Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Ævintýraleg ævi Ómars

Fá­ir Ís­lend­ing­ar hafa lát­ið til sín taka í um­hverf­ispóli­tík­inni með jafn mikl­um hætti og Óm­ar Ragn­ars­son. Hann hef­ur mikl­ar áhyggj­ur af sókn stór­iðj­unn­ar og hvernig fari muni fyr­ir nátt­úruperl­um lands­ins. Þá fagn­ar Óm­ar 60 ára skemmt­ana­af­mæli í ár og það hef­ur aldrei ver­ið jafn mik­ið að gera hjá hon­um og nú þeg­ar hann er hætt­ur að vinna.

Það hefur aldrei verið jafn mikið að gera hjá Ómari Ragnarsyni en nú þegar hann er hættur að vinna. Um áramótin fagnar hann 60 ára skemmtanaafmæli og stendur til að fagna því almennilega. Þá er hann með sjö kvikmyndir og fjórar bækur í vinnslu en veit þó að honum er eflaust ekki markaður nægur tími í lífinu til að klára öll verkefnin á listanum. Á undanförnum þremur árum hefur Ómar tekið þátt í því sem hann kallar orkubyltinguna. Hann fer allar sínar ferðir annaðhvort á rafhjóli, vespuvélhjóli eða á minnsta rafmagnsbíl landsins. Á litríkum ferli sínum hefur Ómar komið víða við en á síðastliðnum árum má segja að baráttan fyrir náttúrunni hafi verið Ómari hugföngnust. Þá hefur hann dvalið löngum stundum á hálendinu við kvikmyndagerð,  við frumstæðan kost og fórnað öllu fyrir tækifærið til að sýna og vernda fegurð og verðmæti íslenskra náttúrufyrirbæra.

Ómar, klæddur í gult endurskinsvesti, með mótorhjólahjálm á höfðinu og í vélhjólaklossum  og - hönskum mætir á skrifstofu Stundarinnar við Austurstræti í Reykjavík. „Ég kom á rafmagnsreiðhjólinu úr Grafarvogi en þar búum við Helga konan mín í dag. Um hálsinn hefur hann vafið rauðleitum trefli sem hann fékk í jólagjöf frá Helgu síðustu jól og hentar hann sérstaklega vel fyrir ferðalög á hjóli. „Ég nota rafreiðhjólið eða vélhjólið allar vikur ársins.“

 

Ómar hefur umbylt ferðavenjum sínumAllar vikur ársins ferðast Ómar um á rafknúnu reiðhjóli eða vespumótorhjóli. Hann fór meira að segja á rafhjólinu alla leið frá Akureyri til Reykjavíkur. Þá á hann minnsta og langódýrasta rafbíl landsins. Mynd: Heiða Helgadóttir

Tilviljanir verið örlagavaldar í lífi Ómars

Kynni Íslendinga af Ómari hófust þegar hann var aðeins 18 ára gamall drengur í Menntaskólanum í Reykjavík. Á þeim tíma stóð Ómar í ströngu við að byggja fjölbýlishús við Austurbrún 2 í byggingasamvinnufélagi. Íslenskt samfélag litaðist þá af mikilli verðbólgu og þurfti Ómar því ásamt öðrum í samvinnufélaginu að taka þátt í byggingu hússins. Hann vann öll kvöld og allar helgar til þess að fjármagna íbúðina.

„Mér hafði gengið mjög vel á drengjameistaramóti Íslands og því var skorað á mig í einhverjum fíflagangi í víðavangsþrístökk á lóðinni við Austurbrúnina. Það fór nú þó ekki betur en svo að þrístökkið varð bara eitt stökk því ég kom svo illa niður í hóffar að ökklinn fór næstum í sundur.“ Þá voru góð ráð dýr, Ómar lá með löppina upp í loftið í margar vikur og sá fyrir sér að hann myndi missa íbúðina. Vorið áður hafði Ómar skemmt á árshátíð Menntaskólans í Reykjavík. Á meðan hann lá slasaður og undi illa iðjuleysinu fór hann að spekúlera hvort hann gæti ekki mögulega samið heila skemmtidagskrá.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár