Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Gengu fylktu liði í bæinn fyrir skólasystur

Stór hluti nem­enda í Haga­skóla gekk út úr skól­an­um klukk­an 9 í morg­un, til að ganga sam­an að hús­næði Kær­u­nefnd­ar út­lend­inga­mála og Dóms­mála­ráðu­neyt­is og af­henda 6000 und­ir­skrift­ir sem safn­að hef­ur ver­ið til styrkt­ar nem­anda í skól­an­um, Zainab Safari, sem yf­ir­völd hafa vís­að úr landi.

Nemendur í Hagaskóla slepptu fyrstu skólastundum dagsins og gengu þess í stað fylktu liði að húsnæði Kærunefndar útlendingamála á Skúlagötu og því næst að Dómsmálaráðuneytinu, þar sem undirskriftir þeirra til styrktar skólasystur þeirra, Zainab Safari og fjölskyldu hennar voru afhentar. Undirskriftirnar eru hátt í 6000 talsins en þeim var bæði safnað meðal nemenda Hagaskóla og á vefsíðunni Change.org. Lögregla var með nokkurn viðbúnað í miðbænum í kringum kröfugönguna og fór lögreglubíll á undan hópnum. 

Áður en krakkarnir lögðu af stað buðu þeir foreldrum og öðrum að koma í skólann, fá sér kaffisopa og kleinu og styrkja málstaðinn með frjálsum framlögum, sýna fjölskyldunni og nemendunum í aðgerðum sínum samstöðu. Þannig var hafin peningasöfnun fyrir fjölskylduna.

Sindri Bjarkason, nemandi í 10. bekkHann segir að nemendum Hagaskóla finnist hræðilegt að vísa eigi Zainab úr landi. Þeir hafi ákveðið að gera það sem þeir geta til að koma í veg fyrir það.

Sindri Bjarkason, nemendi í 10. bekk, er einn þeirra sem barist hefur fyrir því að Zainab fái að vera áfram meðal nemenda í Hagaskóla. Hann sagði nær alla nemendur skólans hafa tekið þátt í undirskriftarsöfnuninni og göngunni. „Þetta er bara næstum allur skólinn, við erum bara öll sameinuð hérna til að koma og styðja við hana Zainab. Þegar við komumst að því að Zinab átti möguleika á að vera vísað úr landi fannst okkur það bara alveg hræðilegt, svo við hópuðumst saman og ákváðum að reyna að gera eitthvað í þessu. Við erum búin að vera að safna undirskriftum, bæði frá nemendum skólans en líka bara alls staðar að úr heiminum, erum komin með hátt í 6000 undirskriftir sem við erum að fara að skila núna,“ sagði Sindri á göngunni.

Zainab er 14 ára og kom hingað til lands með móður sinni og tólf ára bróður sem gengur í Hagaskóla. Þeim var synjað um efnislega meðferð á Íslandi, á grundvelli þess að þau hafi þegar alþjóðlega vernd í Grikklandi.  

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár