Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Stjórn Sigmundar fullgilti umdeildan samning um vernd orkufjárfestinga

Með full­gild­ingu ECT-samn­ings­ins hafa ís­lensk stjórn­völd skuld­bund­ið sig til að liðka fyr­ir frjáls­um við­skipt­um með orku­auð­lind­ir og að beita sér fyr­ir sam­keppni, mark­aðsvæð­ingu og sam­vinnu á sviði orku­flutn­inga. Reynt gæti á ákvæði samn­ings­ins ef upp koma deil­ur um lagn­ingu sæ­strengs, en fjár­fest­ar hafa með­al ann­ars not­að samn­ing­inn sem vopn gegn stjórn­valds­að­gerð­um sem er ætl­að að halda niðri raf­orku­verði til al­menn­ings.

Stjórn Sigmundar fullgilti umdeildan samning um vernd orkufjárfestinga
Fullgiltu samninginn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra þegar Ísland fullgilti ECT-samninginn svokallaða sem hefur að geyma ströng fjárfestaverndarákvæði. Sama ár sagði Ítalía upp samningnum. Mynd: Pressphotos.biz

Íslensk stjórnvöld fullgiltu ECT-samninginn um orkumál þann 7. júlí 2015 og sendu portúgölskum stjórnvöldum, vörsluaðila samningsins, bréf því til staðfestingar. 

Með þessu hefur Ísland meðal annars skuldbundið sig til að liðka fyrir frjálsum viðskiptum með orkuauðlindir og að beita sér fyrir samkeppni, markaðsvæðingu og samvinnu á sviði orkuflutninga.

Í samningnum (e. Energy Charter Treaty) er að finna ströng og gamaldags ákvæði um fjárfestavernd, úrlausn ágreiningsmála og skaðabótaábyrgð ríkja sem hafa sætt harðri gagnrýni víða um heim. Fullgildingin felur í sér að Ísland er nú skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði samningsins.

Samningur fullgilturGunnar Bragi Sveinsson undirritaði fullgildingarskjal sem utanríkisráðherra ásamt forseta.

Upplýsingar um fullgildingu Íslendinga á samningnum er að finna á vef alþjóðaskrifstofu orkusáttmálans, en eftir því sem Stundin kemst næst var aldrei tilkynnt um málið á vefsvæði íslenska stjórnarráðsins og fullgildingin ekki borin undir Alþingi. 

„Forseti Íslands gjörir kunnugt: Ég hefi séð og athugað samning um orkusáttmála sem undirritaður var í Lissabon 17. desember 1994 og lýsi hér með yfir því að samningur þessi er með skjali þessu fullgiltur af Íslands hálfu, enda skal honum framfylgt í hvívetna,“ segir í fullgildingarskjali sem undirritað var af Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta, og Gunnari Braga Sveinssyni, sem var utanríkisráðherra á þessum tíma. Kom samningurinn til framkvæmda þann 18. október 2015.

Ítalía sagði upp samningnum 

Ítölsk stjórnvöld ákváðu að segja upp samningnum sama ár og Ísland fullgilti hann, en breska olíufyrirtækið Rockhopper hefur staðið í málaferlum gegn Ítalíu á grundvelli samningsins eftir að þarlend stjórnvöld synjuðu fyrirtækinu um nýtt leyfi til olíuvinnslu við strendur Abruzzo-héraðs.  

Alls hafa 122 þekkt gerðarmál gegn ríkjum verið höfðuð á grundvelli ECT-samningsins, þar af 40 gegn Spáni, 10 gegn Ítalíu og 6 gegn Tékklandi. Raunar hefur enginn alþjóðlegur viðskipta- eða fjárfestingarsamningur orðið grundvöllur eins margra gerðarmála fyrirtækja gegn ríkjum, en sum málanna í Evrópu eru viðbragð við aðgerðum sem stjórvöld hafa ráðist í til að lækka raforkuverð fyrir almenning. 

Bretar einnig aðili að ECT-samningnum

Sennilegt er að reyna myndi á ákvæði samningsins ef upp kæmu deilur um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands í framtíðinni, enda eru Bretar einnig aðilar að samningnum og hafa bresk fyrirtæki nýtt sér óspart þá réttarvernd sem í honum felst.

Athygli vekur að gengið var frá fullgildingu ECT-samningsins í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þegar Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra. Sigmundur og Gunnar Bragi hafa undanfarna mánuði markað sér sess sem einhverjir háværustu andófsmenn þriðja orkupakka Evrópusambandsins og haldið því fram að innleiðing orkupakkans ógni fullveldi Íslands og muni torvelda íslenskum stjórnvöldum að standa gegn lagningu sæstrengs til landsins. 

Eins og margbent hefur verið á var lagður grunnur að innleiðingu orkupakkans í ráðherratíð Sigmundar og Gunnars Braga en auk þess átti ríkisstjórn Sigmundar frumkvæði að því árið 2014 að reglur úr þriðja orkupakkanum voru bundnar í íslensk lög áður en þær voru samþykktar í sameiginlegu EES-nefndinni og teknar upp í EES-samninginn. 

Möguleikinn á lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands hefur verið til skoðunar á undanförnum árum og áratugum. Sem kunnugt er stefna Bretar að útgöngu úr Evrópusambandinu og vilja losna undan þeim reglum sem gilda um innri markað þess. Hins vegar bendir fátt ef nokkuð til þess að Bretar ætli að segja sig frá ECT-samningnum um orkumál. Bresk fyrirtæki hafa notið góðs af fjárfestaverndarákvæðum samningsins, samanber til dæmis mál breska fyrirtækisins gegn Ítalíu. Að minnsta kosti 14 önnur bresk fyrirtæki hafa höfðað mál á grundvelli samningsins og breskar lögmannsstofur haft vel upp úr því.

Hrina gerðarmálsókna undanfarna áratugi

Eins og Stundin fjallaði um í mars síðastliðnum hefur færst í vöxt að einkaaðilar höfði mál gegn ríkjum fyrir alþjóðlegum gerðardómum. Málsóknirnar valda ríkjum oft umtalsverðu fjártjóni, ekki aðeins vegna bótaskyldunnar þegar mál tapast heldur einnig vegna málskostnaðar og greiðslna sem inntar eru af hendi þegar málum lýkur með sátt. Þá hafa gerðarmálsóknir og hótanir um þær kælingaráhrif þegar kemur að stefnumótun, reglusetningu og lagaframkvæmd; hættan á því að fjárfestar fari í hart og dragi ríki fyrir gerðardóma fælir stjórnvöld frá því að beita þeim tækjum sem þau hafa til að standa vörð um almannahagsmuni. 

ECT-orkusamningurinn hefur að geyma gerðardómsákvæði sem teljast til eldri kynslóðar slíkra ákvæða. Samkvæmt samningnum kemur það í hlut þriggja lögfræðinga að leysa úr ágreiningi fjárfestis og ríkis og geta ríki verið dæmd til að greiða einkaaðilum skaðabætur vegna aðgerða sem taldar eru hafa skaðað fjárfestingar þeirra með beinum eða óbeinum hætti.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Þriðji orkupakkinn

Frosti: „Hneyksli“ að ECT-samningurinn hafi ekki verið borinn undir Alþingi
FréttirÞriðji orkupakkinn

Frosti: „Hneyksli“ að ECT-samn­ing­ur­inn hafi ekki ver­ið bor­inn und­ir Al­þingi

Frosti Sig­ur­jóns­son, fyrr­ver­andi þing­mað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins og einn af tals­mönn­um Ork­unn­ar okk­ar, tel­ur það stjórn­ar­skrár­brot að Ís­land hafi und­ir­geng­ist skuld­bind­ing­ar ECT-samn­ings­ins án að­komu Al­þing­is. Gunn­ar Bragi Sveins­son stóð að full­gild­ingu samn­ings­ins í rík­is­stjórn­ar­tíð Sig­mund­ar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar.
Aðstoðarmaður Sigmundar réttlætir fullgildingu ECT-samningsins: „Stundum er hlutum blandað inn í umræðuna“
FréttirÞriðji orkupakkinn

Að­stoð­ar­mað­ur Sig­mund­ar rétt­læt­ir full­gild­ingu ECT-samn­ings­ins: „Stund­um er hlut­um bland­að inn í um­ræð­una“

Hinn um­deildi samn­ing­ur um vernd orku­fjár­fest­inga varð ekki bind­andi fyr­ir Ís­land fyrr en rík­is­stjórn Sig­mund­ar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar full­gilti hann ár­ið 2015. Ólíkt því sem lagt var upp með við und­ir­rit­un samn­ings­ins 20 ár­um áð­ur var full­gild­ing­in ekki bor­in und­ir Al­þingi. Að­stoð­ar­mað­ur Sig­mund­ar Dav­íðs gef­ur lít­ið fyr­ir frétta­flutn­ing af mál­inu, en önn­ur Evr­ópu­ríki töldu ástæðu til að sam­þykkja sér­staka yf­ir­lýs­ingu um for­ræði yf­ir sæ­strengj­um og olíu­leiðsl­um. Með und­ir­rit­un Gunn­ars Braga Sveins­son­ar og Ól­afs Ragn­ars Gríms­son­ar ár­ið 2015 skuld­bundu ís­lensk stjórn­völd sig til að fram­fylgja samn­ingn­um í hví­vetna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár