Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Tíu mest lesnu fréttir Stundarinnar árið 2018

Klaust­ur­mál­ið var ansi fyr­ir­ferð­ar­mik­ið í frétt­um ár­ið 2018, en hér eru mest lesnu frétt­ir Stund­ar­inn­ar á ár­inu sem var að líða.

Tíu mest lesnu fréttir Stundarinnar árið 2018

1

Þingmenn úthúðuðu stjórnmálakonum: „Hún er miklu minna hot í ár“

Mest lesna frétt ársins 2018 á Stundinni vakti töluverða athygli en þar er greint frá niðrandi orðum sem þingmenn Miðflokksins létu falla um konur á Klaustur Bar. Sögðu þeir meðal annars eðlilegt að kona yrði látin gjalda fyrir það í prófkjörum að vera ekki jafn „hot“ og áður. „Það fellur hratt á hana,“ sagði Bergþór Ólason. Sigmundur Davíð tók undir og hló að orðum Bergþórs um að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, væri „húrrandi klikkuð kunta“.

2

Vildu hefna sín á Lilju Alfreðsdóttur: „Hjólum í helvítis tíkina!“

Þingmenn Miðflokksins gerðu lítið úr Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Klaustri Bar. „Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina! Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. „Henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

3 „Þarna kom loksins skrokkur sem typpið á mér dugði í“

Ummælin átti Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins á Klaustri. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist ánægður með sameiginlega niðurstöðu Bergþórs Ólasonar og Gunnars Braga Sveinssonar um að þeir vildu „ríða“ ráðherra. Sigmundur Davíð tilkynnti að Bergþór og Gunnar Bragi væru komnir í leyfi út af Klaustursupptökunum en sat sjálfur áfram á þingi þrátt fyrir virka þátttöku í klám- og karlrembutali.

4 Hæddust að #MeToo sögum og sögðu Albertínu hafa reynt að nauðga sér

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagðist vera kjaftstopp yfir orðum Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar um meintar #MeToo sögur þeirra af henni. Hún greindi frá því að Gunnar Bragi hefði hringt í sig, beðist afsökunar og sagt að atburðirnir hefðu ekki verið með þeim hætti sem þeir lýstu.

Fjórar mest lesnu fréttir ársins á Stundinni.is skrifuðu Steindór Grétar Jónsson og Jóhann Páll Jóhannsson upp úr upptökum sem komið var til Stundarinnar eftir fund þingmanna á Klaustri þann 20. nóvember. Bára Halldórsdóttir, hinsegin öryrki sem sat skammt frá þingmönnunum, hljóðritaði samskiptin.

Sex þingmenn voru viðstaddir: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir sem öll eru þingmenn Miðflokksins og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason úr Flokki fólksins. Samtal þingmannanna vakti athygli fyrir margar sakir, meðal annars vegna þess að þar lýsti Gunnar Bragi Sveinsson því yfir að hann ætti inni persónulegan greiða hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir skipan í sendiherrastöðu og eins fyrir það hvernig þingmennirnir töluðu um konur, fatlaða og samkynhneigða.

Fundurinn hafði töluverðar afleiðingar, fréttir af samtali þeirra voru sagðar í öllum miðlum hér á landi auk þess sem þær rötuðu í erlenda miðla og á fjalir Borgarleikhússins. Boðað var til mótmæla á Austurvelli, þeir Ólafur og Karl Gauti voru reknir úr Flokki fólksins og Gunnar Bragi og Bergþór sendir í launalaust leyfi. Lilja Alfreðsdóttir steig síðan fram í Kastljósi og lýsti þeim sem tóku þátt í þessu samtali sem ofbeldismönnum sem ættu ekki að fara með dagskrárvald í íslensku samfélagi. Þjóðin virtist sammála Lilju en samkvæmt könnun Maskínu vildu á milli 74 og 91 prósent Íslendinga að þingmennirnir vikju af Alþingi og það vildi einnig meirihluti þingmanna samkvæmt könnun Fréttablaðsins.

5 Dreifa mynd af borgarstarfsmanni, kalla hana ógeð og „brundfés“ og vilja „fiðra þessa glyðru“

Jón Steinar Gunnlaugsson birti grein í Morgunblaðinu þar sem hann nafngreindi fólk sem hafði farið ljótum orðum um hann á lokuðu Facebook-svæði femínista, eftir að hann hafði kallað eftir því að þolendur barnaníðingsins Roberts Downey fyrirgæfu honum. Jóhannn Páll Jóhannsson skrifaði frétt um viðbrögðin sem létu ekki á sér standa. Fjöldi fólks dreifði mynd af starfsmanni Reykjavíkurborgar á Facebook, kallaði eftir því að hún yrði flæmd úr ráðhúsinu og fiðruð, enda væri húnn ógeð og brundfés og skálað yrði í kampavín þegar hún myndi deyja. Ástæðan fyrir heiftinni í garð þessarar konu var að hún hafði sagt að Jón Steinar væri „krípí“.

6 Konan í myndbandinu stígur fram: „Ég er þessi kona“

Herferð UN Women vakti athygli en áhersla var lögð á mikilvægi þess að karlar fordæmi ofbeldi gegn konum og beiti sér gegn því. Tólf karlmenn lásu upp frásagnir kvenna víðs vegar um heiminn af ofbeldi, en það var ekki fyrr en þeir voru að ljúka við lesturinn sem þeir áttuðu sig á því að ein sagan var saga konunnar sem sat á móti þeim. Engum duldist hversu brugðið þeim var en á meðan suma setti hljóðan runnu tár hjá öðrum. Konan var óþekkjanleg í herferðinni en Sigrún Sif Jóelsdóttir steig fram í viðtali við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur. Með því vildi hún undirstrika þau skilaboð að ofbeldi er nær en þú heldur.

7 Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins vill ekki að „duglega fólkið“ haldi uppi sjúklingum sem keppast við að vera veikir

Viðar Guðjohnsen, sem bauð sig fram í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar, vakti athygli fyrir öfgahægrisinnuð sjónarmið. Hann sagðist ekki vilja borga fyrir „klessufeitt fólk“ eða „annarra manna börn“ og taldi að veikir fíkniefnaneytendur ættu að mæta örlögum sínum óstuddir. Vildi hann að hætt yrði að styðja sjúka fíkniefnanotendur, sérstaklega þá sem eru af erlendum uppruna. Eins vildi hann skera niður í félagsþjónustu Reykjavíkurborgar með því að hætta þjónustu við þá sem verst eru haldnir. 

8 Snappari sendi frá sér yfirlýsingu um sögusagnir af meintu sjálfsvígi manns

„Ég tel það ekki vera mér að kenna ef hann hefur fyrirfarið sér,“ sagði Jóhannes Gísli Eggertsson snappari, í yfirlýsingu um sögusagnir þess efnis að maður hefði svipt sig lífi í kjölfar tálbeituaðgerðar hans. Áður hafði hann birt myndband af manni sem hafði mælt sér mót við 14 ára stúlku.

9 „Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún sem ég hef ekki fengið að ríða“

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, talaði um konu sem „guggu“ sem hann hefði „ekki fengið að ríða“ og Gunnar Bragi Sveinsson kallaði stjórnmálakonu „helvítis tík“. Jóhann Páll Jóhannsson vann fréttina upp úr upptökum af fundi þingmanna á Klaustri bar þann 20. nóvember.

10 Sigmundur Davíð þiggur húsnæðisgreiðslur þrátt fyrir tilvitnuð orð hans um annað

Steindór Grétar Jónsson greindi frá því hvernig svör Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, stönguðust á við upplýsingar um greiðslur til þingmanna sem gerðar voru opinberar. Áður hafði Sigmundur Davíð sagt í viðtali við DV að hann hefði aldrei þegið húsnæðis- og dvalargreiðslur en annað kom í ljós þegar Alþingi birti á vef sínum upplýsingar um fastan kostnað þingmanna auk þingfararkaups.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu