Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

18. febrúar 1766: Þrælauppreisn fékk hörmulegan endi

Illugi Jökulsson skrifar um uppreisnina á hollenska þrælaskipinu Meermin

Hollenskt skip Austur-Indíafélagsins nálgast Höfðaborg - Myndin er eftir óþekktan höfund, máluð 1762.

Á þessum degi fyrir 251 einu ári - eða þann 18. febrúar 1766 – hófst  ein frægasta þrælauppreisn fyrri tíma á skipi úti fyrir ströndum Suður-Afríku, og fékk hörmulega endi þremur vikum seinna.

Hollendingar komu sér upp nýlendu í Suður-Afríku um miðja 17. öld. Nýlendan var þar sem nú er Höfðaborg og út frá henni byggðu hollenskir bændur búgarða og býli. Þar voru komnir forfeður Búanna svonefndu sem enn í dag mynda stóran hluta hinna hvítu íbúa Suður-Afríku.

Um þær mundir bjuggu tiltölulega fáir svartir frumbyggjar svo sunnarlega í Suður-Afríku og Hollendinga skorti vinnuafl, bæði í nýlendunni og á búgörðunum umhverfis.

Hin kristnu gildi Hollendinga leyfðu þeim að hneppa annað fólk í þrældóm og á 150 árum voru 63.000 þrælar fluttir til Höfðanýlendu, mjög margir þeirra frá Madagaskar.

Ýmist fóru Hollendingar þrælakaupmenn sjálfir í land á Madagaskar og veiddu þræla - karla, konur og börn - eða keyptu þá af innlendum höfðingjum á eyjunni.

Um miðjan febrúar 1766 lagði þrælaflutningaskip Hollenska Austur-Indíafélagsins upp frá Madagaskar. Um borð var 56 manna áhöfn og um það bil 140 Malagasí-menn sem áttu að verða þrælar í Höfðanýlendu.

Malagasí kallast þjóðin sem byggði Madagaskar. Enda þótt Madagaskar sé undan Afríkuströndum byggðist eyjan á sínum tíma nær eingöngu frá Suðaustur-Asíu.

Þrælaskipið hét Meermin og skipstjóri þess var Gerrit Kristoffel Muller. Hann var ungur og óreyndur og auk þess lasinn um það leyti sem siglingin frá Madagaskar hófst.

Um borð í skipum Hollenska félagsins var líka ætíð svonefndur „yfirkaupmaður“ sem var í raun eins konar leiðangursstjóri og hafði oft ekki síðri völd um borð en skipstjórinn. Yfirkaupmaður í þessari ferð hét Johann Gottfried Krause og var reyndur maður í svona sjóferðum.

Tveim dögum eftir að lagt úr höfn veittu Hollendingar því athygli að veikindi voru að brjótast út meðal þrælanna. Á þessum ferðum voru þrælarnir hlekkjaðir saman í þröngum og vondum vistarverum og alls ekki var óalgengt að sóttir kostuðu fjölmarga þeirra lífið.

Hin kristnu gildi Hollendinga komu sem sé alls ekki í veg fyrir að þeir flyttu þrælana við aðstæður sem auðvitað voru hvorki mönnum né dýrum sæmandi.

En Krause sannfærði nú Muller skipstjóra um að leysa hluta Malagasí-mannanna úr hlekkjunum og hleypa þeim upp undir bert loft. Karlmennirnir voru settir til vinnu um borð en konurnar látnar skemmta skipverjum með söng og dansi.

Malagasí-stríðsmaðurMalagasí-stríðsmaður. Mynd frá 19. öld.

Ekki var það eingöngu mannkærleikur Krauses sem stýrði verkum hans, heldur einnig og raunar miklu fremur hin rómaða hollenska hagsýni. Hann vildi einfaldlega ekki missa meirihluta þrælanna úr sótt áður en komið yrði að landi.

Það væri ekki góður bissniss.

Seinna meir komst dómstóll hollenska félagsins að þeirri niðurstöðu að Muller skipstjóri hefði gerst sekur um alvarlega yfirsjón með því að samþykkja ósk Krauses um að þrælunum yrði sleppt upp á dekk. Hann hefði mátt vita að slíkt myndi enda illa.

Fyrir því var reynsla hjá félaginu. Að vísu höfðu sjaldan brotist út uppreisnir en þrælar sem losaðir voru úr hlekkjum köstuðu sér oft í sjóinn frekar en sjá fram á ævi í þrældómi.

En nú gekk Krause lengra. Meðal farms Meermins var nokkurt safn af sveðjum og spjótum og öðrum hefðbundnum vopnum Malagasí-manna, sem setja átti á safn í Höfðanýlendu. Krause skipaði nú svo fyrir að Malagasí-mennirnir yrðu látnir þrífa og pússa þessi vopn.

Krause mun hafa hlegið þegar hann gaf þessa skipun því hann gerði sér grein fyrir að sumum skipsfélaga hans leist ekki á blikuna. En hann mun hafa álitið sig (og aðra Hollendinga) standa Malagasí-mönnum svo langt framar að vitsmunum að þeir hefðu ekkert að óttast af hendi þrælanna.

