Tekjuhæstu 330 Íslendingarnir fengu samtals 60 milljarða í heildartekjur árið 2016 og greiddu af þeim 23,3 prósenta skatt. Alls 86 prósent teknanna voru fjármagnstekjur og báru 20 prósenta skatt en samtals runnu um 14,2 milljarðar af tekjum fólksins í ríkissjóð. Hópurinn samanstendur að miklu leyti af eigendum og stjórnendum fyrirtækja, útgerðarmönnum, bankamönnum, fjárfestum og fólki sem seldi hluti í fyrirtækjum fyrir umtalsverða fjármuni árið 2016. Þá eru læknar og lögmenn áberandi á listanum og fólk sem erft hefur miklar eignir.
Hér á næstu blaðsíðum eru birtar upplýsingar um launatekjur og fjármagnstekjur tekjuhæsta 0,1 prósentsins á Íslandi og fjallað stuttlega um bakgrunn margra þeirra sem tilheyra hópnum. Byggt er á nýjustu ítarlegu upplýsingunum um tekjur Íslendinga sem tiltækar eru, endanlegri skattskrá ríkisskattstjóra fyrir árið 2017 sem gerð var opinber síðasta vor og sýnir allar skattgreiðslur einstaklinga vegna ársins 2016.
Upplýsingavef lokað að kröfu Persónuverndar
Stundin sótti upplýsingarnar af vefnum Tekjur.is sem fór í loftið þann 12. október 2018 og hafði að geyma uppflettanleg gögn um launa- og fjármagnstekjur allra fullorðinna Íslendinga.

Vefnum var lokað að kröfu Persónuverndar þann 28. nóvember, en embættið taldi ábyrgðaraðila gagnagrunnsins bresta heimild til vinnslu persónuupplýsinganna, meðal annars vegna þess að löggjafinn hefði aldrei gert ráð fyrir að skattskrár yrðu gerðar almenningi aðgengilegar í „rafrænum gagnagrunni“. Fyrirtækinu var gert að eyða gagnagrunninum. Þegar það var gert hafði Stundin þegar safnað upplýsingum af vefnum um tekjuhæstu Íslendingana.
„Það er skemmst frá því að segja að ákvörðun stjórnar Persónuverndar kom á óvart enda eru á upplýsingasíðunni eingöngu birtar upplýsingar sem þegar eru opinberar samkvæmt lögum og hver sem er getur nálgast hjá ríkisskattstjóra,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Tekna.is, í yfirlýsingu vegna málsins. „Sú túlkun stjórnar Persónuverndar að gagnagrunnar falli ekki undir fjölmiðlun er áhyggjuefni og varhugaverð fyrir stöðu tjáningarfrelsisins og frjálsrar fjölmiðlunar í landinu.“
Tekjublöðin gefa bjagaða mynd
Sem kunnugt er hafa DV og Frjáls verslun gefið út svokölluð tekjublöð um árabil þar sem birtar eru upplýsingar um tekjur handvalinna skattgreiðenda. Þar er byggt á álagningarskrám ríkisskattstjóra, en þær geyma ekki endanlegar upplýsingar um álagða skatta heldur aðeins upplýsingar skattayfirvalda á grundvelli framtals eða áætlaðra tekna í þeim tilvikum sem framtali hefur ekki verið skilað.
Skattskrár á borð við þær sem Tekjur.is byggði á geyma hins vegar endanlegar upplýsingar um álagða skatta eftir að kærufrestur er liðinn og ríkisskattstjóri hefur úrskurðað um kærur. Þær eru því áreiðanlegari en álagningarskrár og birta miklu heildrænni mynd af tekjuskiptingu og ólíkri skattbyrði launa- og fjármagnstekna.

Þegar Persónuvernd fjallaði um lögmæti rafrænnar birtingar tekjuupplýsinga lögðu forsvarsmenn Tekna.is áherslu á að þessi heildræna birting upplýsinga úr skattskrá gæti hrint af stað umræðu sem yrði „mun almennari og ígrundaðri en sú persónubundna og brotakennda umræða sem skapist þegar tekjublöðin og fleiri fjölmiðlar velji þúsundir einstaklinga af handahófi og birti þar óstaðfestar tekjur þeirra“.
Í tekjublöðunum svokölluðu hafa einvörðungu verið birtar atvinnutekjur og lífeyristekjur en ekki fjármagnstekjur. „Það þýðir að stór hluti af tekjum hátekjuhópanna, jafnvel meirihluti tekna hæsta eina prósentsins, er þar undanskilinn,“ segja Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson í bók sinni, Ójöfnuður á Íslandi. „Þær tölur sem þannig eru birtar gefa mjög villandi mynd af hæstu tekjunum í samfélaginu – jafnvel svo að vítavert má telja.“
Með 720-faldar tekjur láglaunamanns
Einstaklingur sem tilheyrði 0,1 prósentinu fékk að meðaltali 184,2 milljónir árið 2016 eða sem samsvarar 15,3 milljónum á mánuði. Þeir tekjulægstu í þessum 330 manna hópi voru með rúmlega 62 milljóna árstekjur eða 5,2 milljónir á mánuði.
Verkamaður við neðstu tíundamörk launa þénaði að meðaltali 347 þúsund króna heildarlaun á mánuði árið 2016, eða einn fimmtánda af tekjum þeirra sem voru við gólf tekjuhæsta 0,1 prósentsins. Að meðaltali var einstaklingur sem tilheyrði 0,1 prósentinu með 44-sinnum hærri tekjur en lágtekjumaðurinn.
Allra tekjuhæstu Íslendingarnir, þau Sigurður Þorsteinsson og María Bjarnadóttir, sem fengu hvort um sig heildartekjur yfir 3 milljörðum, voru hins vegar með 720 sinnum hærri tekjur en lágtekjumaðurinn. Með öðrum orðum: það tæki verkamanninn 720 ár að vinna sér inn þær tekjur sem tekjuhæsti karlinn og tekjuhæsta konan fengu árið 2016.
Upplýsingarnar sem birtast í nýjasta tölublaði Stundarinnar, og einnig hér að neðan, eru þær ítarlegustu sem birst hafa á prenti um tekjuhæsta 0,1 prósentið á Íslandi, það er að segja tekjur þeirra einstaklinga sem fengu allra hæstu heildartekjurnar á tilteknu ári. Í ljósi þess sambands sem er iðulega milli dreifingar eigna og fjármagnstekna má ætla að margir þeirra sem prýða listann séu einnig í hópi eignamestu landsmanna.
Athugasemdir