Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, tók ákvörðun um að gerast uppljóstrari um spillta og mögulega ólöglega starfshætti Samherja í landinu af því hann vill opinbera spillinguna þar í landi. Þess vegna stígur hann fram og segir sögu sína í samstarfi við Stundina, Wikileaks, Kveik og Al Jaazeera.
Í viðtali við Stundina rekur Jóhannes hvernig vinnubrögð Samherja í Namibíu og samvinna útgerðarinnar við spillta stjórnmála- og embættismenn hamlar framþróun í landinu.
„Smátt og smátt áttar maður sig á því að það er bara verið að ræna Namibíu að innan og utan; það er bara verið að fara illa með land og þjóð,“ segir Jóhannes. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu á árunum 2012 til 2016, en ákvað síðar að gerast uppljóstrari og aðstoðar eftirlitsstofnanir í Namibíu við rannsóknina á málinu. Samherji hefur veitt um 500 þúsund tonn af hestamakríl í Namibíu síðastliðin sjö ár og hefur útgerðin greitt mútur upp á margar milljónir Bandaríkjadala til stjórnmála- og embættismanna í landinu til að komast yfir veiðiheimildirnar að sögn Jóhannesar. Um er að ræða eitt stærsta spillingarmál sem komið hefur upp í Namibíu.
„Smátt og smátt áttar maður sig á því að það er bara verið að ræna Namibíu að innan og utan.“
Jóhannes segist hafa verið „miðpunkturinn“ í rekstri Samherja í Namibíu á þeim tíma sem hann starfaði hjá fyrirtækinu og dregur hann ekkert undan þegar hann lýsir ábyrgð sinni á því að hafa tekið þátt í því að arðræna Namibíu með íslenska útgerðarfélaginu. Það var Jóhannes sem sá meðal annars um það að greiða múturnar sem færðu Samherja aflaheimildirnar í Namibíu þannig að hann hefur beina reynslu og beina vitneskju um mútugreiðslurnar.
Segir Þorstein Má hafa skipulagt múturnar
Jóhannes segir hins vegar að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og stærsti hluthafi Samherja, og Aðalsteinn Helgason, framkvæmdastjóri Kötlu Seafood, hafi verið þeir sem lögðu línurnar um að greiða múturnar og að hann hafi ekki greitt neinar mútur án þess að fá grænt ljós frá þeim fyrst. Jóhannes lýsir sér sem „verkfæri“ í málinu.
„Ég greiddi engar mútur án þess að fá grænt ljós frá Þorsteini. Ég bara fékk upplýsingarnar og ég hafði samband við Þorstein og sagði: Þeir hafa óskað eftir að ...“
Athugasemdir