nokkru síðar í haldi talíbana. Við tóku margra ára samningaviðræður um lausn hans. Á meðan var ýmislegt reynt. Sumir bandarískir hermenn halda því fram að allt að átta hermenn hafi fallið í leiðangri sem farinn var til að reyna að finna og frelsa Bergdahl. Yfirmenn hersins vilja raunar ekki staðfesta það. Sjálfur reyndi Bergdahl tvívegis að sleppa úr haldi talíbana en þeir náðu honum fljótlega aftur. Talíbanar slepptu Bergdahl loks í maí 2014. Á móti slepptu Bandaríkjamenn nokkrum hermönnum talíbana. Foreldrar Bergdahls gengu þá á fund Baracks Obama forseta til að þakka honum fyrir þátt hans í lausn sonarins.

Bowe BergdahlMeðal Talibana.

Skömmu síðar spurðist út að ekki hefði verið allt með felldu í sambandi við það þegar talíbanar gómuðu Bergdahl. Hann virðist þá sem sé hafa verið búinn að yfirgefa hersveit sína. Þótt margt sé enn á huldu um málavöxtu virðist Bergdahl hafa viðurkennt að hann hafi ekki verið á sínum stað, en sagði að minnsta kosti einu sinni að hann hefði verið á leiðinni til að ganga á fund hershöfðingja í nágrenninu til að láta vita af misferlum innan herdeildarinnar.

Aðrir telja þó að hann hafi einfaldlega ákveðið að gerast liðhlaupi og einhverjir telja sig hafa heimildir fyrir því að hann hafi ætlað að ganga til Indlands.

Nema hvað, Bergdahl var um síðir ákærður fyrir liðhlaup og fyrir að hafa stofnað herdeildarfélögum sínum í hættu. Málarekstur hófst og virtust sumir herforingjar á því að hið meinta brot Bergdahls gæti ekki talist alvarlegt. Efasemdir eru einnig um geðheilsu Bergdahls. Að lokum var þó ákveðið að hann skyldi dæmdur fyrir vanalegum herdómstól og eru þau réttarhöld áætluð nú í ár. Bergdahl sótti um sakaruppgjöf til Obama forseta en fékk ekki.

Í baráttu sinni fyrir forsetakosningarnar nefndi Donald Trump mál Bergdahls aftur og aftur og hvatti leynt og ljóst til þess að hermaðurinn ungi yrði tekinn af lífi fyrir liðhlaup. Nú hefur lögmaður Bergdahls reyndar farið fram á að málið verði látið niður falla, þar eð harkalegar yfirlýsingar sjálfs forseta Bandaríkjanna um sekt Bergdahls geri dátanum ókleift að fá heiðarleg réttarhöld. Sérfræðingar telja ekki ólíklegt að farið verði að kröfu lögmannsins, því svo ofsafengnar voru yfirlýsingar Trumps.

Meðal annars hélt Trump því skýlaust fram að fyrir aðeins 20 árum hefðu liðhlaupar hikstalaust verið skotnir og taldi það greinilega til eftirbreytni. En það er raunar tómt bull, eins og fleira sem Donald Trump lætur sér um munn fara. Frá því í bandaríska borgarastríðinu, sem lauk 1865, hefur aðeins einn hermaður í bandaríska hernum verið tekinn af lífi fyrir liðhlaup.

Og það er saga sem herinn er satt að segja ekki ýkja stoltur af.

Það er sagan um Eddie Slovik.

Eddie SlovikSíðasti bandaríski hermaðurinn til að vera aflífaður fyrir liðhlaup.

Slovik fæddist 1920 í Detroit. Ungur að árum lenti hann upp á kant við lögin vegna smáþjófnaða og minni háttar óláta. Árið 1939 var hann dæmdur í fangelsi vegna bílþjófnaðar undir áhrifum áfengis en látinn laus 1942. Hann gekk þá í hjónaband, hóf vinnu hjá pípulagningafyrirtæki en var kallaður í herinn ári seinna. Eitt af því sem síðar var gagnrýnt var að hann skyldi yfirleitt kvaddur í herinn. Fangelsisdómurinn hefði átt að koma í veg fyrir það. En Slovik var kominn með bardagasveit til Frakklands í ágúst 1944.

Þegar Eddie Slovik og kunningi hans lentu í stórskotaliðsárás Þjóðverja kvaðst hann hafa komist að því að hann „passaði ekki í fremstu víglínu“. Hann viðurkenndi seinna hreinskilnislega að hann hefði orðið svo hræddur að hann hefði sig varla getað hrært. Þeir kunningjarnir urðu eftir þegar hersveit þeirra færði sig annað og daginn eftir gáfu þeir sig fram við kanadískan herlögregluflokk. Með honum voru þeir í sex vikur en kunninginn skrifaði hersveit þeirra og sagði frá því hvar þeir væru niðurkomnir. Í október gengu þeir svo aftur til liðs við hersveit sína.

Slovik gekk þegar á fund yfirmanns síns og sagðist vera „of hræddur“ til að koma að gagni í fremstu víglínu. Hann bað um að fá að þjóna að baki víglínunnar en sagðist mundu hlaupast á brott ef leyfi til þess fengist ekki. Yfirmaðurinn sagði honum að hann gæti ekki leyft slíkt, honum væri ætlað að vera í fremstu víglínu og þar yrði hann því að vera þegar næst skærist í odda.

Daginn eftir yfirgaf Slovik herdeild sína. Félagi hans reyndi að telja honum hughvarf en hann kvaðst ákveðinn og hélt sem leið lá til bækistöðvar annarrar herdeildar nokkra kílómetra í burtu. Þar gaf hann sig fram við herdeildarkokk og bað hann að koma á framfæri miða þar sem hann játaði á sig að vera liðhlaupi. Eftir að hafa lent í skothríð hefði hann orðið „svo hræddur, óstyrkur og skjálfandi“ að hann hefði ekki getað hreyft sig. Hann sagðist því hafa hlaupist á brott á ný og mundi gera það aftur ef hann þyrfti.

Slovik var handtekinn og margoft hvattur til að eyðileggja játningu sína. Honum var sagt oftar en einu sinni að ef hann færi til herdeildar sinnar gæti hann byrjað með „hreint borð“ og liðhlaupið myndi gleymt og grafið. Hann neitaði því og sagðist vilja fara fyrir herrétt. Hann bjóst við að fá fangelsisdóm eins og aðrir liðhlaupar og þar eð hann hafði áður setið í fangelsi fannst honum það skárri tilhugsun en að fara aftur til bardaga. Herdeild Sloviks var þá að búast til bardaga við grjóthart þýskt varnarlið í Hürtgen-skógi nálægt Achen og reikna mátti með miklu mannfalli.

Daginn sem herréttarhöldin fóru fram, 11. nóvember, átti herdeild Sloviks í mjög hörðum bardögum. Hann var dæmdur til dauða en það var raunar ekki fátítt að liðhlaupar fengju þann dóm. Hins vegar hafði dauðadómum ævinlega verið breytt í fangelsisdóm fram að þessu.

Frægur og virtur bandarískur hershöfðingi, Norman Cota, var fenginn til að staðfesta dauðadóminn – eða ekki. Flestum á óvart staðfesti hann dóminn. Hann sagði síðar að sá stundarfjórðungur sem málið tók hefðu verið „erfiðustu 15 mínútur ævi minnar“ og tók hann þó þátt í innrásinni í Normandí og ótal bardögum síðar. Hann sagðist hins vegar ekki hafa getað annað. Ótal bandarískir hermenn stóðu þá í ströngu og Cota sagði síðar:

„Miðað við hvernig ástandið var í nóvember 1944 fannst mér það vera skylda mín við land mitt að staðfesta þessa niðurstöðu. Ef ég hefði ekki gert það – ef ég hefði leyft Slovik að komast upp með það sem hann ætlaði sér – veit ég ekki hvernig ég hefði getað farið í fremstu víglínu og horfst í augu við heiðarlega dáta þar.“

Slovik sótti um náðun til Eisenhowers, æðsta hershöfðingja Bandaríkjahers, en Eisenhower staðfesti dauðadóminn 23. desember. Þá stóð yfir mikil gagnsókn Þjóðverja og fjöldi Bandaríkjamanna hafði fallið, særst eða þurft að flýja. Og hætta var talin á fjölda liðhlaupi. Að minnsta kosti reyndi Eisenhower seinna að réttlæta staðfestingu dauðadómsins yfir Slovik með því. Slovik sjálfur gerði sér engar grillur um ástæður þess að hann var tekinn af lífi, eins og sjá má í ramma hér á síðunni. Hann var tekinn af lífi 25. janúar 1945 og bar sig vel. Herdeildarprestur sagði við hann rétt í þann mund að aftökusveitin bjó sig undir að skjóta: „Eddie minn, farðu með eina bæn fyrir mig þegar þú kemur upp í himnaríki.“

Og Eddie Slovik glotti: „Allt í lagi, faðir. Ég skal biðja fyrir því að þú fylgir mér ekki of snemma.“

Þetta voru hans síðustu orð.

Trump: „Fyrir 20 árum var það BANG“

„Svo við höfum þarna svikara sem heitir Bergdahl liðþjálfi. Og Bergdahl liðþjálfi heldur að hann fíli svo alveg þeirra líf, auðvitað. „Ó, þeirra líf er svo frábært.“ Svo einn daginn þá fer hann. Við töpum fimm og kannski sex en alla vega fimm mönnum sem fara að leita hans. Þeir voru drepnir. Þeir voru drepnir af óvinunum. Allir sem voru með honum vissu að hann fór af því hann var allur grautur í hausnum og trúði á þá en ekki okkur.“ Trump hélt áfram um stund og sagði svo: „Hann er liðhlaupi! Muniði í gamla daga? Liðhlaupi, hvað var gert við þá?“ Trump þóttist nú skjóta úr riffli. „Bang. Fyrir tuttugu árum var það bang!“ Aftur þóttist hann skjóta úr riffli.

Bergdahl: „Hryllingurinn sem er Ameríka“

Úr bréfi til foreldra hans um bandaríska herinn: „Lífið er of stutt … til að eyða því í að hjálpa fíflum með sínar röngu hugmyndir. Ég hef séð hugmyndirnar þeirra og ég skammast mín fyrir að vera amerískur. Þessi hryllingur þessa sjálfsánægða hroka sem þeir þrífast í. Þetta er ógeðslegt … Í bandaríska hernum er lúskrað á manni fyrir að vera heiðarlegur … en ef þú ert skíthæll máttu gera það sem þér sýnist og þú ert hækkaður í tign … Kerfið er rangt. Ég skammast mín fyrir að vera amerískur … Ég skammast mín fyrir allt hérna. Fólkið hérna þarf hjálp en þá fær það montnasta land í heimi sem segir fólkinu hér að það sé einskis virði og það sé heimskingjar, það viti ekkert hvernig það eigi að lifa … Við gerum grín að þeim upp í opið geðið á þeim og hlæjum að þeim fyrir að fatta ekki að við erum að hæðast að þeim … Ég skammast mín fyrir allt. Hryllingurinn sem er Ameríka er ógeðsleg.“ 

Eddie Slovik: „Þeir skjóta mig fyrir að hafa stolið brauði“

Meðal þess sem hann sagði við aftökusveitina: „Þeir eru ekki að láta skjóta mig fyrir liðhlaup úr ameríska hernum. Þá þyrftu þeir að láta skjóta mörg þúsund liðhlaupa. Þeir vilja bara búa til fordæmi og völdu mig af því ég sat inni. Ég var svolítið að stela þegar ég var strákur og þess vegna láta þeir skjóta mig. Þeir eru að láta skjóta mig fyrir að hafa stolið brauði og tyggjói þegar ég var 12 ára.“

102 teknir af lífi

Frá 1942–1948 voru 2.864 bandarískir hermenn dregnir fyrir herrétt vegna liðhlaups. Af þeim voru 49 dæmdir til dauða en aðeins einum dauðadómi fullnægt. Í seinni heimsstyrjöld lét bandaríski herinn hins vegar taka af lífi 102 af sínum hermönnum fyrir morð og/eða nauðganir.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN