Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

„Þarf að vinna í mér og vera góð við mig“

Kar­in Sveins­dótt­ir brotn­aði al­gjör­lega nið­ur í kvíðakasti sumar­ið 2017. Með hjálp tókst henni að byggja sig upp og líð­ur í dag bet­ur held­ur en henni hef­ur lið­ið ár­um sam­an.

Karin Sveinsdóttir þurfti að byggja sig algjörlega upp eftir að hafa fengið alvarlegt kvíðakast sumarið 2017, svo alvarlegt að vinkona hennar þurfti að fara með hana á bráðageðdeild. Eftir á að hyggja var niðurbrotið sem Karin fékk þá kannski hennar gæfa því eftir það fékk hún aðstoð við að takast á við kvíða, þunglyndi og geðraskanir sem höfðu fylgt henni um langa hríð. Með aðstoð hefur Karin byggt sig sjálfa upp og líður betur í dag en henni hefur liðið árum saman.  

„Ég var ekki búin að borða eða sofa dögum saman og var bara grátandi“

„Ég er greind með þunglyndi og kvíða og hef verið greind með það í þónokkur ár. Síðasta sumar komst ég síðan að því að ég er með OCD, áráttu- og þráhyggjuröskun. Það eru alls konar tegundir til af svoleiðis röskun,  fólk er með þrifnaðaræði eða eitthvað í þeim dúr, en í mínu tilviki er þetta hugrænt, það er að segja þetta beinist að hugsunum mínum. Alltaf ef ég fékk einhverja hugsun í kollinn á mér sem ég vildi ekki hugsa þá réðst ég á hana og varð alveg heltekin af henni, í marga daga, jafnvel í mánuði. Þetta voru auðvitað yfirleitt alltaf slæmar hugsanir, ég gat séð eitthvað í kvikmynd sem mér fannst ógeðslegt og svo ekki hugsað um annað. Það var ansi erfitt að eiga við þetta.“

Var greind með OCD

Í júní á síðasta ári varð Karin fyrir algjöru niðurbroti sem endaði með því að vinkona hennar fór með hana upp á geðdeild. „Ég var ekki búin að borða eða sofa dögum saman og var bara grátandi. Þetta ástand var búið að vara í upp undir tvær vikur þegar vinkona mín tók í taumana og fór með mig upp á deild. Þar talaði ég við geðhjúkrunarfræðing og fékk alls konar hjálp. Ég fór á lyf og mætti í svona panic-hópa og sálfræðimeðferð og er bara að vinna ennþá með þetta allt, að laga mig. En þarna var ég sem sagt greind með OCD.“

Karin var, eins og áður segir, búin að vera að kljást við þunglyndi og kvíða um nokkurra ára hríð. „Það byrjaði þegar ég var svona fimmtán, sextán ára, þegar ég var að byrja í menntaskóla. Þessi veikindi urðu þess valdandi að ég entist ekki í framhaldsskóla, ég kláraði tvö ár áður en ég hætti bara að mæta því mér leið svo illa á þeim tíma. Ég endaði með því að hætta í skólanum og fór að vinna. Ég hef ekki ennþá getað tekið upp þráðinn í námi en ég stefni að því og ég veit að núna get ég það. Ég er bara að skoða hvað ég eigi að gera, ég á auðvitað ennþá eftir að taka stúdentsprófið en mig langar líka að fara og læra leiklist í framhaldinu. Ég vinn sem verslunarstjóri í Spútnik og líður mjög vel þar þannig að það liggur ekkert á en ég er samt að pæla í framtíðinni.“

Hafði áhrif á tónlistina

Karin er tónlistarkona og hefur starfað undir nafninu Young Karin, fyrst með Loga Pedro en í seinni tíð upp á eigin spýtur. Spurð hvort að kvíðinn og geðraskanirnar hafi haft áhrif á tónlistarsköpun eða flutning segir hún að það hafi vissulega gert það. „Sérstaklega þegar ég var yngri. Ég var mjög hrædd við alla gagnrýni. Eftir að hafa horfst í augu við vandann þá varð ég samt sjálfsöruggari í minni sköpun. Ég verð svo sem alveg ennþá kvíðin áður en ég stíg á svið og ég er ennþá að díla við allt mitt á hverjum degi. Ég er hins vegar búin að játa fyrir mér að ég er andlega veik, búin að viðurkenna það og sætta mig við það og það er miklu auðveldara ða eiga við það í staðinn fyrir að vera í einhverri afneitun.“

„Ég hætti að drekka kaffi, ég hætti að reykja, hætti að drekka áfengi og fór að hreyfa mig“
Þarf að sinna sjálfri sér„Ég er alltaf að vinna í mér, á hverjum degi, að tala um tilfinningar mínar og rækta mig. Ég get ekkert hætt núna og hugsað: „Hei, ég er bara orðin góð“, segir Karin.

Karin segir að eftir að hún fór að vinna í sínum málum hafi nálgun hennar á tónlistina breyst að því marki að hún sé núna í meira mæli að vinna að því að gera sitt eigin efni. Áður hafi hún mestmegnis sungið texta sem Logi hafi samið og sett sína tilfinningu í flutninginn en núna langi hana að gera sitt eigið. „Ég er svona að vinna í því að gera mitt eigið efni, texta og svona. Það eiginlega gerðist ekki fyrr en eftir að ég fékk þetta mikla kvíðakast, ég fór að treysta mér betur eftir að ég var orðin  stabílli. Það hvað mér líður miklu betur núna er að hafa jákvæð áhrif á mína listsköpun, rétt eins og á allt annað í mínu lífi.“

Allt er mögulegt

Karin segir að í dag líði henni eins og allt sé mögulegt en áður hafi flest verið ómögulegt. „Ég vissi ekki hvernig ég átti að díla við þetta, að fá reiðiköst yfir einhverju sem ég vissi ekki hvað var og svo samviskubit yfir að gera ekki alls konar hluti sem ég treysti mér ekki til að gera. Þetta er svo mikill vítahringur en það er svo mikill léttir þegar manni tekst að rjúfa hann.

Mér líður mjög vel í dag. Mér líður mikið betur heldur en mér hefur liðið svo árum skipti. Þegar ég fór í þetta stóra kvíðakast á síðasta ári og fékk hjálp þá tók ég mjög mikið til hjá sjálfri mér. Ég hætti að drekka kaffi, ég hætti að reykja, hætti að drekka áfengi og fór að hreyfa mig meðfram því að nýta mér hjálpina sem ég fékk. Eitt það mikilvægasta sem hægt er að gera er líka að tala um það þegar manni líður illa. Ég fann alvega hvað hugurinn róaðist þegar ég gat talað um líðanina upphátt, hvort sem það var við fagfólk, við fjölskylduna mína, kærastann minn eða vini. Ég var alltaf með svo mikið samviskubit yfir því að líða illa og yfir því að virka ekki að hausinn á mér varð enn ruglaðri ef ég talaði ekki um það. Það er það mikilvægasta sem ég hef lært, að tala um vanlíðanina og þessar hugsanir. Ég hef líka lært að treysta sjálfri mér og leyfa hugsunum mínum að koma og fara, í staðinn fyrir að greina þær í drasl. Þetta kenndi sálfræðingurinn mér, að leyfa hugsunum bara að koma og fara í staðinn fyrir að mikla þær fyrir mér í höfðinu. Og það er alveg vandasamt sko, það er meira mál en maður heldur. En þegar það tekst þá kemur í ljós að hugsanirnar sem maður var alveg fastur í voru eitthvað sem engu máli skipti. Þetta er alveg eins og með kvíða, þegar maður loks gerir hlutina sem maður kvíðir að gera þá eru þeir kannski bara ekkert mál.“

„Ég hef líka lært að treysta sjálfri mér og leyfa hugsunum mínum að koma og fara, í staðinn fyrir að greina þær í drasl“ 

Karin segir að lykilatriðið í því að höndla hamingjuna eftir að hafa þurft að kljást við geðraskanir af þessu tagi sé að halda áfram að vinna í sjálfum sér og sækja sér aðstoð eftir þörfum. „Ég tók pásu í sumar í sálfræðimeðferð en ég er alltaf að vinna í mér, á hverjum degi, að tala um tilfinningar mínar og rækta mig. Ég get ekkert hætt núna og hugsað: „Hei, ég er bara orðin góð.“ Það myndi bara enda með því að ég brotlenti aftur. Ég þarf bara að vinna í mér og vera góð við mig, alltaf. Allir sem eru í þeirri stöðu að líða illa þurfa að muna að tala um það, bara við einhvern, og leita sér að hjálp. Það er ógnvekjandi að þurfa að gera það en það gerir svo ofsalega mikið fyrir mann.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Hamingjan

Endurheimti hamingjuna með aðstoð og breyttu hugarfari
Hamingjan

End­ur­heimti ham­ingj­una með að­stoð og breyttu hug­ar­fari

Eva Hrund Ein­ars­dótt­ir gekk á vegg fyr­ir mörg­um ár­um en hún upp­lifði kuln­un með­al ann­ars vegna of­þjálf­un­ar. Hún fékk alls kon­ar hjálp til að kom­ast yf­ir ástand­ið og end­ur­heimta ham­ingj­una. „Helsti lær­dóm­ur­inn var að læra að segja nei, að lifa í nú­inu, nýta tím­ann með þeim sem mað­ur elsk­ar sem og verja tím­an­um í hluti sem veita manni já­kvæða orku.“
Fjallgöngur veita hamingju
Hamingjan

Fjall­göng­ur veita ham­ingju

Jó­hanna Fríða Dal­kvist seg­ir að sér finn­ist að fólk geti ekki alltaf ver­ið „sky high“; það sé ekki ham­ingj­an að vera alltaf ein­hvers stað­ar á bleiku skýi. Hún seg­ir að fólk þurfi að kunna og ákveða hvernig það ætli að bregð­ast við ef það finn­ur fyr­ir óham­ingju. Það þurfi að ákveða að vinna sig út úr því og tala um hlut­ina. Fjall­göng­ur hjálp­uðu Jó­hönnu Fríðu í kjöl­far sam­bands­slita á sín­um tíma og síð­an hef­ur hún geng­ið mik­ið á fjöll og er meira að segja far­in að vinna sem far­ar­stjóri í auka­vinnu.
Maður varð heill
Hamingjan

Mað­ur varð heill

Guð­mund­ur Andri Thors­son seg­ir að þeg­ar eitt­hvað kem­ur upp á í líf­inu verði mað­ur bara að standa á fæt­ur aft­ur, hrista sig og halda áfram. Það að vinna úr hlut­un­um á já­kvæð­an hátt sé alltaf ákvörð­un. Guð­mund­ur Andri og eig­in­kona hans gátu ekki eign­ast barn og ákváðu því að ætt­leiða og eiga tvær upp­komn­ar dæt­ur. Þeg­ar hann hafi feng­ið eldri dótt­ur­ina í fang­ið þá hafi hann orð­ið heill.
„Ég þurfti að samþykkja sjálfa mig fyrir það sem ég er“
Hamingjan

„Ég þurfti að sam­þykkja sjálfa mig fyr­ir það sem ég er“

Ingi­leif Frið­riks­dótt­ir var góð í að fela það hvernig henni leið í æsku. Um ára­bil var hún skot­spónn bekkj­ar­fé­laga sinna og upp­lifði sig eina þótt hún ætti vin­kon­ur. Hún þorði ekki að koma út úr skápn­um en til að losna við til­finn­inga­doð­ann varð hún að horfa í speg­il og finna sjálfa sig. „Það var risa­stórt og ótrú­lega ógn­væn­legt skref,“ seg­ir Ingi­leif sem er nú ham­ingju­sam­lega gift. Fjöl­skyld­an er henni allt.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár