Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Engeyingar fjárfestu í hátíðniviðskiptum fyrir milljónir bandaríkjadala

Nefnd á veg­um fjár­mála­ráðu­neyt­is­ins hef­ur kall­að eft­ir því að há­tíðni­við­skipt­um verði sett­ar skorð­ur með lög­um. Fað­ir, bróð­ir og föð­ur­systkini fjár­mála­ráð­herra hafa stund­að slík við­skipti og fyr­ir­tæki þeirra, Al­grím ehf., hygg­ur á áfram­hald­andi „rekst­ur og þró­un á High Frequ­ency Tra­ding strategí­um“.

Engeyingar fjárfestu í hátíðniviðskiptum fyrir milljónir bandaríkjadala
Fjárfestu í hátíðniviðskiptum Benedikt Einarsson er stjórnarformaður Algríms ehf. og á 15,35 prósenta hlut en Einar Sveinsson faðir hans á 23 prósent í fyrirtækinu. Mynd: Morgunblaðið/Ómar

Fyrirtækið Algrím ehf., í eigu föður og föðursystkina fjármálaráðherra, hefur komið að hátíðniviðskiptum í gegnum félög í Delaware, Kýpur og Hollandi undanfarin ár og hyggur á áframhaldandi rekstur og þróun slíkrar starfsemi. 

Hátíðniviðskipti byggja á flókinni tækni þar sem tölvur eru forritaðar til að skynja verðbreytingar sekúndubrotum á undan öðrum markaðsaðilum og gefa fyrirmæli á þeim grunni, oft með skammtímastöðutöku á fjölda markaða í einu.

Flash BoysBók Michael Lewis um hátíðniviðskipti var umdeild en vakti gríðarlega athygli og kom af stað umræðu um viðskipti af þessu tagi.

Viðskiptaævintýri af þessu tagi komust í heimsfréttirnar þegar blaðamaðurinn og rithöfundurinn Michael Lewis gaf út bók sína Flash Boys árið 2014 og alríkislögregla Bandaríkjanna tilkynnti um umsvifamikla rannsókn á viðskiptaháttum háhraðafjárfesta á bandarískum hlutabréfamörkuðum.

Nefnd um skipulag íslensks bankakerfis, sem Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, skipaði árið 2017, hvatti til þess í fyrra að sett yrðu lög um takmörkun hátíðniviðskipta á Íslandi.

Evrópusambandið hefur sett slíkum viðskiptum skorður með reglugerð og tilskipun sem nýlega voru teknar upp í EES-samninginn. Til stóð að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra legði fram lagafrumvarp um innleiðingu ESB-reglnanna á yfirstandandi þingi en úr því verður ekki fyrr en á því næsta.

Hátíðniviðskipti vart arðbær á Íslandi 

Hátíðniviðskipti (einnig kölluð háhraðaviðskipti) hafa ekki tíðkast á Íslandi, enda hlutabréfamarkaðurinn hér grynnri og veltan minni en svo að það borgi sig. Nefndin um skipulag bankakerfisins telur þó ekki útilokað að aðstæður breytist á komandi árum. Í skýrslu hennar frá janúar 2018 kemur fram að „í sjálfu sér er ekkert sem útilokar íslenska banka í dag frá því að setja upp slík viðskipti með verðbréf á erlendum mörkuðum“. Önnur nefnd, skipuð af fjármálaráðherra árið 2015 vegna innleiðingar ESB-reglna um fjármálagjörninga, er sama sinnis og segir „ekki hægt að útiloka að [innlend fjármálafyrirtæki] komi sér upp háhraðatækni til að nota í viðskiptum með erlenda fjármálagerninga eftir afléttingu fjármagnshafta“. 

Algrím ehf. er að stærstum hluta í eigu Benedikts, Einars, Guðrúnar og Ingimundar Sveinsbarna. Í stjórn fyrirtækisins sitja Jón Benediktsson, bróðir fjármálaráðherra, Benedikt Einarsson, sonur Einars Sveinssonar og Helga Jónsdóttir, dóttir Guðrúnar Sveinsdóttur en Einar og Helga eiga 15,35 prósenta og 2,3 prósenta hlut í Algrími.

Árið 2008 stofnaði Algrím dótturfélag í Delaware í Bandaríkjunum, lágskattasvæði sem gerir nær engar kröfur um gagnsæi, og varð 35 prósenta hluthafi í fyrirtækinu World Financial Desk í New York. World Financial Desk stundaði um árabil hátíðniviðskipti með skuldabréf og afleiður á rafrænum mörkuðum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu. 

Faðir og bróðir í hátíðniviðskiptumÞað kemur í hlut fjármála- og efnahagsráðuneytisins að móta löggjöf um hátíðniviðskipti í samræmi við ESB-gerðir, en nánustu fjölskyldumeðlimir ráðherra stunda slík viðskipti.

Engin óeðlileg viðskipti

„Þetta eru sjálfvirk viðskipti að því leytinu til að þeir sem eru að stunda þessi hátíðniviðskipti þróa forrit og hugbúnað sem eiga viðskiptin fyrir fyrirtækið,“ sagði Einar Oddsson, fyrrverandi forstöðumaður markaðsviðskipta hjá fyrirtækinu, á opnum fundi VÍB um hátíðniviðskipti árið 2015.

Einar tók fram að sjálfur hefði hann aldrei beitt aðferðum á borð við þær sem helst hafa verið gagnrýndar í umræðu um hátíðniviðskipti. „Langflestir sem stunda hátíðniviðskipti eru í arbitrage [kaupum og sölu sem snúast um að hagnast á tímabundnum gengis- eða verðmismun milli kauphalla, innskot blaðamanns] og market-making [viðskiptavakt] þar sem þú ert í rauninni að reyna að finna eitthvað jafnvægi á markaðnum, finnur tvær vörur sem eru svipaðar en ekki verðlagðar eins,“ sagði hann. 

„Ég byrjaði í þessu 2008 og þá var þetta ekki kallað hátíðniviðskipti, þá var þetta bara kallað viðskipti. Þetta þróast svona úr því að vera bara rafræn viðskipti í það að vera rafræn viðskipti sem gerast ansi hratt og þú sérð eiginlega varla og í það að vera hátíðniviðskipti sem eru á þannig hraða að þú getur alls ekki séð hvað er að gerast.“ 

Við bætum markaðiSlagorð bandaríska fyrirtækisins endurspeglar vel málflutning háhraðafjárfesta sem halda því fram að viðskiptin hafi jákvæð áhrif á fjármálamarkaði: dragi úr viðskiptakostnaði og flökti og leiðrétti verðvillur.

Fjárfestu fyrir milljónir bandaríkjadala

Engeyingar fjárfestu fyrir 3,2 milljónir bandaríkjadala í bandaríska dótturfélaginu Algrim LLC árið 2008. Eignarhluti þess í World Financial Desk var metinn á 3,4 milljónir bandaríkjadala í árslok 2010 og 4,6 milljónir bandaríkjadala í árslok 2011 sem jafngilti um 560 milljónum íslenskra króna. 

Á 23 prósenta hlutBenedikt Sveinsson á 23 prósenta hlut í Algrími ehf. og Jón Benediktsson sonur hans situr í stjórn fyrirtækisins.

Fram kemur í ársreikningi Algríms ehf. fyrir rekstrarárið 2010 að óvissa hafi ríkt um skattalega meðhöndlun Algrim LLC á Íslandi. „Óformleg samskipti hafa verið við íslensk skattyfirvöld um hvernig gera eigi grein fyrir eignarhaldi og skattalegri meðhöndlun eignarhlutans í íslenskum skattskilum. Á undirritunardegi ársreiknings 2010 liggja ekki fyrir niðurstöður þessara viðræðna,“ segir í skýringum í ársreikningnum auk þess sem fram kemur að skattframtöl Algríms ehf. verið send til íslenskra skattyfirvalda miðað við hefðbundna uppsetningu á félagi sem á eignarhlut í erlendu félagi. Árið á eftir var orðið ljóst að fyrirtækinu bæri að telja hlutdeild sína í afkomu bandaríska félagsins til skattskyldra tekna og fyrir vikið jókst skattbyrði þess verulega.

Frá Kýpur til Hollands

Árið 2012 seldi Algrím ehf. allan eignarhlut sinn í Algrim LLC til dótturfélags sem það stofnaði á Kýpur, Algrim Ltd. Söluverðið nam 4,9 bandaríkjadölum og var greitt með útgáfu hlutafjár í kýpverska félaginu. Þá fékk Algrím ehf. úthlutaðar 2 milljónir bandaríkjadala af stofnfé bandaríska dótturfélagsins, Algrim LLC. 

Af ársreikningum má ráða að kýpverska eignarhaldsfélagið hafi svo verið flutt til Hollands, ríkis sem einnig er þekkt fyrir að bjóða fyrirtækjum upp á hagstætt skattaumhverfi. 

World Financial Desk tapaði meira en 2 milljónum bandaríkjadala árið 2014 og lenti í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar. Þetta leiddi til 815 þúsund dollara taps hjá Algrími ehf. Stjórn félagsins ákvað engu að síður að greiða 370 þúsund dollara arð til hluthafa vegna rekstrarársins.

Algrím ehf. var einnig rekið með tapi árið 2015 en hefur náð sér á strik síðan. Fram kemur í ársreikningum fyrir 2016 og 2017 að hlutdeild samstæðunnar í eigin fé World Financial Desk nemi óverulegri fjárhæð, bandaríska hátíðniviðskiptafyrirtækið hafi selt alla sína starfsemi og sé í slitaferli. Algrím hagnaðist um 138 þúsund dollara árið 2017 og 66 þúsund dollara 2016, að því er virðist vegna sölu á eignum hlutdeildarfélagsins, en eigendurnir hafa tekið sér sem jafngildir um 100 milljónum íslenskra króna í arð frá 2015. 

Ljóst er að Algrím hefur ekki gefist upp á hátíðniviðskiptum, en nýlega auglýsti fyrirtækið eftir „tæknimenntuðum einstaklingi með brennandi áhuga á fjármálamörkuðum og trading“ til að „vinna náið með þéttum hópi tæknifólks við rekstur og þróun á High Frequency Trading strategíum“. 

Umdeild viðskipti

Tekist hefur verið á um kosti og galla hátíðniviðskipta á undanförnum árum. Þeir sem mæla viðskiptunum bót segja þau auka lausafé í umferð, draga úr viðskiptakostnaði og flökti á fjármálamörkuðum, leiðrétta verðvillur og hafa þanig almennt jákvæð ytri áhrif á fjármálamarkaði. 

„Lítilfjörleg viðskipti smásjóðs í Kansas settu af stað verðsveiflur sem hátíðniviðskipti mögnuðu á örskotsstundu svo að markaðir léku á reiðiskjálfi“

Aðrir segja hátíðniviðskiptin auka áhættu og ógna fjármálastöðugleika; þetta hafi til dæmis sýnt sig í svokölluðu flash crash-i í Bandaríkjunum þann 6. maí 2010. Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, hefur lýst atburðinum með eftirfarandi hætti: „Þá hrundi verð fjölmargra bandarískra hlutabréfa í nokkrar mínútur og jafnaði sig aftur nokkrum mínútum síðar. Kveikjan að þessu virðist hafa verið fremur lítilfjörleg viðskipti smásjóðs í Kansas sem settu af stað verðsveiflur sem hátíðniviðskipti mögnuðu á örskotsstundu svo að markaðir léku á reiðiskjálfi. Dæmi voru um að verð hlutabréfa í stórum og vel stæðum fyrirtækjum færi niður í 0 eða hækkaði upp úr öllu valdi í stuttan tíma þennan dag.“

Þrengt að hátíðniviðskiptum í Bandaríkjunum og Evrópu

Í skýrslu nefndar um skipulag íslenska bankakerfisins er fullyrt að hátíðniviðskipti hafi aukið verulega áhættuna í rekstri stóru bandarísku bankanna í aðdraganda fjármálakreppunnar. Þess vegna hafi bandarískum stjórnvöldum þótt forgangsmál að skilja slík viðskipti frá annarri starfsemi bankanna. 

Sker upp herör gegn hátíðniviðskiptumBandaríski þingmaðurinn Brian Schatz telur hátíðniviðskipti skaðleg og vill beita skattlagningarvaldinu gegn þeim.

Þann 5. mars síðastliðinn kynnti bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn Brian Schatz frumvarp um skattlagningu fjármagnstilfærslna þar sem spjótum er sérstaklega beint að hátíðniviðskiptum. „Hátíðniviðskipti fela í sér kerfisáhættu og þau bitna harkalega á venjulegu fólki,“ sagði hann í viðtali við fréttavefinn Vox.  

Innan Evrópusambandsins hefur einnig verið unnið að því að setja hátíðniviðskiptum skorður. Í fyrra tók ný tilskipun og reglugerð um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II og MiFIR) gildi innan sambandsins. Þar er krafist sérstakrar starfsheimildar til að stunda hátíðniviðskipti auk þess sem háhraðafjárfestar eru skyldaðir til að geyma nákvæma skrá yfir viðskipti sín og innsend tilboð í minnst fimm ár og afhenda upplýsingarnar eftirlitsaðilum sé þess óskað. 

„Hátíðniviðskipti fela í sér kerfisáhættu
og þau bitna harkalega á venjulegu fólki“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði nefnd þann 29. september 2015, sem falið var að vinna drög að lagafrumvarpi og reglugerðum til innleiðingar á MiFID II í íslenskan rétt. Gerðirnar voru teknar inn í EES-samninginn í upphafi árs. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar var stefnt að því að leggja fram frumarp til nýrra heildarlaga um markaði fyrir fjármálagerninga á yfirstandandi þingi þar sem ESB-gerðirnar yrðu lögfestar. Ekkert verður úr því að sinni, en við upplýsingar um málið í þingmálaskránni stendur nú: „fellt niður“.

Fram kemur í tilkynningu sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér eftir að þessi frétt birtist í prentútgáfu Stundarinnar að stefnt sé að innleiðingu gerðanna á næsta löggjafarþingi. Drög að fyrstu lagafrumvörpum um þær innleiðingar verði birt í samráðsgátt stjórnvalda á vormánuðum. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu