Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Borgar sig ekki að eiga íbúð

Á fimmtán árum hefur Auður Jónsdóttir flutt fjórtán sinnum, úr einni leiguíbúð í aðra. Hún skrifar um samfélag sem hafnar eignalausum og ástæður þess að hún hefur búið erlendis undanfarin ár.

Fyrir á að giska fimmtán árum síðan var ég í flugvél að fletta flugtímariti og skyndilega blasti við heilsíðuauglýsing sem hefur birst mér reglulega fyrir hugskotssjónum allar götur síðan. Þetta var mynd af naktri konu sem lá á minkapelsi – eða einhverju álíka – umkringd perlum og eðalsteinum og með fartölvu við hlið sér. Sennilega var verið að auglýsa fartölvuna, ég er þó ekki viss. Man bara að mér fannst auglýsingin gjörsamlega missa marks því hún væri svo fáránlega gamaldags. Mér fannst svo heimskulegt að fyrirtæki skyldi nota nakta konu á dýrafeldi með steina úr vafasömum námum til að selja tölvu (ef það var þá tölvan sem stóð til að selja). Fáránlegast var þó hvernig auglýsandinn reyndi að gera þessi naívu og grótesku tákn um ríkidæmi að eftirsóttu markmiði í heimi þar sem fólk deyr úr hungri og náttúrunni er ógnað. 

Hamingjan í hruninu 

Þetta var fyrir hrunið en þegar hrikti illilega í stoðum íslensks samfélags haustið 2008 og kreppa reið yfir fjármálakerfi Vesturlanda fannst mér eins og þessi auglýsing hefði loksins verið afhjúpuð og nú færu sjónir okkar Vesturlandabúa að beinast að því sem raunverulega skipti máli: ungviðinu, mannúðinni og öllu því sem lifir, dafnar og grær. Þetta reyndist vera barnaleg óskhyggja draumóramanneskju sem hafði hlustað yfir sig á John Lennon. 

En þarna, eitt augnablik, í mannfjöldanum að mótmæla á Austurvelli með systur minni og systurdóttur nýfæddri í vagni fylltist ég von og það sem meira var: þakklæti fyrir að eiga ekkert. Mér fannst ég hafa staðið með mér; lifað á eigin forsendum, skuldlaus gagnvart öllum – nema tollstjóra. Eitt augnablik var það ríkidæmi í sjálfu sér (burt séð frá Bjarti í Sumarhúsum og öllum hans lífskreddum).

Fjórtán flutningar 

En ég er ekkert heilagri en aðrir. Haustið 2008 var ég nýflutt til Íslands frá Spáni og dauðsá eftir að hafa selt íbúð á besta stað í Reykjavík, sem okkur hjónunum hafði lánast að eiga í tvö ár áður en við seldum hana á gjafvirði í hvatvísiskasti til að borga skattaskuld – skuld sem við hefðum aðeins örfáum misserum síðar farið létt með að borga, ekki af því við værum orðin svona miklu ríkari heldur af því að þá vorum við farin að kunna betur á lífið og tilveruna. 

Það hafði ekki fyrr fennt yfir hrunið en ég stóð mig að því, sem leigjandi í Reykjavík, að hugsa um íbúðina eins og látinn fjölskyldumeðlim 

Þá vissum við ekki hversu erfitt það yrði að öngla aftur saman fyrir íbúð, jafnvel þótt bæði ættu eftir að fá gjöful verkefni og þættust kunna hitt og þetta. Allar götur síðan, já, í fimmtán ár, höfum við þvælst á milli misgóðra leiguíbúða. Í okkar búskapartíð höfum við flutt fjórtán sinnum, taldist okkur til um daginn þegar við vorum að flytja í enn eitt skiptið og sonur okkar spurði á hversu mörgum stöðum við hefðum búið. 

Íslenskir Don Kíkótar 

Það hafði ekki fyrr fennt yfir hrunið en ég stóð mig að því, sem leigjandi í Reykjavík, að hugsa um íbúðina eins og látinn fjölskyldumeðlim, búin að steingleyma öllum í kringum mig sem börðust við erfið lán eins og Don Kíkóti við vindmyllur; margir hverjir hættir að sjá til sólar og búnir að glutra niður lífsgleðinni, jafnvel heilsunni, í að því er virtist vonlausri baráttu. 

Á þessum tímapunkti vorum við reyndar með sérstaklega góðan leigusamning en eðli málsins samkvæmt ekki til framtíðar og þegar sonur okkar var kominn í heiminn virtist allt eins gáfulegt að skima eftir næstu leiguíbúð í útlöndum, nokkuð sem var strax gerlegt því við erum bæði með vinnuaðstöðu heima eða á nærliggjandi bókasafni. Við fundum góða íbúð í Berlín og fjórum árum síðar aðra ennþá betri sem við vorum að flytja í.

Um daginn tiplaði ég yfir gljáandi fínt viðargólfið í björtum, nýuppgerðum húsakynnunum – 115 fermetrum í einu vinsælasta hverfi Berlínar sem kosta álíka mikið og að leigja fimmtíu sveppamaríneraða fermetra í Reykjavík – og fann skyndilega aftur fyrir þessari undarlegu tilfinningu: fögnuðinum yfir að eiga ekkert. 

Skilgreind eftir eignastöðu 

Ég áttaði mig á því að þegar ég bý á Íslandi hættir mér til að finnast ég vera skilgreind eftir eignastöðu. Flestir í kringum mig eiga orðið íbúð að nafninu til, allavega búnir að eyrnamerkja sér eina slíka í veðrasömum efnahag og um leið himinhá lán en fyrir vikið finnst mér ég stundum vera annars flokks þegar ég kem inn á heimili þeirra, húsakynni sem fólk áskilur sér rétt á að búa í þangað til það upplifir elliglöp. 

Ég er eins og eilífðarunglingur, engisprettan sem söng bara og gleymdi að safna vetrarforða, svo ómeðvituð um alvöru lífsins að skilningsrík augnaráð velvildarfólks míns verða þrúgandi ásökun – þó að ég sé bara að ímynda mér að það hugsi hitt eða þetta og viti mæta vel að ásökunin er mín og einskis annars. 

Við endum hvort sem er öll út úr heiminum á Grund – ef við verðum ekki löngu dauð! langar mig að æpa á vini og vandamenn en geri það auðvitað ekki, stofuprúð konan á fimmtugsaldri. 

Ímyndað heima

En þarna í sólargeislunum sem böðuðu nýju leiguíbúðina og lýstu allt upp langaði mig að dansa og ég gerði það, uppljómuð, því skyndilega rann upp fyrir mér að ef ég hefði ekki gert þessi slæmu viðskipti á sínum tíma, að selja íbúðina okkar, þá væri ég ekki ég. 

Ég hefði líkast til ekki búið árum saman í nokkrum löndum og fengið nægilega innsýn í tungumál þeirra til að geta lesið um heiminn með öðrum gleraugum en íslenskum og enskum. Sennilega hefði ég viljað búa heima því ég hefði ímyndað mér að ég ætti mér slíkan stað, umfram aðra, í sjötíu fermetrum á Seljavegi. 

Ég ætti ekki alla þessa vini í öllum þessum löndum, heldur ekki allar þessar ævintýralegu minningar. Og það sem öllu máli skiptir: Ég ætti ekki son minn, akkúrat þennan sem ég elska meira en allt og alla og kom undir á flækingi en hefði ekki gert það hefðu hlutirnir atvikast örlítið öðruvísi. Ef ég hefði átt íbúð, til dæmis. 

Það borgar sig að eiga ekki íbúð, finnst mér, allavega meðan ég skrifa þetta. Skeptísk á þegar vel meinandi raddir ráðleggja ungu fólki að búa sem lengst í foreldrahúsum til að safna fyrir íbúð – því það er svo margt annað í lífinu sem er mikilvægt að safna. 

Samfélag sem hafnar eignalausum 

Já, mér finnst þetta. Samt á ég fullt í fangi með að verjast þeirri hugmynd, sem stöðugt er verið að selja okkur, að eignalaus sé manneskjan vansæl. Í heimi þar sem ímynd hinnar hamingjusömu manneskju er nakinn kvenlíkami á dýrafeldi umkringdur glitsteinum og nýrri gerð af tölvu. 

Auðvitað gengur misjafnlega vel í mismunandi löndum að halda í sannfæringuna og sérstaklega gengur það brösuglega á Íslandi, þar sem samfélagið gerir ekki ráð fyrir eignalausu fólki – þó að það sé nóg af því. Á Íslandi þarftu að eiga íbúð og helst líka bíl því leigumarkaðurinn er svo erfiður og almenningssamgöngurnar ekki miklu skárri. Allir sem vettlingi geta valdið eiga þetta tvennt, rétt eins og kuldaskó og flís- og/eða lopapeysu. Í ofanálag hefur samfélagið innrætt manni frá fæðingu að fólk, sem vilji teljast menn með mönnum, þurfi að eiga einkabíl og eigið húsnæði og megi ekki hika við að skuldsetja sig til þess – og það hefur ekkert breyst þó að heimurinn sé óðum að breytast og sífellt fleiri í stærri borgum kjósi að eiga hvorugt, enda gert ráð fyrir umhverfisvænni lifnaðarháttum. 

En samt langar mig að flytja aftur til Íslands einhvern daginn. Og þá vona ég að samfélagið verði farið að gera ráð fyrir eignalausum manneskjum sem vilja leigja frekar en kaupa og nota almenningssamgöngur í stað einkabíla. Að ég geti snúið aftur til Íslands með mig og mína og búið okkur heimili. Því ég þykist geta gert gagn, þó að ég eigi allt mitt í einhverju öðru en peningum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu og málsmeðferð í samræmi við lög

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni