Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Áfall

Salka Valsdóttir skrifar um sjálfsmyndina úti á meðal annarra og enduróm æskunnar.

Úti „Klukkan er orðin hálf fimm og ég er skíthrædd.“

Verandi barn varð ég fyrir einhvers konar áfalli á hverjum degi. Alltaf þegar einhver sagði nei, alltaf þegar einhver sagði já, þegar ég fékk það sem ég vildi og þegar ég fékk það ekki. Ég man eftir því að hafa staðið með heimasímann í hendinni á fyrsta heimilinu mínu, fjögurra ára gömul, og nýbúin að læra að telja upp á tíu. Ég átti að hringja í pabba minn og frænka mín las hægt og rólega upp fyrir mig tölurnar sem ég þurfti að slá inn á símann.

„Sex.“ Ég var nýbúin að læra tölurnar, vissi hvernig þær litu út en samt varla, svo þurfti ég líka að leita að hverri og einni tölu, vissi ekkert hvar hvaða tala var á símanum.

„Sex.“ Tvisvar sinnum sama tala, fann sex, gerði fyrst óvart níu og amma mín hjálpaði mér að stroka það út. Hló pínu að mér. Það var stressandi.

„Tveir.“ Ég var löngu búin að læra tveir. Ég á einn bróður, við erum tvö. Ég er með tvær hendur, tvo fætur, tvö eyru og svo framvegis.

„Sex, átta.“ Hún var orðin svolítið óþolinmóð. Amma byrjaði að hlæja að mér: „Elsku engillinn minn, er þetta svolítið erfitt? Er erfitt að muna tölurnar? Æjji sjáið hvað hún er sæt“. Ég var orðin mjög hrædd. Kannski gat ég þetta ekki. 

„Mig langaði að spyrja en ég þorði því ekki. Þá kæmi ég upp um mig. Þau hlógu og struku mér um höfuðið“ 

„Fimm, sex.“ Nú varð ég að vera fljót. Annars myndu þau öll hlæja að mér. Ég vandaði mig mjög mikið að leita að fimm, mundi ekki alveg hvernig fimm lítur út, mig langaði að spyrja en ég þorði því ekki. Þá kæmi ég upp um mig. Þau hlógu og struku mér um höfuðið og amma reyndi að knúsa mig þegar hún sá tárin byrja að trilla niður kinnarnar en ég gat ekki einu sinni horft á þau.

Ég var í áfalli og pabbi var ekki kominn heim, og ég kunni ekki að hringja í hann.

Það er komin nótt og við erum að blanda jarðarberja-daiquiri: Hvítt romm, jarðarberjasvali, frosin jarðarber og sítrónusafi. Í kvöld ætla ég að klæða mig eins og bíómyndapersóna, eins og einhver sem kann alls konar trix og getur breytt lífi þínu á einni nóttu. Við drekkum og hlæjum og tölum um hvað við erum frábærar og drögum það samstundis til baka. Reynum að drekka frá okkur samviskubitið yfir því hvað okkur finnst við ömurlegar.

Klukkan er orðin hálf þrjú og við erum ekki ennþá lagðar af stað í bæinn, erum allt of seinar. Við erum líka allar uppgefnar. Við hringjum og kaupum dóp til þess að geta haldið áfram og förum síðan niður í bæ. Inni á barnum er móða og klístrað fólk á dansgólfinu. Klístrað gólf líka. Allt frekar klístrað. Ég kyssi fólk sem ég hata og ég held aftur af mér að horfa á fólkið sem ég dái. Mér finnst eins og fólk hlægi að mér með augunum og ég reyni að leika bíómyndapersónuna svo að ég geti falið mig betur.

Einhver sem ég man ekki alveg hvað heitir kaupir fyrir mig skot og ég læt eins og mér finnist það gott á bragðið. „Dönsum!“ og ég þykist kunna textann í laginu sem er í gangi. Ég er mjög fljót að læra texta og læri viðlagið eftir fyrstu hlustun, endurtek það síðan og hitti ekki alltaf á réttu staðina, lít þá undan og drekk sopa af bjórnum mínum. Mig langar að spyrja hvað lagið heitir en ég þori því ekki, þá kem ég upp um mig. Ég dansa lítið og læt eins það sé ekki vegna þess að ég kunni ekki að dansa heldur vegna þess að mér finnist allt svo ómerkilegt: Ég er betri en þetta lag og þetta klístraða dansgólf. Drekka, hlæja, dansa, reykja, æla, passa sig, skammast sín, drekka, hlæja, dansa.

Klukkan er orðin hálf fimm og ég er skíthrædd. Bæði við að vera í kringum allt þetta fólk og að þurfa að fara frá því. Ég er með aðskilnaðarkvíða, búin að klístra mig við allt og alla þarna inni. Á leiðinni heim kaupi ég mér hamborgara og set á mig heyrnartól. Horfi ekki í augun á neinum á meðan ég labba heim. Ég er betri en fólkið sem labbar framhjá mér. Þess vegna er ég ein. Af því enginn á skilið að vera í nærveru minni. Fólk hlær þegar ég labba framhjá og ég reyni að horfa ekki á það. Hringi í fyrrverandi eiginmann minn en hann svarar ekki. Mig langar að hringja í pabba minn en ég veit að hann er löngu farinn að sofa. Og ég vil ekki að hann viti líka hvað ég er ömurleg.

Sex, sex, tveir, sex, átta, fimm, sex.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“