Samherjaskjölin

Svona þiggur sjávar­útvegs­ráðherra Namibíu mútur

Bernhard Esau sagði af sér í dag í kjölfar afhjúpana á mútugreiðslum Samherja til spilltra embættis- og stjórnmálamanna í Namibíu. Hann átti fund með Þorsteini Má á búgarði sínum í Namibíu. Hér má sjá hann samþykkja að útvega ódýran kvóta gegn greiðslu og gefa ráð til að komast hjá skattagreiðslum.
ritstjorn@stundin.is

Undanfarna mánuði hafa tveir fréttamenn Al Jazeera fundað með Bernhard Esau sjávarútvegsráðherra Namibíu undir því yfirskyni að þeir væru erlendir fjárfestar á höttunum eftir sjófrystikvóta.

Umfjöllun Al Jazeera er unnin í samstarfi við Wikileaks, Stundina og Kveik, sem birti í gærkvöldi myndband af fundi Al Jazeera með Bernhardt Esau, þar sem hann samþykkti að útvega þeim ódýran kvóta gegn greiðslu og bauðst til þess að veita þeim ráð til að komast hjá skattagreiðslum í Namibíu. 

Myndbandið má sjá hér að ofan, en Bernhard Esau sagði af sér í dag í kjölfar afhjúpana á mútugreiðslum Samherja til spilltra embættis- og stjórnmálamanna í Namibíu. Það gerði einnig dómsmálaráðherrann Sacky Shangala, sem þáði mútugreiðslur frá Samherja. Var forseta Namibíu, Hage Geingob, misboðið vegna málsins og vildi fá þá út úr ríkisstjórninni. 

Viðurkenndi fund með Þorsteini

Kveikur hafði óskað eftir viðbrögðum ráðherrans vegna upptökunnar, gögnum og frásögn uppljóstrarans, Jóhannesar Stefánssonar, um að tengdasonur ráðherrans hafi farið fram á það Samherji greiddi ráðherranum peninga fyrir hönd Samherja, til þess að tryggja fyrirtækinu ódýran hestamakrílskvóta við strendur Namibíu. 

Í tvígang hafnaði Bernhard beiðni Kveiks um viðtal, en fréttamenn Kveiks náðu tali af honum á ráðstefnu í Noregi. Þar hafnaði hann því alfarið að hafa þegið eða hafa haft vitneskju um mútugreiðslur. Hann sagðist í fyrstu ekki þekkja forsvarsmenn Samherja, en viðurkenndi síðan að hafa fundað með Þorsteini Má Baldvinsyni, forstjóra Samherja, í Namibíu.

Funduðu á búgarði ráðherrans

Fundur Þorsteins með sjávarútvegsráðherranum, fór fram á búgarði ráðherrans í Namibíu árið 2012 og hann sátu einnig Aðalsteinn Helgason og Jóhannes Stefánsson fyrir hönd Samherja, sem og James Hatuikulip, Fitty Tamson Hatuikulipi og Tashi Shiimi-ya-Shiimi

James er stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fishcor, sem úthlutar kvóta til útgerðarfélaga í landinu. Tamson „Fitty“ Hatuikulipi er frændi James og tengdasonur ráðherrans. Í gögnum málsins kemur fram hvernig þeir beittu sér fyrir því að tryggja stöðu Samherja í Namibíu gegn mútugreiðslum, ásamt dómsmálaráðherra Namibíu Sacky Shangala. 

Þótti það skjóta skökku við þegar Bernhard Esau skipaði James stjórnarformann, fram hjá stjórn Fishcor og án þess að hafa stjórnarmenn með í ráðum, líkt og venja er.  Á grundvelli þessara upplýsinga hóf áðurnefnd opinber stofnun sem vinnur gegn spillingu ACC (Anti Corruption Comittee), rannsókn á því hvernig James Hatuikulipi komst í stjórnarformannsembætti Fishcor.

„Ábyrgðin í svona málum liggur hjá fyrirtækinu“

Þá hafa fjölmiðlar í Namibíu, meðal annars dagblaðið The Namibian, gagnrýnt að ráðherrann hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að úthluta 10 þúsund tonna kvóta af hestamakríl til Fishcor, kvóta sem fór að hluta til Samherja, árið 2014.

Rannsaka spillingu 

Samkvæmt óformlegri fundargerð frá fundinum á búgarði ráðherrans, var meðal annars rætt um hvernig hægt væri að tryggja Samherja kvóta í landinu, þvert á stefnu stjórnvalda um að ýta undir namibískt eignarhald á fyrirtækjum í sjávarútvegi og stuðla að því að verðmætasköpun í sjávarútvegi verði eftir í landinu, meðal annars með því að fiskurinn sé unninn í landvinnslu og að til verði störf fyrir vikið.

Atvinnuleysi í Namibíu hefur verið um og yfir 30 prósent í gegnum árin og áhersla á innlenda verðmætasköpun úr auðlind þjóðarinnar er liður í því að bæta lífskjör almennings. 

Lagði ráðherrann því áherslu á Namibíuvæðingu Samherja, sem fólst í því að namibískir aðilar þurftu að vera eigendur að fyrirtækjum. Á móti ætlaði hann að tryggja þeim kvóta til framtíðar. 

Nánar er fjallað um þá fléttu í umfjöllun Stundarinnar: Samherji greiðir hundruð milljóna í mútur til að fá kvóta í Namibíu.

Segist hafa tekið peningana út í reiðufé

Fyrrverandi starfsmaður Samherja, Jóhannes Stefánsson, hefur lýst því hvernig farið var fram á að Samherji myndi greiða sjávarútvegsráðherranum peninga. Sagði Jóhanns að sú krafa hefði komið frá Fitty Tamson Hatuikulipi, tengdasyni ráðherrans sem sjálfur þáði mútur frá Samherja fyrir að vinna að því að fyrirtækið fengi ódýran kvóta í Namibíu. 

Jóhannes segist hafa hringt í sinn næsta yfirmann hjá Samherja, Aðalstein Helgason, framkvæmdastjóra Kötlu Seafood. „Ég hringdi í Aðalstein og sagði honum að það hafi komið ósk um að borga sjávarútvegsráðherranum 500 þúsund Namibíudollara [Tæplega 10 milljónir íslenskra króna]. Þá sagði Aðalsteinn við mig að alltaf þegar gæfist tækifæri til að borga sjávarútvegsráðherra þá ætti ég að borga sjávarútvegsráðherra, hann orðaði þetta einhvern veginn svona. Ég tók þetta út í peningum og lét Tamson hafa þetta. Tamson var milliliður í þessu. Ég gerði þetta tvisvar,“ segir Jóhannes sem segir að samtals hafi verið um að ræða 1 milljóna Namibíudollara eða ríflega 18 milljónir króna. „Þetta situr í mér, af því ég man hvað Aðalsteinn var ákveðinn í þessu. Það var eins og hann væri ekki að gera þetta í fyrsta skiptið. Ég labba bara inn í hringiðu efnahagsbrota og spillingar. Ég fékk orderur frá þeim og gerði bara mitt besta í því. Miðað við hvernig þeir greiddu mútur þá var eins og þeir væru ekki að gera þetta í fyrsta skipti.“

Ábyrgðin liggur hjá fyrirtækinu

Í yfirlýsingu frá Þorsteini Má Baldvinssyni er sökinni alfarið skellt á Jóhannes, þrátt fyrir að gögn málsins sýni að mútugreiðslur héldu áfram og jukust eftir að hann lét af störfum fyrir Samherja. 

Þá sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra Íslands, að það væri útilokað að einn maður bæri ábyrgð á svona stöðu. „Ábyrgðin í svona málum liggur hjá fyrirtækinu sjálfu. Það gefur alveg augaleið. Það er fyrirtækið sjálft sem þarf að svara fyrir þær ásakanir sem bornar eru upp,“ sagði Kristján Þór í samtali við RÚV. 

Um leið sagði hann að málið gæti haft áhrif á trúverðugleika sinn sem sjávarútvegsráðherra, ekki síst vegna þess að hann kom inn á fund sem Þorsteinn Már átti hér á landi með þremenningunum sem unnu að því gegn mútugreiðslum að útvega Samherja kvóta í landinu. Á fundinum kynnti Þorsteinn Már Kristján Þór sem „sinn mann í ríkisstjórninni“. 

„Vandamálið er að ég þarf ekki að ræða við þig. Hvað gerum við þá?“

Neita að svara fyrir málið

Í stað þess að samþykkja boð Kveiks um viðtal var fréttastjóranum boðið á fund í London, þar sem ekkert mátti hafa eftir. Þremur dögum eftir að honum barst fyrsta viðtalsbeiðnin frá Kveik og Al Jazeera mætti hann í viðtal á Býtinu á Bylgjunni og bar fréttamann RÚV þungum sökum, sakaði hann um að vera gerandi í húsleit Seðlabankans og sagði hann stýrast af annarlegum hvötum í fréttaflutningi sínum. Þorsteinn hefur ekki svarað símtölum eða skilaboðum frá Stundinni. 

Aðalsteinn sagði í samtali við Stundina að þetta væru „lygar“ án þess að útskýra það nánar. Aðalsteinn sem er sjötugur, hætti að vinna fyrir þremur árum síðan og kemur margítrekað fyrir í gögnum málsins, hafnaði því að svara fyrir aðkomu sína á þeim forsendum að hann væri „bara gamall maður“ og vildi vera í friði. „Vandamálið er að ég þarf ekki að ræða við þig. Hvað gerum við þá?“ sagði Aðalsteinn, og samtalinu lauk þegar hann skellti á blaðamann. 

Tengdar greinar

Samherjaskjölin

Samherjamálið: Ekki skilyrði að menn séu dæmdir til að hægt sé að tala um mútugreiðslur

Samherjamálið: Ekki skilyrði að menn séu dæmdir til að hægt sé að tala um mútugreiðslur

Samherjaskjölin

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, heldur því fram að ekki sé hægt að segja að Samherji hafi greitt mútur af því enginn starfsmaður fyrirtækisins hafi verið ákærður og dæmdur fyrir þetta. Sænskur mútusérfræðingur, Natali Phálen, segir að oft sé það þannig í mútumálum fyrirtækja að enginn sé dæmdur fyrir múturnar en að þær teljist þó sannaðar.

Norski DNB bankinn segir upp viðskiptum við Samherja

Norski DNB bankinn segir upp viðskiptum við Samherja

Samherjaskjölin

Norski bankinn DNB hefur sagt upp viðskiptasambandi sínu við ùtgerðarfélagið Samherja. Samherji hafði verið viðskiptavinur bankans frá árinu 2008.

Rannsóknin á Samherjamálinu: Norska efnahagsbrotadeildin gagnrýnd harkalega

Rannsóknin á Samherjamálinu: Norska efnahagsbrotadeildin gagnrýnd harkalega

Samherjaskjölin

Mikil umræða hefur verið í Noregi um að efnahagsbrotadeildin Ökokrim geti ekki sinnt eftirlits- og rannsóknarhlutverki sínu. Deildin hefur Samherjamálið til rannsókna út af mögulegu peningaþvætti í gegnum DNB. Svipuð gagnrýni hefur verið uppi á Íslandi.

Kristján Þór telur hæfi sitt óskert í makrílmálinu þrátt fyrir Samherjaskjölin

Kristján Þór telur hæfi sitt óskert í makrílmálinu þrátt fyrir Samherjaskjölin

Samherjaskjölin

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra telur sig hafa verið hæfan til að koma að undirbúningi og leggja fram lagafrumvarp um kvótasetningu á makríl í fyrra. Segir frumvarpið almenns en sértæks eðlis og að hæfisreglur stjórnsýslulaga nái ekki til lagafrumvarpa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Vigdís gagnrýnir styrk til Báru vegna „Klausturgate“

Vigdís gagnrýnir styrk til Báru vegna „Klausturgate“

Þegar silkihúfan kom að sunnan

Illugi Jökulsson

Þegar silkihúfan kom að sunnan

Svart álit erlendra sérfræðinga: „Staðan á bráðamóttökunni er krónísk katastrófa“

Svart álit erlendra sérfræðinga: „Staðan á bráðamóttökunni er krónísk katastrófa“

Ratcliffe beitir sér gegn frumvarpi Katrínar um eignarhald á jörðum

Ratcliffe beitir sér gegn frumvarpi Katrínar um eignarhald á jörðum

Sonur minn er klámfíkill

Sonur minn er klámfíkill

Duldir möguleikar melgresis

Duldir möguleikar melgresis

Vigdís kvartar til Vinnueftirlitsins undan Helgu Björgu

Vigdís kvartar til Vinnueftirlitsins undan Helgu Björgu

Assange hafður í glerbúri í réttarhöldunum: Glæpurinn er blaðamennska

Assange hafður í glerbúri í réttarhöldunum: Glæpurinn er blaðamennska

Prestur seldi hús á 15 milljónum meira  en hann keypti það á af Þjóðkirkjunni

Prestur seldi hús á 15 milljónum meira en hann keypti það á af Þjóðkirkjunni

Aðgerðir Eflingar njóta verulegs stuðnings

Aðgerðir Eflingar njóta verulegs stuðnings

Vara­formaður Íslensku þjóð­fylk­ing­ar­innar rekur óskráðan fjöl­miðil

Vara­formaður Íslensku þjóð­fylk­ing­ar­innar rekur óskráðan fjöl­miðil

Stöð 2 með drulluna upp á bak

Valkyrja

Stöð 2 með drulluna upp á bak