Þrælarnir gerðu hins vegar uppreisn um leið og þeir voru búnir að fá vopn sín í hendur. Síðar viðurkenndu þeir sem eftir lifðu af þrælunum að þrír úr þeirra hópi hefðu verið byrjaðir að skipuleggja uppreisn strax við brottförina frá Madagaskar, og „linkind“ Krauses hefði því ekki ráðið úrslitum – þótt auðvitað hefði yfirkaupmaðurinn gert þeim mun auðveldara fyrir.

Meðal þeirra fyrstu sem uppreisnarmenn drápu var Krause. Skipverjum tókst að loka sig inni á tveimur stöðum í skipinu en kyrrð komst ekki á fyrr en að þrem dögum liðnum. Þá var um það bil helmingur áhafnarinnar fallinn eða tæplega 30 manns.

Malagasí-menn fóru nú með völd á skipinu. Þeir kunnu hins vegar ekki að sigla því. Muller skipstjóri var illa særður eftir að hafa verið stunginn þrisvar en með stjórn af hálfu Hollendinga fór Olav Leiji, aðstoðarmaður Krauses. Hann samdi við uppreisnarmenn um að sigla með þá heim til Madagaskar.

Hin kristnu gildi Leijis komu hins vegar ekki í veg fyrir að hann sviki Malagasí-mennina. Hann treysti á að þeir kynnu ekki að lesa út úr ferð skipsins og sigldi Meermin síðan til Suður-Afríku. Þegar hann kom að landi við suðurodda Afríku sigldi hann upp í fjöru og skipið staðnæmdist einn og hálfan kílómetra frá landi.

Malagasí-menn voru tortryggnir og könnuðust ekki við landkosti við ströndina en Leiji sagði þeim að skipið hefði einfaldlega komið að landi á þeim hluta Madagaskar sem þeir þekktu ekki. Hluti skipverja og um 70 Malagasí-menn fóru síðan í land á léttabátum Meermins.

Malagasí-mennirnir sem fóru í land sögðu félögum sínum sem eftir urðu að þeir myndu kveikja þrjú mikil bál á ströndinni ef öllu væri óhætt.

Uppi á ströndinni beið hins vegar í felum vopnuð sveit hollensk-ættaðra bænda. Olof Leiji hafði látið taka niður alla fána og veifur á Meermin þegar þegar nálgaðist land, og bændurnir – sem sáu til ferða skipsins – túlkuðu það réttilega þannig að eitthvað væri að um borð, og aðstoðar þörf.

Þegar hópurinn sem fór í land var kominn úr sjónmáli við skipið réðust bændurnir að þeim. Nokkrir Malagasí-menn voru aðrir, aðrir reyndu að flýja en voru handsamaðir á næstu dögum.

Úti í skipinu biðu þeir Malagasí-menn sem eftir voru frétta. Eftir nokkra daga voru þeir orðnir all óþolinmóðir. Leiji og menn hans skiptust hins vegar á upplýsingum við bændasveitina í landi með flöskuskeytum.

Leiji bað bændur að kveikja hin þrjú umsömdu sál á ströndinni svo Malagasí-menn héldu að öllu væri óhætt. Þegar þeir síðarnefndu sáu svo bálin kvikna létu þeir skipið reka alla leið upp í fjöru.

Er þeir sáu að þeir höfðu verið gabbaðir ætluðu þeir að fyrirkoma þeim úr áhöfninni sem eftir voru, en Leiji sannfærði þá um að gefast upp og yrði þeim þá ekki refsað fyrir uppreisnina.

Svo fór að 112 Malagasí-menn urðu þrælar í hollensku nýlendunni og hafa samkvæmt því tæplega 30 látið lífið í uppreisninni. Aðeins tveim leiðtogum uppreisnarmanna var gerð sérstök refsing, en sá þriðji hafði fallið.

Við réttarhöld vegna málsins fengu Muller skipstjóri og ýmsir manna hans þunga áfellisdóma. Meira að segja Leiji var rekinn úr þjónustu Hollenska Austur-Indíafélagsins.

Við þessi réttarhöld kom í ljós að hið grimmilega viðhorf Evrópubúa til þræla var örlítið farið að breytast. Fram að þessu höfðu flestir litið á þræla sem skynlausar skepnur. Uppreisn var ævinlega hegnt með dauðadómi.

Nú viðurkenndu Hollendingar hins vegar í reynd að frá sjónarhóli Malagasí-manna hefði uppreisn verið eðlileg, og því væri ekki ástæða til að refsa fyrir hana. Eins og segir á einum stað var þetta mál því skref í þá átt að Evrópumenn tækju að líta á þrælana sem „frjálsa og hugsandi einstaklinga“.

Leiðtogarnir tveir sem eftir lifðu voru þó fluttir í fangelsi á eyju út af Höfðanýlendu. Þar dó annar þeirra eftir fáein ár en hinn lifði að minnsta kosti 20 ár og lét sig dreyma um blómlegar strendur Madagaskar.

Fangaeyjan heitir Robben-eyja og 200 árum seinna var þar geymdur annar fangi að nafni Nelson Mandela.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu og málsmeðferð í samræmi við lög

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni