Pistill

Blanda af hefðum og nýjungum við innsetningu nýja franska forsetans

Bergþór Bjarnason skrifar frá Frakklandi um breytta tíma þar í landi með tilkomu Macron í forsetaembættið og bresti innan Rebúblikanaflokksins eftir forsetakosningarnar.

Emmanuel Macron, áttundi forseti fimmta lýðveldisins franska, sem stofnað var árið 1958, tók við embætti við hátíðlega athöfn í Elysée-höll á sunnudag. Forsetinn nýji er 39 ára, sá yngsti í sögu landins. Þessi langi dagur hófst hjá blaða- og fréttamönnum klukkan sex um morguninn í forsetahöllinni, en gestir tóku að streyma að undir níu. François Hollande, fráfarandi forseti, tók á móti nýja forsetanum og það var sérstaklega eftir því tekið hvað Macron gekk hægt eftir rauða dreglinum, þar sem öryggissveit lýðveldisins stóð heiðursvörð. Talað var um að Macron vildi stýra tímanum, eða að hann kunni að stjórna atburðarrásinni, nokkuð sem var François Mitterand, forseta frá 1981 til 1995, tamt í hugsun. Eins vakti athygli hversu föðurlegar móttökur hann fékk frá Hollande forseta, jafnvel þótt sumir vilji meina að Macron hafi neytt Hollande til að draga sig í hlé. Hann heyrðist segja yfirmanni siðastjóra forsetahallarinnar að hugsa vel um Brigitte Macron rétt áður en hann yfirgaf höllina.

Brigitte Macron kom nokkuð á undan manninum sínum og gekk ein inn í forsetahöllina, sem sýnir vel hversu formlegar siðareglur eru í Frakklandi. Við embættistöku kemur forsetinn einn til athafnarinnar. Forsetinn holdgervist valdinu og stöðunni, þar sem hann er einn á valdastól, ekki alveg venjulegur maður. Birgitte Macron hefur sætt háði og ómerkilegum árásum á internetinu frá því í kosningabaráttunni, á Facebook og víðar, vegna þess að hún er 64 ára eða 24 árum eldri en eiginmaður hennar. Í frönskum stjórnmálum má nefna fjölmörg dæmi um sambærilegan aldursmun þar sem að stjórnmálamaður er eldri en eiginkonan en enginn talar um það. Hér er það kona sem er eldri en maki sinn, og nú forsetafrúin sem er töluvert eldri en forsetinn, og það hefur valdið nokkuð umtal. Emmanuel og Birgitte kynntust þegar hann var fjórtán ára en þau hafa verið saman síðan hann var tvítugur, eða í tuttugu ár. Í gær voru netmiðlarnir logandi yfir lavanderbláu dragtinni sem Louis Vuitton sérhannaði fyrir athöfnina og lánaði forsetafrúnni og þykir pilsfaldurinn hafa verið stuttur miðað við tilefnið. Aldursmunurinn þykir einnig merkilegur fyrir stöðu kvenna sem oft eru undir mælikvarða fegurðar og útlits og kannski er hægt að tala um byltingu. Einnig hefur því verið velt upp hvort það að Brigitte Macron muni aldrei ala forsetanum börn sé einhvers konar afneitun hefðbundins hlutverks konunnar, og það af hálfu forsetafrúarinnar, sem truflar þá sem ekki vilja fylgja samfélagsþróun. Macron hefur reyndar sagt að það að eiga þrjú stjúpbörn og sjö stjúpbarnabörn séu hans enfants de cœur, börn sem hann hafi í hjarta sínu eignað sér.

Fyrir okkur Íslendinga er sérstakt að sjá að þegar að forsetarnir hafa hist og fundað saman, fer fráfarandi forseti úr höllinni, og síðan hefst innsetningarathöfnin. Fundurinn var reyndar sérstaklega langur í þetta skiptið, þar sem hann stóð í rúma klukkustund, sem þykir mikið. Nicolas Sarkozy og François Hollande til dæmis töluðust einungis við í 38 mínútur við forsetaskiptin árið 2012 og talað er um að samskiptin þeirra á milli hafi verið rafmögnuð. Á þessum fundi fer fráfarandi forseti yfir alvarleg og aðkallandi mál og lætur nýja forsetanum meðal annars í hendur hin svokölluðu kjarnorkulykilorð sem eru nauðsynleg til þess að nota kjarnorkuvopn landsins, því eins og flestir vita er Frakkland eitt af kjarnorkuveldum heims.

Eftir að forseti Stjórnarskrárráðsins lýsti kjöri forseta sagði Macron í innsetningarræðunni að Frakkland hefði valið veg bjartar framtíðar en ekki skugga fortíðar og sjálfhverfu og vísaði þar í tap Þjóðernisfylkingarinnar. Hann sagði nauðsynlegt að berjast gegn svartsýni og að Frakkland verði að komast á ný í fremstu röð í Evrópu og heiminum. Forsetinn vill einfalda atvinnuumhverfi og lagaumgjörð til að auðvelda atvinnusköpun og setja nýsköpun á oddinn. Einnig vill hann sjá breytingar á Evrópusambandinu, auka samstarf evrulandanna og varnarmálsamstarf, auk þess sem hann vill að Frakkland vinni meira með Þýskalandi. Seinni partinn í gær flaug Emmanuel Macron til Berlínar þar sem hann hittir Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Eftir athöfnina fór forsetinn í opnum herjeppa upp Camps-Elysée-breiðgötuna. Valið á bifreiðinni var forsetans því hann er einnig yfirmaður hersins, og þar sem Frakkland stendur í stríðsátökum í Malí, Írak og Afganistan, var valið táknrænt og mikilvægt. Það rigndi dálítið en sólin kom fram úr skýjunum meðan á ökuferðinni stóð. Margir muna eftir Hollande gegndrepa 2012 eftir innsetninguna á Champs-Elysée og rigninging var tengd við allt hans kjörtímabil og líkt við það hversu illa honum hafi tekist til. Því var nýji forsetinn sjálfsagt ánægður með þessa ferð. Eftir að hafa lagt blómsveig á leiði óþekkta hermansins undir Sigurboganum og endulífgað eldinn sem þar er, eins og hefðin segir til um, fór hinn nýji forseti aftur niður Champs-Elysée í opinni Citroën CS7 Crossback, prótótýpu sem enn er ekki komin á markað en þykir tákn um franska hágæðaframleiðslu. Forsetinn stöðvaði för sína við staðinn þar sem lögreglumaðurinn var myrtur fyrir þremur vikum, en eiginmaður lögreglumannsins var viðstaddur innsetningarathöfnina í Elysée-höllinni í boði forsetans. Þá fór aftur að rigna og það var holdvotur forseti sem kom aftur í forsetahöllina, þar sem hádegishanastél var að hefjast til að fagna nýjum forseta. Forsetafrúin heyrðist spyrja mann sinn brosandi: Viltu borða núna eða skipta um föt? og hinn nýji forseti svaraði: „Ég held ég skipti fyrst um föt“. Svo sást hann stökkva á fæti upp stigana í Elysée. Ný kynslóð og nýjir hættir í höllinni.

Fyrsta verk hans eftir hádegi var svo að heimsækja særða hermenn á hersjúkrahúsi í París, en eftir það, eins og hefðin gerir ráð fyrir, heimsótti forsetinn borgarstjóra Parísar, Anne Hidalgo, í aðalráðhúsið, þar sem 800 gestir biðu og fluttar voru ræður. Macron hlaut nærri 90 prósenta atkvæða í París er hann var kjörinn 7. maí.

Í gær var svo tilkynnt um nafn forsætisráðherrans, Edouard Philippe, borgarstjóri Le Harve og þingmaður Repúblikana, sem er klárlega tilraun til þess að styrkja samstarfið við stjórnmálamenn á hægrivængnum, þar sem að á vinstrivængnum er nú þegar margt um manninn í kringum Macron. Nú er líklegt að alda hófsamra hægrimanna muni skipa framtíðarþingmannahóp nýja forsetans. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Repúblikanaflokkinn sem ætlaði sér að ná meirihluta á þinginu eftir ófarir forsetakosninganna, en nú eru komnir brestir í flokksheildina.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Sveinn segir söguna alla: „Okkur fannst þessi tengsl mjög skrítin“

Fréttir

Brynjar kemur fyrir í gögnunum sem áttu að fara leynt

Fréttir

Brynjar settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Hjalti fundaði með Bjarna og Brynjari eftir að hann var kærður

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Þessi ótrúlegi óheiðarleiki

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Faðir forsætisráðherra var meðmælandi Hjalta – ráðuneytið hélt því leyndu