Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Leiðari

Vald og ótti: Svona á að vinna kosningar

Á sama tíma og hann tekur til sín vald og færir til sín fjármagn afskræmir hann aðra frambjóðendur og elur á ótta gagnvart þeim.

Bjarni Benediktsson Fær stjórnarmyndunarumboð frá forsetanum eftir að hafa óvænt fengið langflest atkvæði allra stjórnmálaflokka í kjölfar vel heppnaðrar kosningabaráttu. Mynd: Pressphotos

Sama dag og við gengum til kosninga með það að markmiði að minnka sérhagsmunagæslu, viðhalda jafnaðarsamfélagi og forðast spillingu, var fólkinu sem við kusum færðir verulegir fjármunir með ákvörðun þeirra sem það skipaði, án þess að við fengjum að vita það.

Við, örlítið fyrirmyndarland jafnaðarins, erum með þjóðarleiðtoga og forsætisráðherra á miklu hærri launum en leiðtogar Frakklands, Bretlands, Finnlands, Danmerkur, Hollands, Belgíu, Japans, Rússlands, Kína, Indlands, Ítalíu, Spánar og svo framvegis.

Við göngum ekki inn í brennandi hús, sagði formaður eins helsta valdaflokks litla jafnaðarlandsins um Evrópu, þar sem laun stjórnmálaleiðtoganna eru lægri en hér.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skipaði sjálfur tvo af fulltrúunum í kjararáði, sem hefur hækkað laun þingmanna um 75% á kjörtímabili Bjarna á meðan almenn laun hafa hækkað um 29%. Vikurnar fyrir kjördag hneykslaðist Bjarni á viðhorfi þeirra sem gagnrýndu áhrif skattabreytinga hans: „Jöfnuður hér á landi er meiri en almennt í öðrum löndum og við vekjum athygli fyrir það víða um heim. Það er dapurlegt að sumt fólk virðist aldrei geta litið tilveruna björtum augum og leggur sig fram um að finna eitthvað neikvætt.“

Gagnrýnin og bjartsýnin

Tvenns konar sýn á samfélagið tekst á í umræðunni. Annars vegar er gagnrýnin sýn á hagsmunabaráttu og -árekstra og krafa um breytingar, til dæmis gagnrýni á fjármagnsflutninga til hópa sem geta misnotað aðstöðu sína til að fá forskot á almenning.

Hins vegar er bjartsýnin á ríkjandi ástand og krafan um samstöðu og stöðugleika.

Þeir sem þrá stöðugleikann og að viðhalda valdahlutföllum gera út á óttann við breytingar. Fyrir kosningarnar var teiknuð upp mynd, sem var kynnt af Sjálfstæðisflokknum. Myndin átti að sannfæra kjósendur um að breytingar væru hættulegar og að hætta stafaði af talsmönnum breytinga.

Svona vann Bjarni kosningarnar

Sviðsmyndin sem Bjarni Benediktsson og kynningardeild Sjálfstæðisflokksins stillti upp var að hann sæti í bílstjórasætinu. Slagorðið var „á réttri leið“. Hann var með þjóðina og vanstillta frambjóðendur í bílnum. Í auglýsingum sagði Bjarni að nú væri „ekki rétti tíminn fyrir u-beygju“. 

Því næst var hafist handa við að gera mótframbjóðendur sína tortryggilega og ala á ótta við þá.

Markvisst voru sköpuð hughrif um að Píratar ógnuðu lífi okkar. Facebook-síðan Kosningar 2016 framleiddi myndbandaröð um Pírata og auglýstu með leynilegu fjármagni. Sýndar voru myndir af hryðjuverkunum í Nice og fjöldamorðingjanum Anders Behring Breivik og spurt hvort Píratar ættu að sjá um öryggismál þjóðarinnar. Hughrif um hættu voru síðan aukin með því að birta ítrekað myndir af frambjóðanda Pírata þar sem hann æfði meðferð skotvopna.

Tekið í stýrið

PR-stefna Sjálfstæðisflokksins í kosningunum náði þvert yfir samfélagsmiðla, auglýsingar og umræðuþætti. Tilfærslur fjármagns segja oft söguna með skýrasta hætti. Fjármagnið á bakvið fagmennskuna og styrk Sjálfstæðisflokksins og tengdra aðila í markaðsmálum rennur frá hagsmunaaðilum sem vilja viðhalda valdahlutfallinu og færa fjármagn til þröngs hóps. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegið 20 milljónir króna frá handhöfum fiskveiðiheimilda á árunum 2013 til 2015. Við vitum ekki hversu mikið hann fékk í ár, eða hverjir fjármögnuðu áróðurssíðurnar á Facebook og stöðvarnar á Youtube. Við vitum bara að Píratar voru gagnrýndir harðlega fyrir gagnsæi dagana fyrir kosningar, fyrir tilraun til að gefa upp fyrirfram hvaða málamiðlanir yrðu gerðar eftir kosningarnar. Og þeir voru eini flokkurinn sem gaf upp hvaða styrki hann fékk á þessu ári, fyrir kosningarnar.

Sjálfstæðisflokkurinn dró áfram upp mynd. Bjarni var vel undirbúinn og hagaði orðum sínum af nákvæmni, í þeim skýra tilgangi að draga upp myndir í huga kjósenda af hættulegum, heimskum og óheiðarlegum andstæðingum sínum.

Í leiðtogaþætti á RÚV kvöldið fyrir kosningar talaði Bjarni Benediktsson um að hinir frambjóðendurnir ætluðu „þrífa í stýrið“. Og þá að reyna u-beygju, á réttri leið, á 90 kílómetra hraða. 

Þegar kjósandi spurði hann á opnum fundi daginn áður hvort honum þætti réttlætanlegt, í samhengi við heilbrigðisútgjöld, að leyna eignum í skattaskjólum, útmálaði hann mótframbjóðendur sína. „Það er búið að ljúga þig fullan af svona frambjóðendum eins og eru hér uppi í pallborðinu,“ sagði hann ákveðið, og sakaði kjósandann um að hafa „étið upp“ lygarnar. Í staðinn fyrir það heiðvirða, að biðjast afsökunar á yfirsjón sinni að hafa framið siðferðislega vafasaman verknað, stimplaði hann mótframbjóðendur sína sem óheiðarlega. 

Völdin tekin til flokksins

Á kjörtímabilinu eru áberandi dæmi um að Bjarni hafi tekið vald frá þjóðinni og fært til sjálfs sín, nokkuð sem brýtur í bága við grundvallaratriði lýðræðisins. Eftir að þjóðin samþykkti nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu vanvirti hann niðurstöðuna.

Ákvæði í nýju stjórnarskránni fólu í sér valdatilfærslur frá stjórnmálaflokki Bjarna, til dæmis persónukjör, jafnt vægi atkvæða og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hún var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að hafa verið mótuð af sérstöku stjórnlagaráði til að fyrirbyggja að stjórnmálaflokkar mótuðu sjálfir reglurnar um sjálfa sig og völd sín. Fjórum árum síðar er engin ný stjórnarskrá. 

Bjarni sveik loforð sitt um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu eftir síðustu kosningar, en það var lítið rætt í umræðuþáttum fyrir þessar kosningar. Þegar þau mál bárust óbeint í tal sneri hann þeim upp í myndmál sem átti að gefa hughrif um heimsku og vanstillingu hinna frambjóðendanna.

Í kosningaþætti á Stöð 2 tveimur dögum fyrir kjördag sakaði hann þá um að vilja „taka stjórnarskrána og rífa hana í tætlur og henda henni í ruslið“. Og vilja búa til átök á Alþingi, þegar flokkur hans myndi reyndi að fyrirbyggja innleiðingu stjórnarskrár sem minnkar völd flokksins hans og eykur völd almennings.

„Mér finnst þetta varla vera stjórnmálaflokkur,“ sagði Bjarni kvöldið fyrir kosningar, í áframhaldandi, meðvitaðri tilraun til að afskræma fólkið sem bauð sig fram fyrir Pírata til að breyta samfélaginu og dreifa völdum frá stjórnmálamönnum eins og honum. 

Á meðan þú kaust

Og á meðan Bjarni var kosinn var fólk sem Bjarni skipaði í kerfi sem Bjarni hafði sagt að væri „ónýtt“ að taka ákvörðun á laun um að hækka laun hans um sirka ein meðallaun fólksins sem kaus hann.

Á sama tímabili og laun alþingismanna hafa verið hækkuð um 46 prósentustig meira en almennings hefur skattbyrði 20 prósent tekjuhæstu minnkað en hinna 80 prósentanna þyngd. Þetta er ekki tilviljun og ekki reikniregla, heldur markviss stefna um forgang á hagsmunum.

Viðbrögð hópsins eru að fólk eigi ekki að vera svona reitt. Svona óstöðugt. Ekki „þrífa í stýrið“. Ekki „rífa“ stjórnarskrána. Ekki taka u-beygju. Ekki heimta að hlustað sé á vald þitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki heimta að staðið sé við loforð um að þú fáir það vald.

Tilmælin til kjósenda eru: Verið þið hrædd, en ekki reið.

Því reiði fær fólk til að bregðast við, en ótti fær fólk til að fela sig, víkja eða frjósa og kjósa rétt.

„Við ætlum að fara alla leið,“ sagði Bjarni um kvöldið þegar hann fagnaði með flokksmönnum sínum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins