Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Fann sinn veg í fiskbúðinni

Sex ár eru lið­in frá því að Sig­fús Sig­urðs­son lagði hand­bolta­skóna á hill­una, fór að vinna við að selja fisk og kom sjálf­um sér og öðr­um á óvart með því að finna sig vel þar. Í dag stend­ur hann vakt­ina í eig­in versl­un, Fisk­búð Fúsa, í Skip­holti.

Fann sinn veg í fiskbúðinni

Það hefur tekið nokkuð langan tíma að finna stund á vinnutíma, til að setjast niður með Sigfúsi Sigurðssyni, eitt sinn handboltamanni en nú fisksala í Fiskbúð Fúsa í Skipholti. Hann hefur í aðdraganda viðtalsins staðið vaktina einn í búðinni, verið mættur þar snemma morguns til að byrja að undirbúa daginn og gengið út um sjö leytið, eftir að hafa reddað kvöldmatnum fyrir fjölda fólks. Nú er hann loks búinn að ráða mann sér við hlið og getur því brugðið sér frá, áður en síðdegisösin hefst. „Maður er farinn að venjast því að lykta eins og gamall sokkur,“ segir Sigfús þegar hann er að koma sér fyrir með kaffibollann sinn og vísar til fiskilyktarinnar sem fylgir honum inn á kaffihúsið, meðal annars til að ræða um nýjan starfsvettvang í fiskbúðinni. Þetta verður hins vegar ekki nema að mjög takmörkuðu leyti viðtal um handbolta enda hefur blaðamaður lítið fylgst með honum í gegnum tíðina. Þrátt fyrir það finnst henni eins og hún þekki Sigfús, enda var hann einn af „Silfurdrengjunum okkar“, landsliðshópnum sem komst svo langt að spila úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í Peking og landsmenn margir tóku ástfóstri við, hvort sem þeir höfðu áhuga á íþróttum eða ekki. Í hópnum voru menn eins og Ólafur Stefánsson, Dagur Sigurðsson, Patrekur Jóhannesson, Guðmundur Hrafnkelsson, Rúnar Sigtryggsson og Aron Kristjánsson. „Já, þetta lið var fullt af stórum karakterum,“ samsinnir Sigfús. „Það var tekið eftir því. Í dag finnst mér dálítið vanta uppá að menn láti ljós sitt skína, fyrir utan handboltavöllinn líka, eins og þessir menn gerðu margir. Það skiptir líka máli, svo að fólk taki eftir liðinu. Það er eins og vanti allt fútt í þetta í dag.“ 

Fittaði fyrst inn þegar hann drakk

Sigfús var bara kornungur Valsari þegar hann var farinn að láta til sín taka á handboltavellinum. Hann er nokkru yngri en sumar af helstu kempunum í Silfurliðinu en hann kynntist þeim þrátt fyrir það snemma, enda spilaði hann iðulega upp fyrir sig og var farinn að spila leiki með yngri landsliðum 16 ára gamall og með A-landsliðinu 21 árs. Áfengisfíkn fór þó snemma að þvælast fyrir honum og hann missti af stærstu tækifærunum, enda var honum ekki treyst fyrir því að spila alvöru leiki. Hann var ekki nema 23 ára þegar hann fór í meðferð, árið 1999. Hann hefur ekki drukkið síðan. „Ég var rosalega virkur krakki en þegar ég horfi til baka sé ég að minn alkóhólismi var að koma fram áður en ég byrjaði að drekka, með óheiðarleika og ýktum viðbrögðum, ofsagleði, ofsasorg eða -depurð og þar fram eftir götunum. Ég átti alveg rosalega mikið af því sem ég kallaði vini en ég náði samt ekki að tengja við þá, fannst ég aldrei alveg fitta inn, fannst ég alltaf standa utangátta. Það var ekki fyrr en ég drakk í fyrsta skipti sem mér fannst ég tengja við þá. Það var alltaf eins og væri tómarúm inni í mér og það fylltist upp í það þegar ég drakk. Þá náði ég að tengja við allt og alla. En eftir því sem ég drakk eða notaði meira stækkaði bara þetta tómarúm, þannig að þetta var komið út í algjörar öfgar eftir þessi 7–8 ár sem þetta stóð yfir. Ég var 23 ára þegar ég fór í meðferð. Á meðan ég drakk gifti ég mig, eignaðist son og skildi líka. Allt eins og það á ekki að vera!”

„Á meðan ég drakk gifti ég mig, eignaðist son og skildi líka. Allt eins og það á ekki að vera!“

Heiðarleiki framar öllu öðru

Snemma í samtalinu verður ljóst að Sigfúsi þykir ekki erfitt að ræða sín persónulegu mál og að hann er ansi óvæginn við sjálfan sig. Hann hefur greinilega horfst í augu við sjálfan sig og sína bresti. Hann samþykkir það en segist ekki kenna áfenginu um það sem miður hefur farið í hans lífi, þrátt fyrir að alkóhólisminn hafi augljóslega sett mark sitt á líf hans. „Nei,  99% af öllum skít í mínu lífi er sjálfum mér að kenna. Ég kenni ekki neinu eða neinum öðrum um en sjálfum mér,“ segir hann og bætir því við að hann reyni alltaf að vera heiðarlegur, bæði við sjálfan sig og aðra. Það sé kjarninn í hans edrúmennsku. „Ef ég get ekki verið heiðarlegur við sjálfan mig get ég ekki verið heiðarlegur við aðra. Um leið og ég er orðinn óheiðarlegur og farinn að eiga einhver leyndarmál er voðinn vís.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár