Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Mér finnst gaman að gleðja fólk

Rétt eins og marg­ir jafn­aldr­ar hans vak­ir hinn sex­tán ára Kári Eg­ils­son fram á næt­ur og sef­ur lengi í jóla­frí­inu. En það eru ekki tölvu­leik­ir eða sam­fé­lags­miðl­ar sem halda fyr­ir hon­um vöku. Á næt­urn­ar kem­ur sköp­un­ar­kraft­ur­inn nefni­lega yf­ir hann og þá finnst hon­um gott að semja tónlist.

Fyrir skemmstu hlaut Kári Egilsson, sem er ekki nema sextán ára, hvatningarverðlaun ASCAP, en svo nefnast Samtök lagahöfunda og höfundarréttarhafa í Bandaríkjunum. Kári fór með foreldrum sínum til New York og veitti verðlaununum viðtöku í Lincoln Center. Þar spilaði hann frumsamið verk, samið sérstaklega fyrir tilefnið, frammi fyrir fullum sal af fólki úr tónlistarlífi New York-borgar.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari Stundarinnar bönkuðu uppá hjá Kára skömmu fyrir jól aðstoðaði hann þau við að komast í jólaskapið, með því að setjast við flygilinn og spila óæft og af fingrum fram lagið Have Yourself a Merry Little Christmas.

Verðlaunin sem Kári hlaut eru veitt í nafni Desmonds Child, höfundi laga sem margir þekkja vel, á borð við Livin on a Prayer, sem hann samdi fyrir Bon Jovi, Livin la Vida Loca fyrir Ricky Martin og I Was Made for Lovin You fyrir Kiss.

„Jú, þetta er auðvitað mjög mikill heiður,“ segir Kári sjálfur en hefur annars ekki mörg orð um það til viðbótar. Það þarf ekki að tala við hann lengi til að finna að honum líkar ekki mjög vel að hreykja sér eða ræða sérstaklega um góðan árangur sinn, sem þó hlýtur að teljast nokkuð aðdáunarverður fyrir sextán ára dreng frá Íslandi.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár