Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Samherjar

Einu sinni höfðu flestir íbúar í miðbænum útsýni yfir hafið. Þar til Skuggahverfið reis á árunum fyrir hrun, háhýsaþyrping með lúxusíbúðum við sjóinn, sem skyggði á útsýnið fyrir alla nema þá sem gátu greitt fyrir það. Þannig varð Skuggahverfið táknmynd vaxandi ójöfnuðar og stéttskiptingar í íslensku samfélagi.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Einu sinni höfðu flestir íbúar í miðbænum útsýni yfir hafið. Þar til Skuggahverfið reis á árunum fyrir hrun, háhýsaþyrping með lúxusíbúðum við sjóinn, sem skyggði á útsýnið fyrir alla nema þá sem gátu greitt fyrir það. Þannig varð Skuggahverfið táknmynd vaxandi ójöfnuðar og stéttskiptingar í íslensku samfélagi.

Átök á Alþingi Eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem málefni Samherja voru rædd ætlaði seðlabankastjóri að heilsa Þorsteini Má Baldvinssyni, en sonur Þorstseins steig á milli og sagði honum að sýna sómakennd og drulla sér í burtu.  Mynd: RÚV

Íslendingar hafa lengi talið sér trú um að hér hafi allir sama aðgang að tækifærum til að mennta sig og komast til áhrifa á grundvelli verðleika. Raunveruleikinn er hins vegar sá að hér hefur skapast stéttskipt samfélag þar sem gjá hefur myndast á milli almennings og elítunnar, þeirra sem hafa aðgang að valdi og yfirráðum. Áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum lýsti þessu svona: „Á Íslandi snýst allt um klíkur, að vera í klíku og þá helst réttu klíkunni. Ef þú ert ekki í klíkunni þá verður allt miklu erfiðara.“

„Á Íslandi snýst allt um klíkur“

Vaxandi ójöfnuður leiðir af sér samþjöppun valds. Hættan er sú að þegar fólk kemst til valda vinni það frekar að því að auka eigin völd og áhrif, í stað þess að styrkja lýðræðislegar stoðir samfélagsins og taka ákvarðanir sem miða að því að auka hag og velferð heildarinnar. Þannig hefur auður þeirra ríkustu vaxið á meðan lífskjör almennings hafa staðið í stað. Enginn hópur hefur grætt eins mikið á því hvernig skattkerfinu er stýrt eins og ríkasta eina prósentið, þessar 2.180 fjölskyldur sem eiga að meðaltali 300 milljón króna eignir. Hvergi á Norðurlöndunum greiðir hátekjufólk jafn lága skatta og á Íslandi. Engin Norðurlandaþjóð leggur lægri skatta á fjármagn og fyrirtæki. Samt hefur skattbyrði lágtekjufjölskyldna aukist meira á Íslandi frá aldamótum en í öllum öðrum OECD-ríkjunum.

Hvað segir það um okkur sem þjóð?

Einsleitni í elítu 

Í rannsókn á elítu Íslands kom í ljós að fólk sem tilheyrir elítunni er líklegra til þess að búa á sama svæði. Í Garðabæ og á Seltjarnarnesi búa 2,5 sinnum fleiri úr viðskipta- og atvinnuelítunni en annars staðar, þeirra á meðal framkvæmdastjórar stærstu fyrirtækja landsins.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis var vikið að þessari þróun, en fyrir fall bankanna var áberandi hversu mikil einsleitni var á meðal starfsfólks.

Út frá búsetu myndast innbyrðis tengsl sem viðhalda elítunni, meðlimir í framkvæmdastjórnum fyrirtækja eru líklegri til að velja nágranna sína með sér í stjórn. Eftir því sem búsetueinsleitni eykst dregur úr jöfnum tækifærum fólks og félagslegum hreyfanleika.

Elíta Íslands er því ekki þverskurður af íslensku þjóðinni heldur útvalinn hópur fólks sem hefur betri aðgang að tækifærum en aðrir. Með öðrum orðum, klíkuskapur í íslensku samfélagi hefur áhrif á aðgengi að valdamiklum stöðum.

„Með öðrum orðum, klíkuskapur í íslensku samfélagi hefur áhrif á aðgengi að valdamiklum stöðum“

Stemningin í Garðabænum 

Í sumum tilfellum býr þetta fólk ekki aðeins í póstnúmerinu heldur einnig í sama hverfinu, jafnvel í sömu götunni. Þegar Stundin skoðaði búsetu fimmtíu manna hóps sem greiddi hæstar fjármagnstekjur í Garðabæ kom í ljós að tíu þeirra bjuggu í sama nýja hverfinu, níu á Arnarnesinu, þar sem fjórir þeirra bjuggu beinlínis hlið við hlið. Fjórir til viðbótar bjuggu í sama íbúðakjarnanum við Garðatorg. Við tvær götur í Garðabæ búa flestir þeirra Engeyinga sem hafa verið stórtækir í íslensku viðskiptalífi.

Einn þeirra, sem kvartaði undan því að fjármagnstekjuskattur væri of hár og stjórnvöld ættu að sýna meiri aðhaldssemi, er útgerðarmaður sem hagnaðist á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þetta árið hafði hann þénað 148 milljónir í fjármagnstekjur. 

Þjóðin getur ekki átt neitt

Ríkasti Íslendingurinn árið 2017 var útgerðarmaður sem þénaði slíkar tekjur að það tæki lækni, með 1,5 milljónir á mánuði, 117 ár að þéna sömu upphæð. Manneskja á lágmarkslaunum væri 576 ár að ná því. Tekjuhæstu Íslendingarnir árið 2016 högnuðust á því að selja útgerð. Það tæki verkamann 720 ár að vinna sér inn þær tekjur sem tekjuhæsti karlinn og tekjuhæsta konan fengu það árið. 

Á fundi með íbúum í litlu sjávarplássi birti forstjóri útgerðarinnar mynd af börnunum sínum og spurði hvað yrði um framtíð þeirra, ef veiðileyfagjöldum yrði komið á. Veiðileyfagjaldi var harðlega mótmælt, enda fullyrtu hagsmunasamtök útgerðarmanna að þau myndu valda fjöldagjaldþroti í greininni. Sama ár skiluðu íslensku útgerðirnar methagnaði, af 85 milljörðum króna hagnaði fóru 9,4 milljarðar í veiðileyfagjöld. Því var hótað að auknum álögum ríkisins yrði velt yfir á sjómennina sjálfa, sem áttu ekki aðeins að bera kostnaðinn heldur einnig að mótmæla þessum áformum. Skipaflota landsins var stefnt til Reykjavíkur þar sem sjómönnum var gert að fara að Alþingi og láta í sér heyra. „Við höfðum ekkert val. Það kom bara skipun að ofan að siglt yrði til Reykjavíkur, að við ættum að mótmæla, og skipstjórinn einfaldlega hlýddi,“ sagði einn þeirra sem tók þátt í mótmælunum.

„Þjóðin getur ekki átt neitt“

„Þjóðin getur ekki átt neitt,“ sagði framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Árið 2017 var 86 starfsmönnum HB Granda á Akranesi sagt upp í hagræðingarskyni, en stjórnarformaður HB Granda fékk líklega um fjórum sinnum hærri tekjur en allir starfsmennirnir til samans. 

Þegar hugmyndir um auðlegðarskatt komu fram í kosningabaráttunni í aðdraganda alþingiskosninga kom stóreignafólk því á framfæri að það hygðist flytja úr landi vegna þess. Stóreignafólk hafði reyndar þá þegar flutt peninga úr landi. Undanfarna tvo áratugi hafa Íslendingar flutt himinháar upphæðir í skattaskjól. Á útrásarárunum var umfang íslenskra aflandseigna einstakt í heiminum, allt að 810 milljarðar íslenskra króna. „Elítan vill ekki fara að leikreglunum,“ var skýring Evu Joly, sérfræðings í baráttu gegn fjármálaspillingu.

Sluppu með skattsvik 

Fyrrverandi borgarfulltrúi viðurkenndi skattalagabrot en brot hans voru fyrnd. Hann var síðan dæmdur fyrir peningaþvætti.

Dæmi eru um að menn sem sættu sakamálarannsókn og hlutu jafnvel dóma, komu aftur með peninga úr aflandsfélögum til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans, þar sem 20 prósenta afsláttur fékkst af íslenskum krónum með því skilyrði að féð yrði fest í verðbréfum, fasteignum, fyrirtækjum eða  öðrum fjárfestingarkostum hér á landi. Á meðal þeirra sem nýttu sér þennan afslátt voru lykilstjórnendur og hluthafar í föllnu bönkunum sem dæmdir voru í fangelsi fyrir fjársvik. Í Frakklandi er hægt að setja menn í fimmtán ára bann frá viðskiptum. Hér lýstu þeir því hvernig þeir héldu störfum sínum áfram innan veggja fangelsisins.

Ís með dýfu

Viðtal við þá birtist í sjónvarpinu, tekið innan úr fangelsinu þar sem þeir kvörtuðu undan meðferðinni á sér. „Eitt að lokum, vegna þess að umræðan er oft og tíðum hatrömm ... Þið vitið sjálfir að það eru ekki allir á móti ykkur,“ sagði fréttamaðurinn styðjandi. Viðmælendur hans voru allir með mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem þeir töldu íslenska ríkið hafa brotið á sér.

„Þið vitið sjálfir að það eru ekki allir á móti ykkur“ 

Í tvígang funduðu þeir í fangelsinu með öðrum auðmanni sem mætti þangað með einkabílstjóra. Sá hinn sami fór einnig með mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og átti fjölmiðlafyrirtækið sem birti ofangreint viðtal við þá, áður en það komst í eigu eiginkonu hans. 

Næst fréttist af þeim í ísbíltúr á Snæfellsnesinu, þegar þeir höfðu skroppið af Kvíabryggju á Ólafsvík þar sem þeir fengu ís með dýfu í sjoppunni. Fyrirhugað var að halda rándýrt reiðnámskeið fyrir fangana á Kvíabryggju á meðan þeir voru þar, og nokkrum dögum áður en þeir fóru á Vernd var fundað með föngunum þar og greint frá því að nýjar dýnur hefðu verið keyptar - fyrir suma, en ekki aðra. Á Alþingi var lagabreyting afgreidd með flýti, sem heimilaði að þeir fengu helmingi lengri tíma undir rafrænu eftirliti heldur en áður hafði verið leyfilegt og losnuðu þar af leiðandi fyrr úr fangelsi.

Þegar maður á fimmtugsaldri var dæmdur fyrir að stela lambalæri og kökudropum fékk hann óskilorðsbundinn tveggja mánaða fangelsisdóm. Kona sem rauf skilorð með því að stela dós af jólaöli og armbandi fyrir jólin var send í þriggja mánaða fangelsi.

Börnin í Skuggahverfinu

Sautján ára stúlka sýndi blaðamanni skóna sína, þá einu sem hún átti; götótta strigaskó sem hún klæðist í öllum veðrum. Móðir hennar varð óvinnufær vegna veikinda. Suma daga er ekki til annað í matinn en brauð eða núðlur – ekki góðar núðlur af taílenskum veitingastað heldur pakkanúðlur á 78 krónur, sem hellt er út í soðið vatn og bragðbættar með meðfylgjandi kryddblöndu. Börnin í Breiðholtinu búa við allt aðrar aðstæður en börnin í Skuggahverfinu.

Reyndar búa flest íslensk börn við aðrar aðstæður en börnin í Skuggahverfinu, þar sem dýrustu eignirnar fara á 300 milljónir. Árið 2016 var fjallað um 200 milljón króna íbúð í Skuggahverfinu í Smartlandinu. Íbúðin var hönnuð af þekktum innanhússarkitekt, allar innréttingar úr dökkbæsaðri eik, bókahillurnar sérsmíðaðar í stíl við eldhúsinnréttingu og innihurðir. Flísar voru sérpantaðar og lýsingin sérhönnuð.

Í Skuggahverfinu geta þeir sem hafa ráð á því keypt íbúðir með útsýni til allra átta, en hinir geta látið sér nægja að stara á gráa steypukassana sem byrgja þeim sýn út á hafið. Á toppi einnar byggingarinnar stendur ljósastaur. Honum er ekki ætlað að lýsa almenningi leið heldur er ljósastaurinn listaverk í eigu auðmanns. 

Galdrakarlarnir í OZ

Undanfarin ár hafa fjölmiðlar fjallað ítarlega um stöðu ungs fólks sem situr fast í foreldrahúsum vegna þess að það kemst ekki inn á fasteignamarkað. Nýlega var sagt frá konu með þrjár háskólagráður sem hefur ekki efni á leiguíbúð og óttaðist að þurfa að flytja í iðnaðarhúsnæði með son sinn. Svo eru það hinir, sem hafa peningana og tækifærin.

Greint var frá því að á Skúlagötu hefði 25 ára fjárfestir fest kaup á þremur lúxusíbúðum með viðskiptafélaga sínum. Faðir hans, Skúli Mogensen, á merkilega viðskiptasögu. Áður en hann stofnaði WOW air stýrði hann hugbúnaðarfyrirtækinu OZ sem var yfirtekið vegna skulda. Þá hafði hann sjálfur fengið um 1.200 milljónir að láni til hlutabréfakaupa. Þegar gamall vinur hans og fyrrverandi viðskiptafélagi keypti Landsbanka Íslands af íslenska ríkinu við einkavæðinguna, var veittur 700 milljón króna afsláttur af kaupverðinu vegna ofmats á eignasafni bankans, sem mátti að stórum hluta rekja til þess að veð á lánveitingum til Skúla voru ofmetin. Að lokum fékk Skúli að kaupa fyrirtækið aftur af bankanum og græddi vel á sölu þess. Nú vinnur hann að endurreisn WOW air. 

Í sjónvarpsþættinum Heimsókn sýndi áhrifavaldur breytingar á íbúð í Skuggahverfinu. Íbúðin var hennar fyrsta fasteign, 100 fermetra íbúð í einu dýrasta fjölbýlishúsi landsins, sem hún staðgreiddi og hannaði eftir sínu höfði. Eigandinn er 25 ára, framkvæmdastjóri fegurðarsamkeppni, sem stýrir markaðssetningu á samfélagsmiðlum fyrir World Class. Fyrirtækið er í eigu foreldranna, sem seldu sjálfum sér rekstur félagsins þegar það fór í þrot, greiddu fyrir það þrjú prósent af raunvirði og var gert að svara fyrir það. Seinna tók faðir hennar þátt í yfirtöku á fjölmiðli með því yfirlýsta markmiði að koma ritstjóranum frá, vegna þess að ritstjórnin hafði fjallað með gagnrýnum hætti um viðskiptahætti hans.

Í sama húsi á Róbert Wesmann íbúð og indverskur auðmaður tvær. Dóttir útgerðarmanns er í nágrannahópnum, en foreldrar hennar eiga þrjár íbúðir í sama húsinu. Í öðru háhýsi Skuggahverfisins standa tvær lúxusíbúðir á sömu hæð, en þær eru í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar í Samherja og sonar hans, Baldvins Þorsteinssonar.

Erfingjarnir 

Jafnvel þótt rannsókn á elítu Íslands hafi tekið mið af búsetu eftir póstnúmerum þá er það ekki heimilisfangið eitt og sér sem hefur úrslitaáhrif á það hverjir tilheyra elítunni. Ættartengsl opna margar dyr. Þegar farið er yfir listann yfir ríkasta 0,1 prósentið hér á landi kemur í ljós að þar eru flestir erfingjar, útgerðarmenn eða ahafnamenn. 

Nítján ára nemandi í Verzlunarskóla Íslands varð skyndilega eigandi að næst stærstu lyfjaverslun landsins og umsvifamikils fasteignafélags, eftir að faðir hans var dæmdur til að greiða milljarða í skaðabætur í efnahagsbrotamáli. Um leið tók hann sæti í stjórn félagsins sem átti Lyf og heilsu eftir fléttu þeirra feðga. Jafnaldri og vinur nýja eigandans, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, tók sæti sem varamaður í stjórninni. Þegar fréttamaður reyndi að spyrjast fyrir um viðskiptin skellti eigandinn á.

Eftir útskrift hóf Baldvin Þorsteinsson störf fyrir viðskiptaveldi föður síns, þar sem hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri, forstjóri og stjórnarformaður fyrirtækja. Faðir hans er á meðal stærstu útgerðarmanna landsins, einn þeirra sjö útgerðarmanna sem þénuðu samtals tæpa sex milljarða í fjármagnstekjur árið 2017, hluti af 0,1 prósentinu.

Sýndu sómakennd

„Sýndu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu,“ voru skilaboð Baldvins til seðlabankastjóra þegar sá ætlaði að heilsa föður hans eftir fund stjórnskipunar-  og eftirlitsnefndar Alþingis, þar sem mál útgerðarfélagsins var til umfjöllunar. Hæstiréttur hafði komist að þeirri niðurstöðu að Seðlabanki Íslands hafði ekki heimild til að leggja stjórnvaldssekt á Samherja en gjaldeyriseftirlit bankans taldi Samherja hafa brotið gjaldeyrislög og gerði húsleit hjá fyrirtækinu. Í tvígang kærði Seðlabankinn Samherja til Sérstaks saksóknara, sem felldi málið niður. Viðbrögðin voru meðal annars þau að Samherji ákvað að láta þýska dótturfélagið hætta að vinna fisk í fiskvinnslunni á Dalvík, sem kom sér illa fyrir um 150 starfsmenn fiskvinnslunnar.

„Sýndu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu“

Eftir dóm Hæstaréttar hefur Þorsteinn beitt völdum sínum og áhrifum til að fá seðlabankastjóra rekinn úr starfi vegna rannsóknarinnar og kæru til sérstaks saksóknara. Alveg eins og annar úr hópi auðugustu Íslendinganna, útgerðarmaðurinn Kristján Loftsson, beitti völdum sínum og áhrifum til þess að fá fram breytingu á reglugerð um hvalskurð. Í tölvupósti til ráðherra kom vilji hans fram: „Þar hef ég sett inn breytingar þær, sem ég fer fram á að verði gerðar með rauðu,“ segir í tölvupóstinum. Honum varð að ósk sinni.

Það gekk ekki jafn vel þegar ung kona sendi heilbrigðisráðherra tölvupóst með ósk um að lyfjakostnaður og komugjöld krabbameinssjúklinga yrðu felld niður. 

Gjaldþrota sjómaður 

Aðstöðumunurinn er skýr. Í tilfelli Samherja var það hluti af herferðinni gegn Seðlabankastjóra að kaupa einhliða umfjöllun á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, þar sem seðlabankastjóri mátti sæta harðri gagnrýni. Alveg eins og Samherji sá sér hag í því að eiga fimmtungshlut í Morgunblaðinu. Þar sem útgáfufélagið var rekið með 1,8 milljarða tapi á tæplega tíu ára tímabili var það varla hagnaðarvon sem stýrði þeirri fjárfestingu, heldur hefur það verið leið auðmanna til að hafa áhrif á umræðuna að fjárfesta í fjölmiðlum. Á sínum tíma sameinuðust útgerðarfélög um meirihluta í Morgunblaðinu, þar sem þriðji hver þorskur var á bakvið hlutaféð.

Gögnin sem Seðlabankinn var með til skoðunar hafa ekki birst almenningi. Í tölvupósti sem Stundin hefur undir höndum leggur Baldvin til aðferðir til að lækka hlut sjómanna í Afríku. Hann svaraði ekki fyrir málið en faðir hans lýsti tölvupóstinum sem hugmyndum ungs manns, sem ekkert hefði orðið af. Þessum unga manni var nánast strax eftir útskrift treyst fyrir valdamiklum stöðum í viðskiptaveldi föður síns.

„Ég er gjaldþrota maður í dag“ 

Hagnaðurinn af Afríkuútgerð Samherja var ævintýralegur, en þrátt fyrir það sættu um sextíu sjómenn skattarannsókn í kjölfar starfa sinna þar. Þeir sögðu útgerðina hafa talið þeim trú um að það væri í lagi að greiða ekki skatta af launum á Íslandi, en margir þeirra voru dæmdir til að greiða tekjuskatt og álag aftur í tímann. „Ég er gjaldþrota maður í dag,“ sagði einn þeirra.

Þessar aðferðir, að halda sjómönnum á verktakagreiðslum til að koma útgerðinni undan launatengdum gjöldum og stunda flóknar fléttur til að mynda skattahagræði og hagnað, meðal annars í gegnum félög á Kýpur þar sem þeir greiða nánast enga skatta, eru ekki ólöglegar, en það má velta því fyrir sér hvort þær séu siðlegar.

Að eftirláta völdin

Einstaka sinnum fáum við innsýn í valdastrúktúr samfélagsins. Hvernig fámennir hópar beita áhrifum sínum í eigin þágu en ekki samfélagsins. Við vitum að þeir sem fara með völd í íslensku samfélagi, hafa peninga og stöðu til, hafa tilhneigingu til að beita áhrifum sínum til að styrkja stöðu sína. Við vitum líka að það þjónar ekki endilega hagsmunum heildarinnar að eftirláta þeim þetta vald. 

Tengdar greinar

Leiðari

Er Ragnar lýðskrumari?

Jón Trausti Reynisson

Er Ragnar lýðskrumari?

Jón Trausti Reynisson
·

Deilan um Lífeyrissjóð verzlunarmanna er nýjasti kaflinn í sögunni sem íslensk stjórnmál og efnahagsmál hverfast um.

Óvinir fólksins

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson

Óvinir fólksins

·

Við getum því valið að láta sem ekkert sé, látið sem það snerti okkur ekki, hafi ekki áhrif á líf okkar og samfélag, en við vitum samt að það er blekking. Atlaga að frelsi fjölmiðla er atlaga að okkur öllum.

Meðvirkni með siðleysi

Jón Trausti Reynisson

Meðvirkni með siðleysi

Jón Trausti Reynisson
·

Sagan af því hvernig stjórnmálamenn sem sýndu fáheyrt siðleysi náðu að verða miðdepill þjóðfélagsumræðu á Íslandi.

Þegar myrkrið mætir börnunum

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Þegar myrkrið mætir börnunum

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir
·

Við ætluðum okkur það kannski ekki en framtíðarsýnin sem við skildum eftir okkur fyrir næstu kynslóðir er ansi myrk. Við höfum enn tækifæri til að breyta henni, en íslenskir stjórnmálamenn hafa líka séð tækifærin til að hagnast á ógninni. Nú stöndum við frammi fyrir ákvörðun, á tíma þegar það þykir „gróðavænlegt að láta jörðina fara til helvítis“.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Réttlæta aðkast gegn múslimum: „Kærum okkur ekki um íslamska menningu“

Réttlæta aðkast gegn múslimum: „Kærum okkur ekki um íslamska menningu“

·
Katrín Jakobsdóttir segir ummæli Donalds Trump „óboðleg“ og dæma sig sjálf

Katrín Jakobsdóttir segir ummæli Donalds Trump „óboðleg“ og dæma sig sjálf

·
Iceland PM condemns Trump's "unacceptable" remarks

Iceland PM condemns Trump's "unacceptable" remarks

·
Óli Björn vill gera alla Íslendinga að kapítalistum

Óli Björn vill gera alla Íslendinga að kapítalistum

·
Morð á þýskum stjórnmálamanni skapar andrúmsloft ógnar og ótta

Morð á þýskum stjórnmálamanni skapar andrúmsloft ógnar og ótta

·
Fasismi í 100 ár

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Fasismi í 100 ár

·
Atvinnurekendur vilja lengja biðtíma fjölmiðla eftir upplýsingum

Atvinnurekendur vilja lengja biðtíma fjölmiðla eftir upplýsingum

·
Hvæst og hrækt á múslima í Breiðholti: „Taldi lögreglan í alvöru ekki mikilvægt að tryggja öryggi fjölskyldunnar?“

Hvæst og hrækt á múslima í Breiðholti: „Taldi lögreglan í alvöru ekki mikilvægt að tryggja öryggi fjölskyldunnar?“

·
Sýslumaður hélt að sáttameðferð væri undanþegin stjórnsýslulögum

Sýslumaður hélt að sáttameðferð væri undanþegin stjórnsýslulögum

·
Hannes Hólmsteinn: Hægri-lýðstefna allt annað en fasismi

Hannes Hólmsteinn: Hægri-lýðstefna allt annað en fasismi

·
Einkafyrirtæki á Íslandi ættu að prófa skemmri vinnuviku

Af samfélagi

Einkafyrirtæki á Íslandi ættu að prófa skemmri vinnuviku

·
Bjarni hissa á vangaveltum Björns: „Vantar bara að menn segist hafa rökstuddan grun“

Bjarni hissa á vangaveltum Björns: „Vantar bara að menn segist hafa rökstuddan grun“

·