Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Leiðari

Græðgi og manngildi í ferðamennsku

Líf ferðamanns er minna virði en líf Íslendings og erlent starfsfólk upplifir sig eins og þræla frá þriðja heims ríkjum. Eigendur fyrirtækja í ferðamennsku líta jafnvel á starfsfólk sem sína eigin eign sem megi koma fram við með hvaða hætti sem er.

Ferðakona Manneskjur sem eru ferðafólk hafa fjárhagslegt gildi fyrir okkur sem stundum virðist yfirtaka manngildið. Mynd: Shutterstock

Í græðgisvæðingu ferðamannagóðærisins horfum við fram á að manngildi ferðafólks og starfsfólks í ferðaþjónustu hefur rýrnað. Við erum orðin svo vön að höndla með slægðan þorsk og búfénað að okkur hættir til að setja viðfangsefni í nýjasta lífsviðurværi okkar í flokk neðar manngildis.

Í forsíðugrein Stundarinnar eru aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu greindar og rætt við fólk sem hefur martraðakennda reynslu af því að starfa sem útlendingar í íslenska ferðamannaiðnaðinum. 

Starfsmenn sem eign eigenda

Eigendur fyrirtækja brjóta á erlendu starfsfólki, sem fær þá upplifun að þau séu þrælar frá þriðja heims ríkjum. 

Eigandi gistiheimilis á Suðurlandi fékk ungar konur frá Póllandi til landsins til þess eins að bjóða þeim taxta undir lágmarkslaunum á vinnumarkaði, láta þær vinna langt umfram það sem talað var um, rægja þær, gera lítið úr þeim og neita að borga laun nema eftir eigin hentugleika.

Dæmi eru um að eigendur ferðaþjónustufyrirtækja komi fram við erlent starfsfólk eins og sína eign. Eigandi eins hótelsins sannfærði konu sem starfaði hjá honum um að hún væri ólögleg á Íslandi og því þyrfti hún að sofa uppi í rúmi hjá honum, ef lögreglan skyldi koma.

Starfsfólk á hóteli í Reykjavík þorði ekki að gera veður út af 700 króna tímakaupinu sínu vegna þess að það óttaðist brottrekstur úr landi. Sú sem gerði athugasemd var rekin.

Í mörgum tilfellum byggir landvistarleyfi fólksins á vinnuveitandanum, vegna þess að við lítum á fólkið sem vinnuafl fyrst og manneskjur svo. 

„Við höfum í gegnum eftirlitið orðið vör við mun grófari brot en í fyrri uppsveiflu og skýrari ásetning,“ segir sérfræðingur ASÍ við Stundina.

Manngildi starfsfólks hefur ekki einungis verið skert. Augljóst virðist vera að líf og líðan ferðamanna séu minna metin en líf Íslendinga. Við höfum að miklu leyti firrt okkur frá ferðamönnum sem manneskjum og farið að líta á þá sem fé, tæki til að skapa okkur auð.

Stundum trúum við því að það sé eitthvað inngróið í íslenska menningu sem gerir okkur að góðum gestgjöfum. En tilfellið er að Íslendingar hafa bara miklu minni reynslu af aðkomufólki, sem þjóð, heldur en flestar aðrar þjóðir. 

Gestgjafarnir Íslendingar

Raunverulega höfum við mætt útlendingum með hörðum stálhnefa þegar okkur hentar, sérstaklega þegar við græðum ekkert á þeim. Við lokum dyrunum. Við vildum engum Gyðingum bjarga í seinna stríði af ótta við að „hreini“ kynstofn okkar blandaðist þeim. „Talsverður hluti þess fólks er Gyðingar, sem af einhverjum ástæðum hafa yfirgefið sinn fyrri dvalarstað. Mun flestum virðast svo, að þjóðinni sé lítill fengur í komu þessa fólks hingað,“ sagði í leiðara Vísis árið 1938 þegar ofsóknir nasista gegn Gyðingum voru að gera þeim bókstaflega ólíft í Þýskalandi.

Það var háð sérstakt stríð á Íslandi til að senda úr landi dreng með augnsjúkdóm, hvíta stríðið. Eitt af okkar fáu stríðum, eins og þorskastríðin. Það þurfti sérstakt inngrip bara fyrir rúmu ári síðan til að koma í veg fyrir brottvikningu hjartveikra barna úr landi. Þegar fólk kveikir í sér í örvæntingu vegna þess að það vill hæli á Íslandi skrifar fólk háðuleg ummæli um bensínverðið undir fréttina.

Á gestur rétt á salernisaðstöðu?

Í menningararfi okkar, Hávamálum, er sérstaklega tekið fram að gestur eigi að fá vatn, mat, þurr klæði, sæti nálægt eldinum og sóma, ekki -samlokurnar. En þar er ekki sérstaklega tekið fram að hann eigi að mega nota salernisaðstöðu. Vegna þess að það hefur hingað til þótt vera slík lágmarksmennska að slíkt hefur ekki þótt þurfa. En nú er önnur tíð. Fyrir einu og hálfu ári var samfélagið undirlagt af hneykslun yfir því að ferðamenn þyrftu að nota salerni. Þegar ferðamenn fóru í örvæntingu sinni að ganga örna sinna úti í náttúrunni, eða þar sem salerni voru skyndilega lokuð, voru viðbrögð þeirra sem græða á ferðamönnunum að bölva því. Rekstraraðilar lýstu því í fjölmiðlum hvernig þeir bönkuðu á rúðurnar þegar þeir sáu ferðamenn fela sig við þessar athafnir. Þeir fjargviðruðust yfir því að fólkið, sem gat ekki fengið grundvallarþjónustu fyrir manneskjur, skyldi hafa hægt sér í neyð eða gert það án þess að borga sérstaklega fyrir það. 

Í miðri græðgisvæðingu íslenskrar ferðamennsku, þar sem milljarðar eru að skapast í höndum eigenda fyrirtækja, kvarta þeir undan því að nýja lífsviðurværið láti eins og það sé mennskt.

Árið 2015 urðu erlendir ferðamenn í meirihluta þeirra sem dóu í bílslysum. En við höfum ekki efni á að styrkja innviðina, þrátt fyrir ævintýralegan efnahagsbata sem orsakast fyrst og fremst af ferðamönnum. Við viljum bara græða, en sumir græða meira en aðrir.

Mismunandi virði lífs

Þegar einhver veldur, beint eða óbeint, dauða Íslendings mun viðkomandi þurfa að mæta því samfélagslega. Hann getur þurft að mæta ættingjum eða öðrum aðstandendum hins látna, sem telja að söluaðili og umsjónarmaður ferðarinnar, sem varð viðkomandi að bana, beri nokkra ábyrgð á því.

HjólabáturKona lést árið 2015 þegar hjólabátur bakkaði á hana. Eiginmaður hennar kvartaði undan því að enginn hefði samband við hann.

Líf ferðamanns á Íslandi er augljóslega minna virði en Íslendings.

Það þurfti dauða fimm manns á nokkrum árum til þess að breyta starfrækslu á köfunarferðum á einum stað. Líf ferðamanna virðist svo augljóslega vera minna virði en Íslendinga að jafnvel þótt þeir deyi í seldum ferðum er lítið að gert og haldið er áfram að selja ferðirnar á 45 þúsund krónur stykkið með veltu sem nemur nokkur hundruð milljónum króna.

Um daginn lést bandarískur maður af hjartaáfalli eftir köfunarferð í Silfru. Í febrúar drukknaði kona við köfun í Silfru. Fyrir rúmu ári síðan sökk 26 ára gömul kona 30 metra til botns í Silfru í keyptri ferð með leiðsögumanni. Allan þennan tíma var haldið áfram að selja ferðir. 11 alvarleg slys og fimm banaslys á sama tíma og þjóðgarðsvörðurinn benti á að verið væri að selja ferðir til fólks sem kynni ekki að synda. Þrýstingur á aðgerðir er mun minni þegar ferðamaður deyr heldur en þegar Íslendingur deyr. 

Kanadamaður, sem missti eiginkonu sína í slysi við Jökulsárlón þegar bakkað var yfir hana á hjólabát, sagði frá því í viðtali að honum þætti „gersamlega viðbjóðslegt“ að enginn hafi haft samband við fjölskylduna eftir að eiginkona hans dó. „Ég hef ekki heyrt auka­tekið orð frá nein­um á Íslandi síðan við fór­um heim,“ sagði hann.

FerðamennVið fæddumst fyrir tilviljun í fámenni í fallegu landi og njótum áhrifa þess.

Græðgi skerðir manngildi

Græðgi getur knúið fólk til þess að líta á annað fólk með óæðra manngildi, sem tæki til að auka eigin auð. Umræðan um ferðamenn bendir til þess að svo sé og meðferð á erlendu starfsfólki bendir til þess að þeir hafi óæðri stöðu í samfélagi okkar. 

Við þurfum á þessu fólki að halda, vegna þess að við viljum ekki vinna þessi störf. Við viljum ekki skipta um rúm, þrífa salerni, eða almennt þjónusta fólk. Við viljum bara græða. Við viljum mesta hagvöxtinn í heiminum fyrir tilstuðlan erlends fólks. Allt af því að við fæddumst fyrir tilviljun í fámenni í fallegu landi.

Sú græðgi sem birtist í framkomu sumra eigenda ferðaþjónustufyrirtækja gagnvart viðskiptavinum og launþegum framkallar réttilega ógeðstilfinningu. 

Við getum tekið praktíska afstöðu og hugsað sem svo að það skaði hagsmuni greinarinnar að koma illa fram við starfsfólk og reyna bara að græða. Eða við getum tekið algilda siðferðislega afstöðu. Komum fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur. Það ætti að gilda óháð peningum. Vandinn er sá að þeir sem leyfa sér mest gagnvart öðrum manneskjum eru oft þeir sem græða mest. Til þess þurfum við að benda á þá sem brjóta gegn öðrum og gera siðleysi þeirra skaðlegt hagsmunum þeirra. Við höfum áður þurft að súpa seyðið af dýrkun græðginnar og munum gera það aftur ef við fylgjum ekki algildu siðferði.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“