Flækjusagan

„Borgin er fallin en ég er enn á lífi!“

Illugi Jökulsson skrifar um Jóhannes 8. keisara í Miklagarði sem dó hetjudauða þegar Tyrkir lögðu undir sig síðustu leifarnar af Rómveldi.

Tyrkjasoldán ríður inn í Miklagarð - Borgin kallast nú Istanbúl eins og allir vita. Mynd:

Þau orð sem hér eru höfð að fyrirsögn er mælt að síðasti keisari Miklagarðs hafi hrópað hneykslaður þegar ljóst var orðið þann 29. maí 1453 að Tyrkir voru búnir að leggja borg hans undir sig, hina miklu og fornfrægu heimsborg sem í reynd fól í sér síðustu leifarnar af Rómaveldi hinu mikla.

Og keisarinn hófst þegar handa um að gera eitthvað í málinu.

Rómaveldi í vestri féll árið 476 en austurrómverska ríkið, nú oftast kallað Býsans, hélt áfram velli. Þegar á leið smækkaði ríkið þó sífellt eftir því sem Arabar og síðan Tyrkir sóttu sífellt lengra inn fyrir landamæri þess. Um 1400 var Býsans-ríkið lítið annað en Mikligarður (Konstantínópel) og nánasta umhverfi, auk smáskika á Grikklandi, og lifði fyrst og fremst á fornri frægð, en Tyrkir gerðu ítrekaðar tilraunir til að leggja borgina undir sig. Árið 1391 var Manúel II keisari. Sem erfðaprins í Miklagarði hafði Manúel farið oftar en einu sinni til Vesturlanda til að leita stuðnings gegn vaxandi ásókn Ottómana-veldisins.

En hann hafði líka verið langdvölum við hirð Bajesíds 1. Tyrkjasoldáns sem eins konar „heiðursgísl“.

Árið 1394 settist Bajesíd um Konstantínópel. Þótt borgin væri ekki svipur hjá sjón tókst að hrófla upp þokkalegum vörnum, þrátt fyrir allt, og sátu Tyrkir um borgina árum saman.

Eftir að það hafði staðið í fimm ár, 1999, hélt Manúel enn í liðsbón til Vesturlanda.

Stundargrið

Í byrjun virtist sem Manúel ætlaði að verða nokkuð ágegnt en minna varð úr en til stóð. Umsátri Tyrkja var hins vegar létt þegar Tímur hinn halti keisari í Mið-Asíu réðist að austan inn í lönd Tyrkja og felldi Bajezíd í orrustu árið 1403.

Um tíma leit út fyrir að veldi Tyrkja væri úr sögunni eftir hinn mikla ósigur gegn Mongólum en það náði sér þó fljótt á strik aftur, eftir að Tímur hvarf fljótlega á braut og Mehmed 1. varð síðan soldán í endurreistu Tyrkjaríki.

Manúel keisari náði mjög góðu sambandi við Mehmed og Mehmed viðurkenndi Manúel sem „föður og drottnara“.

Þrátt fyrir það fór þó aldrei milli mála að Tyrkir voru sá sem valdið hafði í samskiptum þeirra og Býsans-veldis og Manúel missteig sig illega  í samskiptum sínum við arftaka Mehmeds, Múrad 1., og árásir Tyrkja gegn Konstantínópel hófust að nýju eftir að Múrad 1. tók við 1421.

Þótt Manúel væri mistækur stjórnarherra var hann mikilvirkur rithöfundur og skrifaði fjölda bréfa og ritgerða, einkum af trúarlegum toga. Hann stóð m.a. í bréfaskiptum við persneskan fræðimann um mismuninn á kristni og íslam og slíkur kafli úr einu bréfa hans komst óvænt í sviðsljósið árið 2006 þegar Benedikt 16. páfi vitnaði í hann í ræðu, múslimum til lítillar gleði. Einnig orti Manúel ljóð.

Síðustu árin hafði hann að mestu látið stjórn ríkisins í hendur sonar síns, Jóhannesar 8.

Manúel lést 1425.

Móðir Jóhannesar 8. var serbnesk prinsessa. Hann var náinn samverkamaður föður síns frá 1416 og stýrði vörn Konstantínópel gegn umsátri Múrads 2. soldáns Ottómana 1422. Eftir að Jóhannes var orðinn keisari einn tapaði hann hins vegar Þessalóníku í hendur Tyrkja og náði ríki hans þá aðeins yfir Konstantínópel og hluta Pelópsskaga í Grikklandi. Jóhannes ferðaðist þá til Ítalíu þar sem hann ræddi við Evgeníus 4. páfa og féllst á að sameina hina býsönsku rétttrúnaðarkirkju og kaþólsku kirkjuna á Vesturlöndum. Hugðist hann þannig afla sér aðstoðar vestrænna leiðtoga gegn sívaxandi ásælni Tyrkja.

Þegnar Jóhannesar höfnuðu því hins vegar að lúta valdi páfa og ekkert varð af sameiningunni.

Er Jóhannes féll frá barnlaus árið 1449 varð bróðir hans keisari, Konstantín 11.

Og Konstantín varð síðasti keisari Býsansríkisins sem rakti sögu sína til upphafs Rómaveldis nærri 2.000 árum fyrr. Hann hafði framan af ráðið yfir lendum Býsansríkisins á Pelopsskaga. Er Jóhannes dó deildu Konstantín og Demetríos bróðir hans um keisaratignina og leituðu að lokum til Múrads 2. soldáns Ottómanaveldisins sem úrskurðaði að Konstantín bæri keisaratignin. Mátti það heita óvenjulegt að soldán múslima fengi þannig að ráða hver yrði keisari í ríki kristinna manna.

Er Mehmed 2. varð soldán 1451 krafðist hann algjörra yfirráða yfir Konstantínópel á grundvelli þess að Miklagarðsmenn væru í reynd þegnar Tyrkja eins og þarna hefði komið í ljós.

Ætlaði ekki að komast undan

Konstantín reyndi að fá hernaðaraðstoð úr vestri en var neitað um hana nema hann sameinaði rétttrúnaðarkirkjuna hinni kaþólsku. Hann féllst á það en þegnar hans komu enn í veg fyrir sameiningu og þegar Mehmed settist um borgina í apríl 1453 var aðeins um 7.000 manna lið til varnar. Mehmed hafði hins vegar um 85.000 manna lið og mun stærri og fullkomnari fallbyssur. Mehmed bauð Konstantín að yfirgefa borgina og gerast aftur hæstráðandi á Pelopsskaga en hann kaus að verjast fram í rauðan dauðann. Þrátt fyrir liðsmuninn héldu Býsansmenn velli þar til 29. maí þegar Mehmed sendi allt sitt lið til að ráðast yfir múra borgarinnar og varnirnar brustu að lokum. Konstantín sagði þá harmi lostinn er honum var ljóst að menn Mehmeds væru komnir yfir múrana: "Borgin er fallin en ég er enn á lífi!"

Og kastaði sér síðan út í lokabardagann og féll þar, sem þótti hetjulegur dauði fyrir síðasta Býsanskeisarann.

Lík hans fannst aldrei.

Þótt Býsansríkið hafi á dögum Konstantíns aðeins náð yfir Konstantínópel og hluta Pelópsskaga þótti táknræn merking þess mikil að hin forna kristna höfuðborg (og arftaki Rómaveldis) skyldi fallin í hendur múslima.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN