Mest lesið

Ég er ekki með sjúkdóm
1

Ég er ekki með sjúkdóm

·
Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag
2

Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag

·
Ekkert skelfilegt að verða fertug
3

Ekkert skelfilegt að verða fertug

·
Forseti Landsréttar greiddi atkvæði gegn bókun dómstólasýslunnar
4

Forseti Landsréttar greiddi atkvæði gegn bókun dómstólasýslunnar

·
Þegar stórfyrirtæki draga ríki fyrir dóm
5

Þegar stórfyrirtæki draga ríki fyrir dóm

·
Börn fá pítsu ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli
6

Börn fá pítsu ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli

·
Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“
7

Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“

·
Stundin #89
Mars 2019
#89 - Mars 2019
Prentútgáfa Stundarinnar kemur næst út þann 22. mars.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Hvers virði eru völdin?

Er þess virði að komast til valda ef það felur í sér að þú þarft að réttlæta ranglæti?

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Er þess virði að komast til valda ef það felur í sér að þú þarft að réttlæta ranglæti?

Hvers virði eru völdin?

„Skömm! Skömm! Skömm!“ öskruðu mótmælendur að henni, og gestir mexíkóska veitingastaðarins þar sem hún sat að snæðingi tóku undir. Ekki var liðinn mánuður síðan hún hafði lagt drög að uppsagnarbréfi eftir skammarræðu forseta sem taldi hana ekki ganga nógu hart fram í innflytjendamálum. Stefna hans var  „zero tolerance“, ekkert umburðarlyndi. Uppsagnarbréfið var aldrei sent, og nú gekk hún fram sem skjöldur hans þegar hún tók sér stöðu frammi fyrir fjölmiðlum í Hvíta húsinu og varði þá ákvörðun að aðskilja 2.300 börn frá foreldrum sínum.

Bandaríkin eru eina aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem hafa ekki fullgilt Barnasáttmálann, og á dögunum yfirgáfu þau Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna með þeim orðum að það væri  „for­ar­pyttur póli­tískr­ar hlut­drægni“. Forsetinn kallar vestræna þjóðarleiðtoga „veika“ og stillir sér upp með einræðisherrum. Og þegar hann þurfti að svara fyrir aðskilnaðarstefnuna sagði hann þessar grimmilegu aðgerðir nauðsynlegar: „Ég vil ekki taka börn af for­eldr­um sín­um. Þegar þú sæk­ir for­eldra til saka fyr­ir að koma ólög­lega til lands­ins, sem á að gera, þá verður þú að taka börn­in af þeim.“

„Þá verður þú að taka börn­in af þeim“

Forsetinn ber ábyrgð á framgöngu sinni, en þeir bera einnig ábyrgð sem framfylgja stefnu hans og styðja hann – allur þessi hópur fólks sem stöðugt reynir að færa mörk hins samþykkta, sannfæra okkur um að rangt sé rétt, vegna þess að það hagnast á því. Af því að leiðtogar hafa ekki völd nema fólk veiti þeim völd, og velji að fylgja þeim. Þannig var forseti Bandaríkjanna hrakinn frá því að taka börn frá foreldrum sínum við komuna til landsins og nota sem pólitíska skiptimynt. Aðgerðirnar vöktu of mikla reiði, minntu um of á illvirki fyrri tíma. 

Að réttlæta ranglæti

Verst er að fylgjast með fréttaflutningi frá Bandaríkjunum og víðar þegar það blasir við að þeir komast í áhrifastöður sem eru tilbúnir til að verja það sem er rangt og vinna markvisst að því að skekkja myndina af veruleikanum. Standa frammi fyrir fjölmiðlum og reyna að réttlæta aðgerðir forseta sem fjarlægir börn frá foreldrum sínum og setur í búr, skellir skuldinni á foreldrana og þing sem neitar að ganga við öllum kröfum forsetans, á meðan nístandi grátur barnanna sker inn að beini. Erfitt er að skilja þá sem velja starfsframa í slíku umhverfi, þar sem starfið felst í því að færa mörk hins mögulega, hverfa frá siðferðiskennd og mannúð, höfða til lægstu hvata kjósenda, í pólitískum ávinningi. Til þess eins að ná eða viðhalda völdum. Er það raunverulega þess virði?

