Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Að labba ein heim eftir myrkur

Katrín Helga Andrésdóttir var tíu ára þegar ókunnugur maður skipaði henni að koma inn í bíl til sín.

Þegar ég var tíu ára lenti ég í því að ókunnugur maður skipaði mér að koma inn í bíl til sín þegar ég var að hjóla ein heim eftir myrkur. Ég skildi ekki almennilega hvað var um að vera, en skildi þó að hér var hætta á ferð. Sem betur fer voru viðbrögð mín að hjóla eins hratt og ég gat í áttina burt frá manninum og með hjálp þröngra göngustíga náði ég að hrista hann af mér. Þegar ég sagði mömmu og pabba hvað hafði komið fyrir útskýrðu þau fyrir mér að til væru brenglaðir menn sem gætu gert börnum illt. Ég reiknaði út í einfeldni minni að ég þyrfti bara að bíða í þrjú ár í viðbót. Þá myndi ég fermast (vera tekin í fullorðinna manna tölu) og hættan yrði liðin hjá. Mamma og pabbi voru hins vegar ekki alveg sammála. Þau útskýrðu fyrir mér að það væru líka til vondir menn sem vildu gera konum illt. Ég spurði hvað ég þyrfti að vera orðin gömul til að vera laus við þá ógn, en fékk það svar að það skipti ekki máli hvað ég væri gömul, hættan yrði alltaf til staðar. Heimsmynd mín brotnaði, ég upplifði mig innilokaða og óskaði þess í fyrsta sinn að hafa fæðst sem strákur. 

Allt frá þessum degi hef ég verið á varðbergi þegar ég labba ein heim eftir myrkur. Ég hef lært mörg trix, eins og til dæmis að þykjast tala í símann eða vera með lykla milli fingranna í krepptum hnefa ef ég skyldi þurfa að lemja einhvern og svo framvegis. Ég hélt lengi að ég væri hræddari en aðrar stelpur og ég skammaðist mín fyrir þessa hræðslu. Mér fannst hún vera einhvers konar fötlun. Tilfinningarnar undu þannig upp á sig að ég var ekki bara hrædd, heldur               líka uppfull af skömm yfir því að vera hrædd. 

Tökum dæmi: Ef ég labba ein heim eftir myrkur og ókunnugur maður labbar á móti mér á ég það gjarnan til að fara yfir götuna til þess að vera í öruggari fjarlægð frá honum. Ég er á sama tíma mjög meðvituð um að maðurinn   ókunnugi sé að öllum líkindum saklaus og ég fer að vorkenna honum fyrir að hafa ógnað mér. Hann hlýtur að sjá í gegnum mig og vita að það er ekki tilviljun að ég skyldi hafa farið yfir götuna. Á endanum er ég ekki bara hrædd, heldur líka með samviskubit gagnvart manninum yfir því að vera hrædd við hann. 

„Á endanum er ég ekki bara hrædd, heldur líka með samviskubit gagnvart manninum yfir því að vera hrædd við hann.“

Einu sinni var ég að labba ein heim um nótt þegar enginn var á ferli. Bíll nálgaðist og stoppaði við hliðina á mér og mín ósjálfráðu viðbrögð voru að hlaupa í burtu. Á harðahlaupum hugsaði ég: Vá, hvað ég er asnaleg. Bílstjórinn hefur væntanlega bara ætlað að spyrja til vegar eða leggja bílnum eða eitthvað. Hvað ætli hann hafi haldið þegar ég tók á sprett?“ En hvernig á kona að vita hvenær hún hefur ástæðu til þess að hlaupa í burtu og hvenær ekki? Á kona að hlaupa í burtu og eiga á hættu að gera sig að fífli eða á kona að halda kúlinu og taka sénsinn á því að verða fyrir árás?  

Vinir mínir og fjölskylda eru dugleg að segja mér að hafa ekki áhyggjur. Segja mér jafnvel að vera ekki paranojuð. Ég veit að þau eru að reyna að hjálpa, en í stað þess að draga úr óttanum þá eykur það bara skömmina. Það er á sama tíma verið að segja mér að passa mig og að vera ekki paranojuð. Ég veit vel að það er aðeins örlítið hlutfall karla sem konur þurfa að óttast, en vandamálið er að þetta litla hlutfall karla bitnar á svo stóru hlutfalli kvenna – sem bitnar svo aftur á öllum saklausu mönnunum sem eru óviljandi orðnir að ógn fyrir ókunnugar konur. 

Eftir því sem ég verð eldri hef ég lært að ég er ekki ein um að vera hrædd. Flestar vinkonur mínar eiga sögur af því þegar öryggi þeirra hefur verið ógnað. Ég veit líka að margar stelpur taka rándýra leigubíla heim af djamminu í stað þess að hætta sér einar út í nóttina. Vinkona mín lenti í því fyrir stuttu að vera elt alla leiðina heim úr bænum. Maðurinn neitaði að láta sig hverfa og reyndi að komast inn til hennar þannig að hún neyddist til að hringja í lögregluna. Löggan kom, en í stað þess að fara með manninn niður á stöð og taka af honum skýrslu, þá var honum einfaldlega skutlað aftur niður í bæ þar sem hann gat valið sér næsta viðfang.  

Ég vildi að ég gæti sannfært sjálfa mig um að það sé ekkert að óttast, en í bili verð ég að láta það duga að sannfæra sjálfa mig um að ótti minn sé ekki vandamálið, heldur það sem veldur honum. Ég get ekki slökkt á hræðslunni, en ég get losað mig við skömmina sem henni fylgir. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins