Leiðari

Íslenska geðveikin

Þeir sem eru ósáttur við stöðuna á Íslandi eru sagðir geðveikir af forsætisráðherra. Aðhald og niðurskurður ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum veldur hins vegar gríðarlegum kostnaði, samfélgaslegum og fjárhagslegum. Skert geðheilbrigðisþjónusta getur kostað einstaklinga líf, með enn meiri tilkostnaði fyrir samfélagið og líf fólks.

Hér á Íslandi erum við, fámennur hópur sem býr á lítilli eyju í Norður-Atlantshafi. Eyju sem mætti líkja við paradís, rík af auðlindum og ósnortinni náttúru og góðri efnahagslegri stöðu. Lífsgæðin eru svo góð að forsætisráðherrann lét hafa eftir sér í fjármálaráðherratíð sinni að það þarf bara geðveiki til að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á. Máli sínu til stuðnings benti hann á að við búum við öryggi, friðsæld, lýðræði og langlífi auk þess sem kaupmáttur hefur vaxið og atvinnuleysi haldist lítið. „Lífsgæði á nánast hvaða mælikvarða sem er eru há,“ sagði hann og hafði rétt fyrir sér að mörgu leyti. Það er gott að búa á Íslandi. En það er betra fyrir suma en aðra.

Verðmætin  

Það þyrfti ekki að vera þannig, en við höfum byggt upp samfélag þar sem við höfum falið fámennum hópi stjórnina yfir auðlindum okkar og arðinum af þeim. Þar sem góðærið er keyrt áfram af græðgi í ferðamennsku og ítrekað er brotið á réttindum starfsmanna, sem flestir eru fastir í láglaunastörfum, og reynt er að hafa sem mest fé af ferðamönnum, jafnvel þótt við teljum okkur ekki fært að treysta innviðina til að tryggja öryggi þeirra – eða vernda náttúruna. Reyndar virðist náttúrunni ítrekað fórnað fyrir næsta góðæri, hvort sem það er keyrt áfram á stóriðjustefnu eða ferðamannastraumi. Kannski endurspeglar þessi skortur á virðingu fyrir landinu einhvers konar rof gagnvart því sem gefur lífinu gildi og kemur í veg fyrir að við verndum verðmæti sem eru ómælanleg og ekki til þess fallin að skapa samstundis arð í formi peninga. 

„Það þarf bara geðveiki til að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á“

Samfélagið virðist verið drifið áfram af því að skapa sem mestan gróða sem fyrst. Ekki fyrir alla heldur fyrir fáa útvalda. Alveg eins og virðingu skortir fyrir náttúrunni skortir samkennd með þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu, hér eða annars staðar. Íslensk stjórnvöld þverbrjóta sáttmála um loftslagsmál og metnaðarfullum aðgerðaráætlunum hefur aldrei fylgt fjármagn, vegna þess að afleiðingarnar snerta ekki þá sem hér eru við völd. Þróunaraðstoð er haldið í lágmarki þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um að Ísland hafi aldrei verið í jafn sterkri stöðu og nú.

Jaðarsetningin

Í slíku samfélagi eru þeir sem hafa ekki aldur, heilsu eða getu jaðarsettir. Kannski eru það einhvers konar leifar af bændasamfélaginu, eilífðarstreðinu þar sem fólk þurfti að duga eða drepast. Vegna þessa átti frumkvæði, útsjónarsemi og vinnusemi að búa í eðli Íslendinga, sagði fyrrverandi forseti þjóðarinnar og talaði um athafnaskáldin sem settu ekki fyrir sig að vinna á kvöldin og um helgar, Íslendingar væru alltaf tilbúnir til að vinna. Dugnaður hefur lengi verið álitin ein æðsta dyggðin og vinnuvikan lengri hér en annars staðar á Norðurlöndum – jafnvel þótt framlegðin sé minni. 

Kannski er það skortur á getu til þess að geta sett sig í fótspor annarra, þegar landinu er stjórnað af fámennum og frekar einsleitum hópi fólks sem hefur aldrei þurft að líða skort, þetta skeytingarleysi gagnvart stöðu þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun. Lítilsvirðandi viðhorf stjórnvalda sem saka stóran hóp fólks um bótasvik að ósekju. Jaðarsetningin þjónar þeim tilgangi að ala á skömm sem kemur síðan í veg fyrir að fólk rísi upp gegn óréttlætinu.

Skeytingarleysið

Á meðan laun stjórnmálamanna snarhækka varar ráðherra við því að almenningur sæki sambærilegar kjarabætur, illmögulegt er að framfleyta fjölskyldu og tryggja sér húsaskjól á lágmarkslaunum, og örorkubætur duga ekki fyrir opinberum framfærsluviðmiðum. Í mesta góðæri landsins er þeim verst settu gert að lifa af 80 þúsund krónum á mánuði, sem dugar varla fyrir ódýrasta herberginu á Leigulistanum. Ríkisstjórnin viðheldur skattastefnu sem þjónar þeim ríku best, en á meðan þeir verða ríkari situr hópur fólks eftir í fátækt. Hér eru börn sem alast upp við slíka fátækt að á heimilum þeirra er ekki til matur, skór til skiptanna og hvað þá fyrir tómstundum. Þetta eru börn sem hafa ekki sömu tækifæri og jafnaldrar sínir til þess að mennta sig og koma undir sig fótunum, og eru þannig dæmd til þess að lifa áfram í fátækt á fullorðinsárum.

Vitneskjan um hvað helst veldur sárafátækt er til staðar. Staða fólks á húsnæðismarkaði og heilsufar eru þar lykilþættir. Á meðan góðærið er keyrt áfram á ferðamannastraumi og uppkaup eru stunduð á fasteignamarkaði snarhækkar fasteignaverð, sífellt verður erfiðara að verða sér úti um húsnæði og fátækir eiga sér ekki viðreisnar von. Allt að tveggja ára bið er eftir félagslegu húsnæði og vísa þarf fólki frá gistiskýli fyrir heimilislausa. Á meðan rúmlega 20 þúsund börn búa við verulegan skort í húsnæðismálum veitir hið opinpera leigufélögum afslátt á húsnæði Íbúðalánasjóðs, til að leigja húsnæðið áfram eða selja á mun hærra verði en áður tíðkaðist. Með því að kaupa eignasöfn af Íbúðalánasjóði jókst markaðsverðmæti leigufélagsins Heimavalla um 12,3 milljarða á einu ári. 

Fórnarkostnaðurinn 

Heilsubrestur getur einnig dæmt fólk til fátæktar, en skýr tengsl eru á milli slæmrar heilsu og sárafátæktar. Fyrir kosningar var lofað öllu fögru, en stjórnendur spítalans standa nú í stappi við ráðamenn og leiðrétta rangfærslurnar. Fórnarkostnaðurinn er mikill. 

Á eftir hjarta- og æðasjúkdómum eru geðsjúkdómar algengasti heilbrigðisvandi Evrópu, þar sem einn af hverjum fjórum tapar geðheilsunni einhvern tímann um ævina. Talið er að kostnaðurinn af geðsjúkdómum sé um 24 milljarðar á ári. Geðsjúkir eru stærsti hópur öryrkja hér á landi og ungum öryrkjum með geðsjúkdóma hefur fjölgað, kvíði fer vaxandi á meðal ungmenna og sprenging hefur orðið í notkun svefnlyfja á meðal barna. Samt er þjónusta sálfræðinga ekki niðurgreidd, fleiri prestar eru á launum frá ríkinu en sálfræðingar, allt að þrjár vikur tekur að fá tíma hjá heimilislækni, geðdeild Landspítalans er undirmönnuð, fjársvelt og í óboðlegu húsnæði og eftirfylgnin er nánast engin. Íslendingar eiga heimsmet í noktun geðlyfja, enda fer fólk heim með lyfin í vasanum en engar lausnir, situr þar og bíður, dæmt til að veikjast aftur. Sumir lifa það ekki af.

Á hverjum degi berast sjálfsvígssímtöl í hjálparsíma Rauða krossins. Árið 2015 reyndu 500 einstaklingar að fyrirfara sér, 40 dóu. Að baki hverjum þeirra var hópur aðstandenda sem situr eftir með sársaukann og sorgina.

Ég vorkenni fólki sem líður svona,“ sagði Bjarni. En þeir sem glíma við geðveiki vita það sem Bjarni veit kannski ekki, eða hirðir ekki um, að Ísland er ekkert frábært land fyrir fátækt fólk eða veikt. Vandinn er ekki þeirra, heldur hinna, sem hafa byggt upp samfélag sem snýst um peninga en ekki manngildi, jöfnuð og rétt allra til velferðar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Fréttir

Sveinn segir söguna alla: „Okkur fannst þessi tengsl mjög skrítin“

Fréttir

Brynjar kemur fyrir í gögnunum sem áttu að fara leynt

Fréttir

Brynjar settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Viðtal

Halldór Auðar um kynferðisofbeldið: Sektin helltist yfir

Fréttir

Júlíus Vífill veitti lögmanni meðmæli

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Hjalti fundaði með Bjarna og Brynjari eftir að hann var kærður

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Þessi ótrúlegi óheiðarleiki

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Faðir forsætisráðherra var meðmælandi Hjalta – ráðuneytið hélt því leyndu