Jafnvel þótt hér sé enginn Trump, enginn sem gengur fram með jafn svívirðilegum hætti og hann hefur gert, hefur þessi sama spurning kviknað þegar fylgst er með stjórnmálum hér á landi, hvers virði eru völdin? Af því að hér höfum við líka horft upp á fólk réttlæta ranglæti, til þess að viðhalda völdum.  

Trúin á einstaklinginn

Katrín Jakobsdóttir er sá leiðtogi á Íslandi sem hefur mest persónufylgi. Hún hefur mælst með mest traust, flestir vildu hana sem forseta og langflestir vildu hana sem forsætisráðherra. Hún leiðir flokk sem hefur staðið fyrir gildi kvenfrelsis og jafnréttis, umhverfisverndar og náttúru, félagslegs réttlætis og friðar. Hún var önnur tveggja kvenna á lista yfir hundrað áhrifamestu einstaklinga í jafnréttismálum og flutti fyrstu opinberu ræðu sína á þingi alþjóðasamtakanna Women Politcal Leaders, þar sem hún uppskar mikið lófaklapp og ráðstefnugestir stóðu á fætur þegar hún var kynnt til sögunnar.

Önnur áhrifakona í íslenskum stjórnmálum kynnti Katrínu til leiks, Hanna Birna Kristjánsdóttir.  „Ég veit að Katrín verður frábær forsætisráðherra. Hún er ekki aðeins klár, góðhjörtuð og hugrökk heldur leyfir hún sér að vera kona í stjórnmálum, gera hlutina öðruvísi og hefur hugrekki til að gera hlutina ekki bara eins og þeir hafa verið gerðir,“ sagði Hanna Birna.

Á forsendum annarra

Sjálf átti Hanna Birna draum um að breyta stjórnmálum, sagði hún í viðtali við RÚV á dögunum, en sér hefði alltaf liðið eins og gesti í stjórnmálum, þar sem konur væru meðhöndlaðar öðruvísi en karlar. „Við erum gestir í karlamenningu, í umhverfi sem hefur verið mótað af þeim í langan tíma … Valdið í hefðbundnum skilningi er bara miðaldra karlmaður í jakkafötum með dimma rödd.“ Allt frá byrjun hafi hún fundið að veruleikinn var ekki í takt við væntingar hennar um að gera hlutina öðruvísi og draumar hennar um að breyta stjórnmálum hafi ekki gengið eftir út af ríkjandi menningu. „Ég var gestur, leikreglurnar á borðinu voru ekki mínar leikreglur,“ sagði hún. „Mér leið eins og karlarnir hefðu boðið í boðið og ráðið gestalistanum og skemmtiatriðunum og hvernig þetta allt átti að vera og ég fékk að vera með.“

„Ég var gestur, leikreglurnar á borðinu voru ekki mínar leikreglur“ 

Samt var Hanna Birna vinsæll borgarstjóri, forseti borgarstjórnar, ráðherra og ein helsta ógn formannsins áður en lekamálið kom upp. Staða hennar var ekki aðeins sterkari en flestra kvenna í flokknum, heldur var staða hennar sterkari en flestra flokksmanna. Og nú segir hún það sína helstu eftirsjá að hafa ekki haft hugrekki til að tala hreint út um þetta á meðan hún var enn í stjórnmálum.

Leikurinn

Allt frá því að Hanna Birna hvarf af vettvangi stjórnmála í kjölfar lekamálsins hefur henni verið tíðrætt um stöðu kvenna í stjórnmálum. Í þeirri umræðu hefur hún stillt sér upp sem fórnarlambi lekamálsins, þar sem aðstoðarmaður hennar lak trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda, án þess að geta þess að hún hrakti lögreglustjóra stærsta umdæmis landsins úr starfi, umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði sýnt fordæmalausa valdníðslu í kjölfarið eða þess að milljónum af skattfé var varið til þess að bæta ímynd hennar. Mantran er sú að karlar hefðu slegið skjaldborg um annan karl í sömu stöðu, henni hafi frekar verið fórnað vegna þess að hún er kona. Konur eigi að vera eins og „hreinar meyjar“ og að þær „megi ekki taka þátt í leiknum“. Málflutningur Hönnu Birnu vekur aftur spurninguna, hvers virði eru völdin?

Hvað er svona merkilegt við það að vera ráðherra? Er það eitthvað sérstakt? Ef það felur í sér að ganga fram með þeim hætti sem Hanna Birna gerði í lekamálinu, þegar hún – sem átti sér þann draum að breyta stjórnmálunum – var farin að beita völdum sínum til þess að reyna að hafa áhrif á ritstjóra, lögreglustjóra, umboðsmann Alþingis, stilla fyrirspurnum frá fjölmiðlum og samþingmönnum upp sem ljótum pólitískum leik og draga hjálparsamtök að ósekju inn í málið. Þetta er varla leikurinn sem Hanna Birna vildi fá að taka þátt í, og vonandi ekki menningin sem kom í veg fyrir að henni tækist að breyta stjórnmálunum.

Valdavíman

Stjórnmálamenn taka þátt í stjórnmálum til þess að hafa áhrif á samfélagið og sækjast því eftir völdum. En völd hafa áhrif á hegðun fólks. Í grein eftir Torfa Magnússon taugalækni er bent á að leiðtogar eigi á hættu að verða valdafíkn og spillingu að bráð, en rannsóknir sem gerðar hafa verið veita vísbendingar um að finna megi efnafræðilegt samhengi á milli valda og hroka.

Testósterón eykst við sigur, arðsöm viðskipti og að sama skapi má gera ráð fyrir því að kosningasigur hafi sambærileg áhrif. Testósterón eykur síðan álagsþol, keppnisvilja og vilja til valda. Um leið eykur testósterón virkni dópamíns í heilanum, sem veitir vellíðan. Allar tegundir verðlauna auka virkni dópamíns í heilanum.

„Til að viðhalda vellíðaninni þarf síendurtekið flæði testósteróns og dópamíns og það kallar á sífellt nýja sigra. Úr verður fíkn, valdafíkn“

 

„Valdavíman,“ skrifar Torfi, „eykur sjálfsöryggi og einbeitingu, dregur úr streitu og léttir álagið sem fylgir völdum og auðveldar ákvarðanatöku. Hins vegar getur valdavíman leitt leiðtogann inn í vítahring. Til að viðhalda vellíðaninni þarf síendurtekið flæði testósteróns og dópamíns og það kallar á sífellt nýja sigra. Úr verður fíkn, valdafíkn. Hitti valdafíknin á sjálfmiðaðan einstakling með mikla þörf fyrir persónutengd völd sprettur upp valdhroki. Valdhrokanum fylgir spilling og fleiri lestir.“

Ofbeldissambandið

Kannski er einföldun að ræða um völd út frá vangaveltum um hvers virði það er að komast til valda ef það er ekki hægt að gera það á eigin forsendum, ef aðgengi að völdum felur í sér að þú þarft að hverfa frá hugsjónum, samþykkja það sem var áður óhugsandi, styðja það sem var rangt? Af því að stjórnmál fela í sér samstarf við ólíka flokka, átök um áherslur og málamiðlanir. Og þeir sem eru við völd eiga að móta vinnubrögðin og menninguna. 

En þegar formaður Vinstri grænna varð forsætisráðherra með því að hefja ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, líkti fyrrverandi varaþingmaður Vinstri grænna ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum við ofbeldissamband. Að ekki væri við öðru að búast en að Sjálfstæðimenn myndu brosandi fagna málefnasáttmála, fara svo inn í ráðuneytin og haga sér eins og þeir sem hafa alltaf verið með völdin. „Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingaandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi,“ sagði hún. Af því að þræðir valdsins liggja víðar en í stjórnarráðinu.

Hetjan

Aðrir hafa hampað Katrínu á svipuðum forsendum og Hanna Birna, í þeirri trú að henni muni öðrum fremur takast að breyta stjórnmálunum og samfélaginu um leið. Flokkssystir hennar kallaði hana „hetju“ fyrir frammistöðu sína í skemmtiþætti í sjónvarpinu í miðri ríkisstjórnarmyndun með flokki sem þær höfðu áður skilgreint sem höfuðandstæðing sinn og sagði „stórkostlegt tækifæri fyrir þjóðina“ að Katrín yrði forsætisráðherra. „Það er ekki spurning um stól heldur aðferð, viðhorf og nýja nálgun,“ sagði Svandís Svavarsdóttir.

„Það er ekki spurning um stól heldur aðferð, viðhorf og nýja nálgun“

Þarna voru rétt rúmir tveir mánuðir síðan Katrín skrifaði bréf til flokksmanna sinna og sagði: „Ef aðrir flokkar ætla að nýta þessa kosningabaráttu til að ráðast á okkur verður það á þeirra ábyrgð að halda Sjálfstæðisflokknum við völd. Við skulum ekki falla í þá gryfju.“ Ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að hafði fallið enn einu sinni vegna hneykslismála. Í þetta sinn vegna uppreist æru barnaníðinga og framgöngu dómsmálaráðherra í málinu. Hálfum mánuði eftir að Katrín ræddi ábyrgð þeirra sem halda Sjálfstæðisflokknum við völd, var það flokkurinn hennar, sem hefur innleitt gildi jafnréttis og kvenfrelsis í stefnu sína, sem veitti Sjálfstæðisflokknum uppreist æru.

Og konan sem kallaði Katrínu hetju fyrir vikið, hafði ári áður sagt ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn „óhugsandi“ „eftir aðdraganda kosninganna, uppljóstranirnar úr Panama-skjölunum og viðbrögð forystumanna stjórnarflokkanna.“ 

Þegar mörkin færast til

Fyrsta hindrunin var að sannfæra fólk um að ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki væri þeim og þjóðinni til heilla. Aðeins þrjú prósent kjósenda flokksins vildu Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Á annað hundrað flokksfélaga sögðu sig úr flokknum við  þessa ákvörðun, grasrótin mótmælti harðlega og tveir þingmenn gátu ekki fengið sig til þess að samþykkja þetta. „Auðvitað eru margir með ónot í maganum við þessa tilhugsun að fara að vinna með Sjálfstæðisflokknum,“ sagði einn níu þingmanna flokksins sem gerðu það samt. Mörkin voru strax farin að færast til.

Annar hafði kallað eftir „uppgjöri við Sjálfstæðisflokkinn“ vegna „,menningu samtryggingar og leyndarhyggju“ fyrir kosningar en sagði nú réttast að hefja formlegar viðræður. Annað væri „óheiðarlegt“. Hversu heiðarlegt var það?

Þriðji þingmaður flokksins lagði hneykslismál Sjálfstæðisflokksins að jöfnu við mistök og galla annarra flokka, og formaðurinn afgreiddi málið með því að segja „vandamál í öllum flokkum“.

Seinna viðurkenndi Svandís, sem kallaði Katrínu hetju, að hún hefði nú samt verið efins í upphafi, en sé í dag sannfærð um að þetta hafi verið góð hugmynd. Þá er spurning hvernig þeim hefur gengið að framfylgja áherslum sínum, og hvort ríkisstjórnarsamstarfið hafi einkennst af annars konar aðferðum, nýjum viðhorfum og nálgunum, eins og boðað var. Var þetta þess virði?  

Aðrar aðferðir

Í gegnum tíðina hefur Svandís ekki vandað sjálfstæðismönnum kveðjuna, í umræðum um uppræst æru sakaði hún þá um djúpstæða leyndarhyggju, sagði þá sýna yfirlæti, gera lítið úr málum brotaþola og lítið úr þeim sem vilja halda umræðunni á lofti. Orðum sínum beindi hún meðal annars að formanni Sjálfstæðisflokksins og formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hafði að hennar mati fjallað um málið af alvöruleysi. Sjálf beitti hún sér af hörku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þar til hún tók sæti við hlið Sjálfstæðismanna í ríkisstjórn, og dómsmálaráðherrann settist aftur inn í sitt ráðuneyti, með stuðningi hennar.

Með því komust ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hjá því að þurfa nokkurn tímann að axla ábyrgð á því að dómsmálaráðuneytið og fimm þingmenn flokksins, meðal annars tveir formenn fastanefnda, beittu sér gegn því að upplýsingar um mál kynferðisbrotamanna og annarra sem hafa fengið uppreist æru litu dagsins ljós eða fengu opinbera umfjöllun. Enda hafa þeir aldrei viðurkennt misgjörðir sínar í málinu: „Ég frábið mér allan málflutning og ásakanir á hendur mér eða ráðuneytinu um að það hafi verið einhver leyndarhyggja eða þöggun í gangi um þetta mál,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og fjármálaráðherrann gerði grín að umræðu um „leyndarhyggju“ á opnum kosningafundi Sjálfstæðisflokksins og sagði pólitíska andstæðinga „beita lýðskrumi og illmælgi“.

Breytt viðhorf

Eitt af áherslumálum forsætisráðherra var að auka traust á stjórnmál og stjórnsýslu og því skipaði hann starfshóp um traust á stjórnmálum. Einföld leið til að auka traust er að standa við orð sín. Fjölmörg dæmi eru hins vegar um að þingmenn Vinstri grænna hafi beinlínis gengið á bak orða sinna, þeirri stefnu sem boðuð var í aðdraganda kosninga og byggir á grunngildum flokksins.

„Við erum ekki eins máls hreyfing“ 

Í stefnu Vinstri grænna er skýrt kveðið á um að Ísland eigi að taka skilyrðislausa afstöðu gegn hernaði, segja sig úr Nato og biðjast afsökunar á hernaðaraðgerðum þeirra. Þeirri hugsjón var fórnað fyrir völdin, „við erum ekki eins máls hreyfing,“ sögðu þingmenn Vinstri grænna og bentu  á mikilvægi þess að þeir væru í ríkisstjórn. Og þegar loftárásir hófust í Sýrlandi stönguðust svör forsætisráðherra á við yfirlýsingu frá Nato. Katrín kvaðst ekki hafa lýst yfir „sérstökum stuðningi“ við aðgerðirnar en í yfirlýsingunni kom fram að öll aðildarríki Nato hefðu lýst yfir fullum stuðningi við aðgerðirnar.

Heilbrigðisráðherrann sem kom ákveðinn í ráðuneytið: „Það verður ekki einkavætt á minni vakt,“ enda harður gagnrýnandi einka- og einkarekstrarvæðingar í heilbrigðiskerfinu um árabil, í takt við stefnu flokksins, útilokar ekki lengur einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. „Spurningin um opinberan rekstur vs. einkarekstur er raunverulega röng, mikilvægast er að sú heilbrigðisþjónusta sem veitt er skili góðum árangri og sé örugg,“ sagði hún nýlega. 

Forsætisráðherrann sem talaði fyrir því í aðdraganda síðustu kosninga að veiðigjöld yrðy hækkuð leiddi síðan ríkisstjórn sem hugðist lækka veiðigjöldin um tvo milljarða.  Stjórnarskráin var söltuð. Vinstri græn sem lofuðu að stöðva vaxandi ójöfnuð samþykktu skattabreytingu sem felur í sér að efri millistéttin fær þrisvar sinnum fleiri krónur í vasann en fólk á lágmarkslaunum. Öryrkjar hafa lýst sárum vonbrigðum, ljósmæður treystu sér ekki til að tryggja örugga þjónustu fyrir fæðandi konur og nýbura og í sumar þarf að loka bráðaþjónustu fyrir hjartasjúklinga á Landspítalanum og fíknigeðdeildinni í sjö vikur. 

Í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir eru Vinstri grænir með þrjá ráðherra, Sjálfstæðisflokkurinn fimm. Flest lagafrumvörp sem samþykkt voru á nýliðnu kjörtímabili voru Sjálfstæðisflokksins. Jafnvel þótt Vinstri grænir komu einhverjum málum í gegn með aðild sinni að ríkisstjórn, hefur samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn verið þess virði?  

Ný nálgun

Eitt besta tækifæri Vinstri grænna til að sýna fram á að ríkisstjórn Katrínar stendur raunverulega fyrir annars konar vinnubrögðum gafst þegar stjórnarandstaðan bar upp vantrauststillögu á dómsmálaráðherra. Síðasta sumar skrifuðu Katrín og Svandís saman grein þar sem þær sögðu uppnám millidómsstigsins algjört, á ábyrgð ráðherrans og ríkisstjórnarinnar. „Gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.“

En af ótta við að missa völdin vörðu þær ráðherrann vantrausti, sem og allir þingmenn flokksins nema tveir. Áður hafði forsætisráðherra gengið svo langt að segjast bera „fullt traust“ til dómsmálaráðherra sem hafði gerst brotlegur við lög með skipan dómara í Landsrétt. Viðsnúningurinn á viðhorfi forsætisráðherra var algjör því nú átti lögbrot ráðherra „ekki að hafa áhrif á traustið á dómstólnum sem slíkum“. Þegar þingmaður flokksins var spurður hvort dómur Hæstaréttar hefði áhrif á stöðu dómsmálaráðherra var svarið einfaldlega að hún væri náttúrlega ráðherra. Þannig er það, þannig verður það og þannig hefur það alltaf verið. Hvar er hugrekkið í því?  

„Skaðinn er hvort eð er skeður“

„Skaðinn er hvort eð er skeður,“ sagði einn þingmaður Vinstri grænna og greiddi atkvæði gegn vantrauststillögunni, um leið og hann spurði í fullkominni uppgjöf hvort það myndi eitthvað breytast ef nýr dómsmálaráðherra tæki við, eins og Alþingi hefði ekkert vald til að veita ráðherrum aðhald. Væri ekki eins hægt að spyrja hvort það breytist eitthvað þótt nýr forsætisráðherra taki við? 

Almennt var viðhorfið innan þingflokksins þetta: „Ríkisstjórnin er fallin ef þessi vantrauststillaga er samþykkt það veit stjórnarandstaðan mæta vel!“ Og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mátti ekki fara frá völdum, því Katrín er konan sem átti að breyta stjórnmálunum, og þar af leiðandi var ekki hægt að taka á lögbroti ráðherra sem handvaldi dómara (eiginmann samstarfskonu sinnar og maka samflokksmanns á Alþingi (sem síðan eftirlét henni oddvitasætið)). Dómsmálaráðherra sem sýndi enga iðrun heldur lýsti sig ósammála niðurstöðu Hæstaréttar og steig síðan upp í ræðustól Alþingis áður en atkvæðagreiðsla um vantraust á hendur henni hófst og hafði í hótunum við þingmenn. 

Eitthvað er það táknrænt að þennan sama dag, þegar þingmenn Vinstri grænna treystu sér ekki til þess að taka afstöðu gegn embættisfærslu ráðherra sem þeir töldu ekki aðeins ranga heldur hafði einnig verið úrskurðuð ólögmæt, að á meðan þeir veittu ráðherranum stuðning sinn sneri hann sér að því að þrengja að réttindum hælisleitenda, án vitundar þeirra sem hafa haft það á stefnuskrá sinni að leggja meiri áherslu á mannúð í móttöku hælisleitenda og aukna áherslu á mannréttindi í löggjöf. Og þeir gátu ekkert gert.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Ég er ekki með sjúkdóm
1

Ég er ekki með sjúkdóm

·
Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag
2

Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag

·
Ekkert skelfilegt að verða fertug
3

Ekkert skelfilegt að verða fertug

·
Forseti Landsréttar greiddi atkvæði gegn bókun dómstólasýslunnar
4

Forseti Landsréttar greiddi atkvæði gegn bókun dómstólasýslunnar

·
Þegar stórfyrirtæki draga ríki fyrir dóm
5

Þegar stórfyrirtæki draga ríki fyrir dóm

·
Börn fá pítsu ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli
6

Börn fá pítsu ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli

·
Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“
7

Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“

·

Mest deilt

Ég er ekki með sjúkdóm
1

Ég er ekki með sjúkdóm

·
Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“
2

Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“

·
Börn fá pítsu ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli
3

Börn fá pítsu ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli

·
Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja
4

Sverrir Norland

Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja

·
Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag
5

Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag

·
Vinátta, gleði og samstaða
6

Vinátta, gleði og samstaða

·

Mest deilt

Ég er ekki með sjúkdóm
1

Ég er ekki með sjúkdóm

·
Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“
2

Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“

·
Börn fá pítsu ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli
3

Börn fá pítsu ef þau sleppa því að mæta á loftslagsmótmæli

·
Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja
4

Sverrir Norland

Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja

·
Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag
5

Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag

·
Vinátta, gleði og samstaða
6

Vinátta, gleði og samstaða

·

Mest lesið í vikunni

„Samfélagið trúði okkur ekki“
1

„Samfélagið trúði okkur ekki“

·
Ég er ekki með sjúkdóm
2

Ég er ekki með sjúkdóm

·
Fögnuðu fjöldamorðum á múslimum í athugasemdakerfi Vísis
3

Fögnuðu fjöldamorðum á múslimum í athugasemdakerfi Vísis

·
Stendur í forræðisdeilu við dæmdan barnaníðing
4

Stendur í forræðisdeilu við dæmdan barnaníðing

·
Mikið um hatursorðræðu í aðdraganda mótmæla gegn hælisleitendum
5

Mikið um hatursorðræðu í aðdraganda mótmæla gegn hælisleitendum

·
Hvar er sómakennd Sjálfstæðismanna?
6

Illugi Jökulsson

Hvar er sómakennd Sjálfstæðismanna?

·

Mest lesið í vikunni

„Samfélagið trúði okkur ekki“
1

„Samfélagið trúði okkur ekki“

·
Ég er ekki með sjúkdóm
2

Ég er ekki með sjúkdóm

·
Fögnuðu fjöldamorðum á múslimum í athugasemdakerfi Vísis
3

Fögnuðu fjöldamorðum á múslimum í athugasemdakerfi Vísis

·
Stendur í forræðisdeilu við dæmdan barnaníðing
4

Stendur í forræðisdeilu við dæmdan barnaníðing

·
Mikið um hatursorðræðu í aðdraganda mótmæla gegn hælisleitendum
5

Mikið um hatursorðræðu í aðdraganda mótmæla gegn hælisleitendum

·
Hvar er sómakennd Sjálfstæðismanna?
6

Illugi Jökulsson

Hvar er sómakennd Sjálfstæðismanna?

·

Nýtt á Stundinni

Misheppnuð samfélagsgreining og bangsalegar löggur

Ásgeir H. Ingólfsson

Misheppnuð samfélagsgreining og bangsalegar löggur

·
Katrín varar við tortryggni gagnvart evrópsku samstarfi og aðild Íslands að MDE

Katrín varar við tortryggni gagnvart evrópsku samstarfi og aðild Íslands að MDE

·
Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“

Innflytjandi kemur hælisleitendum til varnar: „Hræðsla og ótti var mitt daglegt brauð í fjögur ár“

·
Forseti Landsréttar greiddi atkvæði gegn bókun dómstólasýslunnar

Forseti Landsréttar greiddi atkvæði gegn bókun dómstólasýslunnar

·
Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag

Engeyingarnir setja meira fé í hvalveiðifélag

·
Dánu börnin í Jemen og Sýrlandi

Lífsgildin

Dánu börnin í Jemen og Sýrlandi

·
Þegar stórfyrirtæki draga ríki fyrir dóm

Þegar stórfyrirtæki draga ríki fyrir dóm

·
Frá Alexander mikla til Diddu drottningar

Illugi Jökulsson

Frá Alexander mikla til Diddu drottningar

·
Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja

Sverrir Norland

Hvernig lifa má í heimi þar sem allt er að deyja

·
Ekkert skelfilegt að verða fertug

Ekkert skelfilegt að verða fertug

·
Vinátta, gleði og samstaða

Vinátta, gleði og samstaða

·
Ég er ekki með sjúkdóm

Ég er ekki með sjúkdóm

·