Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Leiðari

Vandamálið með forsætisráðherrann okkar

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra missir ekki svefn yfir því að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna styðji ekki ríkisstjórn hans. Hann biður almenning að gæta hófs, en vill sjálfur ekki ræða að takmarka óhóflegar launahækkanir til þröngs hóps í kringum hann. Meirihluti landsmanna telur landið vera á rangri braut. Bjarni hefur undanfarna mánuði sýnt einkenni sem leiðtogi, en það eru til öðruvísi leiðtogar.

Bjarni Benediktsson Missir ekki svefn yfir því að fólkið í landinu styður ekki ríkisstjórnina hans. Mynd: Pressphotos

Sumir hafa þá skoðun að of mikið sé fjallað um Bjarna Benediktsson, forsætisráðherrann okkar. Það gildir sérstaklega um stuðningsmenn hans, en ekki bara þá. Allt frá því að fjallað var um vafningsviðskipti hans, fléttu hans og viðskiptafélaga hans sem endaði í dómsmáli, hefur verið talað um einelti gegn honum. Yfirleitt fylgir kenningunni að það séu vinstri miðlar sem standa að baki því.

En ítarleg umfjöllun um aðferðir, framkomu og áherslur helsta leiðtoga Íslands er nauðsynlegur liður í því að greina hvort Ísland sé á réttri leið. Framkoma leiðtoga skiptir máli, upp á það að gera hvort fólk geti samsamað sig samfélaginu, hvort fólk upplifi að borin sé virðing fyrir því og hvort æskilegt sé að aðrir taki leiðtogann sér til fyrirmyndar í breytni sinni.

Missir ekki svefn yfir óánægju fólks

Viðhorfsmælingar gefa til kynna að verulegur hluti þjóðarinnar upplifir forsendubrest í samfélaginu og 54 prósent landsmanna telja okkur vera á rangri leið sem samfélag. Eini tekjuhópurinn sem telur almennt Ísland vera á réttri leið er fólk með milljón á mánuði eða meira.

Hvernig bregst leiðtogi við þeirri stöðu að aðeins fjórðungur fólks mælist ánægður með ríkisstjórn manns? „Ég missi ekki svefn yfir því ...“ var svar Bjarna. Það getur verið einkenni góðs leiðtoga að láta ekki áskoranir raska ró sinni. Þegar hann hins vegar ypptir öxlum yfir afgerandi viðhorfi kjósenda og landsmanna til starfs hans og stefnu framkallar hann þá tilfinningu hjá þeim sem eru ósáttir að þeir skipti ekki máli. Með því að svara með skeytingarleysi og hroka, frekar en auðveldri auðmýkt, ýtir leiðtogi undir óþarfa sundrungu og samfélagslega firringu, í stað samheldni sem fylgir því að viðurkenna annað fólk.

Aflétting eigin ábyrgðar

Hvað gerir maður sem lýðræðislega kjörinn leiðtogi þegar fulltrúar manns í ráði, sem ákveður launin manns, hækkar þau um 75 prósent á sama tímabili og laun almennings hækka um rúmlega 28 prósent? „Mér finnst alveg gersamlega óþolandi að þurfa að taka umræðu um það hver kjör þingmanna eigi að vera,“ svaraði Bjarni. Hann útskýrði það með því að þriðji aðili ætti að bera ábyrgð. En fjórir af fimm í kjararáði eru skipaðir af Alþingi eða honum sjálfum beint. Þar af er formaðurinn nokkuð áberandi meðlimur í flokknum hans og fulltrúi hans í stjórn Landsvirkjunar. 

Ábyrgðarstrúkturinn er þannig að enginn ber meiri ábyrgð á kjararáði en Bjarni. Viðbrögð sem þessi ýta undir tilfinningu fólks um ábyrgðarleysi, klíkusamfélag og andverðleika, og gefur til kynna óþol að ofan fyrir eðlilegri umræðu um ábyrgð. Leiðtogi hefði getað látið nægja að benda á að fram að launahækkuninni hafi aðrar stéttir fengið meiri hækkanir frá 2013, rétt eins og Bjarni og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hafa vísað til. Hann gæti viðurkennt, en ekki véfengt, rétt spyrjandans til að leggja fram spurninguna. Heildarmyndin er hins vegar alltaf sú sama. Eftir tæplega 45 prósent risalaunahækkunina var innsiglað að þingmenn hafa fengið hækkanir langt umfram almenning, áratug aftur í tímann. 

Ábyrgðin sett á almenning

Mikilvægt er að leiðtogi skapi gott fordæmi til að fólk skynji traust og sjái skynsemi í aðgerðum þeirra. Nokkru eftir að stétt hans fékk einhverjar óhóflegustu launahækkanir sem um getur fór Bjarni fram á það við almenning að gæta hófs. Hann sagði annað af tveimur mikilvægustu verkefnum samtímans væri að halda friði á vinnumarkaði. Vinnumarkaðurinn hefur brugðist við hækkun kjararáðs með því að vara við því að með henni sé ein af þremur forsendum friðar á vinnumarkaði brostin.

Ef tilgangur leiðtoga er að fá fólk til að standa saman og trúa því að það búi við sanngjarnt, traustvekjandi samfélag, gerir hann ekki svona. Hann beitir sér líka gegn því að forsendubyltandi ákvarðanir um launakjör séu teknar á laun sama dag og fólk kýs til Alþingis, til að framkalla ekki vantraust almennings á kerfinu og lýðræðinu. 

Viðbrögð við tortryggilegri stöðu

Hvað gerir maður sem lýðræðislega kjörinn leiðtogi þegar boðað er til kosninga vegna hulinna hagsmuna og eigna í skattaskjólum og skýrsla er tilbúin í ráðuneytinu manns, sem sýnir fram á að stefna og aðgerðarleysi flokksins hans hafi verið ein helsta rót vandamálsins?

Leiðtogi myndi gera sér sérstaklega far um að gera allt rétt. Hann myndi koma skýrslunni sem fyrst í vitund annarra, þeim til mats, tryggja að hann færi ekki einn með forræði yfir málinu og bregðast við meðvitaður um að öll hans aðkoma að málinu yrði réttilega tortryggð, sérstaklega ef hún yrði honum til hagsbóta. Val Bjarna var hins vegar að fresta birtingu skýrslunnar fram yfir kosningar, sjálfum sér til hagsbóta.

Þegar það kæmi síðan í ljós, að fólk væri ósátt við að hann frestaði birtingu skýrslunnar fram yfir kosningar, hefði leiðtogi tryggt með öllu að svör hans væru góð. Bjarni sagði hins vegar ósatt í viðtali, sagðist hafa fengið skýrsluna mun seinna en raunin var og áfelldist aðra fyrir umræðuna. „Þetta er auðvitað allt saman tómur þvættingur og fyrirsláttur og ekkert nema pólitík,“ sagði hann – í stað þess að viðurkenna að sjónarmið annarra kynnu að stafa af málefnalegum ástæðum.

Skýrslan um áhrif stærstu aðgerðar ríkisstjórnar Bjarna á þjóðfélagshópa var líka geymd hjá Bjarna fram yfir kosningar. Og reyndar fram yfir stjórnarmyndun. Hún sýndi fram á að 86 prósent af upphæð leiðréttingarinnar rann til tekjuhærri helmings þjóðarinnar, sem gaf til kynna sérstaklega mikil misskiptingaráhrif aðgerðarinnar. 

Að setja aðra niður sjálfum sér til hækkunar

Góður leiðtogi sýnir þeim virðingu sem verða á vegi hans. Hann kann að vera ósammála þeim, en viðurkennir málefnalega andstöðu í staðinn fyrir að úthrópa hana, gera lítið úr henni og segja hana koma af annarlegum ástæðum. 

Aðferð Bjarna til að ávinna sér traust hefur gjarnan verið að gera lítið úr öðrum. Það er auðvitað ekki einstakt meðal stjórnmálamanna, en teldist vera mikill löstur hjá stjórnanda eða starfsmanni í Bónus, Hagkaup eða hverju öðru fyrirtæki.

Þegar 60 prósent vantreystu honum en 20 prósent treystu honum, samkvæmt skoðanakönnun fyrir tæpu ári síðan, sagði Bjarni að hann hefði stuðning, en gerði lítið úr Pírötum. Hann sagði þá hafa „skriðið inn á þing“ og að stjórnarandstaðan væri „í molum“. „Mér finnst þetta varla vera stjórnmálaflokkur,“ sagði hann síðar.

Hættan er að það sé ekki tilfallandi þegar leiðtogar sýna hroka og segja ósatt. Að það séu einmitt aðferðirnar sem þeir þurfa að nota til að sannfæra fólk um að kjósa þá. Að það takist, með því að setja aðra niður, setja sjálfan sig á háan hest og hagræða staðreyndum í tali sínu, að sannfæra fólk um að hann sé færari en aðrir til að stjórna. 

Þjónandi leiðtogar

En það eru til öðruvísi leiðtogar. Þjónandi leiðtogar vinna fyrir fólkið sitt frekar en sjálfa sig eða sína. Þeirra starf gengur út á að lyfta upp öðrum, bæta heildina. Þeir eru meðvitaðir um áhrif sín á samfélagið, sýna öðrum hluttekningu, hlusta og viðurkenna ábyrgð sína. Þeir nota rök frekar en vald til þess að fá sínu framgengt, auðsýna auðmýkt og hógværð, tryggja trúverðugleika sinn með heiðarleika og viðurkenna aðra.

Nútímalegir þjónandi leiðtogar, sem virka á forsendum almennings, verða víkjandi svo lengi sem getan til að einfalda, margfalda, grútskýra, hræða, gera lítið úr, snúa út úr og framkalla foringjadýrkun er það sem þarf til að fá atkvæði okkar. Lausnin liggur hjá okkur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu og málsmeðferð í samræmi við lög

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni