Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Leiðari

Lygarnar okkar

Við höfum látið ljúga að okkur og logið að sjálfum okkur í áratugi.

Jarðvegur lyginnar er ekki samsæri eða illvilji, heldur sakleysi, bjartsýni og trú – það sama og ráðamenn krefja fólk um í landinu okkar.

Við viljum trúa á Ísland og horfum saklausum augum á þá sem fara með fé og selja okkur hluti, hugmyndir og atkvæði.

Með slíkt að markmiði getur sannleikurinn verið óvinveittur ríkjandi ástandi.

Áherslan á einstaklinginn

Stærsti stjórnmálaflokkurinn okkar, sem hefur verið við völd í 21 ár af síðustu 25, gerir út á frelsi einstaklingsins, einstaklingsframtakið og lága skatta. En við skattleggjum einstaklinga þriðja mest í Evrópu, á meðan við höfum svo lága skatta fyrir fyrirtæki að við auglýsum það sérstaklega fyrir erlend fyrirtæki. Goðsögnin um Íslendinga sem sjálfstæða Bjarta í Sumarhúsum endurspeglast ekki í kerfinu sem plægir jarðveg samfélagsins – kerfið er búið til fyrir kaupfélagsstjórann en ekki Bjart.

Umhverfisvæna orkan

Við gerum út á að vera náttúruvæn og forsetinn okkar hefur ferðast um heiminn til að kynna sjálfbæra orkunotkun okkar, meðan sannleikurinn er sá að þrátt fyrir að við séum blessuð með sjálfbærri, hreinni orku, tekst okkur að gefa frá okkur meira koltvíoxíð en þjóðir sem þurfa margar hverjar að nota kolaorku. Koltvíoxíðútblástur Íslendings er meiri en Grikkja, Slóvaka, Úkraínumanns, Ítala, Búlgara, Svisslendings, Spánverja, Frakka, Svía, Portúgala, Króata, Litháa og svo framvegis.

Fremsta viðskiptaundrið

Við gerðum út á að vera með fremstu viðskiptamenn heimsins og öflugustu bankana, en loksins þegar bankakerfið hafði hrunið og hægt var að sjá undir yfirborðið kom í ljós net krosseignatengsla og blekkinga, þar sem eigið fé bankanna hafði verið falsað og markaðsmisnotkun stunduð markvisst til að afvegaleiða landsmenn og umheiminn, allt undir vökulum stuðningi stjórnmálamanna og annarra sem bönnuðu fólki að „tala niður“ Ísland. Það sem við vorum góð í var að fá lán, og grundvöllur þess var að hluta til geta okkar til umfangsmikilla lyga.

Hreinasti og besti maturinn

Við gerum út á að vera með hreinasta matinn og að erlendur matur sé verri og jafnvel hættulegur. En sakleysið, ábyrgðarleysið, jákvæðnin og tilheyrandi eftirlitsleysi gefa ástæðu til endurmats. Eitt rótgrónasta matvælafyrirtæki landsins, Ölgerð Egils Skallagrímssonar, seldi hátt í hundrað öðrum matvælaframleiðendum iðnaðarsalt, ekki ætlað til manneldis, til að nota í matargerð í þrettán ár án þess að upp kæmist. Þegar Matvælastofnun gerði svo loksins athugasemdir við ólöglega notkun iðnarðarsalts í íslenskri matvælaframleiðslu árið 2012 heimilaði hún að restirnar af lagernum yrðu seldar í matargerð. Þingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir sagði að umræðunni um iðnaðarsaltið væri ætlað að „tala niður íslenska framleiðslu og landbúnaðarafurðir“. Ári síðar var hún sett í eina valdamestu stöðu ríkisins, formennsku í fjárlaganefnd Alþingis. 

Hollur þjóðarréttur

Við eigum að vera jákvæð og hress, en ella pulsa okkur upp. „Þjóðarréttur Íslendinga“ er svo leyndardómsfullur að Sláturfélag Suðurlands neitar að leyfa blaðamanni Stundarinnar að fylgjast með framleiðslu hans, eða annarra kjötvara fyrirtækisins. Því það er ekki „lystaukandi fyrir almenning“ að sjá framleiðsluna. Á sama tíma auglýsir SS að SS-pylsan, þjóðarrétturinn, „stenst kröfur neytenda um gæði og hollustu ár eftir ár“. 

En SS-pylsan telst ekki til hollustuvara, sama hvað SS segir, heldur er varað við neyslu á unnum kjötvörum. En ef SS segir það bara nógu oft verður það satt.

Traust stjórnmál

Við höfum talið traustið í samfélaginu til einna helstu verðmæta og sérkenna þess.

Þegar upp komst að framleiðandi „vistvænna“ eggja væri alls ekki vistvænn og sýndi hænsnum alls ekki „ást og umhyggju“, eins og hann auglýsti, heldur hélt hænum í aðstæðum sem voru „óásættanlegar með öllu“ og ólöglegar, allt að 95% þeirra búnar að missa fiðrið, margar helsjúkar af fuglakóleru í ólöglegum og óvistvænum þrengslum, aðrar liggjandi dauðar í uppsöfnuðum saur, kenndi hann ýmist hænunum sjálfum eða eftirlitinu um það sem afvega fór meðan hann afvegaleiddi landsmenn til að græða á því.

Þegar langvarandi lygi Brúneggja var afhjúpuð sagði fráfarandi formaður fjárlaganefndar að fjölmiðillinn sem gerði það, Kastljósið, væri að „knésetja íslenskan landbúnað“ og reiddi sjálfkrafa fram rakalausar ásakanir um falsanir, því þeir sem vilja ekki sannleikann láta sig ekki varða um sannleiksgildi:

Vigdís HauksdóttirÓsátt við Rúv fyrir afhjúpun á viðvarandi blekkingu eggjaframleiðanda gagnvart neytendum.

„Eftir umfjöllun Kastljóss stendur þessi rekstraraðili ekki upp meir – enda leikurinn gerður til þess að knésetja íslenskan landbúnað – það er agenda RÚV og „góða fólksins“,“ skrifaði hún á Facebook. Síðar átti hún eftir að gagnrýna fréttamenn Kastljóss fyrir svar þeirra til hennar, á grundvelli þess að þeir væru að „hanga á facebooksíðum almennings“.

Daginn eftir, þegar Stundin hafði fjallað um 200 milljóna króna hagnað eigenda Brúneggja samhliða blekkingum þeirra, og Kjarninn hafði skrifað frétt um fyrrgreind orð hennar á Facebook, kvartaði Vigdís: „Allt eftir uppskriftinni – fyrst Kastljós/RÚV – síðan Stundin – og næst Kjarninn = gula pressan – til hamingju með daginn“. 

Lygin og valdið 

Stóra lygin í eggjabúinu þreifst líka fyrir tilstilli stjórnmálavaldsins. Matvælastofnun hafði samband við landbúnaðarráðuneytið árið 2013 til að leita ráða um hvernig hún ætti að bregðast við því að einn helsti eggjaframleiðandi landsins væri markvisst að blekkja neytendur. Því hún var óörugg um hvaða upplýsingum hún mætti deila með landsmönnum um viðvarandi misgjörðir matvælaframleiðenda.

Landbúnaðarráðuneytið svaraði aldrei. Starfsmaðurinn sem fékk málið í hendurnar hætti störfum. Hann var einn af meðlimunum í atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins, sem meðal annars átti að ákvarða stefnuna í landbúnaðarmálum fyrir stærsta stjórnmálaflokk landsins, en fékk hvorki tækifæri til að vinna í málinu né koma því annað.

Og ráðherrann í landbúnaðarráðuneytinu, sem gerði ekkert í því að íbúar landsins væru markvisst narraðir og dýr pínd, var nokkrum misserum síðar orðinn forsætisráðherra, og þar með valdamesti maður landsins.

Veikir fjölmiðlar

Formaður sterkasta flokksins, Bjarni Benediktsson, sagði fjölmiðla veika þegar hann fékk á sig gagnrýni í einu blaðanna í sumar. „Hún ger­ist æ sterk­­ari til­­f­inn­ingin að vegna mann­eklu og fjár­­skorts séu við­kom­andi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starf­­semi þar sem hver fer fram á eigin for­­send­­um.“

Svar stjórnmálanna við fjáreklu fjölmiðla er að pólitískt ráðuneyti velji sér fjölmiðil til að borga ríflega fyrir að fjalla um tiltekna málaflokka.

Utanríkisráðuneytið ætlar að velja fjölmiðil til að borga 10 milljónir króna á ári fyrir að fjalla um þróunarmál, eftir mati matsnefndar ráðuneytisins. Þetta gerist eftir að utanríkisráðuneytið lagði niður Þróunarsamvinnustofnun og setti verkefni hennar undir pólitískan ráðherra. Næst gæti menntamálaráðuneytið valið fjölmiðil til að fjalla um menntamál, iðnaðarráðuneytið valið fjölmiðil fyrir iðnaðarfréttir, fjármálaráðuneytið valið þann sem fjallar um ríkisfjármál, og svo framvegis í átt að upplýstu og jákvæðu samfélagi með samstæða hagsmuni.

Síðast þegar utanríkisráðherra ákvað að styrkja miðlun upplýsinga til Íslendinga valdi Gunnar Bragi Sveinsson, framsóknarmaður úr Skagafirði, vin sinn úr Skagafirðinum og veitti honum þrjár milljónir úr „skúffufé“ til að vinna mynd um móttöku flóttamanna á Íslandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra veitti honum þrjár milljónir til viðbótar. Félag kvikmyndagerðarmanna sagði styrkina „mjög óvenjulega“

Nýjasta aflið á Alþingi, Viðreisn, lét loka Alþingi fyrir fjölmiðlamönnum á dögunum til þess að þurfa ekki að mæta þeim og svara um mögulega valdatöku, samkvæmt svörum þingvarðar til fjölmiðlamanna. Þingmennirnir könnuðust síðan ekkert við það, enda hafa þeir enga heimild til þess, en einn þeirra baðst samt afsökunar.

Aflokun, jaðarsetning og yfirtaka fjölmiðla er hluti af því viðhorfi að þeir séu óþægindavaldar og óþarfi í samfélagi þar sem oft megi satt kyrrt liggja.

Sussarar

Ótilgreindur breiður hópur fólks tekur að sér að sussa á umræðuna, ýmist á grundvelli aðgátar í nærveru sálna eða kröfu um jákvæðni. 

Þeir hörðustu í hópi sussara vilja leggja niður RÚV og helst afnema sem mest eftirlit. Vigdís Hauksdóttir er ekki hinn dæmigerði sussari. Hún er mun opnari og heiðarlegri með vilja sinn til að þagga niður með valdi.

Aðrir vilja takmarka með ýmsum hætti gagnrýna umræðu, gagnsæi og upplýsingagjöf. Þar sem enginn veit fyrirfram hvaða upplýsingar skipta máli og hverjar ekki, er takmörkun á upplýsingum um umsvifamikla aðila almennt líkleg til að viðhalda blekkingu eða takmarka mögulegan lærdóm.

Andstaða gegn fjölmiðlun er landlæg á Íslandi og birtist í ýmsum myndum.

Allir fjölmiðlar fjölluðu til dæmis um þegar rjúpnaskytta týndist fyrir nokkrum dögum. Fjöldinn fylgdist með og fjöldi fólks tók þátt í leit að henni, án þess að fá borgað fyrir það. Því það er hluti af ríkjandi siðferði að skilja engan eftir í hættu. Þegar rjúpnaskyttan var heimt úr helju byrjaði hún hins vegar á því að kvarta yfir nærveru fjölmiðla fyrir utan Landspítalann, þar sem þeir reyndu að varpa ljósi á farsælar málalyktir. Landspítalinn, sem hefur sent hvert hjálparkallið á fætur öðru í gegnum fjölmiðla, gaf frá sér stöðufærslu á Facebook um aðgangshörku fjölmiðla.

Sjálfsmiðlun

En þetta er allt í lagi. Við þurfum ekki fjölmiðla. Við höfum Facebook. Það er talið að falskar fréttir, sem dreift var á Facebook, hafi valdið straumhvörfum í bandarísku forsetakosningunum og stuðlað að því að Donald Trump var óvænt kjörinn forseti þrátt fyrir vafasamt siðferði, fordóma, niðurlægingu á andstæðingum og ítrekuð ósannindi: Frambjóðandinn sem endurtók slagorðið „lygafjölmiðlarnir“ til að gera faglega unna gagnrýni óvirka í samfélaginu.

Á Íslandi vann Sjálfstæðisflokkurinn mun stærri sigur í þingkosningum en búist var við. Nafnlausar Facebook-síður birtu áróðursmyndbönd gegn andstæðingum Sjálfstæðisflokksins sem voru síðan endurtekið birt á fréttastreymi fólks gegn greiðslu með óþekktri fjármögnun.

Við sem hænur

Alþingismenn kvarta gjarnan undan því opinberlega að fólk treysti ekki Alþingi, en Alþingi gerði Vigdísi Hauksdóttur að formanni fjárlaganefndar. Stjórnmálamann sem lagði áherslu á að leggja niður eftirlitið og ræðst markvisst gegn gagnrýnendum með tiltækum vopnum.

Við settum yfir Seðlabankann manninn sem lagði niður Þjóðhagsstofnun og stýrði valdaflokknum. Við settum eftirlitið undir þá sem átti að veita eftirlit. 

Vafasamir stjórnmálamenn segja ekki alla söguna, því Íslendingar kjósa þá sem eru á Alþingi. Innan allra flokka geta leynst óæskilegir fulltrúar. Íslendingar hafa aftur kosið þá flokka sem neita að innleiða breytingar á stjórnarskrá, sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem gera meðal annars kleift að velja persónur frekar en flokka í alþingiskosningum. 

Á vissan hátt erum við öll hænur. Við forgangsröðum fyrir fóðrið og þegar troðið er á okkur stökkvum við upp, og gefum jafnvel frá okkur gagg og gagnrýni, en gleymum svo eða verðum hrædd og fylkjum okkur sjálfvirkt að fóðurlínunni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins