Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Tíu mest lesnu úttektir, afhjúpanir og rannsóknir Stundarinnar árið 2018

„Ég verð fyrst­ur til að við­ur­kenna það. Mað­ur var al­gjört fífl,“ sagði mað­ur sem tólf kon­ur sök­uðu um að hafa brot­ið gegn sér, en nauðg­un­ar­kær­um á hend­ur hon­um var vís­að frá. Rann­sókn­ar­grein um mál­ið var sú mest lesna á vef Stund­ar­inn­ar á ár­inu, en við­tal við Báru Hall­dórs­dótt­ur, sam­kyn­hneigð­an ör­yrkja og upp­ljóst­ar­ar kom þar á eft­ir og af­hjúp­un á því hvernig Bragi Guð­brands­son beitti sér fyr­ir því að prests­son­ur fengi að um­gang­ast dæt­ur sín­ar þrátt fyr­ir að barna­vernd­ar­nefnd Hafn­ar­fjarð­ar teldi sterk­ar vís­bend­ing­ar liggja fyr­ir um að hann hefði mis­not­að þær.

Tíu mest lesnu úttektir, afhjúpanir og rannsóknir Stundarinnar árið 2018

 

1 Hann saklaus en þær í sárum

Rannsóknargrein eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur.

Agnes Bára Aradóttir og Elísabet Ásmundsdóttir kærðu báðar vinsælan fótboltastrák fyrir nauðgun. Ingibjörg Dögg ræddi við tólf konur frá Sauðárkróki sem kvörtuðu allar undan framgöngu mannsins og lýstu því hvernig hann fékk öll tækifærin og starfaði sem fyrirmynd barna á meðan þær glímdu við afleiðingarnar. Stúlkurnar sögðust hafa verið dæmdar af samfélaginu, foreldrar þeirra lýstu þögninni sem mætti þeim, en kærum á hendur manninum var vísað frá. Sjálfur sagðist maðurinn ekki hafa verið neinn engill og að hann hefði farið yfir mörk kvenna: „Já, alveg pottþétt. Ég verð fyrstur til að viðurkenna það. Maður var algjört fífl, sko.“

Greinin var lesin 74.928 sinnum.

2 Uppljóstrarinn af Klaustri: „Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði“

Afhjúpun eftir Jóhann Pál Jóhannsson.

„Ég er þessi Marvin sem ruggaði bátnum,“ sagði Bára Halldórsdóttir, sem var stödd fyrir tilviljun á Klaustri Bar þann 20. nóvember og varð vitni að ógeðfelldum samræðum þingmanna. „Ég varð bara svo sár og trúði varla því sem ég heyrði.“ Forseti Alþingis bað fatlaða, hinsegin fólk og konur afsökunar á ummælum þingmannanna, en Bára tilheyrir öllum þremur hópunum. Hún steig fyrst fram í viðtali við Jóhannn Pál, þar sem hún greindi frá atburðunum á Klaustri og opnaði sig um reynsluna af því að vera öryrki og mæta skilningsleysi og firringu valdamikilla afla á Íslandi.

3 Þær kölluðu pabba „úlfinn“

Afhjúpun eftir Jóhann Pál Jóhannsson.

Bragi Guðbrandsson hjá Barnaverndarstofu beitti sér fyrir því að prestssonur fengi að umgangast dætur sínar þrátt fyrir að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar teldi sterkar vísbendingar liggja fyrir um að hann hefði misnotað þær. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra vissi allt en hélt málinu leyndu fyrir Alþingi.

4 „Það tók mig bara tvo mánuði að lenda á götunni“

Úttekt eftir Gabríel Benjamin.

Móður tókst að missa börn sín, heimili, bíl og aleigu eftir að ánetjast morfíni og rítalíni. Kristín steig fram í Stundinni og sagði frá lífi í klóm fíknar og afleiðingum þess. Um leið steig Bergur fram, maður sem hefur sprautað sig nánast daglega í tuttugu ár, og kallar fíknina þrældóm.

5 Svipti sig lífi á geðdeild Landspítalans

Rannsóknargrein eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur.

Sverrir Örn Sverrisson lést aðeins 26 ára gamall á geðdeild Landspítalans, um sólarhring eftir að eftirlit með honum var lækkað með þeim tilmælum að hann ætti sjálfur að láta vita ef líðanin versnaði, jafnvel þótt hann lýsti leiðum til sjálfsvígs inni á deildinni. Tíu dögum áður hafði annar ungur maður framið sjálfsvíg á geðdeildinni, en spítalinn varaði við umfjöllun um málið. „Við héldum að hann væri kominn á öruggan stað,“ sögðu bræður hans, sem greindu frá því hvað gerðist. 

Um leið var rætt við fagfólk, bæði á Landspítalanum og annars staðar í kerfinu, um ástandið í geðheilbrigðismálum. 

6 Svona notuðu Bjarni Benediktsson og Engeyjar­fjölskyldan Íslands­banka

Rannsóknargrein eftir Inga Frey Vilhjálmsson.

Bjarni Benediktsson, nú fjármálaráðherra, stýrði fjárfestingum fyrirtækjaveldis föður síns og föðurbróður á bak við tjöldin á árunum fyrir hrunið 2008. Engeyingarnir voru ráðandi hluthafar Íslandsbanka og vék bankinn ítrekað frá vinnureglum til að ganga erinda þeirra.

„Ég áskil mér allan rétt til að selja ekki næstum því strax BMW-inn sem ég er nýbúinn að panta mér,“ sagði Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fjárfestir og núverandi fjármálaráðherra, í léttum dúr í tölvupósti til Einars Arnar Ólafssonar, vinar síns og þáverandi starfsmanns Íslandsbanka, og Hermanns Guðmundssonar, viðskiptafélaga síns, í tölvupósti í október árið 2005. 

7 Borgaði aldrei bæturnar eftir banaslysið

Úttekt eftir Jón Bjarka Magnússon og Frey Rögnvaldsson.

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, sigldi skemmtibát sínum fullur upp á sker og olli með því dauða tveggja manneskja. Hann reyndi að koma sökinni yfir á annað hinna látnu og greiddi aðstandendum aldrei bætur.

Jónas sat áfram sem formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, sem síðar varð Sjómannafélag Íslands, eftir slysið og var endurkjörinn mótframboðslaust í nóvember 2005, tveimur og hálfum mánuði eftir slysið. Hann var endurkjörinn í stjórn Norræna flutningaverkamannasambandsins í mars 2006, eftir að búið var að birta honum ákæru vegna slyssins. Eftir að dómur féll dró Jónas sig út úr þeim störfum. Hann losnaði úr fangelsi árið 2010 og settist það sama ár í samninganefnd Sjómannafélags Íslands. Jónas var kjörinn formaður félagsins á nýjan leik árið 2012 og hefur setið á formannsstóli síðan.

8 „Hann er búinn að henda mér úr landi“

Afhjúpun eftir Gabríel Benjamín.

Starfsfólk lýsir reiðiköstum og slæmri framkomu eiganda Guide to Iceland, sem er eitt helsta sprotafyrirtæki landsins. Meg Matich var rekin úr starfi sem ritstjóri vefblaðsins Guide to Iceland Now af eigandanum þegar hún nýtti ekki frítíma sinn í að skrifa fréttir fyrir fyrirtækið.

9 Þvingaðar af sýslumanni til að umgangast föðurinn sem misnotaði þær

Rannsóknargrein eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur.

„Hæ, ... ég er níu ára. Þegar ég var lítil var ég misnotuð af pabba mínum,“ segir í dagbókarfærslu ungrar stúlku. Fimm ára greindi hún frá kynferðislegri misnotkun föður síns. Engu að síður var hún neydd til umgengni við hann. Í kjölfarið braut hann líka á yngri systur hennar. Dætur mannsins sögðu söguna af því hverning það er að vera barn í þessum aðstæðum í viðtali við Stundina. Gögn sýna að stúlkurnar vildu ekki umgangast föður sinn og frásagnir af kynferðisofbeldi bárust margoft til yfirvalda. Málið var aldrei meðhöndlað sem barnaverndarmál, aðeins sem deilur foreldranna um umgengni.

10 Barnaníðsmál prests gert upp með sáttafundi á skrifstofu biskups 

Úttekt eftir Inga Frey Vilhjálmsson.

Þjóðkirkjan þverbrýtur ítrekað eigin vinnureglur við meðferð kynferðisbrotamála. Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar hefur gagnrýnt biskup fyrir aðkomu að meðferð kynferðisbrotamála. Rúmlega 60 ára gamalt barnaníðsbrot prests hefði átt að fara til úrskurðarnefndarinnar en biskup tók málið að sér og málið varð aldrei opinbert. Árið 2015 var haldinn sáttafundur á skrifstofu biskups Íslands, Agnesar Sigurðardóttur, þar sem aldraður prestur bað konu fyrirgefningar á því að hafa ítrekað beitt hana kynferðisofbeldi þegar hún var 10 og 11 ára gömul. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár