Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Íslensku konurnar lausar úr haldi Ísraela

Leita leigu­bíls til að kom­ast út úr land­töku­byggð­inni sem þær voru flutt­ar til. „Við er­um al­veg dauð­hrædd­ar hérna,“ seg­ir Björk Vil­helms­dótt­ir. Hún ótt­ast að verða hindr­uð í að koma aft­ur til Palestínu.

Íslensku konurnar lausar úr haldi Ísraela
Laus úr haldi Björk og hinum sjálfboðaliðunum þremur var haldið í þrjá klukkutíma. Mynd: Úr einkasafni

Ísraelska lögreglan hefur sleppt íslensku konunum tveimur og frönsku konunum tveimur sem voru handteknar í morgun þegar þær aðstoðuðu palestínska bændur við ólífutínslu. Björk Vilhelmsdóttir, önnur íslensku kvennanna, segir að þeim hafi verið gerð grein fyrir því að ef þær létu aftur sjá sig við ólífutínslu á Vesturbakkanum yrðu þær handteknar og mættu sæta ákæru.

„Við vorum í haldi í þrjá tíma en við erum eiginlega verr staddar núna, á landtökusvæði hér í Ariel. Nú fyrst erum við orðnar ólöglegar, enda landtökusvæði ólögleg samkvæmt alþjóðalögum, en ekki einhver ólífutínslusvæði eins og við vorum á. Við erum að leita að leigubíl núna til að komast í burtu, við höfum aldrei verið áður á landtökusvæði, við erum alveg dauðhræddar hérna,“ segir Björk í samtali við Stundina.

„Nú fyrst erum við orðnar ólöglegar, enda landtökusvæði ólögleg samkvæmt alþjóðalögum“

Konurnar fjórar eru sjálfboðaliðar á vegum Alþjóða friðarstarfs kvenna og hafa þær að undanförnu veitt verndandi viðveru til aðstoðar palestínskum bændum á herteknu svæðunum á Vesturbakkanum. Þær voru handteknar í morgun við slíka iðju. „Við fengum að vera allar fjórar saman, við tvær frá Íslandi og tvær franskar konur, inni á einhverri skrifstofu. Það var mikill stuðningur að því. Það var þarna fullt af löggum allt í kringum okkur. Við mættum aldeilis ekki vinsamlegu viðmóti og þeir meira að segja neituðu að tala við íslenska ræðismanninn. Ég veit hins vegar að íslenska borgaraþjónustan hjálpaði til við að fá okkur lausar, maðurinn minn sagði mér að hann hefði fengið þær upplýsingar að við værum lausar áður en ég hringdi í hann.“

Björk segir að konurnar hafi ekki setið undir hótunum eða ógnunum á meðan þær voru í haldi en þegar verið var að taka þær fastar hafi þeim verið sýnd handjárn og haft í hótunum við þær. „Það var sagt við okkur að við værum inni á lokuðu hernaðarsvæði en við vorum nú þarna með bónda sem hafði leyfi til að tína ólívur á svæðinu, það var nú ekki meira hernaðasvæði en svo. Þetta kom okkur algjörlega í opna skjöldu. Og þó, kannski ekki alveg því við vissum af því að það var búið að vera að reka alþjóðlega sjálfboðaliða i burtu af svæðinu. Við vorum látnar lausar með því fororði að við skyldum ekki láta sjá okkur þarna meira í Burin, á þessu lokaða hernaðarsvæði. Ef svo yrði þá yrðum við handteknar fyrir alvöru og kærðar fyrir athæfið.

„Ég hef bara mestar áhyggjur af því að mér verði meinað að koma aftur“

Björk hefur áður verið í Palestínu við sjálfboðaliðastörf af svipuðum toga. Hún segir að henni finnist sem nú sé óvenju mikil harka í viðbrögðum Ísraelsmanna. „Tengiliður okkar við bændur á svæðinu er á sama máli. Við ætluðum upphaflega til annars bónda á svæðinu en sá hafði hringt í morgun og látið vita af því að lögreglan væri kominn á svæðið og segði að alþjóðlegir sjálfboðaliar mættu ekki vera á svæðinu. Svo við fórum bara til annars bónda.

Björk á flug heim til Íslands á morgun en hún er búin að vera í þrjár vikur í Palestínu. Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að henni verði á einhvern hátt gert erfitt fyrir á leiðinni heim segir Björk að það komi bara í ljós annað kvöld en vissulega hafi ýmsir sem lent hafa upp á kant við ísraelsk stjórnvöld fengið að finna fyrir því. „Ég hef bara mestar áhyggjur af því að mér verði meinað að koma aftur.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár