Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Vilja nýta dagskrárvaldið í Eurovision til að gagnrýna stefnu Ísraelsríkis

Með­lim­ir Hat­ara segja frá­leitt að Ís­land taki þátt í Eurovisi­on þeg­ar keppn­in er hald­in í ríki sem traðk­ar á mann­rétt­ind­um. Úr því sem kom­ið er verði þó Ís­lend­ing­ar að nota dag­skrár­vald sitt til að vekja at­hygli á póli­tísku inn­taki keppn­inn­ar og fram­göngu Ísra­els­rík­is. „Kannski verð­um við rekn­ir úr keppn­inni fyr­ir vik­ið en það væri í sjálfu sér al­veg jafn af­hjúp­andi og hver sá gjörn­ing­ur sem okk­ur dett­ur í hug að fram­kvæma á svið­inu.“

Það er fráleitt að Ísland taki þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þegar keppnin er haldin í ríki sem traðkar á mannréttindum fólks.

En fyrst Ísland tekur þátt, þá er mikilvægt að sá sem fer fram fyrir hönd þjóðarinnar nýti dagskrárvald sitt til hins ítrasta, gagnrýni framgöngu Ísraelsríkis og bendi á fáránleikann sem felst í því að syngja, sprella og dansa á sama tíma og milljónir lifa innikróaðir og kúgaðir í næsta nágrenni. 

Þannig lýsa hljómsveitarmeðlimir Hatara afstöðu sinni í samtali við Stundina, þeir Matthías Tryggvi Haraldsson, Einar Stefánsson og Klemens Hannigan. 

Fjöldi tónlistarmanna ákvað að sniðganga Eurovision í ár til að mótmæla meðferð ísraelskra stjórnvalda á Palestínumönnum. Í þessum hópi eru til dæmis Páll Óskar Hjálmtýsson og Daði Freyr Pétursson. 

Teknó- og gjörningasveitin Hatari ákvað hins vegar að taka þátt. Lag þeirra, Hatrið mun sigra, verður flutt í undankeppninni nú á laugardaginn, 9. febrúar. 

Hljómsveitin hefur sætt harðari gagnrýni en aðrir keppendur í ljósi þess að Hatari er þekktur fyrir háðsádeilu og þjóðfélagsgagnrýni af ýmsu tagi. Stundin spurði Matthías, Einar og Klemens nokkurra spurninga um þátttöku þeirra.

Telja eðlilegt að sniðganga keppnina

„Gagnrýnin á okkur er skiljanleg og til marks um að fjölmörgum Íslendingum svíður meðferðin á Palestínumönnum. Okkur finnst sjálfsagt að svara henni af virðingu og án þess að snúa svarinu upp í grín, sem við gerum vanalega í framkomu okkar við fjölmiðla.

Það er ekkert öfgakennt við að tala fyrir sniðgöngu á keppninni. Við erum sammála þeim sjónarmiðum sem þar liggja að baki. Páll Óskar gerði til að mynda vel með því að sniðganga keppnina opinberlega. Þar með nýtti hann áhrif sín sem opinber persóna og nafntogaður Eurovision-spekúlant til að halda á lofti gagnrýnu samtali um Ísrael og sniðgöngu,“ segja meðlimir Hatara. 

„Kannski verðum við reknir úr keppninni fyrir vikið en það væri í sjálfu sér alveg jafn afhjúpandi og hver sá gjörningur sem okkur dettur í hug að framkvæma á sviðinu“

„Við teljum okkur hafa annars konar vald, vald hirðfíflsins. Margt af því sem Hatari gerir er ýmist gjörningur, lygi, matreiðsla á boðskap eftir óhefðbundnum boðleiðum eða fagurfræði sem dansar á mörkum hins hrífandi og annarlega. Þá felst dagskrárvaldið ekki síður í því að beina augum fjölmiðla með gagnrýnum hætti að keppninni og Ísrael. Kannski verðum við reknir úr keppninni fyrir vikið en það væri í sjálfu sér alveg jafn afhjúpandi og hver sá gjörningur sem okkur dettur í hug að framkvæma á sviðinu.“ 

FölsunAthygli vakti í fyrra þegar Hatari sendi út upplogna fréttatilkynningu um að hljómsveitin hefði gert samstarfssamning við Landsbankann um tónleikahald í boði bankans þar sem send yrðu skýr skilaboð um að „gangverk fjármagnsins“ væri ósigrandi, sigur þess unninn og stríðinu gegn kapítalisma tapað. Tilkynningunni fylgdi mynd af hljómsveitarmeðlimi með gaddagrímu við hlið bankastjóra Landsbankans. „Þetta er bara upp­spuni,“ sagði upplýsingafulltrúi Landsbankans í viðtali við Mbl.is þar sem fram kom að myndin væri „fölsuð“.

Saga af Davíð og Golíat

Matthías, Klemens og Einar segjast hafa rætt við fólk úr ólíkum áttum til að kynna sér ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeim misbjóði framganga Ísraelsríkis gegn Palestínumönnum. 

„Þar ber helst að nefna landtöku Ísraelsmanna á því sem á að heita palestínskt heimastjórnarsvæði að mati Sameinuðu þjóðanna, landtöku sem virðist hljóta þögult samþykki ef ekki beinan stuðning Ísraelsríkis, landtöku sem gerir vonir fólks um tveggja ríkja lausn æ erfiðari í framkvæmd. Þá hafa margir bent á að Palestínumenn innan Ísraels njóti ekki sömu réttinda og Ísraelsmenn jafnvel þótt þeir eigi að heita borgarar sama ríkis. Þá er margt óupptalið. Þótt deilan sé vissulega flókin og öfgar séu til staðar beggja megin borðsins er enginn vafi á að því að saga Ísraelsríkis og Palestínumanna er í seinni tíð saga af því hvernig hinn voldugi og sterki níðist á minni máttar, saga valdbeitingar gegn fólki sem hefur ekki burði til að tala sínu máli í krafti sama hernaðarvalds.“ 

Meðlimir Hatara segja að nauðsynlegt sé að gera skýran greinarmun á Ísraelsríki sem stofnun og ísraelsku þjóðinni. Hafa verði í huga að margir Ísraelsmenn og gyðingar tali fyrir réttindum Palestínumanna. 

Hagsmunir og ímyndMiklir hagsmunir eru í húfi sem snerta ímynd Ísraelsríkis, segja meðlimir Hatara.

Söngvakeppnin er pólitísk

En hvernig getur Hatari réttlætt þátttöku sína í keppninni? Af hverju fylgja þeir ekki þeim flytjendum sem ákváðu að sniðganga keppnina og senda þannig skýr skilaboð? 

„Við lítum á Eurovision sem pólitíska stofnun, ekki síst í ár þar sem keppnin er haldin í Ísrael. Palestínumönnum hefði verið sýndur stuðningur í verki ef Ísland og aðrar þjóðir hefðu einfaldlega ákveðið að draga sig úr keppninni. Miklir hagsmunir eru í húfi sem snerta ímynd Ísraelsríkis.

Hins vegar liggur fyrir að Ísland ætlar að taka þátt, annars væri ekki þörf á þessu samtali. Það er í raun fráleitt að leyfa ríki sem brýtur ítrekað á mannréttindum fólks að taka þátt í svona keppni, hvort sem ríkið heitir Ísrael, Rússland, Katar eða eitthvað annað. Fyrst Íslendingar taka þátt eins og ekkert sé ámælisvert við það er mikilvægt að hver sá sem keppir fyrir Íslands hönd sé meðvitaður um pólitískt eðli keppninnar og um þá glansmynd sem þarna verður dregin upp af Ísrael. 

Ef keppandi Íslands nýtir ekki áhrif sín til að benda á hið augljósa, fáránleikann sem felst í því að sprella og dansa á sama tíma og milljónir lifa við skert frelsi og stöðuga óvissu um eigin afkomu og öryggi steinsnar í burtu, þá er dagskrárvaldið vannýtt. Ef keppandi Íslands lítur fram hjá því að keppnin er í eðli sínu pólitísk gerir hann lítið úr þörfinni á gagnrýnu samtali um Ísraelsríki. 

Við teljum okkur vera meðvitaða um þörfina á slíku samtali og viljum nýta dagskrárvald keppninnar af ábyrgð. Okkur er það ekkert sérstakt kappsmál að framleiðendur og framkvæmdastjórn Eurovision leyfi okkur að taka þátt þegar á hólminn er komið. Þau hafa vald til að reka okkur úr keppninni en ekki til að ritskoða okkur utan landamæra Ísraels.“

Glandsmyndin er pólitísk„Ef keppandi Íslands lítur fram hjá því að keppnin er í eðli sínu pólitísk gerir hann lítið úr þörfinni á gagnrýnu samtali um Ísraelsríki.“

Þversögn að heiðra samninginn

Matthías, Einar og Klemens segjast ekki líta á sig sem sjálfskipaða talsmenn Palestínu. „Við erum í grunninn forréttindastrákar sem velja sér það hlutskipti að stíga fram sem hirðfífl í fáránlegri söngvakeppni. Um þetta viljum við einnig vera meðvitaðir og fjalla þar með um fleti sem við höfum tilkall til sem listamenn, svo sem fáránleika keppninnar, þátttöku Ísraels, mörk listar og áróðurs, glansmyndina, ritskoðun og tjáningarfrelsi.“ 

En geta þeir gagnrýnt stefnu Ísraelsríkis án þess að brjóta reglur keppninnar og samninginn sem keppendur skrifa undir við Ríkisútvarpið? 

„Því er pólitískur ómöguleiki
að heiðra slíkan samning“ 

„Í samningnum er kveðið á um að blótsyrði, pólitískur áróður eða annað sem gæti sært blygðunarkennd áhorfandans sé bannað á sviðinu,“ segja þeir. „Þetta er í sjálfu sér þversögn enda væri rammpólitískt að flytja atriði sem ætlaði sér að vera laust við alla pólitík og ljóst að öll lög sem flutt verða á sviðinu í Tel Aviv koma til með að særa blygðunarkennd fjölmargra. Glansmyndin sem dregin er upp í Eurovision er í sjálfu sér rammpólitísk í samhengi keppninnar og þeirrar réttmætu gagnrýni sem fram hefur komið á hana. Því er pólitískur ómöguleiki að heiðra slíkan samning enda er ekkert kappsatriði að gera það af okkar hálfu.

Ef yfirboðarar keppninnar á Íslandi ákveða að draga Ísland úr Eurovision er það hið besta mál. Í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi finnst okkur réttast að svara með því að senda afdráttarlaus skilaboð um forsendur þátttöku Íslands í Söngvakeppninni.“

Hatrið mun sigra„Gleðin tekur enda, enda er hún blekking,“ syngur Hatari.
Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár