Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Að flokka rusl. Að rusla flokka.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umræðum um umhverfismál flokkar ekki rusl og flokkurinn flokkast því undir rusl, að mati Hallgríms Helgasonar.

Sigmundur og Bjarni Sömdu stjórnarsáttmála í sumarbústað fjölskyldu Bjarna við Þingvallavatn.

Fyrir rúmum þremur árum var mynduð hér stjórn. Tveir stæðilegir gaurar í svipuðum jakkafötum (annar í möttum, hinn í glansandi) fóru upp í sumarbústað þar sem engum tókst að ná í þá nema Sigga Hlö. Útkoman var Wild Boys og ríkisstjórn uppá 10 ráðherra og 38 þingmenn sem ætlaði aldeilis að sýna okkur hvernig átti að stjórna. Skuldaleiðrétting, haftalosun, stytting framhaldsskólans, þrír seðlabankastjórar, þjóðaratkvæði um ESB, breytingar á stjórnarskrá, álver í Helguvík, og virkjanir aftur í fúll sving. Ferðamannastraumur taminn og virkjaður. Nú var ábyrgt fólk komið til valda, traust og sterk ríkisstjórn tekin við.

13 þingmanna meirihluti. Þetta virkaði frekar óbifanlegt. 

Rúmum þremur árum síðar er hún hins vegar að þrotum komin, illa löskuð með tapað traust, fylgið farið og meirihlutinn með. Kosningar að hausti vegna hneykslis að vori, og nánast allir ráðherrarnir búnir að vera, nema einn, nema Sigurður Ingi, sem skín sem aldrei fyrr, eins og hin undarlegasta tegund af harðgerri haustjurt sem blómstrar þegar aðrar fölna. Það er fágætur hæfileiki í pólitík að ná að sýna tennurnar með því að brosa.

En jæja. Ríkisstjórnin er rúin trausti og ráðherrum, hin „sterka og ábyrga“ hægri stjórn lyppaðist niður fyrir tímann. Móðursystur hennar, þær Spilling og Samtrygging, drápu hana í sameiningu.

 

Fyrst fór Hanna Birna, eftir að hafa logið að þingi og þjóð svo mánuðum skipti. Síðan fór Sigmundur eftir að hafa logið að heimi og þjóð á einu kvöldi. En með honum fóru líka Bjarni Ben og Ólöf Nordal, tveir ráðherrar sem líka voru í Panama Papers, sem eitt sinn áttu aflandsreikning og höfðu með því reynt að svindla sínum peningum út úr íslensku skattkerfi, skattkerfinu sem þau hafa verið ábyrg fyrir undanfarin þrjú ár. Hvers vegna þau eru enn í framboði er ein af sturluðum staðreyndum íslenskrar stjórnmálasögu. 

En aðrir ráðherrar fara líka laskaðir frá þessu borði. Illugi hættir sjálfviljugur eftir erfiða umræðu um sín mál, Ragnheiði Elínu er fórnað af eigin flokksmönnum í hennar eigin kjördæmi, Sigrún Magnúsdóttir hættir vegna aldurs, eftir að hafa breytt umhverfisráðuneytinu í andhverfisráðuneytið, eins konar vottunarstöð fyrir framkvæmdasinna, allt í góðum anda Sivjar Friðleifsdóttur. Gunnar Bragi er horfinn af yfirborði jarðar, eftir að hafa tapað einum Sigmundi í formannskjöri, og enginn veit hvar hann er eða sleikir sitt smér. Eygló Harðardóttir lafir enn, en aðeins vegna þess að hún skreið upp í björgunarbátinn um leið og skipið lagðist á hliðina, og hefur talað þaðan síðan, en er þó svo langt frá því að vera sú „kæra Eygló“ sem hún vildi verða, eftir að hafa aðeins boðið hundrað flóttamönnum til landsins. Þá er eftir Kristján Þór, já, hvað skal segja um Kristján Þór? Kannski er heilbrigðisráðuneytið eina heilbrigða ráðuneytið? Hann hefur allavega ekki heilbrugðist eins og hin öll, bara kvartbrugðist, með því að draga lappir og lappa ekki upp á farlama spítala, en þó komið arðvænlegustu sjúkradeildunum í góðar hendur. Já, ég sagði arðvænlegar sjúkradeildir. Þar sem sumir vilja græða sárin vilja aðrir græða á sárum. 

En.

Þetta er undarlegur ferill hjá Ríkisstjórn ríka fólksins. Að fara úr 51,1% fylgi niður í 30,1% á aðeins þremur árum. Og samt eru hinar tölurnar flestar í lagi; atvinnuleysi, hagvöxtur og krónugengið. Og ríka fólkið hefur algjörlega fengið „sjitt“, „fyrir allan peninginn“, eins og sagt er. Ávöxtun verið frábær. Fyrir hverja milljón sem þau settu í kosningabaráttuna 2013 hafa þau fengið milljarð á ári í lækkun á veiðigjöldum og auðlegðarskatti. Og með einn alkóa-maka innbyrðis hefur stjórnin náð að alkóa svo með Alcoa að enn er ekki von á tíund frá fyrirtækinu sem við gáfum einn tíunda hluta hálendisins. Í bónus fengu landkrabbarnir svo nýjan búvörusamning sem tryggir þeim hálstak á bændum landsins til tíu ára og fulla einokun á mjólkurkælinum í Bónus. Aðstöðumælarnir lengi lifa! Hún hefur semsagt ekki verið alveg verklaus, þessi hæggenga hægri stjórn, þrátt fyrir að seðlabankastjóri sé ennþá bara einn, ekkert álver komið í Helguvík, túristaflaumurinn alls óvirkjaður og enn eigi eftir að kjósa um ESB. 

Og hvað gera bændur þá? Jú, Framsókn er búin að skipta um formann og kveða sér nýja Lilju, og konan hans Bjarna er búinn að baka nýja þjóðarköku og það sem meira er, Bjarni er búinn að skreyta hana í bleiku og gulu, sem ætlar að verða hans eina framlag til konsingabaráttunnar, enda sendir hann bara einhverja aðra í málefnaþættina á RÚV. 

„Bíddu, bíddu hvern eigum við að senda? Það eru svo margir farnir, maður … svo fáir eftir … Illugi náttúrlega, Ragnheiði El …? Nei já. Ragnheiði Rík … nei alveg rétt, hún er líka farin. Elínu Hir … nei, Ólöfu No … Já, nei. 

Hey, ég veit! Þorgerði Ka …! — (þögn). 

En Pál Ma … nei, fólk sér bara fréttamann. Brynjar? Nei, hann er eitthvað svo … Ásmu …? Na … Birgi Árm … nja … 

Jæja, heyrðu, en hvað með  hana þarna, Sigríði Andersen? Já, sendum bara Sigríði Andersen. Hvaða þáttur er þetta, umhverfisumræðan? Já, sendum hana bara, þetta er hvort sem er bara mjög lítið ráðuneyti, upplagt fyrir hana.“

Og Sigríður Á. Andersen er send í umræðuþátt RÚV um auðlinda- og umhverfismál. Og í lok þáttarins er hún spurð hvort ruslið sé ekki örugglega flokkað á hennar heimili? Já, nei nei, segir fulltrúinn á löggjafarsamkundunni, hún flokkar ekki ruslið! Hún hendir bara öllu saman í sömu tunnu, gleri, plasti, pappír, hálfnýjum fötum, ljósaperum og batteríum, hún er bara frjáls í sínu rusli, hún er frjálshyggjukona! Og gerði svo í kjölfarið grín að fólki sem hefur það sem „áhugamál“ að keyra út í Sorpu með plast og gler og garðaúrgang í sitthvorum pokanum. Ha ha, er það nú áhugamál! sagði þingkonan hlæjandi. Því sjálf lætur hún engan fokka í sínu rusli og flokkar því ekki ruslið. Hún á þetta rusl og hún má þetta rusl. Hún er frjálshyggjukona og býr því við algert ruslafrelsi, og þá skiptir engu hvort það sé rusl þetta frelsi, hún er frjálshyggjukona og frjálsheggur svona.

Sigríður AndersenSegist ekki flokka rusl heima hjá sér.

 

Svei mér þá. Ég er enn að hugsa um Sigríði Andersen og það sem hún sagði í þessum þætti. Því þarna náði frjálshyggjan kannski hámarki, þarna náði hún loks á endastöð, en þó ekki í endurvinnslustöð, því þótt Sigríður Andersen hafi þarna ákveðið að henda frjálshyggjukenningunni í ruslið frammi fyrir alþjóð, lenti hún, eins og annað á hennar heimili, í almenna ruslinu, sem endar svo á haugunum og  verður því ekki endurunnið. 

En eftir stendur að Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn svo mannvana og kvenvana að hann varð að senda umhverfissóða í umhverfisþátt, þingkonu sem þiggur þingfararkaup en tekur þó ekki þátt í því sem heitir siðað samfélag heldur vill bara vera ein og sér í siðblindu sérfélagi.

Flokkast ekki flokkur sem flokkar ekki rusl sem rusl? Samt sem áður er hann stærstur í skoðanakönnunum og situr í ríkisstjórn með flokki sem er í svo miklu rusli að það eru gerðar um það fréttir dag eftir dag hvort fráfarandi formaður hafi svarað SMS-i frá núverandi formanni, og hvernig þá — með broskalli, broslausum kalli eða fýlukalli? Og hvað leið eiginlega langur tími frá því hann fékk SMS-ið og þar til hann svaraði? Þetta eru nú ríkisstjórnarflokkarnir. 

Einn er úti að aka, hinn er heima að baka. 

Það er því mjög mjög nauðsynlegt fyrir okkur að muna hvernig fór fyrir þessari stjórn. Við verðum að muna það í kjörklefanum hvers vegna kosið er núna. Við verðum að muna að senda ruslaflokkunum tveimur (aka spillingarflokkunum, Tortólaflokkunum, Panamaflokkunum …) skýr skilaboð. Við getum ekki látið þá stjórna landinu okkar lengur. Því hvað verða þá margir ráðherrar í næstu Panamaskjölum sem opnast? Síðasta vor opnaðist nefnilega bara einn skápur af mörgum, eins og Eva Joly sagði, og þó var hann fullur af 600 nöfnum, 600 Íslendingum sem áttu nægar eignir til að koma þeim fyrir í skattaskjóli. 600 íslenskir svindlarar geyma milljarðana sína utan kerfis, óskattlagða milljarða, atvinnulausa milljarða sem gætu verið í vinnu hérna heima, við að byggja upp heilbrigðis- og vegakerfi, leikskóla og menntaskóla, launaseðla kennara, sjúkraliða og skólaliða. Það eru 600 svikarar á meðal vor og þar af eru ennþá tveir í ríkisstjórn Íslands. Hvað verða margir í næsta leka?

Kæru landar, gerum það fyrir Ísland að framlengja ekki setu spillingar á ráðherrastóli heldur reynum að uppræta hana. Og uppfæra kerfin. Og ná þessum peningum heim. Já, verður það ekki átak næstu ríkisstjórnar? Peningana heim! Eins og handritin á sínum tíma. Tortólaflokkarnir eru auðvitað alls ófærir um slíkt. Gefum okkur þess vegna frí frá stórum strákum í glansandi og möttum jakkafötum. 

Ég veit að þetta er allt saman voða flókið og við fáum aldrei algjörlega fullkomna stjórn og allir þessir flokkar eru mismikið rusl, en getum við ekki ákveðið það núna að hætta að níða hvert annað niður, hætta að rífast innbyrðis það sem eftir lifir af október og hætta að kvarta undan einhverjum sem sagði eitthvað og boðaði einhvern á fund klukkan eitthvað en ekki hinn. 

Reynum að horfa á þetta úr smá fjarlægð og þá sjáum við að línurnar eru skýrar. Það skiptir í raun ekki máli hvað við kjósum, á meðan við kjósum ekki Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn, og köstum ekki atkvæði okkar á glæ, á einhvern 1% flokkinn. Það eina sem við þurfum og verðum að gera er að kjósa Pírata, VG, Viðreisn, Björtu eða Samfylkinguna. Þessir flokkar eiga alveg að geta starfað saman. Eins og maðurinn sagði í morgun: „Þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar var fjögurra flokka stjórn, ein sú besta sem við höfum séð, það var hún sem kom með þjóðarsáttina.“

Það er það sem við þurfum. Ekki meiri þjóðarskömm, heldur þjóðarsátt. Og í Katrínu Jakobsdóttur eigum við manneskju eins og Steingrím, sameinandi og sjarmerandi afl. Við gátum þetta fyrr í sumar, sagt skilið við gamlan tíma. Við gátum þetta með Guðna Th. og við getum það líka núna. 

Koma svo! Kjósum af von í stað venju.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“