Það sem ég lærði á árinu 2018

Líkt og svo margir aðrir tekst Eva Einarsdóttir á við blöndu af kvíða og tilhlökkun á nýju ári. Það síðasta var ár mikilla breytinga í lífi hennar. Hér deilir hún með lesendum Stundarinnar hvaða lærdóm hún dregur af því.

ritstjorn@stundin.is

1 Að leyfa sér að vera að heiman

Nýtt ár hafið. Þá finn ég oft fyrir blöndu af kvíða og tilhlökkun og er líklega ekki ein um það. Skal viðurkenna að það er gott að kveðja síðasta ár sem var ár mikilla breytinga. Hef yfirleitt ekki verið mikið áramótabarn. Á gamlárskvöld er línan milli væntinga og vonbrigða þunn. Fyrir vikið hef ég meðvitað verið að heiman. Nú síðast í Lissabon sem tók vel á móti manni með öllum sínum fallegu litum og sólskini. Þar á undan á Úlfljótsvatni í sumarbústað og ullarsokkum. Áramótin þar á undan í London þar sem við fjölskyldan fórum í tívolí og borðuðum „takeaway“ á gamlárskvöldi og árið þar á undan í stjörnubjartri Hrísey. Þetta hefur gefið mér mikið. Ég geri mér grein fyrir að það eiga ekki allir þess kost að komast frá og er þakklát fyrir þessar minnisstæðu ferðir.

2 Að bæta jafnvægi milli einkalífs og vinnu

Fyrstu mánuðir síðasta árs voru nokkuð tíðindalausir og í raun í rólegri kantinum svona í mínum bókum. Var þá ólétt og heimakær með eindæmum sem var góð tilfinning og gott að eiga mikinn tíma að gefa börnunum. Í raun fannst mér ég sjaldan hafa verið eins mikið til staðar, ekki bara líkamlega heldur andlega. Þetta var líka í fyrsta skiptið sem ég fann sterkt fyrir hversu mikilvægt það er að stuðla að betra jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Nú er bara að finna leiðir til að finna áfram þann takt, án þess að verða endilega ólétt aftur.

3 Að passa upp á plássið sitt

Síðustu ár hef ég lagt mig fram meðvitað að bæta mig sem manneskju. Góð kona kenndi mér að hugsa um plássið sem ég á, myndrænt með því að mynda körfu með höndunum fyrir framan sig og hugsa: Þetta er mitt pláss. Um leið og við erum farin að verða óraunhæf með það sem við komumst yfir, þegar við gefum of mikið af okkur, eða jafnvel of lítið, þegar við stöndum ekki með sjálfum okkur, setjum ekki öðrum mörk, sinnum ekki líkamanum og ég tala nú ekki um að sinna grunnþörfum eins og að sofa nóg og borða. Ég gleymi ennþá þessum síðustu tveimur atriðum og samt er ég nú orðin frekar stór. En ég er orðin fljótari að fatta þegar plássið er af skornum skammti eða að það flæðir yfir. Oftar en ekki byrjar maður þá að sýna sínar verstu hliðar og oftast við sitt nánasta fólk. Það sem ég lærði á síðasta ári er að það reyndist vel að útskýra þetta með plássið fyrir eldri börnunum mínum. Þegar mamma er farin að verða leiðinleg og með allt á hornum sér. Börnin skildu mjög vel myndlíkinguna með körfuna og könnuðust sjálf við þetta með plássið sitt. Að sama skapi ræddi ég við þau um að við getum ekki bara gleymt okkur og kennt endalaust „plássleysi“ um – við þurfum sjálf að bera ábyrgð og skoða af hverju við högum okkur svona eða hinsegin. Fyrir vikið skiljum við betur hvert annað, getum notað orð í stað þess að eyða löngum tíma í öskur, fýlu og aðra neikvæðni. Og notað meiri tíma í uppbyggilegra samtal.

4 Að treysta því að breytingar eru til góðs

Ég nefndi að síðasta ár hefði verið ár mikilla breytinga. Ég ákvað að kveðja vettvang stjórnmála eftir átta frábær og lærdómsrík ár og skal viðurkenna að því fylgdi ótti um hvað kæmi í framhaldinu. En að sama skapi hef ég lært að treysta því að breytingar eru af hinu góða og hollt að finna nýjar áskoranir. Og óvænt í desember, þegar ég í raun hafði ekki hafið virka atvinnuleit, fékk ég starf sem uppfyllti margar mínar óskir og ég er mjög spennt þótt ég viðurkenni líka að vera smá kvíðin – en bara smá. Smá kvíði er eðlilegur þegar maður tekur sér eitthvað nýtt fyrir hendur og fær mann oftar en ekki til að gera enn betur.

5 Að kvöldsólin lýsir upp veröldina

Einn af hápunktum síðasta árs var þegar fimmti fjölskyldumeðlimurinn bættist í hópinn í sumar, í miðju verkfalli ljósmæðra. Það tók á en ég vissi að allt færi vel og var enn og aftur minnt á hversu magnaður líkami okkar kvenna er og hvað ljósmæður eru mikilvægar og dásamlegar.  Litla örverpið, eða kvöldsólin okkar eins og við kjósum að kalla hana, lýsir svo sannarlega upp veröldina.

Með VökuEva og maðurinn hennar, Eldar, eignuðust sitt þriðja barn á árinu.

6 Að það er engin rétt leið til að syrgja

Og það átti eftir að koma  á daginn hvernig lífið getur tekið breytingum hratt þegar móðir mín varð bráðkvödd í byrjun nóvember. Ekkert undirbýr mann fyrir slíkt. Tók margar vikur að ná því að þegar síminn hringdi var það ekki hún. Aldrei hefur maður upplifað sorg sem nístir svo og kemur aftan að manni á ólíklegustu stundum. Alveg svo að manni verður óglatt. Það sem maður gæfi fyrir eitt samtal í viðbót og fyrir að segja henni frá öllu sem hefur drifið á dagana síðan hún fór. Þetta ferli minnir mig á að hversdagurinn er svo dýrmætur. Og það er líka mikilvægt að nefna að það er engin ein rétt leið þegar maður syrgir og maður má hafa það eins og maður vill. Ég til dæmis bar

a varð að ryksuga daginn sem hún lést en ég ryksuga aldrei. Eins skellti ég mér á tónleika viku seinna og hugsaði í smá stund: „Er þetta viðeigandi?“ En mér leið betur og því er svarið já.

7 Að þiggja ást og hjálp

Það sem ég tek með mér sem lærdóm úr þessu ferli er að þrátt fyrir mikla sorg þá er ég fyrir það fyrsta svo þakklát fyrir systkini mín og sambandið okkar sem hefur orðið sterkara fyrir vikið. Ég er líka þakklát fyrir allan hlýhug frá vinum og ættingjum og hef lært að stundum þarf maður að þiggja ást og hjálp. Og trúið mér, hlýhugurinn er mikill. Fólk veit stundum ekki hvernig það á að vera, sjálf verið þar. Mín niðurstaða: Sendið skilaboðin og/eða hringið frekar en að sleppa því. Mér þótti alla vega vænt um hvert orð og skilaboð þótt mér tækist kannski ekki alltaf að svara. Það er aldrei of mikið af kærleika.

8 Að móðurlega skjaldborgin birtist þegar þörf krefur

Ég verð líka að nefna móðurlega skjaldborg kvenna í kringum mig og okkur systkinin. Vá, hvað mér hlýnar við þessa hugsun. Það stóð ekki á því þegar kom að því að undirbúa erfidrykkjuna, allar þessar frænkur, vinkonur og vinkonur mömmu svo til í að leggja sitt af mörkum. Fjöllin af upprúlluðum pönnukökum og heitu brauðréttirnir, uppáhald mömmu, hefðu getað fætt hálft landið.

9 Að almennilegt viðmót skiptir miklu máli

Í tengslum við óvænt andlát tekur við mikil og minna skemmtileg praktísk vinna, margir lausir endar og maður veit varla hvar skal byrja eða enda. Þar hef ég lært hversu mikið viðmót fólks getur skipt máli. Mörg símtöl þar sem maður veit varla hvers á að spyrja og maður þarf sífellt að endurtaka upphátt að móðir manns sé látin. Í kjölfar símtala hef ég farið að gráta þegar ég hef upplifað kulda og skilningsleysi en einnig fellt tár vegna góðvildar og einstakrar hjálpsemi. Lærdómurinn er sá að það kostar ekkert að vera almennilegur, sér í lagi þegar maður mætir fólki á þeirra viðkvæmustu stundum.

10 Að sorgin er gríma gleðinnar

Þessi orð Kahlil Gibran voru lesin við útför mömmu en hún var fróðleiksfús og spáði mikið í trúarbrögð og heiminn eins og hann birtist okkur: „Sorgin er gríma gleðinnar og lindin sem er uppspretta gleðinnar er oft full af tárum, hvernig ætti það öðruvísi að vera? Þeim mun dýpra sem sorgin grefur sig í hjarta mannsins, þeim mun meiri gleði getur það rúmað. Skoðaðu hug þinn vel þegar þú ert glaður og þú munt sjá að aðeins það sem valdið hefur hryggð þinni gerir þig glaðan. Þegar þú ert sorgmæddur skoðaðu þá aftur hug þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín. Þegar sál þín vegur gull sitt og silfur á metaskálum, hlýtur gleðin og sorgin að koma og fara.“

Lýkur þá þessum pistli með samantekt: Við getum sjálf haft áhrif á hvernig við viljum hafa eitthvað, samanborið gamlárskvöld, jól, sumarfrí. Við þurfum að huga að sjálfum okkur og taka ábyrgð á okkar plássi. Það er ótrúlega mikið af kærleika þarna úti ef við leyfum okkur að finna hann.  Það er ekkert rétt eða rangt þegar kemur að því að syrgja. Það kostar ekkert að vera almennilegur. Og það besta er að við erum endalaust að læra á okkur sjálf og lífið og ég fer spennt inn í nýtt ár, ný verkefni og lærdóm.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Jürgen Habermas níræður

Stefán Snævarr

Jürgen Habermas níræður

·
Brauðtertur eru kitsch og kitsch er cool

Brauðtertur eru kitsch og kitsch er cool

·
Þungunarrof í alþjóðlegu samhengi

Þungunarrof í alþjóðlegu samhengi

·
Til hvers að eiga börn?

Kristlín Dís

Til hvers að eiga börn?

·
Ungur kjáni á átakasvæði

Gunnar Hrafn Jónsson

Ungur kjáni á átakasvæði

·
Davíð segir að Bjarni hafi rætt við sig um val á Seðlabankastjóra árið 2014

Davíð segir að Bjarni hafi rætt við sig um val á Seðlabankastjóra árið 2014

·
Íslenskir „Olíuvinir“ í keðju umdeilds fyrirtækis

Íslenskir „Olíuvinir“ í keðju umdeilds fyrirtækis

·
Hamingjan er rétt handan við fjöllin

Björk Eldjárn Kristjánsdóttir

Hamingjan er rétt handan við fjöllin

·
Þingmaður Miðflokks vill láta kenna sjónarmið afneitunarsinna í loftslagsmálum í grunnskólum

Þingmaður Miðflokks vill láta kenna sjónarmið afneitunarsinna í loftslagsmálum í grunnskólum

·
Fylgi ríkisstjórnarinnar fellur

Fylgi ríkisstjórnarinnar fellur

·
Húðflóran hefur áhrif á fæðuofnæmi

Húðflóran hefur áhrif á fæðuofnæmi

·
Ragna Árnadóttir nýr skrifstofustjóri Alþingis

Ragna Árnadóttir nýr skrifstofustjóri Alþingis

·