Illugi Jökulsson

Ástin gerð útlæg

George Orwell spann sína skelfilegu framtíðarsýn 1984 ekki bara upp úr sjálfum sér. Hann studdist m.a. við lítt þekkta smásögu eftir Jerome K. Jerome.

Illugi Jökulsson

George Orwell spann sína skelfilegu framtíðarsýn 1984 ekki bara upp úr sjálfum sér. Hann studdist m.a. við lítt þekkta smásögu eftir Jerome K. Jerome.

Ástin gerð útlæg

Sonur minn ungur var að lesa 1984 eftir George Orwell í menntaskólanum sínum og því fór ég að rifja upp kynni mín af framtíðarlýsingu Orwells þar sem alræði er orðið algjört og niðurbrot einstaklingsins blasir ekki bara við, heldur er það talið eftirsóknarvert og æskilegt.

Sjálfum fannst mér þetta hryllileg og í raun ótrúleg sýn þegar ég las bókina fyrst og gat varla ímyndað mér hvernig Orwell hefði haft hugmyndaflug til að láta sér detta í hug svo ógurlegt samfélag sem birtist í bók hans. Seinna áttaði ég mig auðvitað á því að bæði byggði Orwell á reynslu af alræðisríkjum fasista og kommúnista þegar hann bjó til sína veröld, en byggði líka á eldri bókum. Meðal fyrirrennara hans má nefna Aldous Huxley sem skrifaði í Fögru veröld um ofskipulagðan framtíðarheim þar sem fólki er haldið í skefjum með „gleðidópi“ og svo hin frábæra bók Við eftir Rússann Samjatín.

Hin nýja útópíaeftir Jerome K. Jerome.

„Hin nýja útópía“

En nú rakst ég líka á litla smásögu sem líka hefur orðið  ýmsum „dystópíuhöfundum“ innblástur, þótt fáir þekki hana núna. Þetta er sagan Hin nýja Útópía eftir enska rithöfundinn Jerome K. Jerome sem þekktastur er fyrir léttar og skemmtilegar ferðasögur kringum aldamótin 1900. Árið 1891 birti hann söguna í blaði og á yfirborðinu er verið að hæðast að hugmyndum sósíalista um jöfnuð. Jerome skemmtir sér við að hugsa hvert kröfur um algjöran jöfnuð geta leitt.

En þó hann sé léttur í lund, þá birtast í sögunni allir þeir þættir sem höfundar á borð við H.G. Wells, Samjatín, Huxley og alveg sérstaklega Orwell þróuðu síðan.

„Byltingin mikla 1899“

Sagan segir frá því að maður nokkur í London fer út að skemmta sér með vinum og fer svo heim í bælið.

Svo vaknar hann að lokum og er þá undir glerhjálmi miklum og á skilti þar hjá stendur:

„Þessi maður fannst sofandi í húsi í London eftir byltinguna miklu árið 1899, og að því er virðist hafði hann þá þegar sofið í meira en tíu ár, enda hafði gleymst að vekja hann. Ákveðið var í þágu vísindanna að vekja hann ekki, heldur sjá hversu lengi hann svæfi og hann var því fluttur á þetta safn furðugripa í febrúar 1900.“

Allir eru nú jafnir

Sögumaðurinn kemur fljótlega auga á gamlan fausk sem er að hagræða uppstoppuðum eðlum þarna á safninu og spyr hann hvað sé á seyði. Þá kemur á daginn að sögumaður hefur sofið í þúsund ár og er mest hissa á því hve hress hann er eftir svo langan svefn. Gamli maðurinn fer svo með hann í skoðunarferð um nágrennið og þá kemur í ljós að ýmislegt hefur að vonum breyst á þessum þúsund árum.

Í fyrsta lagi segir leiðsögumaðurinn að nú séu allir jafnir. Sorgir og syndir hafi þar með verið gerðar útlægar úr veröldinni.

„Ég mundi segja að jörðin sé orðin því sem næst fullkomin,“ bætir hann við. „Enginn kemst nú upp með að gera neitt rangt eða heimskulegt.“

Rafmagnsbílar í stað hesta

Lundúnaborg sjálf var gerbreytt. Allar götur voru þráðbeinar og hornréttar, öll hús litu nákvæmlega eins út og allt var mjög snyrtilegt. Hvorki sáust hross né hestvagnar heldur liðu rafmagnsvagnar um göturnar. Mennirnir sem sögumaður og leiðsögumaður hans mættu voru allir alvarlegir á svip, heldur þungbúnir jafnvel, allir eins klæddir í gráar buxur og gráan jakka með belti um sig miðja. Og allir eru skegglausir með nákvæmlega sama svarta háralitinn og virðast svo líkir að sögumanni dettur helst í hug að þeir séu allir nánir ættingjar.

Ekkert ljósgullið hár

Leiðsögumaðurinn rekur upp stór augu þegar hann er spurður um þetta.

„Af hverju í ósköpunum heldurðu það?“ spyr hann.

„Þeir eru allir svo líkir og allir með sama háralitinn.“

„Nú, reglurnar segja það að allir eigi að hafa sama háralit,“ segir leiðsögumaðurinn. Hann útskýrir að þeir sem ekki eru svarthærðir láti lita á sér hárið svo allir séu eins. Og af hverju? Jú, ef allir eiga að vera jafnir, þá gengur auðvitað ekki að sumir flaggi ljósgullnu hári meðan aðrir verða að sætta sig við einhvern gulrótarlit. Menn eru ekki aðeins jafnir, heldur verða þeir líka að líta út fyrir að vera það.

„En af hverju svarthærðir?“ spyr sögumaður.

„Nú, það er það sem var ákveðið,“ segir leiðsögumaðurinn.

„Af hverjum?“

„Nú, auðvitað af MEIRIHLUTANUM,“ svarar gamli maðurinn lotningarfullur.

Konur alveg eins og karlar

Svo kemur í ljós, sögumanni til mikillar furðu, að helmingur fólksins á götunum reynast vera konur en þær líta alveg eins út og karlarnir. Það er líka samkvæmt ákvörðun MEIRIHLUTANS að konur skeri sig í engu frá körlum í útliti. Enn fremur hafa öll nöfn verið lögð niður en í staðinn ber fólk númer, karlar oddatölur en konur jöfn númer.

Sögumaður spyr hví nöfn séu ekki leyfð og svarið er að það hafi falist svo mikill ójöfnuður í nöfnum. Sumir hafi borið flott nöfn eins og Montmorency en aðrir heitið bara Smith. Og þar sem fólk með algeng ómerkileg nöfn eins og Smith og Jones hafi verið í MEIRIHLUTANUM þá hafi verið ákveðið að útrýma öllum nöfnum.

Bannað að þvo sér

Fleira kemur í ljós. MEIRIHLUTINN ákvað að fella niður auðæfi svo nú eiga allir nákvæmlega jafn mikið og svo er fólki þar á ofan bannað að þvo sér.

Það er ríkið sem sér um að þvo fólki. Sérstakt fólk er haft í því og notar vélar. Ástæðan er sú að fólk þvoði sér í gamla daga nokkuð misvel, sem þýddi að það var ekki að öllu leyti jafnt. Sumir voru hreinni og snyrtilegri en aðrir. Þá ákvað MEIRIHLUTINN að til að jöfnuðurinn yrði örugglega algjör á þessu sviði sem öðrum, þá myndi ríkið eftirleiðis sjá um alla þvotta.

Einkaheimili hafa líka verið aflögð, fólk sefur í stórum sölum í húsakynnum ríkisins, allir borða nákvæmlega það sama og eru – að sögn – hæstánægðir með jöfnuðinn í matseld og næringu. Í matinn er fyrst og fremst hafragrautur, en einnig baunir og ávextir.

„Hjón voru lögð niður fyrir 200 árum“

„En hvar halda hjón sig?“ spyr sögumaður.

„Það eru engin hjón lengur,“ segir leiðsögumaðurinn. „Þau voru lögð niður fyrir 200 árum … Hjónalíf reyndist vera mjög óhollt sósíalisma og jafnrétti. Fólk hneigðist til að hafa meira álit á og hugsa betur um sína nánustu heldur en aðgang mannsins.“

Fólk leitaðist við að safna einhverju aukalega fyrir ástvini sína í stað þess að leggja það í púkk handa samfélaginu og fjöldanum. Og til að vinna sig í álit hjá konum sínum og börnum sóttust karlarnir eftir því að vinna einhver afrek sem urðu til þess að þeir sköruðu fram úr og þar af leiðandi voru ekki allir jafnir lengur. Fjölskyldum fylgdi bæði gleði og sorg og hvort tveggja dró úr hinni algjöru sátt hins algjöra jafnaðar.

„Leiðum fólk saman eins og hross eða kýr“

„Ástin er óvinur okkar,“ sagði leiðsögumaðurinn. „Hún útrýmir jöfnuði en ýtir undir einstaklingshegðun … Nú lifum við öll án ástar en þá líka án sorgar … Engir kossar, engin tár.“

Sögumaðurinn spyr þá kurteislega hvernig mannkyninu sé viðhaldið.

„Það er einfalt mál,“ segir leiðsögumaðurinn. „Við leiðum fólk saman eins og hross eða kýr, undir læknisfræðilegu eftirliti og fjöldinn fer eftir því hve mörgum samfélagið þarf á að halda. Svo eru börnin ræktuð vísindalega í móðurkviði og strax og þau eru fædd eru þau fjarlægð frá mæðrum sínum, því annars gætu þær farið að elska þau! Börnin eru svo alin upp á ríkisstofnunum og loks rannsökuð af sérstökum embættismönnum sem kveða upp úr með hvar þau verða sett niður í samfélaginu. Tvítug að aldri eru þau fullgildir aðilar í samfélaginu og fá kosningarétt.“

Kosið um hvaðeina

Kosið er um hvaðeina í þessu fullkomna samfélagi en MEIRIHLUTINN hefur alltaf rétt fyrir sér og hefur allan rétt. Minnihlutinn hefur engan rétt, enda væri slíkt til vandræða, segir leiðsögumaðurinn og myndi ýta undir ójöfnuð og einstaklingshyggju. Öll list hefur verið lögð á hilluna og bönnuð, enda ýta listaverk undir samkeppni listamannanna sjálfra og hugkvæmni, sem er þá á kostnað annarra, og öflug listaverk kveikja órólegar hugsanir í huga áhorfenda eða lesenda. Slíkt taldi MEIRIHLUTINN ekki æskilegt.

En þótt listin hafi verið gerð útlæg, þá eru samt trúarbrögð í þessum nýja heimi, segir leiðsögumaðurinn að lokum. Og nýi guðinn heitir MEIRIHLUTINN.

Þegar sá sofandi vaknar

Þessi stutta saga Jerome Jerome endar svo auðvitað á því að sögumaðurinn vaknar af illum draumi. Sagan er í rauninni gamansaga og helst sett fram til að vara við jöfnunaráráttu sósíalista, en þessi saga hefur greinilega kveikt meiri og dýpri hughrif í brjósti lesenda. H.G. Wells notaði hugmynd Jerome beint í skáldsögunni Þegar sá sofandi vaknar frá 1899 þar sem líka kemur fyrir maður sem vaknar af mjög löngum svefni og heimurinn hefur á meðan breyst í alræðisveröld, þótt með nokkuð flóknari hætti en hjá Jerome.

Fyrst bóka bönnuð í Sovétríkjunum

Ljóst er líka að saga Jerome hafði mikil áhrif á Samjatín sem skrifaði árið 1920 skáldsöguna Við, sem gerist í furðu svipuðu samfélagi og Jerome Jerome lýsir. Fólk ber númer, jöfnuði er þvingað upp á fólk, bak við býr grimm valdhyggja. En í skáldsögu Samjatíns er þetta ekki fyndið eins og í sögu Jeromes, heldur nöturleg og skuggaleg framtíðarsýn.

Sem bæði Aldous Huxley og George Orwell notuðu þegar þeir sköpuðu sínar dystópíur.

Og það má hafa það til marks um hve skarpskyggn Samjatín var að bók hans var fyrsta ritverkið sem kommúnistastjórn Leníns lét banna eftir valdaránið 1918.

Jerome hafði nokkuð fyrir sér þegar hann lét MEIRIHLUTANN banna bækur í sinni sögu.

Tengdar greinar

Flækjusagan

Má leiðrétta Faðirvorið?

Illugi Jökulsson

Má leiðrétta Faðirvorið?

Illugi Jökulsson
·

Frans páfi hefur látið það boð út ganga að orðin: „Eigi leið þú oss í freistni“ í bæninni, sem Jesúa frá Nasaret kenndi lærisveinum sínum, séu þýðingarvilla. En er það svo?

Ósigur verður glæstur sigur

Illugi Jökulsson

Ósigur verður glæstur sigur

Illugi Jökulsson
·

Persa vantaði sárlega sagnaritara. Jafnvel sigrar þeirra urðu að ósigrum í ritum Grikkja.

Hinn dularfulli uppruni hesta: „Draugar“ frá Íberíu og Síberíu

Illugi Jökulsson

Hinn dularfulli uppruni hesta: „Draugar“ frá Íberíu og Síberíu

Illugi Jökulsson
·

Viðamesta DNA-rannsókn sem gerð hefur verið á annarri dýrategund en mönnum hefur kollvarpað flestu því sem við töldum okkur vita um uppruna hesta. Og um leið leitt í ljós hætturnar við „hreinræktun“.

„Mun ég þó seðja þig á blóði“

Illugi Jökulsson

„Mun ég þó seðja þig á blóði“

Illugi Jökulsson
·

Haukarnir í Bandaríkjunum virðast ráðnir í að etja Donald Trump út í stríð gegn Íran eða hinni fornu Persíu. Það gæti endað eins og stríð Persa sjálfra gegn Massagetum, nema með Bandaríkjamenn í hlutverki Persa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Fékk kökk í hálsinn: „Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér“

Fékk kökk í hálsinn: „Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér“

·
Betri hugmynd handa Óla Birni

AK-72

Betri hugmynd handa Óla Birni

·
Fylgi Sjálfstæðisflokksins komið niður í 19 prósent

Fylgi Sjálfstæðisflokksins komið niður í 19 prósent

·
Ásmundur þakkar fyrir „ómetanlegan stuðning“ í akstursmálinu

Ásmundur þakkar fyrir „ómetanlegan stuðning“ í akstursmálinu

·
Zeitgeist

Hermann Stefánsson

Zeitgeist

·
Nýnasistar dreifa áróðri í Mosfellsbæ

Nýnasistar dreifa áróðri í Mosfellsbæ

·
Tengdafaðir Bjarna segir „bull“ að hann ætli að hætta í stjórnmálum

Tengdafaðir Bjarna segir „bull“ að hann ætli að hætta í stjórnmálum

·
„Sæll Bóbó“: Svona selur Samherji sér fisk frá Íslandi til útlanda

„Sæll Bóbó“: Svona selur Samherji sér fisk frá Íslandi til útlanda

·
Hvernig dirfistu?

Símon Vestarr

Hvernig dirfistu?

·
Eitt Kína, margar mótsagnir

Eitt Kína, margar mótsagnir

·
Réttlæta aðkast gegn múslimum: „Kærum okkur ekki um íslamska menningu“

Réttlæta aðkast gegn múslimum: „Kærum okkur ekki um íslamska menningu“

·
Katrín Jakobsdóttir segir ummæli Donalds Trump „óboðleg“ og dæma sig sjálf

Katrín Jakobsdóttir segir ummæli Donalds Trump „óboðleg“ og dæma sig sjálf

·