Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Komið að skuldadögum fyrir Trump?

Öll spjót standa á Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta nú þeg­ar þing­ið hef­ur haf­ið rann­sókn á hvort hann hafi gerst brot­leg­ur í starfi. Ljóst er að meiri­hluti er fyr­ir því í full­trúa­deild þings­ins að ákæra for­set­ann, enda virð­ist borð­leggj­andi mál að hann mis­not­aði embætti sitt til að þrýsta á stjórn­völd í Úkraínu að rann­saka Joe Biden, sinn helsta stjórn­mála­and­stæð­ing. Um leið sæt­ir Ru­dy Guili­ani, einka­lög­fræð­ing­ur Trumps, sjálf­ur saka­mál­a­rann­sókn og tveir dul­ar­full­ir að­stoð­ar­menn hans hafa ver­ið hand­tekn­ir fyr­ir að bera er­lent fé á for­set­ann.

Komið að skuldadögum fyrir Trump?
Trump og arftakinn? Ef Donald Trump verður látinn víkja verður Mike Pence forseti Bandaríkjanna. Mynd: History in HD

Það hefur verið tilfinningalegur rússíbani fyrir bæði blaðamenn og leikmenn að fylgjast með gangi mála í bandarískum stjórnmálum undanfarið. Hjólin byrjuðu að snúast seint í síðasta mánuði þegar fjölmiðlar greindu frá því að bandaríska þingið hefði fengið í hendur skýrslu frá uppljóstrara innan leyniþjónustunnar. Trump-stjórnin mun hafa reynt að koma í veg fyrir að skýrslan bærist viðeigandi þingnefnd, sem er alvarlegt út af fyrir sig ef rétt reynist.

Fljótlega kom í ljós að ábending uppljóstrarans sneri aðallega að símtali sem Trump átti við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, í júlí síðastliðnum. Sagðist uppljóstrarinn hafa rætt við fólk með vitneskju um efni símtalsins. Það væri sér áhyggjuefni að Trump hefði þar farið langt yfir strikið með því að blanda saman embættisverkum sínum sem forseta við eigin pólitíska baráttu fyrir komandi forsetakosningar vestanhafs árið 2020.

Nokkrir ráðgjafa Trumps innan Hvíta hússins höfðu hlustað á símtalið í beinni en handrit þess var ekki gert aðgengilegt öðrum starfsmönnum eins og almennt er venjan þegar ekki er um að ræða samtöl um viðkvæm þjóðaröryggismál. Þess í stað var handritið vistað í tölvukerfi sem er eingöngu ætlað fyrir allra mestu ríkisleyndarmál Bandaríkjanna.

Greiðinn við Trump

Í fyrstu virtist Trump standa á sama um þessar ásakanir og sagði ítrekað við fjölmiðla að símtal sitt við Zelensky hefði verið „fullkomið“ að öllu leyti og ekkert við það að athuga. Máli sínu til stuðnings gaf hann fjölmiðlum aðgang að hluta af umræddu handriti en það reyndist síður en svo til þess fallið að lægja öldurnar.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár