Kristlín Dís

Nauðgun af gáleysi

Hvað á að gera ef vinur manns nauðgar?

Kristlín Dís

Hvað á að gera ef vinur manns nauðgar?

Nauðgun af gáleysi

Ég er lengi búin að ætla að skrifa pistil um þetta en alltaf fundið nýjar afsakanir til að gera það ekki. Vil ekki að mamma viti af þessu, vil ekki að fólk sjái mig úti á götu og hugsi „aumingja þessi stelpa, henni var nauðgað“, það er nefnilega ekkert töff að vera fórnarlamb, að hafa ekki stjórn, að skammast sín, það var kannski aðalástæðan, ég skammaðist mín.

Ástæða þess að ég ákvað loksins að skrifa þetta niður er frekar vandræðaleg, ég fór að gráta vegna þess að mér var ekki boðið í partí. Ég sat í herberginu mínu heima hjá foreldrum mínum, nýorðin 27 ára gömul, og eftir alla vinnuna sem ég hafði lagt á mig síðasta ár þá grét ég vegna þess að geranda mínum var boðið í partí og þar af leiðandi var ég ekki velkomin.

Ég byrjaði á því að vorkenna sjálfri mér og hugsa hvað þetta væri ósanngjarnt, að ég sem hafði ekkert gert væri refsað vegna þess að einhver hefði brotið á mér. Síðan áttaði ég mig á því að þetta snerist auðvitað ekki um partí heldur svo miklu meira.

Þegar fólk hugsar um einstaklinga sem nauðga hugsar það sjaldan um vini sína. Ég kannast við fleiri en einn og fleiri en tvo sem hafa verið sakaðir um nauðgun, og það gera þá eflaust fleiri. Það voru 140 nauðganir tilkynntar til lögreglu árið 2017 og líklega mun fleiri sem voru það ekki. Ég tilheyri stórum vinkvennahóp og innan hans hefur verið brotið á nær helming. Þýðir það þá að Ísland sé uppfullt af kynóðum skrímslum? Eða þýðir það að venjulegt fólk geti nauðgað?

Þá kemur upp spurningin; hvað á að gera ef að vinur þinn hefur verið sakaður um nauðgun?

„Mér finnst ég æ oftar vera að lenda í þessum samræðum og oftar en ekki þróast þær út í að tala um mismunandi upplifanir geranda og brotaþola“

Mér finnst ég æ oftar vera að lenda í þessum samræðum og oftar en ekki þróast þær út í að tala um mismunandi upplifanir geranda og brotaþola, það er að segja að annar aðili upplifi venjulegar samfarir en hinn aðilinn upplifi að brotið hafi verið á sér, að þeim hafi verið nauðgað (sem var megininntak kvikmyndarinnar Mannasiðir sem sýnd var á RÚV í fyrra).

Þetta virðist oft vera það sem skilgreinir skoðanir þeirra sem þekkja geranda, að „hann hafi alls ekki upplifað þetta svona“, „að hann myndi aldrei gera svona“. Það vill enginn þekkja nauðgara. Ég held að þetta stafi af því að á íslensku er orðið nauðgun notað bæði yfir nauðganir sem eru gerðar af ásettu ráði og líka þær sem eru gerðar án ills ásetnings, „óvart“.

Fólk hræðist þetta orð og hvað það þýðir. Nauðgun. Ef þú nauðgar ertu nauðgari – það er það sem skilgreinir þig. Þú sem manneskja ert glæpurinn sem þú framdir hvort sem það var óvart eða viljandi. Ef einstaklingur veldur dauða annars manns fyrir slysni er það kallað manndráp af gáleysi, en ekki morð, þar er enginn morðingi. Persónulega finnst mér manneskjur geta verið meira en mistökin sem þau gera, þannig mögulega ætti að tala um nauðgun af gáleysi ef illur ásetningur er ekki fyrir hendi. Þessi samlíking er auðvitað meingölluð þar sem aðeins eina manneskju þarf til að drepa en það þarf tvær manneskjur til að stunda kynlíf. Mér finnst nauðgun af gáleysi ágæt lýsing vegna þess að þrátt fyrir að einstaklingur sé ekki að reyna að meiða neinn þá er hann ekki meðvitaður um hina manneskjuna og er þar af leiðandi ekki að stunda kynlíf með neinum nema sjálfum sér. Það er nefnilega eins með manndráp og nauðgun, að sama hvort það sé viljandi eða óvart þá er skaðinn skeður, það er ekki hægt að taka neitt til baka.

„Þegar fólk hugsar um einstaklinga sem nauðga hugsar það sjaldan um vini sína“ 

Fyrir nokkru var mér nauðgað af þáverandi kærasta mínum. Ég vaknaði við það að hann var að sofa hjá mér, ekki í fyrsta skipti, en í þetta skipti fann ég að ég gat ekki tekið þátt eins og ég gerði venjulega. Það er mjög algengt að bregðast við því að brotið sé á manni með því að reyna að breyta því í eitthvað annað, breyta upplifuninni. Í önnur skipti sem ég hafði vaknað við að kærastinn minn var að sofa hjá mér þá voru mín fyrstu viðbrögð að taka þátt, ekki vegna þess að ég hafði samþykkt það heldur til þess að breyta þessu í eitthvað sem ég vildi líka, einhverju sem ég væri með í, þar sem ég var ekki fórnarlamb, var ekki nauðgað. Þessa nótt, á afmælinu mínu, vaknaði ég og fann að ég gat ekki hreyft mig. Ég get ekki svarað hvers vegna, hvort það hafi verið vegna þreytu, vegna áfengisneyslu, ég veit það ekki, ég veit bara að ég lá og gat ekki hreyft mig á meðan kærastinn minn var að sofa hjá mér og ég skammaðist mín. Ég skammaðist mín fyrir sjálfa mig.

Sambandið endaði fljótlega eftir þetta atvik en ég gat ekki hætt að hugsa um það, þessi tilfinning vildi ekki hverfa. Ég var í alvarlegri afneitun, vildi ekki horfast í augu við að hafa lent í einhverju slæmu og fór endalausa hringi í tilfinningarússíbana alla daga þangað til að ég ákvað að ég hlyti að vera þunglynd. Fólk var ekki sammála þunglyndiskenningu minni, heldur væri greinilegt að ég væri í ástarsorg, vinir, fjölskylda og kunningjar sammæltust um það. Svo ég gúglaði það og jú, það kom margt heim og saman, kvíði, þyngdartap, grátköst, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir eru allt einkenni ástarsorgar.

Það sem á endanum neyddi mig til þess að horfast í augu við það sem gerðist var að byrja í heilbrigðu sambandi og horfa með hryllingi til baka og sjá hvaða hluti ég var búin að normalísera í fyrra sambandi.

„Eftir að hafa unnið úr eigin afneitun og viðurkennt fyrir sjálfri mér hvað hafði gerst þá ræddi ég við geranda minn og talaði við hann um nauðgunina

Eftir að hafa unnið úr eigin afneitun og viðurkennt fyrir sjálfri mér hvað hafði gerst þá ræddi ég við geranda minn og talaði við hann um nauðgunina. Þá komu í ljós mismunandi upplifanir okkar. Hann hafði ekki upplifað þetta sem nauðgun, hafði verið undir áhrifum og sagðist hafa spurt hvort að þetta væri í lagi og ég í sannleika sagt trúi því að hann hafi ekki verið að meiða mig viljandi. En alltaf þegar ég heimsæki þetta kvöld þá kem ég inn sem áhorfandi og ég horfi á þetta og ég sé ekki kynlíf heldur nauðgun, það er enginn vafi í mínum huga þegar ég horfi á máttlausan líkama minn.

Nú sýna rannsóknir stöðugt að strákar hafi tilhneigingu til að hugsa um klám og kynlíf sem sama hlutinn. Síðasta rannsókn sem gerð var á Íslandi, 2017, sýndi að þessar hugmyndir byrji í grunnskóla frá 11 ára aldri og upp úr. Þar sem vantar kynfræðslu í skóla þá leita bæði strákar og stelpur af upplýsingum í klámi. Klám er ekki kynlíf, þar eru konur oftast aukahlutir og óraunverulegt fólk gerir sér upp ánægju, hver sem hlutskipti þeirra eru. Þessi birtingarmynd af kynlífi er orðin að vandamáli í raunveruleikanum þar sem menn sem horfa reglulega á klám eiga erfitt með að greina tilfinningar maka síns í kynlífi vegna þess að þeir rugla raunveruleika og klámi saman.

Þegar ég sef hjá strák í fyrsta skipti er oft auðvelt að sjá á hegðun hans hvort hann hafi horft mikið á klám. Þetta sést í því hvað þeir biðja um að gera, hvert þeir horfa, hreyfingum þeirra og almennt hvar fókusinn er. Og ég veit að ég er ekki ein um að taka eftir þessu. Ég ætla alls ekki að segja að klám sé sökudólgur nauðgana heldur að það stuðli að misskilningi á því hvað kynlíf er yfir höfuð. Í kynlífi eru tveir einstaklingar (eða fleiri) sem báðir eiga að njóta þess að stunda kynlíf.

Ég vildi finna einhverja lausn á því hvernig ég og gerandi minn gætum unnið saman úr þessari reynslu og reynt að komast yfir hana. En hjá geranda mínum mætti ég skilningsleysi og afneitun. Ólíkt þeim sem drepur af gáleysi virðist sá sem nauðgar af gáleysi oft eiga mun erfiðara með að taka ábyrgð á því sem hann hefur gert vegna þess að hann skynjaði það ekki sem glæp á sínum tíma. Í mínu tilviki fannst geranda mínum mun alvarlegra að saka einhvern um nauðgun en að nauðga. Þetta var ólýsanlega erfitt fyrir mig og ég fann að óttinn sem hafði blundað í brjósti mér var að verða að veruleika, mér var ekki trúað.

„Ekki leið á löngu þar til ég byrjaði að frétta það sem ég hafði óttast, að ég væri kölluð lygari“

Eftir þetta upphófst skrítið tímabil í lífi mínu þar sem ég var í stöðugri þversögn við sjálfa mig, píndi mig til að gera hluti sem ég var hrædd við, fara á djammið, fara á tónleika, alltaf hrædd, alltaf stressuð um að hitta hann, hitta einhvern sem vissi af þessu, grátandi í laumi. Allt til að sanna að ég væri sama manneskjan, að ekkert væri breytt, að ég var pottþétt manneskja, að sanna fyrir sameiginlegum vinum okkar að ég væri ekki lygari. Þessi pressa gerði út af við mig, pressan til að sýna að ég gerði ekki mistök og að ég væri ekki lygari. Ekki leið á löngu þar til ég byrjaði að frétta það sem ég hafði óttast, að ég væri kölluð lygari, að gerandi minn sagði að fólkið sem ég talaði við væri að „marinerast í kjaftæðinu í mér“, að ég væri geðveik. Ég trúði því næstum, mér leið stundum eins og ég væri geðveik. Ég var hrædd um að verða það ef ég héldi svona áfram svo ég flúði til útlanda til að þurfa ekki að hitta geranda minn, vera ekki geðveik, vera ekki lygari.

Viðbrögð geranda míns eru ekki einsdæmi. Í skýrslu Drífu Jónsdóttur sem kom út í lok síðasta árs kom fram að makar 70% kvenna sem höfðu verið í ofbeldissambandi lýstu fyrrverandi mökum sínum sem geðveikum eða sögðu að ekki ætti að taka mark á því sem þær sögðu.

Eftir að hafa falið mig í útlöndum í nokkra mánuði komst ég að því að ég væri ekki geðveik heldur að ég hefði lent í hræðilegum hlut og væri að glíma við afleiðingarnar. Ég gerði mér loksins grein fyrir því að ég þyrfti að sætta mig við að ég yrði aldrei sama manneskjan og að það væri allt í lagi. Ég flutti síðan aftur til Íslands núna í janúar, með nýársheit í vasanum, tilbúin að sigra heiminn, það er þangað til mér var ekki boðið í partí.

„Það versta sem hægt er að gera er að vera meðvirkur, að láta eins og ekkert hafi í skorist“

Hér kem ég aftur að spurningunni; hvað á að gera ef vinur manns nauðgar?

Í sannleika sagt þá veit ég það ekki, ég hef ekki svarið við þessari spurningu, EN ég veit hvað á ekki að gera. Mín skoðun er að það versta sem hægt er að gera er að vera meðvirkur, að láta eins og ekkert hafi í skorist eða eins og maður sé einskis vísari. Með því að tala ekki um hlutina eða kjósa að trúa ekki brotaþolum vegna þess að maður vill ekki að vinur sinn hafi nauðgað er maður ekki að hjálpa neinum. Með slíkum ákvörðunum gerir fólk lítið úr brotaþolum og því ofbeldi sem þeir hafa orðið fyrir.

„Það á enginn að vera útskúfaður fyrir að segja sannleikann“

Ég var ómetanlega heppin að eiga minn eigin vinahóp sem stóð við bakið á mér og trúði minni sögu. Ég veit um aðra sem hafa ekki verið eins heppnir og það á sérstaklega við þegar fólk er í sameiginlegum vinahóp og vinir þurfa að taka afstöðu. Það á enginn að vera útskúfaður fyrir að segja sannleikann.

Samfélagið hefur tekið stökkbreytingum á síðustu árum en virðist ennþá eiga í erfiðleikum með að eiga þetta samtal, samtalið um nauðgun. Í umræðunni um nauðgun er fólki raðað niður í flokka; fórnarlamb, lygari, nauðgari, skrímsli. Þegar einstaklingar eru komnir í þessa flokka fjarlægjast tengslin við hið mennska þrátt fyrir að manneskjan sé ennþá til staðar. Það þurfa ekki annaðhvort að vera til skrímsli eða lygarar. Skrímsli geta ekki tekið ábyrgð en manneskja getur það. Þegar einstaklingur nauðgar, sama hvernig hann upplifði það, þá þarf hann að taka ábyrgð á því sem hann hefur gert. Mín skoðun er sú að þegar einhver segir að þeim hafi verið nauðgað, þrátt fyrir að hinn aðilinn hafi ekki upplifað það þannig, þá hafi verið framin nauðgun. Nauðgun er ekki bara upplifun.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Glæpur og samviska

Glæpur og samviska

Vandi Rússlands

Þorvaldur Gylfason

Vandi Rússlands

Tölur um plast, tölum um plast

Tölur um plast, tölum um plast

Vinnuveitendur við Héðinshúsið sæta rannsókn lögreglu

Vinnuveitendur við Héðinshúsið sæta rannsókn lögreglu

Áróðursmynd kveikti áhuga á sjónarhorni listamannsins

Áróðursmynd kveikti áhuga á sjónarhorni listamannsins

Tveggja barna móðir missir húsnæðið eftir sölu Heimavalla á Akranesi: „Ég er búin að gráta af hræðslu“

Tveggja barna móðir missir húsnæðið eftir sölu Heimavalla á Akranesi: „Ég er búin að gráta af hræðslu“

Óvinir alþýðunnar: Herská orðræða nýja sósíalistans

Óvinir alþýðunnar: Herská orðræða nýja sósíalistans

Ólánssaga úkraínskra flugvéla

Ólánssaga úkraínskra flugvéla

Borðar hreinna og hollara sem grænkeri

Borðar hreinna og hollara sem grænkeri

Fjármál Heilsustofnunar í Hveragerði til skoðunar

Fjármál Heilsustofnunar í Hveragerði til skoðunar

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Manneskjan er mitt stærsta áhugamál

Manneskjan er mitt stærsta áhugamál