Mest lesið

Niðurbrotnar í kjölfar framkomu þerapista
1

Niðurbrotnar í kjölfar framkomu þerapista

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta
2

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Tveggja barna móðir missir húsnæðið eftir sölu Heimavalla á Akranesi: „Ég er búin að gráta af hræðslu“
3

Tveggja barna móðir missir húsnæðið eftir sölu Heimavalla á Akranesi: „Ég er búin að gráta af hræðslu“

Forsvarsmaður undirverktaka við Héðinshúsið segist ekki hafa grunað neitt
4

Forsvarsmaður undirverktaka við Héðinshúsið segist ekki hafa grunað neitt

Fjármál Heilsustofnunar í Hveragerði til skoðunar
5

Fjármál Heilsustofnunar í Hveragerði til skoðunar

Fjallið, snjórinn og við
6

Jón Trausti Reynisson

Fjallið, snjórinn og við

Stundin #110
Janúar 2020
#110 - Janúar 2020
Prentútgáfa Stundarinnar kemur næst út þann 7. febrúar.
Þessi grein er meira en ársgömul.

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Samhengi orða er dýrt

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Samhengi orða er dýrt
Bannorð í sögulegu samhengi í bók Auðar Övu Ólafsdóttur, Ungfrú Ísland, eru notuð orð sem í dag eru bannorð. En fólk notaði þessi orð á Íslandi í daglegu máli fyrir nokkrum áratugum síðan. 

Sænsku astma- og ofnæmissamtökin sendu frá sér fréttatilkynningu í mars sem vakti nokkra athygli í Svíþjóð og var fjallað um hana  í mörgum fjölmiðlum

Samtökin töldu að sena í kvikmyndinni Tårtgeneralen – Brauðtertukóngurinn á íslensku – væri niðurlægjandi og lítilækkandi fyrir fólk með astma, ofnæmi og eða viðkvæmt þefskyn.  Myndin er sannsöguleg og fjallar um það hvernig maður úr krummaskuðinu Köping í Mið-Svíþjóð reynir að koma heimabæ sínum á kortið með því að búa til stærstu brauðtertu í heimi.

Í senunni sem um ræðir gengur maðurinn, Hasse P., sem leikinn er af Mikael Persbrandt, inn í bakarí angandi af rakspíra og eldri kona sem er þar gestur hefur orð á því að lyktin af honum finnist úr margra metra fjarlægð. Það er einmitt markmiðið, segir Hasse P.  Tekið skal fram að ekki kom fram í senunni að konan væri með astma eða ofnæmi; hún brást bara við rakspíralyktinni af Hasse P.

Mikael Persbrandt sem Hasse P.

Stjórnarformaður samtakanna taldi að þessi sena í myndinni fæli í sér að verið væri að hvetja til þess að trufla og angra fólk með þessa sjúkdóma með því að nota sterka rakspíra eða ilmvatn og að jafnvel væri um að ræða eineltistilburði í garð þessara hópa. „Við erum að tala um sjúkdóma hér og í vissum tilfellum jafnvel fötlun. Yrðu sagðir brandarar um fólk með flogaveiki, sykursýki eða hjartasjúkdóma? Nei, varla,“ sagði í fréttatilkynningunni. 

Aðstandendur Brauðtertukóngsins þurftu svo að stíga fram og svara fréttatilkynningunni og undirstrika að senan í myndinni væri ekki „stríðsyfirlýsing gegn fólki með ofnæmi“.  Hasse P. er einfaldlega maður sem notar mikinn rakspíra, kannski Old Spice eða aðra sterka karlalykt, og aðstandendum myndarinnar hefur þótt að þetta senubrot væri lýsandi til að undirbyggja og lýsa talsvert sveittum karakter hans. 

Orð túlkuð bókstaflega

Viðkvæðið í Svíþjóð um hvað má og hvað má ekki segja og gera í opinberri umræðu eða í menningarverkum eins og kvikmyndum, bókum og leikritum er talsvert strangara en á Íslandi. Svíar ganga lengra í því en Íslendingar hafa hingað til gert.

Orð og staðhæfingar eru skilin í bókstaflegum skilningi, ein og sér, en ekki í því samhengi sem viðkomandi orð eru sögð í og eru hluti af. Er það stjórnmálamaður sem segir hlutinn, er það karakter í bók, er hluturinn sagður í kaldhæðni eða er hluturinn sagður af illum hug eða ekki, í fullri alvöru eða sem grín? Í sænsku er talað um að eitthvað sé kränkande þegar eitthvað fer fyrir brjóstið á einhverjum og sá sem er auðhneykslaður er lättkränkt. Stuðandi, móðgandi, særandi, meiðandi eða hneykslandi eru orð á íslensku sem nota mætti til að lýsa þessu.

Þessa umræðuhefð þurfa Svíar  að beygja sig undir, ef þeir vilja ekki verða að athlægi eða hornreka fyrir að hafa ekki réttu skoðanirnar og nota réttu, viðurkenndu orðin, og þar af leiðandi passa rosalega vel hvað þeir segja og gera svo enginn verði særður, hneykslaður eða móðgaður yfir því sem sagt er. Sem dæmi um þetta má nefna þegar sænska listamanninum Makonde Linde var bannað að kalla sýningu sem hann var með á opinberu safni í Stokkhólmi „Endurkomu negrakóngsins“ af því forstjóri safnsins var hræddur um að nafnið myndi stuða fólk og orka tvímælis. Makonde Linde, sem sjálfur er blökkumaður, var hins vegar að búa til sýningu sem var samtal um kynþætti og rasisma.  Samhengi orðsins var lykilatriði en ekki bara orðið eitt og sér. 

Í þessum skilningi eru Svíar og sænsk umræðuhefð bókstarfstrúar, fólk þarf að gangast  undir einhvers konar mjög strangt norm um það hvað dæmt er sem viðeigandi, eðlilegt og rétt að segja og gera. Félagslegt etíkett Svía er miklu strangara en etíkett Íslendinga, hegðunarreglur þeirra og verklag í mannlegum samskiptum. Í Svíþjóð er ekki mikið ráðrúm fyrir persónulegar nálganir á því hvernig þú átt að og mátt hegða þér.  Ef þú fylgir þessu ekki eða ef einhver túlkar eða oftúlkar eitthvað sem þú segir eða gerir geturðu lent illa í því, eins og til dæmis aðstandendur Smurbrauðskóngsins sem þó meintu ekki neitt illt með rakspírasenunni – þeir ætluðu ekki einu sinni að vera stuðandi á neinn hátt í garð astmasjúks fólks. Úr varð hins vegar smáskandall og fjölmiðamál þar sem einhver móðgaðist.

Stundum getur verið rétt að túlka orð ein og sér bókstaflega en stundum getur þurft að taka tillit til bókstaflegs samhengis orða til að meta þau rétt. 

 „Það sem er hvorki gott né vont eiga þeir erfitt með að skilja og það gerir þá reiða.“ 

Spyrtur saman við persónur bóka sinnaKarl Ove Knausgård sagor í greinum sínum að hann hefði meðal annars verið kallaður barnaníðingur af því að persóna í bók hans var það.

Einn kvarði notaður á alla umræðu og öll orð

Þetta er vandamál í sænskri umræðu- og menningarhefð sem vissulega oft hefur komið til tals í gegnum árin. Meðal annars í greinum eftir norska rithöfundinn Karl Öve Knausgaard fyrir nokkrum árum þar sem hann fór yfir þessi einkenni á sænsku samfélagi og sagði þá meðal annars að Svíar væru kíklópar, verur með eitt auga, það er að segja andstæður hins víðsýna.

Eins og ég skildi það: Eitt bókstafsauga þar sem allt er skilið og túlkað út frá nákvæmlega einum kvarða, bókstaflegum veruleikanum og þeim réttu normum sem ráða í honum hverju sinni. Eins og Knausgård orðaði það á einum stað í skrifum sínum: „Kíklóparnir geta ekki skilið hið margræða. Það sem er hvorki gott né vont eiga þeir erfitt með að skilja og það gerir þá reiða. Þess vegna eru þeir ekki hrifnir af bókmenntum. Þeir segjast kunna að meta bókmenntir, en þær bókmenntir sem þeir kunna að meta eru þær bækur sem passa við sýn þeirra af hinu rétta og hinu góða, og það eru ekki bókmenntir heldur bara eitthvað sem líkist bókmenntum. Bókmenntir eru í eðli sínu margræðar, en kíklóparnir vita þetta ekki.“ 

Í nýrri grein í sænsku bókmenntatímariti kemur rithöfundurinn Lena Anderson, sem talsvert hefur fjallað um sambærilega hluti og Knausgard,  einnig inn á þetta. Meðal annars þegar hún segir: „Þetta með það hvernig manneskjan er en ekki hvernig hún ætti að vera. Rithöfundur á ekki að vera góður, rithöfundur á að geta séð hlutina út frá hvaða sjónarhorni sem er. Hvernig hugsar barnaníðingurinn? Sá sænski rithöfundur sem sjálfur myndi ákveða að skrifa um þetta á það á hættu að vera sjálfur talinn vera barnaníðingur.“ 

Anderson lýsir þarna hugarfari þar sem hlutirnir eiga annaðhvort að vera svartir eða hvítir. Það er ekkert svigrúm fyrir því sem er grátt eða á mörkunum. Ef rithöfundur skrifar sögu sem fjallar um barnaníðing eða rasista er mögulegt að hann verði sjálfur bendlaður við barnaníð eða rasisma. Eins og sú staðreynd að menningarafurðin sem rithöfundurinn eða kvikmyndagerðarmaðurinn býr til er ekki og á ekki að vera lýsing á sannleikanum eða veruleikanum á ekkert skylt við aðsenda grein í dagblaði, leiðara eða blogg.

Þannig má skilja sem svo að í svona samfélagi þá geti þeir sem búa til hugverk eða menningu bara fjallað um það sem þeir mega fjalla um samkvæmt einhverjum viðteknum skoðunum og sannindum, og segja eða lýsa réttu hugarfari og réttum veruleika, og ekki fara út fyrir boxið. Að fara út fyrir boxið er samt það sem öll hugaverkasköpun, sama hvort hún er á menningarsviðinu eða á mörgum sviðum í tæknigeiranum, gengur út á þegar hún er sem best. Að segja ekki bara og skrifa það sem allir vita og eru sammála að sé satt og rétt eða gott eða illt heldur að láta reyna á þolmörk þess sem er viðtekið með því að kanna og skoða hluti á nýjan hátt. 

Hugverkasköpun er ekki eins og að útbúa ársreikning meðalstórs fyrirtækis þar sem viðkvæðið er að fylgja föstum, settum reglum um ársreikningagerð.

Hvernig lítur menningarlífið út í landi þar sem þetta er raunin? Að mínu mati er það geldara og staðnara en það þyrfti að vera. Man einhver eftir nýlegum sænskum rithöfundi  sem hefur skrifað eitthvað sem hefur valdið jarðraski? Eiga Svíar sinn Houllebecq, Söru Kane, Philip Roth eða J.M. Coetzee? Svíar eru hræddir við að stuða, brjóta reglur og mögulega að særa einhvern. Hættan er sú að í slíku samfélagi verði menningaverk endurspeglanir á því sem er viðtekið og talið vera rétt og gott, svona eins og leikritið eftir einn sænskan rithöfund sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu fyrir nokkrum árum.  

Hneykslun leiðir til breytingaHneykslunaraldan sem reið yfir út af orðinu hjúkrunarkona í barnabók Birgittu Haukdal gerði það að verkum að orðinu var breytt í bókinni.

Hjúkrunarkonan í skáldverkum

Fréttirnar um Brauðtertukónginn og þessi umræða um sænska menningu kom upp í huga minn þegar mál Birgittu Haukdal og hjúkrunarkonunnar í banabókinni hennar var til umfjöllunar fyrir skömmu. Slík barnabók er skáldskapur, hugverk og menningarafurð, alveg eins og aðrar bækur, og ætti að vera metið út frá þeirri staðreynd. Þótt Birgitta láti kvenkyns hjúkrunarfræðing heita hjúkrunarkonu þá felst ekki í því árás frá henni á starfsgreinina sem slíka eða á konur. 

Þetta var ekki „stríðsyfirlýsing“ hjá Birgittu, frekar en hjá þeim sem gerðu Brauðtertukónginn, heldur orð í menningarverki, hugsmíð. Ég á eiginlega jafn erfitt með að skilja að einhver móðgist yfir orðinu hjúkrunarkona og að einhver móðgist yfir því að manneskja í kvikmynd hnerri yfir of mikilli rakspíranotkun.

Fréttablaðið tók það svo upp hjá sér að skrifa frétt um að Arnaldur Indriðason notaði einnig „bannorðið“ hjúkrunarkona í nýjustu bók sinni. Sú frétt vakti reyndar ekki eins mikla athygli og fréttin um Birgittu og hjúkrunarkonuna hennar.  Enda var markmiðið með fréttinni kannski að undirstrika fáránleika umræðunnar sem slíkrar og afleiðingarnar af því þegar byrjað er að rýna í allar bækur með þessum gleraugum. 

Ætti orðið „hjúkrunarkona“ í bók að vekja svona sterkar tilfinningar? Kannski vildi Birgitta bara undirstrika að hjúkrunin var gerð af konu en ekki karlkyns hjúkrunarfræðingi. Og þar sem um er að ræða skáldskap en ekki leiðara, heimspekigrein, manifestó eða  greinargerð frá opinberri stofnun, er varla hægt að lesa orðið með bókstafsgleraugum, eins og notkun Birgittu á þessu orði segi okkur svo mikið um heimspekilega og hugmyndafræðilega afstöðu hennar til lífsins og tilverunnar. Og þótt notkun orðsins segi eitthvað um það hvernig Birgitta lítur á heiminn, hvaða máli skiptir það þá í skáldskap eða öðru hugverki? Ef kvenkyns hjúkrunarfræðingur er hjúkrunarkona í huga Birgittu Haukdal þá hlýtur hún að mega nota það orð í bók eftir sig.

Orðið hjúkrunarkona er leifar frá þeirri tíð þegar starfið fól jafnvel ekki í sér langt háskólanám, ekki var talað um hjúkrunarfræðinga þegar nær allir hjúkrunarfræðingar voru hjúkrunarkonur þar sem engir, eða nánast engir, karlmenn gegndu starfinu.

En er ekki hægt að líta svo á að orðið hjúkrunarkona sé í dag leitt af orðinu hjúkrunarfræðingur og sé önnur leið til að segja „kvenkyns hjúkrunarfræðingur“ ef sá sem talar eða skrifar álítur það skipta máli hvors kyns hjúkrunarfræðingurinn er? Með sama hætti væri hægt að segja „hjúkrunarkarl“ eða „karlkyns hjúkrunarfræðingur“ ef það er talið skipta máli að viðkomandi hjúkrunarfræðingur sé karlmaður. 

TIl að mynda má nefna að 33 kvenkyns hjúkrunarfræðingar titla sig sem „hjúkrunarkona“ í símaskránni og 20 til viðbótar titla sig með styttingunni „hjúkrunark“.  Ef orðið væri neikvætt og lítillækkandi í raun er ólíklegt að fólk myndi nota það til að skilgreina sig sjálft út á við.  

Orðið hjúkrunarkona er ekki neikvætt eða ljótt í eðli sínu og það vita það að minnsta kosti flestir í dag að til þess að vera hjúkrunarkona þarf viðkomandi að vera hjúkrunarfræðingur með því áralanga háskólanámi og jafnvel undirsérhæfingu sem þessi titill byggir á. Sama má segja um ljósmæður en allar ljósmæður eru líka hjúkrunarfræðingar og orðið ljósmóðir er líka kvengerving á starfi sem karlar geta líka gegnt. En orðið ljósmóðir er fallegt, miklu fallegra en til dæmis sænska orðið „barnmorska“ sem er lögverndað starfsheiti. Vonandi vill enginn að hætt verði að nota orðið ljósmóðir.

Mörg bannorð á opnuÁ þessari opnu í bók Auðar Övu Ólafsdóttur koma fram orð sem í dag eru bannorð. „Hómósexualisti“, „kynvillingur“, „negraforingi“.

Fordómarnir í orðum sjöunda áratugarins

Orðið í bók Birgittu, og í bók Arnaldar Indriðasonar,  eru auðvitað ekki einu orðin sem prentuð eru í íslensku skáldverki í ár sem einhverjum kann að þykja orka tvímælis. Það er hægt að finna orð í svo mörgum bókum sem eru, skilin ein og sér, bókstaflega hneykslanleg. 

Í skáldsögðu Auðar Övu Ólafsdóttur, Ungfrú Ísland, eru orð sem ég fullyrði að orka tvímælis ein og sér og líklega er mikill meirihluti fólks á þeirri skoðun. Í bók sinni dregur Auður Ava upp mynd af lífinu á Íslandi og í Reykjavík á sjöunda áratug 20. aldar og nota sögupersónurnar orð sem notuð voru á þeim tíma en sem í dag eru bannorð.

Samkynhneigt fólk er kallað „kynvillingar“ eða „hómósexualistar“ og Marteinn Lúther King er kallaður „negraforinginn“, vísað er í Morgunblaðið með þetta orðalag,   og talað er um „svertingja“.  Munurinn á orðinu hjúkrunarkona og orðunum hér að ofan eru þau að hin síðarnefndu eru sannarlega algjör bannorð. Ef stjórnmálamaður myndi nota umrædd orð í viðtali í dag yrði það að stórum skandal og hann gæti orðið að segja af sér í vissum löndum. 

Því mætti líkja við það þegar sænski stjórnmálamaðurinn og þáverandi ráðherrann, Åsa Romson, kallaði Roma-fólk „sígauna“ í viðtali fyrir nokkrum árum og hlaut mjög bágt fyrir. N-orðið er svo umdeilt að verk hinnar sænsku Astridar Lindgren hafa verið hreinsuð af orðinu „negrakóngur“ til þess að börn þurfi hvorki að sjá það á prenti né heyra það og heitir þessi kóngur nú „suðurhafskóngur“.  Sjálf var Astrid Lindgren fylgjandi þessari breytingu áður en hún lést. Að vilja taka þetta orð úr Línu Langsokki er kannski skiljanlegt og eins er skiljanlegt að það hafi stuðað einhvern þegar bókin „10 litlir n-strákar” var endurútgefin á íslensku  fyrir nokkrum árum. En svo má líka bara sleppa því að lesa n-orðið fyrir börnin og kalla n-kónginn eitthvað annað og n-strákana „dúllustráka“ eða „sæta stráka“ eins og ég gerði stundum þegar ég las bókina fyrir börnin mín. Þau voru of ung til að skilja af hverju n-orðið er ljótt orð. 

Orð eru minnisvarðar um söguna og  fordóma

Samt finnst mér að það þurfi alltaf að horfa á bók eða menningarverk í samhengi við þann tíma sem það er skrifað í og ef Astrid Lindgren notaði n-orðið til að tala um hörundsdökkan mann þá er það tákn þeirra tíma sem hún lifði á og kannski líka víti til varnaðar fyrir komandi kynslóðir. Mamma/Pabbi: Af hverju er þessi maður kallaður „negrakóngur“? gæti eitthvert barn spurt foreldra sína. Foreldrarnir gætu þá kannski útskýrt þetta fyrir barninu þegar það hefur náð ákveðnum aldri og þá lærir barnið kannski eitthvað í leiðinni um sögu rasisma og kynþáttahaturs, alveg eins og unglingurinn sem les Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal mun örugglega klóra sér í höfðinu og spyrja spurninga um þá einkunn Gröndals að Georg, seinfær ungur maður í bókinni, sé sagður vera „hálf-bjáni“.  

Úti um allan heim eru byggð listaverk, styttur og minnisvarðar um fordóma og kynþáttahatur í mannkynssögunni svo fólk gleymi ekki sögunni. Bækur eru líka slíkir minnisvarðar.

Eini sinni var talið í lagi á Íslandi að kalla blökkumann „negra“, seinfært fólk „vangefið“ eða „þroskaheft“  og samkynhneigða „kynvillinga“, „sódómista“ eða „hómosexualista“. Ef öll þessi orð verða þurrkuð út úr bókum verða kannski á endanum engar heimildir til um þessa sögulegu fordóma sem felast í orðunum.

 En n-orðið er ekki hjúkrunarkona, það er svo langt frá því að vera hjúkrunarkona. 

Hvar er fréttin um Auði Övu?

Af hverju segir enginn neitt út af þessari notkun Auðar Övu á umræddum orðum? Má hún prenta þessi orð en Birgitta Haukdal hefur orðið að breyta orðinu hjúkrunarkona í hjúkrunarfræðingur í endurprentunum á bók sinni? 

Þessi fyrirsögn og frétt með þessu inntaki: „Rithöfundur kallar Martein Luther King „negraforingja“ og samkynhneigða „kynvillinga“ í nýrri bók“, myndi örugglega bæði fá mikinn lestur og vekja hneykslan hjá einhverjum, rétt eins og fréttin um „hjúkrunarkonu“ Birgittu Haukdal gerði það að verkum að einhverjir kölluðu eftir því opinberlega að bók hennar yrði sniðgengin í jólabókaflóðinu sökum þessa.

En það hefur enginn skrifað þessa frétt og gerir það vonandi ekki af því að bók Auðar Öva lýsir hugar- og orðaheimi sjöunda áratugarins svo vel vegna þess að hún notar orðin sem venjulegt fólk notaði á þessum árum. Hver sagði „hjúkrunarfræðingur“ árið 1965, hver sagði „samkynhneigður maður“, hver sagði „Bandaríkjamaður af afrísku bergi brotinn“ og kannski einnig  „seinfær“? 

Það er fullkomlega eðlilegt að Auður Ava noti þess orð, líkt og önnur eins og að „uppvarta“ og „uppvörtunarstúlka“ um þjóna á veitinga- og kaffihúsum, af því hún er að endurskapa stemningu og hugarheim – fordómaheim – sjöunda áratugarins. Í þessari notkun Auðar Övu felst ekki sú skoðun hennar eða mat að það sé í lagi að nota þessi orð í dag, ef hún myndi skrifa kjallaragrein eða ritgerðasafn um samtímann þá væri vitanlega ekki við hæfi að hún notaði orð eins og n-orðið. 

„Rithöfundar og fólk almennt á ekki að
hljóma eins og fréttatilkynning
frá Orkuveitu Reykjavíkur.“

Skáldsaga er ekki bókstafsverk

Skáldsaga fyrir fullorðna eða barnasaga er ekki endilega spegill inn í heimspeki og lífsskoðanir höfundarins og er líklega ekki rétt að túlka slík verk þannig, eins og eitthvert pólitísk manifesto um rétt og rangt í veruleikanum.

Segir margt venjulegt fólk í talmáli: „Ég talaði við hjúkrunarfræðinginn [sem er kona] eða er líklegra að fólk segi: Ég talaði við hjúkrunarkonuna [ef hjúkrunarfræðingurinn er kona]? Ef rithöfundur vill hljóma ekta er þá líklegra að hann noti orð sem fólk notar en ekki stofnanalegri orð sem þó kannski eru kórréttari? Fólk myndi sennilega ekki segja „Jón var löggiltur endurskoðandi“  heldur frekar „Jón var endurskoðandi“ eða jafnvel „Jón var bókhaldari“ eða „Jón fæst við bókhald“; fólk gæti líka sagt um mann sem keyrir jarðýtu að hann sé „ýtukall“ eða „gröfumaður“ frekar en „ýtustjóri“ eða „gröfustjóri“ og sjálfur myndi ég líklega kalla konu á gröfu „gröfukonu“ alveg eins og ég tala um „gröfukallinn Axel“ og segi örugglega oft  „hjúkrunarkona“ þegar ég tala um kvenkyns hjúkrunarfræðing.

Fólk  myndi einnig líklega frekar segja að manneskja sé ekki starfi sínu vaxin, sé léleg til vinnu, löt, óhæf eða duglaus og að hún hafi því verið rekin frekar en að segja að „frammistöðuvandi“ hafi komið upp í störfum viðkomandi og að þessi vandi hafi leitt til starfsloka hennar. Frammistöðuvandi er reyndar frábært stofnanaorð þar sem stofnun sem rekið hefur starfsmann getur ekki sagt að hann hafi verið lélegur til vinnu eða að viðkomandi hafi forframast langt yfir getu viðkomandi. En fólk af holdi og blóði talar ekki um „frammistöðuvanda“ og það segir líklega frekar hjúkrunarkona en hjúkrunarfræðingur þótt Landspítalinn eða heilbrigðisráðuneytið myndu aldrei senda frá sér opinbert erindi með þessu orði.

En það gilda bara allt aðrar óskrifaðar reglur um orðanotkun stofnana og stjórnmálamanna í opinberri umræðu en um orðanotkun fólks af holdi og blóði eins og Arnaldar Indriðasonar, Birgittu Haukdal og Auðar Övu sem vinna við að skrifa bækur um og fyrir fólk á öllum aldri.

Rithöfundar og fólk almennt á ekki endilega að hljóma eins og fréttatilkynning frá Orkuveitu Reykjavíkur. 

Þetta er hættan: Að hin eina rétta mælistika um rétt og rangt, út frá einhverjum gefnum viðmiðum í samfélaginu hverju sinni, sé ævinlega og alltaf borin upp á öll orð og öll hugtök, alveg sama í hvaða samhengi viðkomandi orð falla eða hvar þessi orð eða hugtök eru notuð. Að ekki sé horft á samhengið sem orðin falla í og eðli þess. Er orðið notað í fréttatilkynningu frá opinberri stofnun, kom það fram í viðtali við stjórnmálamann, barnaskólakennara, sjómann, öryrkja, lögmann, róna, rafvirkja eða sagði persóna í skáldsögu það eða sögumaður í leikriti? Þessi mælistika hefur líka þann eiginleika að hún getur ekki skilið kaldhæðni, grín eða margræðni orða heldur metur allt bókstaflega. 

Þegar nauðgun er karlagrín 

Í Klaustursmálinu svokallaða fyrir skömmu voru sagðar fréttir af því að tveir þingmenn segðu þingkonu hafa reynt að nauðga sér á böllum. Ef orð þingmannanna voru skilin bókstaflega þá lentu þeir þarna í hræðilegri lífsreynslu þar sem reynt var að beita þá kynferðisofbeldi. Þetta var það sem þeir sögðu: Þeir voru fórnarlömb nauðgunartilrauna ef orð þeirra voru skilin samkvæmt orðanna hljóðan og bókstaflega.

En þetta var ekki það sem þeir meintu.Er líklegt að fólk af báðum kynjum grínist með alvöru nauðgunartilraunir sem það mun hafa lent í?  Þingmennirnir voru að gera að grín að Metoo-byltingunni og  að stæra sig af því, ef túlka má orð þeirra, að kona hafi að sögn þeirra gerst svo kynferðislega ágeng við þá að hún hafi reynt að nauðga þeim. Þetta var karlagrobb þar sem grínið var að kona hefði gerst líkleg til að nauðga þeim. Þeir sögðust eiga sína „Metoo-sögu“, var það ekki hræsni að þessi þingkona talaði svona mikið og lengi um Metoo á þingi?

Kona myndi líklega aldrei hafa nauðganir í flimtingum með þessum hætti og djóka svona drýgindalega með þetta orð, „nauðgun“. Hún myndi nota önnur orð til að lýsa ágengri viðreynslu karlmanns á balli.

Þingmennirnir hefðu auðvitað aldrei notað þetta orð nema af því þeir voru að tala í einrúmi, eða þeir héldu það og vissu ekki að samtal þeirra var tekið upp, og þeir vissu auðvitað ekki þegar þeir sögðu þetta að „ásökun“ þeirra um nauðgun yrði fréttaefni. Út af því að orð þeirra voru endursögð bókstaflega, en ekki sem það kloflæga, óviðeigandi karlaspaug sem þau voru, þá var ekki annað hægt en að skilja málið þannig að þeir hafi verið raunveruleg fórnarlömb nauðgunartilrauna af því þetta var bókstaflega merking orða þeirra. En fólk segir auðvitað oft ýmislegt óvarlegt eða vanhugsað undir fjögur augu, sex eða átta. 

Orð þingmannanna urðu alvarleg af því þau voru skilin bókstaflega og eingöngu í huga þeirra sem það gerðu. Annars voru orð þeirra um nauðgunartilraunirnar meintu líklega léttvæg í sjálfu sér þó þau væru óvarleg. 

Fórnarlambið í þessu máli er hins vegar þingkonan, sú sem við lesturinn á uppskrift samtalsins af Klaustri virtist vera gerandi í ofbeldismáli, sem situr uppi með það að hafa verið vænd um nauðganir.

Þetta er samt það sem þingmennirnir sögðu en þetta er ekki það sem þeir meintu. Og ef maður segir frá því sem þeir sögðu þá þarf auðvitað að segja frá orðum þeirra sjálfra. Fjölmiðlar geta varla sagt frá orðum sem falla í frétt og svo túlkað þau ofan í lesandann eða áhorfandann og bent á hvenær sá sem talar var líklega að grínast, hvenær hann notaði hæðni, öfugmæli og svo framvegis. Segja þarf frá orðunum sjálfum og fólk þarf að túlka þau. 

Í fullkomnu samfélagi væri það auðvitað kannski ekki þannig að þingmenn sitji drukknir á bar og grínist með nauðganir. En veruleikinn er samt þannig eins og Klausturmálið sýnir fram á. Þá er samt kannski eðlilegt að taka nauðgunarspauginu sem gríni, eða einhverju sem sagt er í hálfkæringi til að skopast að Metoo-byltingunni,  en ekki sem alvöru af því það er það ekki.

„Svona á þetta að vera“

Eitt af því sem Karl Ove Knausgard benti á í greinum sínum um Svíþjóð var að alls staðar eru reglur sem fólk þarf að beygja sig sig undir og fylgja, reglur sem byggja á því hvernig hlutirnir „ættu að vera“. Í menningarverkum eins og bíómyndum er ekkert sem styggir eða hneysklar einstaka hópa í samfélaginu og ef það er þar þá er viðkomandi hugverki breytt þannig að það styggi engan. Knausgard talaði um að það væri gerð krafa um að fjallað væri um veruleikann eins og hann ætti að vera og ekki eins og hann er. 

Af því orðið „hjúkrunarkona“ truflaði einhverja hjúkrunarfræðinga og aðra þá var orðið tekið út úr bók Birgittu Haukdal af því útgefandinn hefur sjálfsagt áttað sig á því að orðið gæti spillt fyrir sölu bókarinnar þar sem fólk var byrjað að kalla eftir því á samfélagsmiðlum að bókin yrði ekki keypt í jólapakka. Á að fara eins með bók Auðar Övu Ólafsdóttur? Á að taka öll orðin, sem í dag eru bannorð, út úr bókinni af því þau stuða einhvern sem skilur ekki eða fattar ekki þá sögulegu notkun orðanna sem er í bókinni og af hverju hún er mikilvæg?

Ég er nokkuð viss að um orðin í bók Auðar Övu hefðu leitt til umræðu í Svíþjóð ef bókin hefði verið  gefin út þar í landi. Einhverjum hefði örugglega þótt orðin stuðandi, meiðandi, kränkande og kannski hefði verið ákveðið að breyta orðalaginu í næstu prentunum af Ungfrú Ísland.

Þannig er hægt að gelda og straumlínulaga öll orð, alla umræðu og allar menningarafurðir, og mögulega nota til þess efnahagslegan þrýsting, því það sem er sniðgengið selst ekki og sá sem selur ekki fær engan pening og sá sem fær engan pening getur ekki haldið áfram að búa til hugverk eða skapa eitthvað.

Þannig má stofnanavæða hugverk þannig að orðanotkunin í þeim samræmist ströngustu skilyrðum um fréttatilkynningar frá opinberum stofnunum: „Starfslok hjúkrunarfræðings með frammistöðuvanda“ gæti orðið kaflaheiti í næstu bók eftir Arnald Indriðason. 

Orð eru dýr en samhengi þeirra er kannski dýrara

Fyrir nokkrum árum kom upp annað mál í Svíþjóð sem einnig er sambærilegt við mál Birgittu Haukdal að vissu leyti. 

Þá bjuggu tveir kokkar  í Stokkhólmi til eftirrétt á 25 rétta smökkunarseðli sem þeir kölluðu „negrakúlur“, súkkulaðikúlur sem bornar voru fram í fanginu á styttu af blökkukonu. Einhverjir af gestum veitingastaðarins höfðu samband við fjölmiðla út af málinu og var hringt í kokkana og þeir spurðir hvort heiti réttarins orkaði ekki tvímælis.  Annar kokkanna sagði þá að þeir væru að leika sér með það að þeir hafi ekki mátt segja n-orðið þegar þeir voru litlir áður en þeir vissu eða áttuðu sig á því af hverju þeir mættu ekki segja orðið. Kokkarnir voru sem sagt fullkomlega meðvitaðir um orðavalið og voru meðal annars að vinna með hugmynd sem tengdist því einmitt að notkun n-orðsins orkar sannarlega tvímælis. En þeir voru samt reknir á stundinni um leið og fjölmiðlar komust á snoðir um málið þar sem eigandi staðarins sagðist ekki þola „neins konar rasisma og ekki heldur nein ummæli sem gætu túlkast sem rasísk“.

Kokkarnir voru samt á þessum tíma búnir að útskýra hver hugsun þeirra hafði verið með nafngiftinni og miðað við hana þá voru þeir ekki með neitt rasískt í huga þegar þeir bjuggu eftirréttinn til. Þeir voru að vinna með sögulega merkingu og sögulegan skilning n-orðsins. En þetta skipti engu máli, orð kokkanna, „negrakúlur“, voru skilin bókstafslegum skilningi og stimpluð sem mögulega rasísk og það var ekki reynt að skilja hvað þeir voru að tala um og á hvaða forsendum: Samhengi orða þeirra. 

Miðað við umræður liðinna vikna á Íslandi er umræðan kannski að verða meira og meira eins og í Svíþjóð að þessu leyti, þar sem nánast einræðisleg sýn á orð og réttmæta notkun þeirra ræður meira för en áður.  Að Birgitta og forlagið hafi beygt sig og breytt orðinu hjúkrunarkona í bók Birgittu finnst mér vont og má þá spyrja hvaða bók verður næst fyrst þarna er komið svona fordæmi. 

„Orð eru dýr“ er sagt, en samhengi orða er líka dýrt og því getur verið villandi að sjá og túlka orðin ekki í þessu samhengi sínu heldur taka þeim of bókstaflega.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Niðurbrotnar í kjölfar framkomu þerapista
1

Niðurbrotnar í kjölfar framkomu þerapista

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta
2

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Tveggja barna móðir missir húsnæðið eftir sölu Heimavalla á Akranesi: „Ég er búin að gráta af hræðslu“
3

Tveggja barna móðir missir húsnæðið eftir sölu Heimavalla á Akranesi: „Ég er búin að gráta af hræðslu“

Forsvarsmaður undirverktaka við Héðinshúsið segist ekki hafa grunað neitt
4

Forsvarsmaður undirverktaka við Héðinshúsið segist ekki hafa grunað neitt

Fjármál Heilsustofnunar í Hveragerði til skoðunar
5

Fjármál Heilsustofnunar í Hveragerði til skoðunar

Fjallið, snjórinn og við
6

Jón Trausti Reynisson

Fjallið, snjórinn og við

Mest lesið í vikunni

Niðurbrotnar í kjölfar framkomu þerapista
1

Niðurbrotnar í kjölfar framkomu þerapista

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta
2

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Stór lögregluaðgerð við byggingu hótels: Starfsmenn fluttir burt með lögreglu
3

Stór lögregluaðgerð við byggingu hótels: Starfsmenn fluttir burt með lögreglu

Átta handteknir við Héðinshúsið og níu leiddir af vinnustað
4

Átta handteknir við Héðinshúsið og níu leiddir af vinnustað

Skýringar Samherja stangast á við orð ríkissaksóknara Namibíu
5

Skýringar Samherja stangast á við orð ríkissaksóknara Namibíu

Feilskot að aðstoðarmaður ráðherra kalli „vini sína til leiks“ í máli bráðamóttökunnar
6

Feilskot að aðstoðarmaður ráðherra kalli „vini sína til leiks“ í máli bráðamóttökunnar

Mest lesið í vikunni

Niðurbrotnar í kjölfar framkomu þerapista
1

Niðurbrotnar í kjölfar framkomu þerapista

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta
2

Ég varð aldrei sá sami eftir þetta

Stór lögregluaðgerð við byggingu hótels: Starfsmenn fluttir burt með lögreglu
3

Stór lögregluaðgerð við byggingu hótels: Starfsmenn fluttir burt með lögreglu

Átta handteknir við Héðinshúsið og níu leiddir af vinnustað
4

Átta handteknir við Héðinshúsið og níu leiddir af vinnustað

Skýringar Samherja stangast á við orð ríkissaksóknara Namibíu
5

Skýringar Samherja stangast á við orð ríkissaksóknara Namibíu

Feilskot að aðstoðarmaður ráðherra kalli „vini sína til leiks“ í máli bráðamóttökunnar
6

Feilskot að aðstoðarmaður ráðherra kalli „vini sína til leiks“ í máli bráðamóttökunnar

Mest lesið í mánuðinum

Snjóflóð falla á Flateyri: Flóðbylgja fór yfir höfnina og stúlku bjargað úr snjóflóði
1

Snjóflóð falla á Flateyri: Flóðbylgja fór yfir höfnina og stúlku bjargað úr snjóflóði

Björgunarsveitarmaður lýsir léttinum þegar stúlkan fannst: „Tíu fullorðnir karlmenn grétu á sama tíma“
2

Björgunarsveitarmaður lýsir léttinum þegar stúlkan fannst: „Tíu fullorðnir karlmenn grétu á sama tíma“

Efnishyggjan gengur aftur
3

Jón Trausti Reynisson

Efnishyggjan gengur aftur

Lásu á netinu að Íslendingar beri virðingu fyrir konum og börnum
4

Lásu á netinu að Íslendingar beri virðingu fyrir konum og börnum

Svona er umhorfs á Flateyri eftir flóðin
5

Svona er umhorfs á Flateyri eftir flóðin

Vigdís sinnti fjölskyldu stúlkunnar sem grafin var úr flóðinu: „Sterkari konu hef ég aldrei séð“
6

Vigdís sinnti fjölskyldu stúlkunnar sem grafin var úr flóðinu: „Sterkari konu hef ég aldrei séð“

Mest lesið í mánuðinum

Snjóflóð falla á Flateyri: Flóðbylgja fór yfir höfnina og stúlku bjargað úr snjóflóði
1

Snjóflóð falla á Flateyri: Flóðbylgja fór yfir höfnina og stúlku bjargað úr snjóflóði

Björgunarsveitarmaður lýsir léttinum þegar stúlkan fannst: „Tíu fullorðnir karlmenn grétu á sama tíma“
2

Björgunarsveitarmaður lýsir léttinum þegar stúlkan fannst: „Tíu fullorðnir karlmenn grétu á sama tíma“

Efnishyggjan gengur aftur
3

Jón Trausti Reynisson

Efnishyggjan gengur aftur

Lásu á netinu að Íslendingar beri virðingu fyrir konum og börnum
4

Lásu á netinu að Íslendingar beri virðingu fyrir konum og börnum

Svona er umhorfs á Flateyri eftir flóðin
5

Svona er umhorfs á Flateyri eftir flóðin

Vigdís sinnti fjölskyldu stúlkunnar sem grafin var úr flóðinu: „Sterkari konu hef ég aldrei séð“
6

Vigdís sinnti fjölskyldu stúlkunnar sem grafin var úr flóðinu: „Sterkari konu hef ég aldrei séð“

Nýtt á Stundinni

Vandi Rússlands

Þorvaldur Gylfason

Vandi Rússlands

Tölur um plast, tölum um plast

Tölur um plast, tölum um plast

Vinnuveitendur við Héðinshúsið sæta rannsókn lögreglu

Vinnuveitendur við Héðinshúsið sæta rannsókn lögreglu

Tveggja barna móðir missir húsnæðið eftir sölu Heimavalla á Akranesi: „Ég er búin að gráta af hræðslu“

Tveggja barna móðir missir húsnæðið eftir sölu Heimavalla á Akranesi: „Ég er búin að gráta af hræðslu“

Áróðursmynd kveikti áhuga á sjónarhorni listamannsins

Áróðursmynd kveikti áhuga á sjónarhorni listamannsins

Óvinir alþýðunnar: Herská orðræða nýja sósíalistans

Óvinir alþýðunnar: Herská orðræða nýja sósíalistans

Ólánssaga úkraínskra flugvéla

Ólánssaga úkraínskra flugvéla

Borðar hreinna og hollara sem grænkeri

Borðar hreinna og hollara sem grænkeri

Fjármál Heilsustofnunar í Hveragerði til skoðunar

Fjármál Heilsustofnunar í Hveragerði til skoðunar

Manneskjan er mitt stærsta áhugamál

Manneskjan er mitt stærsta áhugamál

Vilhjálmur Birgisson sakar Heimavelli um siðlaus vinnubrögð á Akranesi

Vilhjálmur Birgisson sakar Heimavelli um siðlaus vinnubrögð á Akranesi

Frönsk verðlaunamynd hunsuð af Akademíunni

Frönsk verðlaunamynd hunsuð af Akademíunni