Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra og núverandi sjávarútvegsráðherra, kom inn á fund með þremenningunum frá Namibíu sem unnu að því gegn mútugreiðslum að útvega Samherja kvóta í landinu. Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum Samherja í turninum í Borgartúni í Reykjavík í ágúst árið 2014 og kynnti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, Kristján Þór sem „sinn mann“ í ríkisstjórninni.
Þetta segir Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri útgerðar Samherja í Namibíu, sem er uppljóstrari í Namibíumálinu sem Wikileaks, Kveikur, Stundin og Al Jazeera greina frá í samstarfi. „Kristján Þór kom inn á fundinn og Þorsteinn Már sagði brosandi að þetta væri hans maður í ríkisstjórninni. Hann stoppaði ekkert lengi samt, kannski í 10 mínútur til að heilsa upp á Namibíumennina,“ segir Jóhannes.
Jóhannes segir að á fundinum hafi þeir Sacky Shangala, þáverandi ríkissaksóknari Namibíu, James Hatuikulipi, stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fiscor, sem útdeilir kvóta í Namibíu, og Tamson „Fitty“ Hatuikulpi, frændi James og tengdasonur Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherrra Namibíu. Allir voru þremenningarnir því tengdir ríkisvaldinu í Namibíu og valdaflokknum SWAPO sem Samherji reiddi sig á til að fá kvóta í landinu. Þremenningarnir eru þrír af þeim aðilum sem Samherji hefur greitt mútur til að tryggja útgerðarfélaginu hestamakrílskvóta í Namibíu.
Á fundinum var Sacky Shangala, sem er núverandi dómsmálaráðherra í Namibíu, að kynna samstarf Namibíu og Angóla fyrir Þorsteini Má, en á grundvelli þess þá var hægt að misnota alþjóðasamning milli landanna tveggja til að útvega Samherja makrílkvóta.
Kristján útilokar ekki að hafa hitt þremenningana
Kristján Þór Júlíusson neitar því ekki að hafa hitt Namibíumennina við þessar aðstæður en undirstrikar að hann hafi ekki verið formlegur þátttakandi á fundinum. „Ég hef ekki setið fund með þessum mönnum um starfsemi Samherja enda á ég ekkert erindi á slíkan fund þar sem ég hef ekki haft afskipti af þeirri starfsemi síðan ég sat þar í stjórn fyrir 19 árum síðan. Ég get ekki útilokað að hafa rekist á og heilsað umræddum mönnum ef við höfum verið staddir þarna á sama tíma fyrir rúmum fimm árum.“
Kristján Þór veitir að öðru leyti ekki ítarleg svör við spurningum Stundarinnar, meðal annars þeirri spurningu af hverju hann var á skrifstofum Samherja á þessum tíma.
„Ég get ekki útilokað að hafa rekist á og heilsað umræddum mönnum“
Þorsteinn Már kom með lausnina
Á fundi í sömu heimsókn Namibíumannanna til Íslands kom Þorsteinn Már með lausn á því hvernig hægt væri að greiða fyrir þjónustu Namibíumannanna utan Namibíu, segir Jóhannes.
Jóhannes segir að á umræddum fundi þar sem þessi lausn var rædd hafi James Hatuikulipi verið sá eini af þremenningunum sem var viðstaddur. Sacky Shangala og Fitty Tamson Hatuikulipi biðu fyrir utan skrifstofu Samherja í Borgartúni á meðan Þorsteinn Már og James Hatuikulipi ræddu málið á fundi, sem Jóhannes sat einnig.
Samherjaforstjórinn sagði þá, samkvæmt því sem Jóhannes segir, að hægt væri að greiða þeim frá dótturfélagi Samherja á Kýpur, Esju Seafood Limited, og til félagsins Tundavala Investment í Dubai sem James er skráður eigandi að.
Athugasemdir